- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Brú milli miðstöðva – Samstarf í Brúarnámi

Aðdragandi á náminu og undirbúningur

Fræðslunetið – símenntun á Suðurlandi og Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum sóttu í sameiningu um styrk til þróunarverkefnis í Fræðslusjóðs vorið 2012 til þess að fara af stað með Félagsliðabrú í fjarnámi í Reykjanesbæ og á Selfossi. Það var síðan í ágústmánuði 2012 sem verkefnastjórar hittust og lögðu drög að skipulagi námsins. Vel gekk að fá námsmenn á báðum stöðum í námið. Í heildina skráðu sig 24 námsmenn af báðum kynjum á Félagsliðabrúna, tólf á hvorum stað. Kennslan hófst tæpum mánuði síðar. Strax í upphafi lögðu verkefnastjórar áherslu á að kennslunni yrði nokkuð jafnt skipt á milli stöðvanna til þess að námsmenn vendust því að vera bæði á staðnum með leiðbeinanda og á fjarkennslustað. Þegar þróunarverkefninu var lokið var ljóst að það væri ákjósanlegt að halda áfram með þetta samstarf og haustið 2013 var boðið upp á Leikskólaliðabrú, síðar Leikskóla- og stuðningsfulltrúabrú, hjá báðum miðstöðvum og haldið áfram með sama fyrirkomulag á náminu.

Fyrirkomulag

Í upphafi var ákveðið að nota kennslukerfið Moodle og þar var allt kennsluefni, verkefni, glærur og fyrirlestrar vistað. Kennslan var tekin upp í Emission og einnig vistuð inn á Moodle. Það var gert til þess að gera námsmönnum kleift að hlusta á fyrirlestra ef þeir kæmust ekki í tíma vegna skuldbindinga í vinnu. Kennt var tvisvar í viku og á hverri önn voru að meðaltali kenndir þrír áfangar. Fyrri hluta annarinnar voru tveir áfangar kenndir og einn á síðari hluta annarinnar. Þetta fyrirkomulag hefur haldist þar til haustið 2016 en þá var tekin upp vendikennsla. Nú er einn áfangi kenndur í einu. Námsmenn hlusta þegar þeim hentar á fyrirlestra sem leiðbeinendur hafa undirbúið og tekið upp og mæta síðan í verkefnatíma einu sinni í viku þar sem nánar er farið í kennsluefnið. Þetta fyrirkomulag hefur mælst mjög vel fyrir, það hentar sérlega vel þeim sem stunda nám með vinnu og veitir aukinn sveigjanleika í námi og kennslu.

Verkefnastjórar á vaktinni

Ekki gekk allt snurðulaust fyrir sig í upphafi samstarfsins. Það var þó ekki vegna þess að verkefnastjórarnir væru ekki með góða samskiptagreind heldur hitt að tæknimálin reyndust oft erfið. Það voru ófá skiptin sem við, verkefnastjórarnir, tókum langar vaktir og vorum í raun sífellt á símavaktinni. Það reyndi því töluvert á þolinmæði og seiglu fyrstu annirnar, ekki bara á okkur heldur ekki síður á námsmennina. Emission reyndist ekki virka sem skyldi fyrir þessar tilteknu aðstæður og ákveðið var að taka upp Microsoft Lync samskiptaforritið sem fylgdi menntapakka Microsoft. Það forrit er í dag nefnt Skype for Business. Að mörgu var að hyggja í ferlinu og reyndust þolinmæði og útsjónarsemi afar góðir kostir, bæði fyrir verkefnastjóra og námsmenn. Í gegnum allt ferlið skiptu samskipti verkefnastjóra við námsmenn og leiðbeinendur miklu máli. Þá var mikilvægt að það lægi skýrt fyrir hver ávinningur af fjarkennslunni væri fyrir námsleiðirnar í heild sinni, það sjáum við hvað skýrast í dag eftir þetta lærdómsferli og núna fimm árum síðar getum við ekki annað en verið ánægðar með árangurinn.

Útskrift af leikskólaliðabraut vor 2005

Gæði í fyrirrúmi

Þegar notast er við tækni í námi er eins og áður sagði mikilvægt að vera við öllu búinn og að geta tekist á við tæknivandamál af yfirvegun. Um leið og tekin hefur verið ákvörðun um að kennsla fari fram í fjarkennslu og námsmenn séu á fleiri en einum stað á meðan kennsla fer fram, þarf að huga að öllum atriðum náms og kennslu út frá þeim forsendum. Mikil áhersla var lögð á þessa þætti í samstarfinu. Leiðbeinendur þurfa að vera tilbúnir að tileinka sér tæknina, hafa tengsl á milli fjarstaða í huga og tryggja að þeir sem ekki eru á staðnum séu ávallt hluti af heildinni. Það verður ekki raunin nema leiðbeinendur ávarpi námsmenn á fjarkennslustöðum, gefi þeim tækifæri til þess að tjá sig og taka þátt til jafns við þá sem eru á staðnum. Eins þurfa miðstöðvarnar að sinna sínu hlutverki vel hvað varðar tæki og tól og þá tæknilegu aðstoð sem veita þarf leiðbeinendum. Það er því ákveðin krafa um þekkingu og færni þeirra sem koma að náminu. Það á ekki síst við um námsmenn því það getur verið áskorun að tala í myndavél og vera virkir í gegnum tæknibúnað. Eins krefst fjarkennsla umburðarlyndis af námsmönnum, gagnvart hver öðrum, tækninni og óvæntum uppákomum.

Árangur og ummæli námsmanna

Alls hafa 24 félagsliðar lokið námi frá Fræðslunetinu, 22 af Leikskólaliðabrú og 13 af Stuðningsfulltrúabrú eða í heildina 59 einstaklingar. Frá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum hafa 18 lokið námi af Félagsliðabrú, 5 af Leikskólabrú og 8 af Leikskóla- og stuðningsfulltrúabrú eða 31 einstaklingur í heildina. Árangur verður ekki eingöngu mældur í tölum heldur einnig í upplifun og reynslu námsmanna. Hanna Agla Ellertsdóttir, sem stundaði nám á Leikskólaliðabrú 2013–2015, hefur þetta um námið að segja: „Námið var krefjandi, áhugavert og í leiðinni mjög skemmtilegt. Námið hentar vel með vinnu þar sem kennt er seinni part dags og gat ég því stundað fulla vinnu með náminu. Að loknu námi hjá Fræðslunetinu hóf ég nám við Háskóla Íslands og er komin á þriðja ár í þroskaþjálfafræðum. Námið fær mín bestu meðmæli.“ Ásgeir Bragason stundaði nám á Félagsliðabrú 2014– 2016, hann segir námið hafa veitt aukna þekkingu í starfi en hann starfaði í þjónustuíbúðum fyrir geðfatlaða samhliða náminu. ,,Mér fannst námið hagnýtt og skemmtilegt, fjarnámið átti ágætlega við mig þó að mér fyndist betra að hafa kennarann á staðnum. Ég bý alltaf að því að hafa farið í þetta nám og þó að ég vinni ekki á þessum vettvangi núna gæti ég alveg hugsað mér að vinna á þessum vettvangi síðar.“ Á þeim fimm árum, sem liðið hafa frá upphafi samstarfsins, hefur orðið til gríðarmikil þekking og reynsla, hvort tveggja hjá miðstöðvunum sjálfum sem og í fagstéttum brúarnámsins, með þeim námsmönnum sem lokið hafa námi. Áframhaldandi samstarf mun án efa fela í sér áskoranir og vert að hafa í huga að fjarkennsla og notkun tækni í námi krefst sífelldrar þróunar og endurskoðunar í takt við nýja tíma.

Útskrift af Félagsliðabrú 2016
Eydís Katla Guðmundsdóttir

Eydís Katla Guðmundsdóttir er náms- og starfsráðgjafi hjá Fræðslunetinu – símenntun á Suðurlandi og verkefnastjóri yfir Brúarnámi og Menntastoðum. Hún er með MA-próf frá Háskóla Íslands í náms- og starfsráðgjöf og B.Ed.-próf frá
Kennaraháskóla Íslands.

Særún Rósa Ástþórsdóttir

Særún Rósa Ástþórsdóttir er verkefnastjóri og kennari hjá
Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Hún er með B.Ed.-próf
frá Kennaraháskóla Íslands og leggur stund á framhaldsnám
til mastersgráðu í Uppeldis- og menntunarfræðum með
áherslu á nám fullorðinna.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi