Fræðslumiðstöð Vestfjarða hefur í nokkur ár verið í samstarfi við Kvenfélagið Ársól á Suðureyri um kennslu í námsleiðinni Landnemaskólanum. Landnemaskólinn er 120 kennslustunda námsleið sem samin var og gefin út af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, FA, og menntamálaráðuneytið hefur samþykkt að meta megi til styttingar náms í framhaldsskóla sem nemur allt að 10 einingum. FA gerir kröfur til þeirra sem heimild fá til að nota námskrána um að þeir framfylgi formlegu gæðakerfi sem FA þróar og viðurkennir. Einnig að framkvæmdaraðili framfylgi skilgreindum kennslufræðilegum kröfum, sem FA mun þróa og viðurkenna.
Meginmarkmið námsleiðarinnar er að auðvelda fólki af erlendum uppruna að aðlagast íslenskum vinnumarkaði og samfélagi. Í náminu er lögð áhersla á íslenskt talmál og nytsama samfélagsfræði og er námið ætlað fullorðnu fólki á vinnumarkaði sem ekki hefur íslensku að móðurmáli. Námsmenn skólans eru á misjöfnum aldri og hafa þroskast í mismunandi menningu. Reynsla þeirra er því afar misjöfn og misjafnt er hve langt er um liðið frá því þeir voru síðast í skóla. Engar kröfur eru gerðar til lágmarks skólagöngu áður en nám hefst og námsmenn gangast ekki undir formleg próf.
Í Landnemaskólanum fer námið að miklu leyti fram með umræðum og verkefnavinnu þar sem námsmenn þurfa að afla sér upplýsinga, til dæmis á netinu, í fjölmiðlum og hjá stofnunum. Einnig er gerð ferilskrár og færnimöppu mikilvægur þáttur í náminu. Í færnimöppu safna þátttakendur upplýsingum sem sýna fram á þróun á þekkingu og færni þeirra, hvort sem hennar hefur verið aflað í formlegu námi, starfi, þátttöku í starfi frjálsra félagasamtaka eða í fjölskyldulífi.
Það sem er sérstakt við Landnemaskólann á Suðureyri er að að hann er samfélagslegt verkefni. Kennararnir koma frá kvenfélaginu á staðnum, konur með margvíslega menntun, þar á meðal er leikskólakennari, sérkennari, viðskiptafræðingur og grunnskólakennari. Kennararnir þiggja ekki laun heldur skipta á milli sín vinnunni en tekjurnar af kennslunni fara í að bæta aðstöðu barna, til dæmis að byggja og bæta leikvöllinn á staðnum með kaupum á leiktækjum. Leikvöllurinn er afar vinsæll samkomustaður.
Með sanni má segja að verkefnið sé samfélagslegt þar sem áhrifa þess gætir víðsvegar um samfélagið, jafnt hjá ungum sem öldnum, stelpum, strákum, konum og körlum. Umtalsverðra breytinga gætir í tengslum við samstarf kvenfélagsins og Fræðslumiðstöðvarinnar um Landnemaskólann innan samfélagsins, námsmenn í Landnemaskólanum eiga auðveldara með samskipti við heimamenn, til dæmis með því að skiptast á skilaboðum og að vera í samskiptum við kennara barnanna, að mæta á foreldrafundi, biðja um leyfi í vinnu og fleira í þeim dúr. Fólk þorir að eiga samskipti og samfélagið á Suðureyri þéttist þar sem allir eiga eitthvað í verkefninu.
Kvenfélaginu hefur færst aukinn kraftur þar sem fleiri konur ganga til liðs við félagið og taka virkan þátt í starfinu. Eitt af sérkennum verkefnisins er að sumir leiðbeinendur eru pólskir og hafa sjálfir farið í gegnum Landnemaskólann. Þeir geta því túlkað og útskýrt fyrir þeim sem ekki eru komnir eins langt í íslenskunáminu. Skemmtilegt er að segja frá því að einn leiðbeinandinn, pólsk kona, fór í gegnum raunfærnimat fljótlega eftir að hafa lokið námi í Landnemaskólanum. Hún upplifði að hafa öðlast það mikið sjálfstraust í gegnum skólastarfið og samskipti við aðra þátttakendur að hún þorði að láta slag standa og reyna fyrir sér í raunfærnimati, sem tókst síðan ljómandi vel hjá henni.
Þegar rætt er við þátttakendur Landnemaskólans eru þeir almennt mjög ánægðir. Þeir eru sérstaklega ánægðir með vettvangsferðirnar sem farið var í. En þátttakendur fóru meðal annars í sveitaferð og fengu að sjá aðstæður á íslenskum sveitabæ og um leið að upplifa íslenska náttúru og kynnast því hvað er sérstakt við hana. Að sjálfsögðu endaði dagurinn á íslenskri kjötsúpu.
Verkstjóri á einum vinnustaðnum sem fólkið kom frá, sagði frá því hvað honum fannst frábært þegar starfsfólkið var virkilega að nota færnina sem það fékk á námskeiðinu. Þá hafði einn pólskur starfsmaður komið til hans og beðið um frí. Dregið svo fram íslensku orðabókina sína og sagt: „Ég þarf frí til að fara í bílpróf!“
Sérstök matarhátíð var haldin þar sem þátttakendur elduðu íslenska rétti og gafst tækifæri til þess að smakka og fá jafnframt ofurlitla innsýn í íslenska matarmenningu. Síðasta kvöldið tóku félagar í kvenfélaginu að sér að grilla lambakjöt með öllu tilheyrandi. Þátttakendur á námskeiðinu lögðu einnig sitt af mörkum og komu með eftirrétti frá heimalandi sínu.