- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Fagskólanám í verslunarstjórnun

Þróun náms á grundvelli hæfnikrafa sem gerðar eru til starfa stjórnenda í verslunum
Starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks, Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Bifröst ásamt Ráðgjöf og verkefnastjórnun vinna saman að þróun fagháskólanáms í verslunarstjórnun. Þróunarvinnan byggist á hæfnigreiningu starfa í verslun sem margir hafa komið að yfir langt tímabil, samtölum við stjórnendur, viðhorfskönnun og rýnihópavinnu með verslunarstjórum.

Fagháskólanám – mikilvægur hluti af því að auka fagmennsku í verslun og þjónustu

Markmiðið með því að setja á fót slíkt nám er að opna dyr fyrir þá sem mennta sig í verslun og þjónustu og vilja halda áfram í háskólanám. Námið, sem er 60 ECTS-einingar, er kennt með vinnu og mun taka tvö ár í blöndu af dreif- og staðbundnu námi, eftir þörfum hvers og eins. Það byggist að hluta til á áföngum sem nú þegar eru kenndir til BS-gráðu í viðskiptafræðum við Bifröst og HR en að hluta er um nýja áfanga að ræða, sérstaklega hannað með sérþarfir verslunarinnar í huga í samstarfi við lykilfyrirtæki í greininni.

Námið er þróað á grundvelli hæfnigreiningar starfa í verslun(1) og byggist námsframboðið á niðurstöðum greiningarinnar. Þátttakendur námsins munu sitja áfanga í rekstrarhagfræði, stjórnun, mannauðsstjórnun, þjónustustjórnun, reiknishaldi, markaðsfræði og rekstrarstjórnun þar sem farið verður í gæða- og þjónustustjórnun. Verkefnastjórn námsins, með fulltrúum frá HR og Háskólanum á Bifröst, vinnur að innihaldi þriggja sérsniðinna áfanga sem munu fjalla um birgða- og vörustjórnun með áherslu á upplýsingatækni, áfanga um lög og reglur er varða verslunarrekstur ásamt áfanga sem fjallar um kaupmennsku og persónulega hæfni verslunarstjóra með áherslu á sölu, þjónustu og samningatækni. Í anda fagháskólanáms verður námið praktískt og þátttakendur vinna verkefni tengd sínu starfi.

Allir umsækjendur fá einstaklingsbundna námsráðgjöf samhliða mati á fyrra námi og reynslu. Almenn inngöngu skilyrði eru stúdentspróf eða sambærilegt nám en einnig verður litið til starfsreynslu og hæfni við inntöku nemenda. Þeir sem sækja um á grundvelli starfsreynslu og skortir grunnþekkingu í stærðfræði, íslensku og ensku munu eiga þess kost að efla sig í þeim greinum. Umgjörð og hönnun námsins verður gerð með hinn fullorðna námsmann í huga og stefnt er að því að bjóða sérstaka náms- og starfsráðgjöf og/eða markþjálfun fyrir námsmenn.

Hæfnigreining fjögurra starfa í verslun

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins sá um að vinna hæfnigreiningar að frumkvæði og í samvinnu við Starfsgreinaráð skrifstofu- og verslunargreina, VR, SVÞ og lykilfyrirtækja. Í grein í Gátt árið 2014 útskýrir Guðmunda, sérfræðingur Fræðslumiðstöðvarinnar, hæfnigreiningu á eftirfarandi hátt:

Í stuttu máli þá gengur greiningarferlið út á að meta og velja hvaða hæfni er mikilvæg til að sinna tilteknu starfi og síðan á hvaða þrepi (hversu mikil) hæfnin þarf að vera. Aðferðin byggir á virkri þátttöku hagsmunaaðila. Valinn er hópur 10–20 þátttakenda sem þekkja vel til viðkomandi starfs og taka þeir þátt í þremur þriggja tíma fundum. […] Auk fundanna þriggja fer fram gagnasöfnun og úrvinnsla. (2)

Starfsgreinaráð verslunar- og skrifstofugreina ásamt þáverandi Fagráði verslunar og þjónustu hóf verkefnið með því að kortleggja verslunarstörf með hæfnigreiningu fjögurra starfa í verslun. Byrjað var á greiningu starfs „reynslubolta“ í verslun sem hafði mikla þekkingu en ekki endilega mannaforráð og voru til skoðunar störf í ólíkum tegundum verslana; matvöruverslun, fataverslun og byggingarvöruverslun. Greiningin leiddi í ljós að um var að ræða sama starf þrátt fyrir ólíkt vöruúrval. Starfið var metið inn á þrep 2 í íslenska hæfnirammanum. Í kjölfarið var lagt af stað með að hæfnigreina starf verslunarstjóra og í þeirri vinnu kom í ljós að til var starf aðstoðarverslunarstjóra á milli þessara tveggja starfa. Starf aðstoðarverslunarstjóra lenti á þrepi 3 og starf verslunarstjóra á þrepi 4. Mikið var rætt um starfsheiti þar sem þau eru nokkuð ólík á milli verslana. Sums staðar er talað um sölumenn og vaktstjóra en ekki verslunarmenn og verslunarstjóra. Niðurstaðan var að styðjast við yfirheitið Starf í verslun á þrepi 1–4 í stað ákveðinna starfsheita og tekin dæmi af starfsheitum fyrir hvert starf, t.d. Starf á þrepi 4 í verslun, verslunarstjóri. Um það bil 30–40 manns samtals tóku þátt í hópavinnu og stýrihópavinnu. Voru þau meðal annars frá eftirfarandi fyrirtækjum:

 • Byko
 • Festi: Krónan, Elko og Nóatún
 • Hagkaup
 • IKEA
 • NTC
 • Rúmfatalagerinn
 • Samkaup: Nettó og Krambúðin

Auglýst eftir persónulegri hæfni í atvinnuauglýsingum

Hvaða hæfni þarf verslunarstjóri að búa yfir? Starfið felst í birgðastjórnun, rekstri, vöruþekkingu, starfsmannahaldi og daglegri stjórnun. Niðurstöður hæfnigreiningarinnar leiða einnig í ljós að stór hluti hæfnikrafna verslunarstjóra er persónuleg hæfni. Þar má meðal annars finna eftirfarandi lýsingar á hæfni:

 • Vinnur með öðrum til að ná markmiðum fyrirtækisins (samvinna).
 • Þjálfar færni annarra til samvinnu til að stuðla að bættum árangri samstarfshópsins (samvinna).
 • Miðlar upplýsingum um flókin málefni á skýran og trúverðugan hátt til ólíkra viðmælenda (árangursrík samskipti).
 • Nýtir sér fyrirsjáanleg sóknarfæri og leggur til nýjar leiðir til að ná betri árangri eða bæta stöðuna (frumkvæði).
 • Sýnir sveigjanleika og getur á árangursríkan hátt brugðist við stöðugt breytilegum aðstæðum, óljósum fyrirmælum og óvissu (aðlögunarhæfni).
 • Skiptir auðveldlega á milli þess að fást við almenna stefnu og mikilvæg smáatriði (aðlögunarhæfni).

Hvernig má kenna slíka persónulega hæfni? Í samtölum okkar við stjórnendur fyrirtækja í smásöluverslun hefur hugtakið kaupmennska borist í tal. Það virðist erfitt að skilgreina hana en hægt er að túlka hana sem ástríðu fyrir verslun, vörum og sölu ásamt því að búa yfir ríku sjálfstrausti til þess að tjá þessa ástríðu og eiga í góðum samskiptum við viðskiptavini og samstarfsmenn. Kaupmennska er hugtak sem lýsir á virðingarverðan hátt fagmennsku verslunarstarfa sem einu sinni var gert hátt undir höfði en í dag mætti bera meiri virðingu fyrir starfinu. Miklar kröfur eru gerðar til verslunarstjóra sem fá ekki endilega þá viðurkenningu sem þeir eiga skilið miðað við ábyrgð í starfi. Verslunarstjórar geta til að mynda verið með hundrað manns í vinnu og veltu upp á hundruð milljóna.

Í dag auglýsa fyrirtækin eftir stjórnendum sem stuðla að hvatningu meðal starfsmanna (auglýsing frá Krónunni eftir verslunarstjóra (3) ), hafa ríka þjónustulund og skilning á þörfum viðskiptavina (auglýsing frá Nettó eftir vaktstjóra (4) ). Auglýst er eftir starfsfólki í afgreiðslu sem hefur ríka þjónustulund og ljúft viðmót (auglýsing frá Costco (5) ). Kaupmennska er orð sem sést ekki en kannski eimir enn eftir af í þessum atvinnuauglýsingum. Krafan um þessa mjúku hæfniþætti eru enn til staðar. Eins og einn starfsmaður verslunar í Kringlunni og viðmælandi VR blaðsins orðaði það þegar hann var beðinn um að lýsa því hvað skilgreini góða þjónusta: Að tekið sé vel móti viðskiptavinum, að afgreiðslufólkið sýni hlýleika og sé á staðnum en ekki andlega fjarverandi. (6)

Heildarmynd um nám í verslun og þjónustu

Ýmislegt hefur verið gert til þess að koma á fót markvissu námi fyrir starfsfólk í verslun með misjöfnum árangri. Leiða má að því líkur að kjarasamningsbundin hækkun fyrir sérhannað nám á framhaldsskólastigi gæti stuðlað að því að fagtengt nám festist í sessi. Samstaða þarf að ríkja um slíkt nám og mjög mikilvægt er að námið sé almennt viðurkennt, bæði í skólakerfinu og í samfélaginu. Hjá VR er verið að skoða danskt módel um kjarasamningsbundna leið til þess að auka hæfni hjá starfsfólki í verslun sem fram fer með stöðumati og einstaklingsmiðaðri námsleið. Þar eru gerðar ákveðnar forkröfur um starfsaldur og lífaldur í námið. Þá er aðgangur að náminu bundinn samningi milli einstaklingsins og fyrirtækisins.

Fagháskólanám í verslunarstjórnun gæti verið framhald af slíku námi fyrir þá sem vilja auka enn frekar við menntun sína í verslunargreinum. Vanda þarf til verka við þróun náms fyrir þennan markhóp og þess vegna var lögð áhersla á að veittar séu ECTS-einingar fyrir fagháskólanámið. Námið verður kennt við viðskiptafræðideildir HR og Háskólans á Bifröst. Það er diplómanám en hægt verður að nota einingarnar áfram í BS-gráðu í viðskiptafræði ef áhugi er á því.

Skráning í námið hefst í nóvember 2017.

Neðanmálsgreinar

(1) Hægt er að skoða starfaprófílana, sem eru niðurstöður hæfnigreininganna á Starfi í verslun þrepi 1–4, á vef Fræðslumiðstöðvarinnar, http://frae.is/ haefnigreiningar/starfaprofilar/
(2) Gátt, 2014, bls. 58
(3) https://alfred.is/starf/14050?cat=0 sótt 10.17.2017 4 (4)https://alfred.is/starf/14034?cat=10 sótt 10.17.2017 5 (5) https://alfred.is/starf/14207?cat=10 sótt 10.17.2017
(6) VR blaðið, 3 tbl. 2017, bls. 31

Sólveig Lilja Snæbjörnsdóttir

Sólveig Lilja Snæbjörnsdóttir er fagstjóri starfsmenntamála hjá VR og formaður Starfsgreinaráðs skrifstofu- og verslunargreina. Hún var áður framkvæmdastjóri Framvegis miðstöðvar um símenntun og verkefnastjóri Verslunarfagnáms hjá Verzlunarskóla Íslands. Sólveig er með BA-próf í heimspeki og MA-próf í hagnýtri siðfræði frá Háskólanum í Utrecht.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi