- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Færni frá sjónarhóli atvinnulífsins

Haustið 2014 hófst norrænt verkefni um færniþróun á vinnumarkaði fyrir tilstilli Norræns tengslanets um nám fullorðinna (NVL) á Íslandi og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Áður höfðu þessir aðilar haft forgöngu um tvö verkefni sem varða færniþróun:

 1. 8 árangursþættir í norrænum verkefnum hönnuðum til þess að mæta samfélagsáskorunum (2013). Hvati verkefnisins var ekki hvað síst kreppan 2008 og aukning atvinnuleysis í kjölfar hennar. Í verkefninu greindu rannsakendur árangur norrænna verkefna sem talin voru skara fram úr og lýstu greiningarvinnunni í skýrslu sem gefin var út árið 2012. (1)
  Einnig var gefinn út bæklingur um helstu niðurstöður greiningarvinnunnar árið 2013 undir heitinu 8 árangursþættir á flestum norrænu tungumálunum, einnig íslensku. (2)
 2. Færni til framtíðar – og hvernig færnin er þróuð (2007), sem unnin var af Þankabanka um færni til framtíðar með það að markmiði að leggja grundvöll að umræðum á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar um færni til framtíðar frá sjónarhorni símenntunar. (3)

Færni og hvernig hún verður best þróuð hefur því verið þema í starfi NVL nánast frá upphafi. Það var því eðlilegt að halda áfram þessu starfi og verkefnið Færni frá sjónarhorni atvinnulífsins var mótað í samtölum milli fulltrúa NVL og hópa fólks í hverju Norðurlandanna með hliðsjón af því sem þegar hafði verið gert. Einkum var skoðað hvort uppfæra ætti verkefnið frá 2007, Færni til framtíðar – og hvernig færnin er þróuð.

Niðurstaða þessara samtala varð sú að skoða sérstaklega sjónarhorn atvinnulífsins á færniþróun. Markmiðið var að greina, ræða og gera sýnilegar þær áskoranir sem vinna þarf með, svo að ævilöng færniþróun/starfsmenntun geti orðið að veruleika. Leitað var eftir því að aðilar atvinnulífsins á Norðurlöndum tækju þátt í vinnunni, þ.e. fulltrúar atvinnurekenda og launþega. Verkefninu var breytt í net á starfstímanum og er kallað Nätverket Kompetens ur ett arbetslivsperspektiv eða Færniþróunarnetið. Eftir tæplega þriggja ára starf, marga fundi, greiningarvinnu og hugmyndaráðstefnu leit skýrslan Færni frá sjónarhorni atvinnulífsins dagsins ljós í maí síðastliðnum.

Nokkur grein var gerð fyrir starfi Færniþróunarnetsins í grein í Gátt 2016 og starfið sett í víðara samhengi hér innanlands.(4)

Í þessari grein er stiklað á stóru, þýtt og dregið saman efni skýrslunnar Færniþróun frá sjónarhorni atvinnulífsins. (5) Skýrslan hefur eingöngu verið gefin út á sænsku þegar þetta er skrifað. Í lok greinar er einnig fjallað um kynningu á skýrslunni og markverðustu tíðindi á þessu sviði á Norðurlöndunum.

Breytingar á atvinnulífi

Fljótlega varð ljóst af umræðum í Færniþróunarnetinu að ýmsar breytingar í atvinnulífi og samfélögum eru víðtækari en svo að þær eigi eingöngu við um Norðurlöndin. Þetta eru alþjóðlegir straumar sem hafa mikil áhrif á þróun mála í atvinnulífi og leiða til umbóta og ýmissa skipulagsbreytinga. Afleiðingar þessara breytinga eru auknar kröfur um færni. Nauðsynlegt þótti að benda á helstu sameiginlega áhrifaþætti sem taka þarf tillit til, þegar færniþróun er skipulögð.

Fyrst ber að nefna alþjóðavæðinguna, en margt hefur breyst með henni. Þeim vinnustöðum fjölgar stöðugt þar sem töluð eru mörg mismunandi tungumál og tjáskipti og samstarf fara fram í fjölþjóðlegu umhverfi. Einnig er alþjóðleg verkaskipting stöðugt algengari, þar sem ólík stig í framleiðslukeðju fyrirtækis eru framkvæmd sitt í hverju landinu. Þessar breytingar kalla á skilning á fjölmenningu og nýjum samkeppnisforsendum og leiða þar af leiðandi til breytinga á færnikröfum starfa

Tækniþróun á mismunandi formi er sennilega einn sterkasti hvati þróunar í atvinnulífi og samfélagi. Hún gerir kröfu um skilning á tækni en ekki síður á því hvernig og hvenær eigi að nota tæknina. Á síðustu árum hefur tækniþróunin verið mjög ör og ný stafræn tækni og sjálfvirkni munu geta breytt milljónum starfa á Norðurlöndum. Þetta hefur áhrif á starfsemi fyrirtækja og samkeppnishæfni þeirra mun breytast. En þessi þróun hefur líka áhrif á einstaklingana. Þeir munu standa frammi fyrir kröfum um nýja færni vegna þess að stafræn tækni eða sjálfvirkni mun breyta störfunum að einhverju eða jafnvel öllu leyti. Tækniþróunin mun einnig valda miklum breytingum á skipulagi vinnunnar eins og sjá má til dæmis þar sem sjálfsafgreiðsla hefur tekið við af afgreiðslufólki. Þessu fylgja breyttar færnikröfur til starfa, ásamt því að til verða ný störf og önnur hverfa. Þessar breytingar eru mjög hraðar og erfitt er fyrir menntastofnanir og aðra sem þjálfa færni að aðlaga og þróa þjálfunina til samræmis við breyttar þarfir fyrir færni. Tækniþróunin hefur áhrif á nánast alla á vinnumarkaði, bæði sem einstaklinga og starfsmenn.

Loftslags- og umhverfismál. Þessi málaflokkur hefur verið í mikilli deiglu undanfarin ár og eru líkur á að þar verði aukning á, fremur en hitt. Í umfjöllun um málaflokkinn koma fram kröfur til bæði einstaklinga og fyrirtækja um breytta hætti. Öll markmið og aðgerðir byggja á einn eða annan hátt á því að hafa aðgang að nægilegri þekkingu og færni. Þetta er forsenda sem sjaldan er nefnd og því síður aðgerðabundin. Ein af stærstu áskorununum liggur í því að vekja athygli á ábyrgð allra á því að leggja sitt af mörkum við breytingarnar, í stað þess að láta loftslags og umhverfismálefni þeim eftir sem hafa sérstakan áhuga á þessum málum.

Fólksflutningar hafa lengi verið stór þáttur í atvinnulífinu á Norðurlöndum, en á síðustu árum hafa fólksflutningar verið miklu meiri en nokkurn tíma áður. Mikil áskorun er að geta kortlagt, skráð og staðfest þá atvinnutengdu færni, sem innflytjendur/flóttamenn hafa þannig að hægt sé að finna þeim laus störf og árangursríka fræðslu þegar á því þarf að halda. Til þess að þetta megi verða þurfa aðilar atvinnulífsins að setja fram færnikröfur, skýrar og viðurkenndar, sem eru nauðsynlegar til að einstaklingur geti sinnt sínu starfi og tekið þátt á vinnumarkaði og staðið jafnfætis öðrum.

Lýðfræðilegar breytingar. Miklar breytingar hafa verið á samsetningu og þróun vinnuafls á Norðurlöndum.Breytingarnar eru ólíkar eftir landshlutum í hverju landi, þannig að á sumum svæðum er brottflutningur fólks mikill en á öðrum svæðum er aðflutningur mikill. Þetta hefur þær afleiðingar að á sumum svæðum vex hlutfall eldra fólks en á öðrum stöðum er hátt hlutfall yngra fólks.

Það er mikil áskorun fyrir samfélagið ef of fáar vinnandi hendur eiga að sjá fyrir of stórum hópi eldra fólks. Menntakerfið þarf að sjá til þess að ungt fólk komist fyrr út í atvinnulífið með viðurkennda starfsmenntun í jafn miklum mæli og undirbúning fyrir háskólamenntun. Skipuleggja þarf færniþróun fyrir eldra fólk, þar sem sérstakt tillit er tekið til forsendna þess að það geti verið lengur á vinnumarkaði.

Ekki tekst að efla samkeppnishæfni nema rétt hæfni og færni standi fyrirtækjum til boða og þá skiptir mestu máli að færniþjálfunarkerfin og ævinámið virki.

Færniþjálfunarkerfi atvinnulífsins

Færniþjálfunarkerfi atvinnulífsins eru kerfin sem sjá atvinnulífinu fyrir færni (þessi hugtök verða notuð jöfnum höndum í greininni).

Atvinnulífið fær aðgang að færni með tvennum hætti; með ráðningu nýs starfsfólks annars vegar og með færniþróun starfsmanna hins vegar.

Þau kerfi sem gera annars vegar ráðningu og hins vegar færniþróun mögulega og sem saman mynda færniþjálfunarkerfi atvinnulífsins eru:

 1. Formlega menntakerfið og það kerfi sem þjálfar atvinnuleitendur. Þessi kerfi eru rekin og fjármögnuð af hinu opinbera.
 2. Þau ferli sem fyrirtæki hafa yfir að ráða til skipulagðrar færniþróunar og til að tryggja að ráðið starfsfólk og stjórnendur hafi þá færni sem nauðsynleg er til að mæta markmiðum fyrirtækisins.
 3. Raunfærnimat sem viðurkennt er á landsvísu og af aðilum atvinnulífs. Raunfærnimatið er skipulagt til að meta atvinnu- og starfsfærni, setja fram færnikröfur starfa, gera sýnilega og viðurkenna færni einstaklinga með tilliti til ákveðinna færnikrafna og til að gera menntun markvissari. Kerfið leiðir til þess að tenging færniþróunar við vinnumarkaðinn er eins nákvæm og kostur er.

Öll þessi kerfi þurfa að vera öflug og traust, styðja hvert annað og vinna saman. Þar í liggur krafa um tjáskipti, gagnsæi, sveigjanleika og viðmót sem opna dyr frekar en að reisa múra milli kerfanna. Til þess að það megi takast, þarf að koma til samstarf á breiðum grundvelli milli allra sem að málum koma. Hingað til höfum við treyst á möguleika formlega menntakerfisins til að tryggja atvinnulífinu nægilega færni. En á tímum örra breytinga og endurskipulagningar verður ævinámið og raunfærnin mikilvæg viðbót við þá færni sem hægt er að þróa innan formlega menntakerfisins. Það er því ekki nóg, þótt nauðsynlegt sé, að ræða um möguleika formlega menntakerfisins til að sjá atvinnulífinu fyrir réttri og nægjanlegri færni, að vel gangi að fara milli þrepa í skólakerfinu og að skólar og atvinnulíf hafi með sér samstarf.

Gott formlegt menntakerfi verður að sjálfsögðu áfram mjög mikilvæg forsenda fyrir nægjanlegu framboði á færni á vinnumarkaði en sú menntun sem einstaklingar hafa í farteskinu þegar þeir hefja störf á vinnumarkaði mun sjaldan duga þeim alla starfsævina. Þess vegna þarf nám sem fer fram utan formlega menntakerfisins meiri athygli og stuðning en hingað til. Önnur kerfi verða einfaldlega að fá meiri athygli en hingað til, þau þarf að styrkja eða byggja upp frá grunni.

Eitt af þeim kerfum sem huga þarf sérstaklega að er Stefnumörkuð færniþjálfun í fyrirtækjum. Stefna um færniþjálfun í fyrirtækinu hefur verið mörkuð þegar þjálfunin tekur mið af stefnu fyrirtækisins, sem hefur verið mótuð með hliðsjón af greiningu á alþjóðlegum straumum og innri markmiðum fyrirtækisins. Kortlagning á færnikröfum og þörf fyrir færniþjálfun er síðan gerð í tengslum við þau framleiðsluferli í fyrirtækinu sem eru mikilvægust (lykilferlar) til þess að markmiðin náist. Stefnumörkuð færniþjálfun felst því í að forgangsraða því sem gert er í ráðningarmálum, færniþróun og skipulagsmálum út frá langtímamarkmiðum fyrirtækisins.

Talsverður fjöldi lítilla og meðalstórra fyrirtækja og stofnana, á öllum tegundum vinnumarkaða (gerð er grein fyrir þeim í skýrslunni og í Gátt 2016) hefur ekki sett fram rekstrarmarkmið sín og tengt við kröfuna um færni í ákveðnum lykilferlum. Þetta getur leitt til þess að hvorki ráðningar né færniþróun eru tengdar þeim sviðum þar sem færniþörfin er mest og verðmætasköpunin yrði mest. Þess vegna getur verið heppilegt að hvetja og styðja þessi fyrirtæki með ýmsum aðferðum til að setja starfseminni stefnu og tengja hana síðan við færnistefnu innan fyrirtækisins.

Mörg af þeim fyrirtækjum sem vinna á árangursríkan hátt að ráðningum og færniþróun gera það í skrásettu og gæðatryggðu ferli. Enda ætti að vinna með færniþjálfun á sama hátt og aðra gæðaferla fyrirtækis.

Mikilvægt er að gera það sýnilegt hvernig færni er hluti af aðföngum og verðmæti fyrirtækisins, til að geta þróað færnina og metið hana á sama hátt og önnur verðmæti í fyrirtækinu, svo sem tæknibúnað, fasteignir og vörulager. Þannig væri auðveldara að fjármagna færniþjálfun og afskrifa hana eins og aðra fjárfestingu. Þetta gæti verið mjög jákvætt fyrir reksturinn. Í ýmsum hlutum rekstrar er auðvelt að reikna ávinning af fjárfestingu en það á ekki við um færniþróun. Það væri til hagsbóta að geta reiknað virði kostnaðar og fjárfestinga vegna færniþróunar eins og annarra fjárfestinga.

Önnur áhersla í færniþjálfunarkerfi er að byggja upp kerfi fyrir raunfærnimat í atvinnulífinu. Sé raunfærnimatskerfi byggt á réttum forsendum og framkvæmt á móti kröfum atvinnulífsins leiðir það til staðfestingar á færni sem er viðurkennd á vinnumarkaði. Einstaklingar fá færniskírteini á grundvelli raunfærnimats, sem veitir þeim möguleika til hreyfanleika á vinnustað eða milli vinnustaða. Atvinnurekandi getur fengið skýra mynd af þeirri færni sem er fyrir hendi í fyrirtækinu og hvaða færni vantar. Hann getur síðan notað upplýsingarnar til að hanna áætlun fyrir ráðningar, færniþróun og aðferðir til að bæta þá færni sem þegar er til staðar.

Þar sem mismunandi greinar og faggreinar hafa ólíkar þarfir fyrir færni skiptir máli að raunfærnimatskerfið henti viðkomandi grein. Færnikröfur verða að vera nægilega sértækar fyrir viðkomandi starfsemi til að skapa fyrirtækinu verðmæti. Mikilvægt er að hið sértæka samhengi og forsendur greinarinnar endurspeglist í lýsingu á færni og færnikröfum, samtímis því að gagnsæi og yfirfærslugildi skapar forsendur fyrir auknum hreyfanleika.

Heildstæð færnistefna

Í skýrslunni er lögð áhersla á að ekki er nægilegt að hafa menntastefnu, heldur verður einnig að hafa færnistefnu, þar sem tillit er tekið til allra þeirra kerfa sem veita og þjálfa færni fyrir atvinnulífið. Pólitísk ábyrgð á færniþjálfun fyrir atvinnulífið og á því að færniþjálfunin henti vinnumarkaði, dreifist á Norðurlöndunum á ólík pólitísk svið og á stjórnvöld á vettvangi ríkis, fylkja og sveitarstjórna. Sú þróun sem við sjáum nú í atvinnulífinu, meiri að umfangi og hraðari en áður, er mikil áskorun fyrir stjórnvöld, þar sem umbætur og aðgerðir eru framkvæmdar út frá ólíkum áherslum og án samræmingar. Þörfin fyrir vel skilgreinda færnistefnu, þar sem horft er til hagsbóta atvinnulífsins af nægilegri og réttri færni, verður stöðugt mikilvægari og meira krefjandi. Aðeins þannig er hægt að tryggja hagræna þróun með samkeppnishæfni og vexti fyrirtækja og tryggja atvinnu þar sem starfsmenn búa við öryggi og möguleika til að þróast í starfi.

Vinnuaðferðin

Starfið í netinu var byggt upp með því að byrja á að móta sameiginlegan skilning á því sem einkennir starfhæft færniþróunarkerfi. Vinnuaðferðin sem notað var við greininguna kallast rótargreining. Þá eru vandamál krufin til mergjar og afleiðingarnar skoðaðar, svo og orsakir þeirra. Þegar vandamáli er lýst, þá er oft verið að skoða afleiðingar, en ekki blasir við hver orsökin er. Í rótargreiningunni er leitað eftir orsökunum. Á eftir hverjum meginkafla í skýrslunni eru taldar upp helstu áskoranir. Þær eru ekki birtar í þessari grein. Þær tillögur sem netið setur fram byggja á úrvinnslu þessara áskorana. En hér að neðan eru tillögurnar eins og þær birtast í skýrslunni:

Heildstæðar tillögur

Með hliðsjón af efni þessarar skýrslu leggur netið fram eftirfarandi heildartillögur sem beint er til aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda á landsvísu á þeim sviðum sem koma sérstaklega að færniþjálfun atvinnulífsins:

 • Hvert og eitt norrænu landanna þarf tafarlaust að hefja vinnu við að forma færnistefnu á landsvísu og færnipólitík sem einkennist af heildarsýn og samstarfi milli allra þeirra pólitísku sviða sem geta gert öflugt færniþjálfunarkerfi í atvinnulífinu að veruleika.
 • Til að ná árangri verður þessi vinna að fara fram í rótgrónu, þróuðu og öflugu þríhliða samstarfi og byggja á norræna líkaninu. Þannig skapast fyrst forsendur til að stefna og pólitík geti raungerst hratt og náð árangri, á hverjum stað jafnt sem stærri svæðum.
 • Starfið á landsvísu þarf að styrkja með frumkvæði að norrænu samstarfi, þar sem menn deila reynslu og þróa sameiginlega þekkingu á þeim sviðum þar sem þekkingu vantar, til að efla færniþjálfun í atvinnulífinu.

Netið vann grunnefnið í skýrsluna og stendur að baki þeim áskorunum og tillögum sem hafa verið mótaðar. Netið áréttar mikilvægi þess að aðilar atvinnulífsins séu öflugir hagsmunaðilar og beri mikla ábyrgð á að setja í gang og ýta áfram þeim breytingum sem þarf til að færniþjálfun atvinnulífsins virki.

Þess vegna er flestum tillögum beint fyrst og fremst til aðila vinnumarkaðarins og samtaka þeirra og meðlima.

Tillögur netsins til aðila vinnumarkaðarins í samstarfi eru þær, að saman taki menn frumkvæði að eftirtöldu:

 • Aðilar vinnumarkaðar, félagasamtök og stjórnvöld þrói og samhæfi áætlun fyrir stefnumarkaða færniþjálfun í fyrirtækjum á landsvísu. Áætlunin taki jafnt til aðgerða gagnvart stjórnendum í fyrirtækjum, starfsmönnum og trúnaðarmönnum stéttarfélaga og til framkvæmdaraðila sem geta tryggt færniþjálfun og menntun í sveigjanlegu og straumlínulöguðu kerfi.
 • Þróa sameiginlegt og heildstætt kerfi til að lýsa og raunfærnimeta skilgreind námslok (d. kvalifikationer) og færni, sem hefur gildi bæði í atvinnulífi og menntakerfi. Mikilvægur hluti þessa kerfis er að tryggja skilning og notkun á lýsingum á árangri náms í atvinnulífinu.
 • Setja á laggirnar miðlægt færnipólitískt ráð, þar sem umræða getur farið fram um þær grundvallaráskoranir og möguleika sem við stöndum frammi fyrir og um það hvernig standa skuli að nauðsynlegum aðgerðum, sem fela í sér bæði samræmingu og fjármögnun.
 • Setja á laggirnar ráð um færniþarfir sem samanstendur af aðilum vinnumarkaðarins, stjórnvöldum og rannsakendum, sem draga saman og greina heimildir um færniþarfir á landsvísu og svæðisbundið. Starf ráðsins á að stuðla að því að tryggja möguleika til færniþjálfunar fyrir einstaklinga, fyrirtæki og samfélagið í heild.
 • Í hverjum skóla verði einhverjum falið það hlutverk að efla og móta faglegt samstarf, samhæfa og tryggja gæði og skipulag samstarfs bæði við fyrirtæki, milli stofnana og í innra starfi skólanna ásamt því að þær skólaeiningar sem komi þessu hlutverki á fái opinbera fjármögnun til þess.
 • Góð náms- og starfsráðgjöf verði þróuð í skólum með faglegum ráðgjöfum með mikla færni í því sem varðar atvinnulíf og störf ásamt kerfi og skipulagi utan skólans sem tryggir náms- og starfsráðgjöf fyrir fullorðna sem vilja þróa færni sína og starfsmöguleika.
 • Kennarar í formlega menntakerfinu, sem eru mikilvægur þekkingarbrunnur fyrir færniþjálfun í atvinnulífinu, fái möguleika til að endurnýja þekkingu sína á atvinnulífinu, bæði í einkageiranum og þeim opinbera, svo og þekkingu á staðbundnum jafnt sem svæðisbundnum áhrifavöldum.
 • Skapa forsendur og hvatningu fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki til að taka þátt í netum og klaustrum, þar sem hægt er að leysa færniþörf í samstarfi, með því að skiptast á reynslu, læra hver af öðrum og þróa námstilboð við hæfi, í samstarfi við fræðsluaðila, í eftir- og endurmenntun.
 • Styrkja og þróa stafræna færni hjá öllum á vinnumarkaði til að geta nýtt tækniþróunina og tryggja nauðsynlega uppfærslu á færni.
 • Setja upp þankasmiðju á norrænum grunni með sérfræðingum (stjórnmálamönnum, rannsakendum, atvinnulífi og embættismönnum í skólamálum). Í þankasmiðjunni verði safnað saman þekkingu og tillögur greindar og mótaðar að því hvaða hlutverki formlega skólakerfið skuli gegna til framtíðar í færniþjálfun fyrir atvinnulífið.
 • Með sameiginlegu norrænu framlagi styrkja þekkinguna á hagrænu sjónarhorni á færniþróun og á nám í atvinnulífinu. Það verði gert meðal annars með því að setja upp rannsóknaráætlun þar sem kannað er gildi færniþróunar fyrir samfélagið, fyrirtækin og einstaklingana, ásamt því að þróa líkön til að reikna út arðsemi af fjárfestingum í námi í atvinnulífinu.
 • Gerð verði kortlagning og greining á þeim líkönum norrænu þjóðanna sem hafa verið þróuð og samþykkt til að fjármagna nám í atvinnulífinu. Einnig verði farið yfir lög og pólitíska ramma sem geta stuðlað að eða hindrað færniþróun í atvinnulífinu, í þeim tilgangi að skapa forsendur fyrir því að skiptast á reynslu og þekkingu.

Tillögur netsins til atvinnurekendasamtaka á vinnumarkaði eru að þau hafi frumkvæði að því að:

 • mælast til, hvetja og styðja, með ákveðnum aðgerðum, atvinnurekendur í viðkomandi samtökum til að móta stefnu um hvernig tryggja skuli samkeppnishæfni í fyrirtækjum með stefnumarkaðri færniþjálfun með sérstakri áherslu á þær færniáskoranir sem tengjast stafrænni þróun og sjálfvirkni ásamt því hvernig samsetning vinnuaflsins hefur áhrif á framtíðarþróun fyrirtækisins.

Tillögur netsins til samtaka launafólks á vinnumarkaði eru að þau hafi frumkvæði að því að:

 • mælast til, hvetja og styðja meðlimi sína, með ákveðnum aðgerðum, til að skrásetja stöðugt og endurnýja núverandi starfsfærni sína með þeim verkfærum sem í boði eru, svo sem viðurkenndu raunfærnimati starfsgreina á móti viðmiðum atvinnulífsins og auðvelda þannig eigin ábyrgð á námi í tengslum við kröfur um færni í störfum.

Tillögur til yfirvalda og samtaka sem bera ábyrgð á gæðum og þróun í menntakerfinu eru að þau hafi frumkvæði að því að:

 • mælast til, hvetja og styðja, með ákveðnum aðgerðum, stjórnendur menntastofnana á ólíkum stigum með núverandi uppbyggingu og fjármögnun. Þar sé tekið tillit til staðbundinna og svæðisbundinna þarfa atvinnulífsins til að móta viðeigandi fræðslutilboð til að mæta þörfum fyrir færni og þekkingu sem tengist stafrænni þróun og öðrum þekkingar- og færnisviðum sem hafa mikil áhrif á forsendur starfa og samfélags.

Kynningafundur um skýrsluna

Fundir hafa verið haldnir í þremur löndum, í Noregi og Færeyjum og á Íslandi. Þegar þetta er skrifað stendur fyrir dyrum að halda fund í Svíþjóð og tveir fundir verða haldnir í Finnlandi, annar á finnsku og hinn á sænsku. Loks verður haldinn fundur í Danmörku nú í desember.

Á þessa fundi hafa verið boðaðir fulltrúar atvinnulífsins, bæði frá félögum atvinnurekenda og launafólks á einka- og opinberum markaði, fulltrúar fræðsluaðila, bæði í formlega kerfinu og öðrum, svo og fulltrúar stjórnvalda. Þeir fundir sem hafa verið haldnir hafa verið vel sóttir, á bilinu 40–60 manns hafa sótt hvern fund.

Skýrslunni og efni hennar hefur verið mjög vel tekið. Talað hefur verið um að hún sé góð handbók til að hafa til hliðsjónar við stefnumótun. Nauðsynlegt sé að hafa framtíðarsýn og heildarstefnu til að byggja aðgerðir á. Áhersla hefur verið lögð á norræna líkanið, þ.e. þríhliða samstarf aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda, styrkingu þess og mikilvægi fyrir færniþróun í atvinnulífinu. Einnig hefur verið lögð áhersla á mikilvægi norræna samstarfsins til hagsbóta fyrir smærri þjóðir og framgang þessara mála á Norðurlöndunum.

Mikil áhersla hefur verið lögð á þann þátt sem varðar tækniþróun, þar sem bregðast þurfi við, hratt og vel.

Í deiglunni

Ég vil að lokum nefna þrennt, sem þegar er komið í farvatnið á Norðurlöndunum, sem styður við niðurstöður skýrslunnar. Í maí 2017 settu Danir upp viðbragðsráð (d. disruption råd) undir heitinu Félag um framtíð Danmerkur. (6) Ráðið hefur það að markmiði að greina og koma með tillögur að því hvernig Danmörk getur best fangað möguleikana í tækniþróuninni. Ráðið á einnig ræða og koma með hugmyndir að því hvernig Danmörk geti eflt virkni vinnumarkaðarins þannig að allir geti tekið þátt á vinnumarkaði áfram. „Þetta er einungis hægt ef vinnumarkaðurinn hefur aðgang að réttri færni“, sagði forsætisráðherra Danmerkur þegar hann kynnti þetta nýja ráð. Ráðið er samsett af ráðherrum, aðilum atvinnulífs og frumkvöðlum ásamt prófessorum og fulltrúum ýmissa aðila samfélagsins.

Í Noregi er breið samstaða um færnistefnu og er Noregur fyrsta landið í OECD til að samþykkja slíka stefnu. (7) Stefnan byggir á vinnu OECD, þar sem færnistefna Noregs var greind og bent var á að aðaláskorun fyrir norsk stjórnvöld væri að fá alla hluta kerfisins, bæði miðlægt og svæðisbundið, til að vinna saman. Í stefnunni eru markmið í þá átt að hækka færnistigið hjá einstaklingum og í fyrirtækjum. Með stefnunni er ætlunin að sjá til þess að Noregur hafi færni til að mæta endurskipulagningu í hagkerfinu. Helstu áherslur eru þrjár;

Gott val fyrir einstaklinga og samfélag, sem leiðir til þess að einstaklingar fái vinnu sem gefur þeim góða möguleika á að þróa færi sína alla starfsævina. Til að svo megi verða þarf meðal annars að vera fyrir hendi þekking á þörfum atvinnulífsins fyrir færni og í því skyni á að setja upp ráð sem rannsaki færniþarfir í atvinnulífinu.

Nám í atvinnulífinu og góð nýting á færni, hraðar breytingar í atvinnulífi, eldri starfsmenn og þörfin á að eldra fólk sé lengur á vinnumarkaði, hefur í för með sér að ævinám og stöðug færniþróun verður stöðugt mikilvægari. Þjálfa þarf allt starfsfólk á vinnumarkaði í stafrænni tækni, þannig að nýta megi tækniþróunina og tryggja nauðsynlegar umbætur. Mikilvægt er að afla meiri þekkingar á námi í atvinnulífinu bæði fyrir fyrirtækin, einstaklingana og samfélagið. Lögð er áhersla á aukinn sveigjanleika í eftir- og endurmenntun og að bæði framboð og eftirspurn séu samstíga. Það krefst samstarfs milli fræðslustofnana og atvinnulífs á mismunandi sviðum. Einnig er rætt um þörfina fyrir betra kerfi til að meta og viðurkenna færni sem aflað er erlendis.

Styrkja færni fullorðinna sem hafa veika tengingu við vinnumarkaðinn. Margir standa utan vinnumarkaðar, þrátt fyrir að það markmið að flestir séu á vinnumarkaði. Miklu skiptir að samhæfa úrræði fyrir fullorðna sem hafa litla grunnleikni og skamma skólagöngu að baki. Úrræðin verða að vera sveigjanleg með það að markmiði að einstaklingar komist fljótt út á vinnumarkaðinn eða í áframhaldandi nám. Þetta gildir um innflytjendur líka. Vinnustaðurinn er oft besti námsstaður fyrir fullorðna. Efla þarf atvinnulífið sem námsstaði, líka fyrir þá sem standa utan atvinnulífsins.

Aðilar atvinnulífsins í Noregi eru uppteknir af þörfinni fyrir að þróa færni starfandi fólks í stafrænni tækni. Þeir hafa, í sumum tilfellum með stjórnvöldum, sett í gang verkefni, rannsóknar- og þróunarvinnu, námskeið og ráðstefnur.

Loks ber að geta þess að Færniþróunarnet NVL setti í kjölfarið af stað næsta verkefni, sem fjallar um það að skoða sérstaklega hvaða grunnleikni er mikilvægust á vinnumarkaði í dag. Niðurstaðna er að vænta á næsta ári.

Lokaorð

Í grein sem ég skrifaði í Gátt í fyrra (2016), (8) fór ég nokkrum orðum um styrkleika Íslands gagnvart þeim áskorunum sem blasa við. Margt hefur áunnist á undanförnum áratugum í þríhliða samstarfi aðila atvinnulífsins og stjórnvalda. Til þess samstarfs má rekja þróun starfsmenntasjóða fyrir almenna starfsmenn og þróun framhaldsfræðslunnar hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og símenntunarmiðstöðvum. Framhaldsfræðslan felur í sér þróun raunfærnimats, greiningar á fræðsluþörfum í fyrirtækjum, námsskrár sem eru formgerðar með mati á einingum á framhaldsskólastigi, náms- og starfsráðgjöf fyrir fullorðna. Mikilvægt verkefni er einnig þróun á úrræðum fyrir þá sem eru í hættu á að falla út af vinnumarkaði með uppbyggingu VIRK. Loks má nefna ýmis tilrauna verkefni, sem hafa varpað ljósi á mörg mikilvæg atriði, þar á meðal verkefnið Menntun núna.

Eigi að síður vantar mikið upp á að við stöndum vel að vígi. Nauðsynlegt er að sameinast um færnistefnu á grundvelli atvinnustefnu og að samhæfa öll færniþjálfunarkerfin, og alla hluta þeirra, til að uppfylla markmið færnistefnunnar. Það er ekki auðvelt verk að samhæfa öll þessi kerfi; formlega skólakerfið, nám fyrir atvinnuleitendur, framhaldsfræðsluna, nám á markaði og nám í fyrirtækjum. Þau ganga öll eftir eigin brautum. Nokkur samhæfing hefur tekist milli framhaldsskóla og framhaldsfræðslu, en það er engan veginn nóg. Eina leiðin til að vinna að þessari samhæfingu er með því að byggja upp skýra færnistefnu með skýrri sýn á hvað þarf að gerast og vinna síðan ötullega að framkvæmd hennar, meðal annars með því að brjóta niður múra milli kerfanna.

Einnig er brýnt að hefja skipulagningu á því hvernig færni starfandi fólks verður best endurnýjuð í kjölfar þeirra miklu breytinga sem eiga sér stað í tækniþróun. Hvernig má forða því að mikill fjöldi manns missi vinnu þegar sjálfvirkni tekur yfir fjölda starfa í tilteknum geira? Stafræn tækni er í örri þróun og ekki er hægt að gera ráð fyrir að allir starfandi hafi möguleika eða hugsun á að tileinka sér þessa tækni, nema það sé sérstaklega vakin athygli á þörfinni og boðið upp á leiðir til að tileinka sér þessa færni.

Við eigum möguleika á að sækja þekkingu og reynslu til Norðurlandanna, meðal annars gegnum NVL og þegar er hafinn undirbúningur að því að taka sum af viðfangsefnum þessarar skýrslu áfram á þeim vettvangi. Mikilvægt er fyrir okkur Íslendinga að taka þátt í því starfi.

Neðanmálsgreinar
 1. Sjá: http://nvl.org/Content/Analyses-of-Nordic-educational-projectsdesigned-to-meet-challenges-in-society
 2. Sjá: http://nvl.org/Content/8-arangursttir
 3. Sjá: http://nvl.org/Content/Framtidskompetenser-och-hur-vi-utvecklardem-1
 4. Sjá: https://frae.is/wp-content/uploads/2018/06/Gatt_2016_18-24_web.pdf
 5. Sjá: http://nvl.org/Content/Kompetens-ur-ett-arbetslivsperspektiv
 6. Sjá: http://www.stm.dk/_p_14514.htm
 7. Sjá: https://www.regjeringen.no/no/dokumenter/nks/id2527271/
 8. Sjá: https://frae.is/wp-content/uploads/2018/06/Gatt_2016_18-24_web.pdf

Heimildaskrá

Norrænt tengslanet um nám fullorðinna (2012) Analyses of Nordic educational projects designed to meet challenges in society, sótt á vef nvl.org, 10. október 2017 http://nvl.org/Content/Analyses-of-Nordic-educational-projects-designed-to-meet-challenges-in-society

Norrænt tengslanet um nám fullorðinna (2012) 8 árangursþættir, sótt á vef nvl.org á íslensku 10. október 2017 http://nvl.org/Content/8-arangursttir

Norrænt tengslanet um nám fullorðinna (2007) Framtidens kompetenser, sótt á vef nvl.org, 10. október 2017 http://nvl.org/Content/Framtidskompetenser-och-hur-vi-utvecklar-dem-1

Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir (2016) Færni – frá sjónarhorni atvinnulífsins, Gátt, ársrit um framhaldsfræðslu, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, sótt á vef 10. október 2017 http://frae.is/media/94501/Gatt_2016_18-24_web.pdf

Norrænt tengslanet um nám fullorðinna (2017) Kompetens ur ett arbetslivsperspektiv, Sótt 17. október 2017 af http://nvl.org/Content/Kompetensur-ett-arbetslivsperspektiv

Statsministeriet, Danmark, (2017) Sótt 17.október 2017 á vef http://www.stm. dk/_p_14514.html

Statsministerens kontor, Norge (2017) Sótt 17. október 2017 á vef https:// www.regjeringen.no/no/dokumenter/nks/id2527271/

Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir

Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir var framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins frá því að hún var stofnuð fram til ársins 2016. Ingibjörg hefur lokið BA-prófi í sálfræði, kennsluréttindum frá HÍ, M.Ed.-prófi í kennslufræðum frá Harvard-háskóla í Bandaríkjunum og framhaldsmenntun í fullorðinsfræðslu frá Háskólanum í Linköping í Svíþjóð. Ingibjörg hefur unnið við fullorðinsfræðslu frá 1985, við stjórnun, kennslu og skipulagningu, meðal annars hjá Menningar- og fræðslusambandi alþýðu og Tómstundaskólanum. Hún hefur einnig tekið þátt í evrópskum og norrænum samstarfsverkefnum á sviði fullorðinsfræðslu og starfsmenntunar.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi