- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Alþjóðleg verðlaun fyrir framkvæmd raunfærnimats

Alþjóðleg VPL Biennale ráðstefna var haldin í Árósum í apríl síðastliðinn og er þetta í annað sinn sem slík ráðstefna er haldin. Að þessu sinni bar ráðstefnan yfirskriftina The user at the centre eða Einstaklingurinn í fyrirrúmi og eins og nafnið gefur til kynna var lögð áhersla á einstaklinginn sem fer í gegnum raunfærnimatsferli. Mjög vel var staðið að ráðstefnunni og sérfræðingar sem starfa við raunfærnimat í ýmsum löndum fluttu mörg áhugaverð erindi. Þá voru einnig vinnustofur þar sem fjallað var meðal annars um ráðgjöf og gæði í raunfærnimati og raunfærnimat á móti viðmiðum atvinnulífsins svo eitthvað sé nefnt.

Einn liður ráðstefnunnar er að veita verðlaun fyrir framúrskarandi verkefni í raunfærnimati. Óskað var eftir tilnefningum og fór dómnefnd á vegum VPL Biennale yfir þær tilnefningar sem bárust. Að þessu sinnu voru raunfærnimatsverkefni frá 7 löndum tilnefnd og var IÐAN fræðslusetur þar á meðal. IÐAN fræðslusetur var hlutskörpust og hlaut 1. verðlaun. Þegar dómnefnd lagði mat á tilnefningarnar var tekið tillit til þeirra gagna sem bárust með þeim og með tilnefningu IÐUNNAR voru send gögn sem vörpuðu ljósi á það hvernig IÐAN fræðslusetur hefur unnið að raunfærnimati í iðngreinum í samvinnu við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.

IÐAN fræðslusetur hefur frá árinu 2007 annast raunfærnimat í iðngreinum, að rafiðngreinum undanskildum. Það hefur tekið nokkur ár fyrir raunfærnimatið að festa sig í sessi og sanna sig en í upphafi var hugtakið raunfærnimat lítt þekkt og þarfnaðist gjarnan útskýringa. Við útskýringu á raunfærnimati er mikilvægt að fram komi að við matið er ekki slegið af þeim kröfum sem gerðar eru innan skólakerfis og atvinnulífs. Á síðustu 10 árum hefur raunfærnimatinu vaxið fiskur um hrygg og er orðið að samfelldu verkefni, sem er einmitt meðal þess sem gerði IÐUNA hlutskarpasta að mati dómnefndar. Verkefnið hefur sannað sig, bæði á vinnumarkaði sem og í skólakerfinu. Ásókn í raunfærnimatið hefur frá byrjun verið mikil og síðustu ár hefur hún verið nokkuð stöðug. IÐUNNI fræðslusetri hefur gengið vel að ná til einstaklinga, meðal annars vegna sérstöðu sinnar með tenginu við þær greinar sem IÐAN hefur haft umsjón með í raunfærnimatinu. Í upphafi voru inntökuskilyrði í raunfærnimat að hafa náð 25 ára aldri og fimm ára starfsreynsla úr viðkomandi grein. Eftir 10 ára reynslu af framkvæmd matsins þótti hins vegar ástæða til að lækka aldursviðmiðið í 23 ár og starfsreynsluna í þrjú ár, til samræmis við reglugerð menntaog menningarmálaráðuneytisins um framhaldsfræðslu.

Dómnefnd horfði jafnframt til þess að við framkvæmd raunfærnimatsins fylgir IÐAN ákveðnu ferli og hefur gert frá upphafi. Raunfærnimatsferlið er gefið út af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins sem hefur eftirlit með því að ferlinu sé fylgt og að gæði séu höfð að leiðarljósi við framkvæmd matsins. Þeir sem hyggjast starfa við raunfærnimat þurfa að sækja námskeið á vegum Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Námskeiðin hafa gefist vel og fá þátttakendur þar innsýn í hugmyndafræði og framkvæmd raunfærnimats.

Annað sem dómnefndin taldi vera sérstöðu í verkefnum IÐUNNAR er að IÐAN nær til einstaklinga sem hafa, af ólíkum ástæðum, ýmist ekki hafið nám í framhaldsskóla eða hafa hætt námi þar án þess að ljúka því. Á Íslandi er tíðni brotthvarfs há úr framhaldsskólum en með raunfærnimatinu hefur IÐAN náð til margra úr þeim hópi. Þá hefur IÐAN lagt mikla áherslu á náms- og starfsráðgjöf við þátttakendur í raunfærnimati en ráðgjöfin hefur gegnt veigamiklu hlutverki fyrir einstaklinga sem taka þátt í því. Með náms- og starfsráðgjöf í kjölfar raunfærnimats er mun líklegra að þátttakendur hefji nám annað hvort innan formlega skólakerfisins eða hjá framhaldsfræðsluaðilum. IÐAN hefur átt gott samstarf við framhaldsskóla landsins sem og símenntunarmiðstöðvar og hefur lagt áherslu á að kynna fyrir þátttakendum hvaða nám er í boði í kjölfar raunfærnimats. Þannig er þátttakendum úr raunfærnimati fylgt eftir með náms- og starfsráðgjöf inn í skólakerfið þannig að þeir geti lokið sínu námi í framhaldi af matinu. Dómnefnd þótti það einmitt gefa góða raun að einstaklingar sem hafa farið í gegnum raunfærnimat og fengið færni sína metna, eigi kost á því að ljúka námi að mati loknu. Margir af þeim sem hafa farið í gegnum raunfærnimat á vegum IÐUNNAR hafa í framhaldi lokið sveinsprófi eða fagprófi í sinni grein og töluverður fjöldi hefur haldið áfram námi eftir það, ýmist náð sér í meistararéttindi í iðngrein, farið í háskólanám eða annað nám. Við lok raunfærnimatsverkefna hverrar annar hjá IÐUNNI er haldin útskriftarathöfn fyrir þátttakendur sem luku matinu. Þar fá þeir afhent viðurkenningarskjal þar sem fram koma þeir áfangar sem voru metnir. Jafnframt er farið yfir það nám sem þátttakendum stendur til boða í kjölfar matsins. Á síðasta ári bauð IÐAN í fyrsta sinn upp á þá nýjung að þeir framhaldsskólar sem bjóða nám í kjölfar raunfærnimats, tækju þátt í útskriftinni, með því að kynna námsframboð og skrá þátttakendur í nám á staðnum. Þetta hefur mælst vel fyrir og er þannig brúað bilið á milli raunfærnimatsins og formlega skólakerfisins. Þessa þjónustu mun IÐAN halda áfram að bjóða, því að bæði er, að þetta fyrirkomulag ýtir undir áhuga þátttakenda að hefja nám að nýju og þess utan er hagkvæmt að geta skráð sig strax í nám eftir að hafa fengið niðurstöður sínar afhentar. Náms- og starfsráðgjafar IÐUNNAR hafa eftir sem áður samband við alla þátttakendur og upplýsa þá um nám sem er í boði, stöðu á námssamningi og annað sem upp á getur komið. Mörgum þátttakendum er síðan fylgt enn meira eftir ef þurfa þykir. Það er gert með tölvupóstum og smáskilaboðum, meðal annars til að minna á skráningar í skóla og til að koma upplýsingum áleiðis til þátttakenda þegar framhaldsskólar bjóða upp á nýjungar í námi. Í framhaldi af raunfærnimatinu hafa framhaldsskólar og símenntunarmiðstöðvar tekið að bjóða nám sem hentar vel þeim sem eru á vinnumarkaði og eru að hefja nám að nýju eftir langt hlé. Má þar nefna nám í almennum bóklegum greinum sem hefur verið sérstaklega sniðið að þeim sem ljúka raunfærnimati. Einnig hafa skólar boðið upp á dreifnám eða kvöldnám í greinum sem ekki hafa áður verið í boði nema í dagskóla. Þarna er gott dæmi um það að skólakerfið hefur almennt tekið vel á móti þeim sem ljúka raunfærnimati, því flestir af þeim sem því ljúka stunda vinnu og eiga því erfitt með að sækja nám í dagskóla. Margir þeirra sem ljúka raunfærnimati segjast ekki hefðu farið í nám ef þeir hefðu ekki farið í raunfærnimatið áður og því er mikilvægt að í boði sé nám sem hentar almennt hópnum.

Að lokum má nefna að á núverandi starfsári var farið að skrá niðurstöður raunfærnimatsins í INNU, skráningarkerfi framhaldsskólanna. Ljóst er að þetta er mikið framfaraskref í raunfærnimatsferlinu þar sem skólarnir geta þá nálgast niðurstöðurnar beint í það skráningarkerfi sem þeir vinna með og einstaklingar geta einnig nálgast sínar niðurstöður miðlægt á vefnum.

Þó að raunfærnimat hafi eflst og þróast síðan fyrstu skref voru stigin, þá mun IÐAN fræðslusetur halda áfram að betrumbæta ferlið og stuðla að enn frekari þróun, til hagsbóta fyrir þátttakendur og aðra þá sem tengjast raunfærnimati. Tilkoma raunfærnimats hefur átt mikilvægan þátt í því að lækka hlutfall Íslendinga sem ekki hafa lokið framhaldsskólamenntun. Ljóst er að þessi verðlaun eru því mikil viðurkenning fyrir IÐUNA og er staðfesting á því að framkvæmd raunfærnimatsins hér á landi er í góðum farvegi.

Edda Jóhannesdóttir

Edda Jóhannesdóttir er fagstjóri við náms- og starfsráðgjöf IÐUNNAR fræðsluseturs. Hún hefur lokið BA-prófi í uppeldis- og menntunarfræði og MA-prófi í náms- og starfsráðgjöf. Hún hefur starfað hjá IÐUNNI fræðslusetri í 10 ár og eru
hennar helstu verkefni við raunfærnimat.

Hildur Elín Vignir

Hildur Elín Vignir er framkvæmdastjóri IÐUNNAR fræðsluseturs og hefur gegnt því starfi frá stofnun IÐUNNAR. Hún
hefur lokið B.Ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands og Diplóma
í náms- og starfsráðgjöf. Hildur Elín var áður meðeigandi í
Capacent.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi