- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Fyrirmyndir í námi fullorðinna

Fyrirmyndir í námi fullorðinna er viðurkenning sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, FA, hefur veitt árlega frá árinu 2009. Viðurkenningin er veitt þeim sem hafa skarað fram úr og sýnt góðan námsárangur, frumkvæði og kjark við að yfirstíga ýmsar hindranir eins og læsis- eða námsvanda. Fyrirmyndirnar eru valdar úr hópi tilnefninga frá samstarfsaðilum Fræðslumiðstöðvarinnar. Lærum í skýinu var yfirskrift ársfundar FA árið 2016. Fundurinn var haldinn á Grand hótel 30. nóvember að viðstöddu fjölmenni. Þar var tveim einstaklingum veitt viðurkenningin, þeim Souleymane Sonde frá Mími-símenntun og Vésteini Aðalgeirssyni. Þeir Souleymane og Vésteinn eiga það sameiginlegt að hafa breytt stöðu sinni á vinnumarkaði með því að sækja nám innan framhaldsfræðslunnar. Hér er hægt að nálgast myndband af ávörpum sem þeir fluttu er þeir tóku á móti viðurkenningunni.

Souleymane Sonde

Souleymane er fæddur í Burkina Faso árið 1983 en flutti til Íslands árið 2007. Hann er giftur Björgu Sonde Þráinsdóttir og eiga þau þrjú börn. Þau kynntust þegar hún heimsótti biblíuskólann þar sem hann var nemandi í Búrkína Fasó. Að loknu þriggja ára námi og starfsþjálfun í biblíuskólanum ákvað hann að flytja til Íslands og þau Björg gengu í hjónaband. Í upphafi ætluðu þau aðeins að búa á Íslandi í tvö ár og flytja síðan út. En fjölskyldan stækkaði og þau skiptu um skoðun vegna þess að þau voru sammála um að betra væri að ala börnin upp á Íslandi. Þar gæfist þeim við öruggar aðstæður tækifæri til þess að njóta menntunar að vild.

Tungumálið er lykillinn

Souleymane var ljóst frá upphafi að hann yrði að læra íslensku. „Ef maður ætlar að búa hérna verður maður að læra málið. En ég velti líka fyrir mér hvernig í ósköpunum ég ætti að geta talað þetta tungumál. Ég er að berjast við beygingarnar en ég er viss um að ég næ tökum á þeim einn daginn. Það er planið eins og er. Mér finnst ánægjulegt og áhugavert að tala við fólk svo ég verð að læra íslensku almennilega. Ég læri mikið af börnunum mínum, við tölum alltaf íslensku saman heima.“

Markmið að komast í vinnu

Souleymane vildi vinna og kynnast fólki. Fyrsta starfið sem hann fékk var hjá Sorpu. En hann gat ekki talað við vinnufélaga sína, þeir töluðu hvorki frönsku né ensku og þó þeir hefðu talað íslensku hefði Souleymane ekki skilið þá. Úr þessu varð hann að bæta. Hann frétti að hjá Mími-símenntun væru í boði námskeið í íslensku fyrir útlendinga og hann skráði sig. Souleymane ákvað að byrja hægt og rólega. Hann lauk ekki aðeins tungumálanámskeiðinu heldur skráði hann sig að því loknu í Grunnmenntaskólann hjá Mími. Markmiðin með náminu þar er að byggja upp grunn í íslensku, ensku, stærðfræði og tölvum, að auka sjálfstraust til náms og þjálfa sjálfstæð vinnubrögð.

Eitt skref í einu

Souleymane hafði ekki lokið stúdentsprófi þegar hann flutti til Íslands. „Ég vildi gjarnan ljúka stúdentsprófi og því lét ég ekki staðar numið eftir Grunnmenntaskólann heldur lauk ég einnig í Menntastoðum hjá Mími. Það tókst og ég hélt áfram.“ Það er vert að geta þess að Souleymane lærði ekki aðeins íslensku frá grunni heldur varð hann einnig að læra dönsku. Að læra dönsku vex mörgum Íslendingnum í augum þótt þeir eigi móðurmál af sama stofni og hafi öðlast undirstöðuþekkingu í grunn- og framhaldsskóla. Eftir að Souleymane lauk námi í Menntastoðum skráði hann sig í Háskólann í Reykjavík í frumgreinadeild í Tækni- og verkfræði sem veitir honum sömu réttindi og stúdentspróf. Þaðan útskrifaðist hann í júní 2017. „Ég klára alltaf bara eitt skref í einu og svo set ég mér næsta markmið. Ég gæti vel hugsað mér að halda áfram námi í háskóla en ég er ekki kominn með fimm ára plan.“

Að því er hann best veit er hann eini íbúinn á Íslandi frá Búrkínó Fasó. „Hér eru fleiri frá Afríku meðal annars Gana, Eþíópíu og Kenía sem halda saman. Vegna þess að franska er opinbert tungumál í Búrkínó Fasó þá fara þeir sem flytja þaðan frekar til frönskumælandi landa. Langflestir vina minna eru Íslendingar.“ Hann hefur ásamt fjölskyldunni farið nokkrum sinnum í heimsókn til Búrkínó Fasó. Það er um langa leið að fara. „Ég segi oft að þetta séu tveir heimar á sömu plánetu.“

Fyrirmynd

Souleymane hefur stundað nám sitt samhliða vinnu og fjölskyldulífi og þurft að leggja mikið á sig. „Ég er í vinnunni á daginn og í skólanum á kvöldin og læri þess á milli.“ Staða hans hefur breyst gríðarlega mikið. Hann starfar nú í búsetukjarna á vegum Reykjavíkurborgar og finnst það áhugavert þar sem hann vill vinna með fólki og geta talað íslensku í vinnunni. Souleymane hefur yfirstigið hverja hindrunina á fætur annarri, hefur sannarlega sýnt miklar framfarir miðað við stöðu sína þegar hann kom til landsins og því má með sanni segja hann fyrirmynd.

Vésteinn Aðalgeirsson og Souleymane Sonde

Vésteinn Aðalgeirsson

Vésteinn hefur stundað sjómennsku í 28 ár, þekkir starfið því afar vel og gerir sér grein fyrir að því starfi sinna fáir fram á ellilífeyrisaldur og að vera svo lengi í sama starfi hefur áhrif á starfgleði og viðhorf til vinnu. Áskorunum fækkar og rútínan verður allsráðandi. Þess vegna hugsaði hann sér gott til glóðarinnar þegar hann frétti af samstarfi Sjómenntar og símenntunarmiðstöðvanna um verkefnið Sjósókn – Tækifæri og áskoranir í íslenskum sjávarútvegi. Hann eygði tækifæri til þess að stíga fyrstu skrefin í átt að breytingum.

Sjósókn

Verkefnið var nýlunda innan framhaldsfræðslunnar þar sem margir aðilar störfuðu saman að því að nálgast sjómenn sem ekki höfðu lokið formlegu námi. Markmið verkefnisins var að hvetja þá sem höfðu reynslu af sjómennsku en höfðu ekki lokið námi á framhaldsskólastigi til þess að taka þátt og gangast undir mat á raunfærni. Jafnframt veita ráðgjöf og upplýsingar um færar leiðir og gera sjómönnum kleift að stunda nám samhliða vinnu til þess að efla þá sem einstaklinga og bæta stöðu þeirra á vinnumarkaði. Vésteinn sótti kynningarfund hjá Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar (SÍMEY) þar sem hann fékk í hendurnar færnimöppu um fiskvinnslu og fór þá að efast um að hann væri á réttum stað. Það væri ekkert í þessu nema meiri fiskvinnsla og eitthvert frekara nám á því sviði. En hann tókst á við áskorunina, fyllti eftir bestu getu í færnimöppuna. Við skil á henni óx efinn, kjakurinn dvínaði og hann varð neikvæðari þegar honum varð ljóst að hann þyrfti að standa frammi fyrir fagaðilum til þess að fá raunfærni sína metna. Tala við einhverja sérfræðinga um það sem hann hefði fengist við hátt á þriðja áratug og kannski komast að því að hann kynni eiginlega ekki neitt.

Að ýta eða toga

En Vésteinn upplifði þá það sama og margar aðrar fyrirmyndir hafa gert, að náms- og starfsráðgjafar á símenntunarmiðstöðvunum eru sérfræðingar í að greina hvenær þarf að ýta og hvenær er æskilegra að toga. Ráðgjafar hjá SÍMEY höfðu samband við hann til þess að tilkynna honum að nú væri raunfærnimatið að fara í gang. Sú sem hafði samband vissi greinilega hvaða aðferð hún ætti að beita við Véstein. Hún ákvað að ýta aðeins, hrósaði honum fyrir færnimöppuna og auðvitað lét hann segjast, sagðist hljóta að lifa matið af og mætti. Matið fannst honum mun auðveldara en hann hafði gert sér í hugarlund. Reyndist vera líkara spjalli við aðila sem bjuggu yfir álíka reynslu og Vésteinn hafði aflað sér á langri starfsævi. Eftir þetta sá hann ljósið við endann á göngunum. „Ég var orðinn það sem kallast á mannamáli jákvæður og hugsaði með mér að kannski væri þetta bara eitthvað sem ég ætti að kynna mér nánar og myndi skapa mér tækifæri til náms.“

Áframhaldandi menntun

Vésteinn hóf nám í Menntastoðum hjá SÍMEY tók áfanga í ensku. Undir lok 2016, einu og hálfu ári síðar, var hann um það bil að ljúka Marel vinnslutækni. Eins árs námi sem Fisktækniskóli Íslands býður upp á í samstarfi við Marel. Í náminu er komið inn á marga áhugaverða og gagnlega þætti eins og ensku, rafmagn og rafmagnsstýringar, tölvur og hugbúnað og margslunginn vélbúnað og hátækni sem viðkemur fiskvinnslu. Þeir sem ljúka náminu hafa mikla starfsmöguleika, heima og erlendis, við vél- og hugbúnað frá Marel. Aukinni og fullkomnari tækjavæðingu í fiskiðnaði fylgir meiri þörf á eftirliti og umsjón með vinnslulínum og hugbúnaði til framleiðslustýringar.

Evrópskt samstarfsverkefni

Námið hefur haft ýmislegt jákvætt í för með sér fyrir Véstein. Honum bauðst að taka þátt í Erasmus+ samstarfsverkefni á milli Fiskvinnsluskóla Íslands og skóla í Portúgal. Verkefnið fjallaði um saltfisk og matarmenningu, matargerð úr saltfiski. Vésteinn var nýkominn til baka til landsins eftir tíu daga ferð til Portúgals þegar hann tók á móti viðurkenningu sem fyrirmynd í námi fullorðinna í nóvember 2016. Hann staðfestir að ákvörðunin um að kynna sér Sjósókn hafi haft ýmislegt jákvætt í för með sér og í kjölfarið hafi ný tækifæri opnast. „Ég er allavega kominn yfir raunfærnimatið og ég vil hvetja ykkur sem standa að því að halda ótrauð áfram að ýta og toga.“

Sigrún Kristín Magnúsdóttir

Sigrún Kristín Magnúsdóttir er sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Hún er ritstjóri Gáttar og vinnur verkefni í Hæfnisetri ferðaþjónustunnar. Hún hefur sinnt ýmsum störfum við menntun og fræðslu fullorðinna í nær þrjá áratugi.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi