- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

GOAL – Ráðgjöf og leiðsögn fyrir fullorðna námsmenn. Sýn ráðgjafa.

Frá byrjun árs 2015 hafa Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS) og Mímir símenntun unnið að evrópska þróunarverkefninu GOAL (Guidance and Orientation for Adult Learners), Ráðgjöf og leiðsögn fyrir fullorðna. Markmið verkefnisins hefur verið að þróa ráðgjöf og leiðsögn fyrir fullorðna sem að sækja síður í nám og koma ekki í náms- og starfsráðgjöf. Megináherslur í verkefninu voru að efla samstarf stofnana og hagsmunaaðila sem koma að umræddum hópi, færa ráðgjöfina nær honum (outreach) og að þróa frekari færni ráðgjafa til að vinna með honum.

Um verkefnið

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins fer með verkefnastjórnun og Menntavísindastofnun Háskóla Íslands sér um rannsóknarhluta verkefnisins. Menntavísindastofnun tekur einnig saman heildarskýrslu til að koma lærdómnum á framfæri á Íslandi og í Evrópu. Stofnunin hefur haldið utan um þá spurningalista sem ætlað var að meta mögulegan árangur ráðgjafarinnar fyrir þátttakendur og nýtast niðurstöðurnar við gerð lokaskýrslu um verkefnið. Mímir og MSS eru framkvæmdaaðilar í verkefninu og hafa tveir ráðgjafar frá hvorri miðstöð sinnt náms- og starfsráðgjöfinni. Í verkefninu hafa ráðgjafar þróað tengslanet tengt ráðgjöfinni og eflt samstarf við aðrar stofnanir sem aðstoðuðu við að ná til þátttakenda.

Verkefninu er ætlað að styðja við frekari stefnumótun varðandi ráðgjöf og leiðsögn fyrir fólk með litla formlega menntun sem sækir síður í nám. Verkefninu lýkur árið 2018 og er ætlunin að skilgreina mikilvæga þætti sem stuðla að árangri í náms- og starfsráðgjöf. Geta hagsmunaaðilar og stefnumótunaraðilar, líkt og mennta- og menningarmálaráðuneyti, nýtt sér niðurstöður og lærdóm til frekari vinnu við stefnumótun í þessum málaflokki.

Aukin tengsl

Vinna ráðgjafanna fólst meðal annars í öflun samstarfsaðila, stofnana sem væru tilbúnar til samstarfs og gætu aðstoðað við að afla þátttakenda. Flestir þátttakendur komu í gegnum samstarfsaðila. Ráðgjafar á báðum miðstöðvum sendu tölvupóst, hringdu og hittu stjórnendur stofnananna. Ávallt var boðið að halda kynningarfund eða hitta þátttakendur hjá samstarfsaðilunum. Eins var haft að leiðarljósi að veita ráðgjöf þar sem þátttakendum hentaði best, t.d. hjá samstarfsaðilum. Mímir var í samstarfi við Geðendurhæfingu Landspítala –háskólasjúkrahúss, Hlutverkasetur, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, Vinnumálastofnun og VIRK. MSS var í samstarfi við Félagsþjónustu Reykjarnesbæjar, Félagsþjónustu Sandgerðis, Garðs og Voga, Fjölsmiðjuna, Landnemaskólann og Samvinnu starfsendurhæfingu. Þar að auki komu tíu nemendur íslenskunámskeiðs hjá MSS í ráðgjöf í verkefninu. Ráðgjafarnir reyndu að koma á samstarfi við ýmis fyrirtæki þar sem boðið var upp á einstaklingsráðgjöf eða hópráðgjöf á vinnutíma en því miður náðist það samstarf ekki að þessu sinni.

Það sýndi sig að nálægð við samstarfsaðilana gat skipt máli í samstarfinu. Á meðan vegalengdir milli stofnana voru meiri á höfuðborgarsvæðinu þá naut MSS þess að vera að hluta til í sama húsi og samstarfsstofnanirnar. Samstarfsaðilarnir sáu tækifæri fólgin í samvinnu við símenntunarstöðvarnar í verkefninu og töldu að GOAL gæti verið viðbót við þá þjónustu sem fyrir var. Þar sem þátttakendur komu úr ýmsum áttum voru önnur úrræði notuð fyrir marga þeirra. Það sýndi sig fljótt að teymisvinna, þar sem ýmsir fagaðilar komu að, skilar árangri.

Þátttakendur

Eins og fram hefur komið var markmiðið að ná til einstaklinga með litla formlega menntun sem sækja sér síður námsog starfsráðgjöf. Miðstöðvarnar náðu samtals í 94 þátttakendur. Þátttakendur voru fjölbreyttur hópur einstaklinga sem stóð frammi fyrir margs konar áskorunum. Ráðgjafar aðstoðuðu þátttakendur við að komast í samband við aðra sérfræðinga og stofnanir ef á þurfti að halda. Miðað var við að þátttakendur nýttu sér einstaklingsráðgjöf, hópráðgjöf eða úrræði – líkt og raunfærnimat á milli viðtala. Lagt var upp með ráðgjafarferli þar sem 5–10 viðtöl ættu sér stað. Betur gekk að ná þátttakendum í hópráðgjöf hjá Mími þar sem fjölmennið var meira á höfuðborgarsvæðinu. Ráðgjöfin nýttist flestum vel sem luku verkefninu og voru margir búnir að taka næstu skref.

Segja má að ráðgjöfin hafi verið óhefðbundin í þeim skilningi að lagt var upp með mikinn fjölda viðtala fyrir hvern einstakling, svo að viðtölin gögnuðust þeim sem best til þess að taka skref í átt að námi eða starfi. Það var því í sumum tilvikum áskorun fyrir ráðgjafa að hvetja þátttakendur til að mæta og vera virkir. Brottfall var nokkuð og í einhverjum tilvikum mættu þátttakendur einungis í 1–2 viðtöl.

Aðferðir og skref í ráðgjöfinni

Notuð voru hin ýmsu úrræði úr verkfærakistu náms- og starfsráðgjafa fyrir hópinn. Einnig var það hluti af verkefninu að safna saman verkfærum og aðferðum í ráðgjöf hjá símenntunarmiðstöðvunum og hagsmunaaðilum verkefnisins, svo sem Félagsþjónustu Reykjavíkurborgar, Leikn, Rauða krossinum og Vinnumálastofnun sem og frá ýmsum samstarfsaðilum.

Ráðgjöfunum gafst líka kostur á að afla sér nýrrar þekkingar og verkfæra til að vinna með þátttakendum og auka færni sína. Á tímabilinu fóru þeir til að mynda á námskeið á vegum GOAL í áhugahvetjandi samtalstækni sem reyndist mjög gott verkfæri til að vinna með markhópnum. Áhugahvetjandi samtal hjálpar ráðgjafa að átta sig á stöðu ráðþega og að þekkja breytingatal sem og viðnámstal einstaklingsins. Samkvæmt aðferðinni er mikilvægt fyrir ráðgjafa að vera meðvitaða um muninn á þessu tvennu til að sjá hversu tilbúinn einstaklingurinn er að skoða og velta fyrir sér til dæmis námi og störfum.

Þá sóttu ráðgjafarnir námskeið í KANS (Könnun á aðlögunarhæfni á náms- og starfsferli) sem er áhugaverð könnun til að skoða hversu reiðubúinn einstaklingur er til að takast á við breytingar á náms- og starfsferli sínum. Jafnframt má sjá hvort það eru einhverjir þættir líkt og sjálfstraust sem þyrfti að styrkja.

Hópráðgjöf fór fram með mismunandi hópum og var fengist við ýmis verkefni, m.a. tengd seiglu, sjálfsstyrkingu, gildum og viðhorfum til náms, ADHD og námi. Farið var yfir áhugasvið, oft og iðulega var fjallað um námsframboð og möguleg næstu skref en í þessa vinnu var gott að notast við upplýsingavefi um nám og störf líkt og www.næstaskref.is. Jafnframt var færnimappa og/eða ferilskrá unnin með sumum þátttakendum og þeir aðstoðaðir við atvinnuleit. VARK-könnun nýttist einnig vel í ráðgjöf en út frá niðurstöðum hennar getur fólk áttað sig á eigin námsstíl og hvernig því hentar helst að læra nýja hluti.

Þess má geta að nokkrir viðmælenda fóru í gegnum raunfærnimat í almennri starfshæfni. Það ferli er mjög uppbyggjandi fyrir einstaklinginn og hjálpar honum að koma auga á styrkleika sína. Í ferlinu felst mikil sjálfsstyrking og hvatning sem nýtist einstaklingum í þessum hópi vel.

Hér má sjá dæmi um áætlun sem gerð var í fyrsta viðtali þar sem viðtalsferlið og tækin í ráðgjöfinni voru ákvörðuð:

Áætlun
  • Áhugasviðskönnun og úrvinnsla
  • Starfskynningar kannaðar
  • Færnimappa
  • Ferilskrá
  • Starfskynning v/umönnunar
  • Íslenskunámskeið 3 (á vegum símenntunarmiðstöðvar)
  • Excel-námskeið (á vegum símenntunarmiðstöðvar)
  • Lokaviðtal

Í lokaviðtalinu var þetta skráð: „Viðmælandi er nú tilbúinn að fara út á vinnumarkaðinn og við munum ganga frá kynningarbréfi og umsókn um starf, ásamt ferilskránni (sem við erum búnar að gera en eftir er að setja við mynd) næst þegar við hittumst. Honum finnst hann hafa eflst á þessum tíma okkar saman og er farinn að bjarga sér alveg sjálfur á íslenskunni, þarf ekki túlk.“

Í ofangreindu dæmi kemur fram að ráðgjafinn reiknar með því að hitta viðmælandann aftur. Það gerðist í mörgum tilvikum eftir að GOAL-ferlinu lauk að einstaklingarnir héldu áfram í ráðgjöf.

Upplifun ráðgjafa

Verkefnið var lærdómsríkt og veitti ráðgjöfunum nýja sýn á störf sín. Það að hafa góðan tíma með hverjum þátttakanda og fá tækifæri til að kafa á dýptina í sumum tilfellum var ánægjulegt og árangursríkt. Það reyndi oft á ráðgjafana að þekkja mörk sín í ráðgjöf og vita hvenær vísa ætti málum til annarra fagmanna og sérfræðinga. Það var líka áhugavert að tengjast betur öðrum stofnunum og fá frekari innsýn í starfsemi þeirra. Góð tengsl og traust myndaðist á milli ráðgjafa og annarra sérfræðinga sem starfa með hópnum. Miðstöðvarnar munu búa áfram að þessum tengingum til hagsbóta fyrir ráðþega þeirra.

Stuðst var við ákveðna spurningalista í öllum viðtölum sem reyndust vel í þessari rannsókn. Spurningarnar beindust að líðan fólks, stöðu og hindrunum á náms- og starfsferli, trú á eigin getu og leiðum til að breyta til framtíðar. Þær opnuðu oft á ýmsar vangaveltur sem fólk var ekki endilega búið að velta fyrir sér áður. Þannig gáfu þær fljótt góða mynd af stöðu einstaklinga og hægt var að gera áætlun og ákveða næstu skref.

Þátttakendur voru iðulega áhugasamir um að efla sig hvort sem var námslega, á vinnumarkaði eða í einkalífi. Ráðgjöfin snerist stundum um að sá fræjum og vona að einstaklingar myndu síðar sækja sér ráðgjöf ef á þyrfti að halda. Núna einu til tveimur árum síðar hefur það sýnt sig að margir þeirra sem ekki voru tilbúnir þegar ráðgjöfin í gegnum GOAL verkefnið fór fram hafa skilað sér í nám hjá miðstöðvunum. Dæmi eru um að einstaklingar hafi komið í Gunnmenntaskólann, á styttri námskeið eða í lengri námsleiðir eins og Menntastoðir. Auk þess eru dæmi um að einstaklingarnir séu nú að hefja starfsendurhæfingu eða séu komnir út á vinnumarkaðinn.

Verkefnið veitti ráðgjöfunum mjög gott tækifæri til að sinna símenntun og efla sig í starfi. Ráðgjafarnir kynntust nýjum aðferðum sem þeir náðu að nýta í ráðgjöfinni. Á sama tíma tengdust miðstöðvarnar betur öðrum stofnunum og styrktu tengslin sín á milli. Heilmikill lærdómur hefur komið út úr þessari rannsókn og vonast er til að hann muni nýtast í áframhaldandi stefnumótunarvinnu í fullorðinsfræðslu.

Arndís Harpa Einarsdóttir

Arndís Harpa Einarsdóttir er náms- og starfsráðgjafi hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS

Ingibjörg Hanna Björnsdóttir

Ingibjörg Hanna Björnsdóttir er náms- og starfsráðgjafi hjá Mími símenntun

Lilja Rós Óskarsdóttir

Lilja Rós Óskarsdóttir er náms- og starfsráðgjafi hjá Mími símenntun

Steinunn Björk Jónatansdóttir

Steinunn Björk Jónatansdóttir er náms- og starfsráðgjafi hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS)

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi