- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Norrænt tengslanet um nám fullorðinna

Norrænt tengslanet um nám fullorðinna (NVL) er áætlun á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar þar sem lögð er áhersla á nýsköpun, miðlun og árangur á sviði fullorðinsfræðslu. Netið var í upphafi í flokki verkefna en frá og með árinu 2015 telst það til áætlana til jafns við Nordplus menntaáætlunina. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) hefur vistað NVL á Íslandi frá því að netið var sett á laggirnar. Samningur um tengslanetið gildir til loka ársins 2017 og er greinarhöfundur fulltrúi Íslendinga í netinu. Norræna embættismannanefndin um menntamál og rannsóknir (EK-U) hefur tilkynnt að samningur um starf NVL verði endurnýjaður fyrir árin 2018–2022.

Fjölbreytt starf

Í móðurneti NVL sitja fulltrúar frá öllum norrænu löndunum auk tengiliða frá Færeyjum, Grænlandi og Álandseyjum ásamt framkvæmdastjóra, verkefnastjóra og vefstjóra. Auk þess starfrækir NVL fjölda annarra tengslaneta undir stjórn og ábyrgð fulltrúa landanna. Í undirnetunum eru sérfræðingar og fulltrúar stofnana og samtaka sem spanna vítt svið sem tekur meðal annars til læsis, menntunar fanga, raunfærnimats, náms- og starfsráðgjafar og nets til að efla færni kennara sem kenna fullorðnum. Netin eru ýmist viðvarandi, eins og DISTANS og sérfræðingahópur um náms- og starfsráðgjöf og raunfærnimatsnetið eða tímabundin, líkt og færniþróun í atvinnulífinu og raunfærnimat í alþýðufræðslu. NVL hvetur til þverfaglegs samstarfs á milli ólíkra tengslaneta, stofnar til nýrra sérfræðinganeta og eflir framlag þeirra til norræns samstarfs. Hér verður greint frá því helsta í starfi tengslanetsins á Íslandi á árinu 2017.

NVL móðurnet

NVL móðurnetið hefur á fyrstu 10 mánuðum ársins haldið tvo sameiginlega fundi. Tengiliður Íslands hefur sótt þá alla. Fund í Osló í mars sátu einnig stjórnendur þeirra stofnana sem vista NVL á Norðurlöndunum, auk fulltrúa landanna í sérstökum verkefnum sem lúta að fræðslu fullorðinna á vegum Evrópusambandsins (European Agenda for Adult Learning). Næsti fundur, sá þriðji á árinu, verður haldinn í tengslum við formennskuráðstefnu Norðmanna í Bergen um miðjan nóvember. Fjórði og síðasti fundurinn verður í Helsinki í byrjun desember.

Skýrsla frá neti um færniþróun í atvinnulífinu

Fulltrúi Íslands hefur haft umsjón með tengslaneti sem sinnir verkefni um færniþróun í atvinnulífinu. Í netinu sitja fulltrúar fræðsluaðila, launþega og atvinnurekendasamtaka á Norðurlöndunum. Markmið verkefnisins er að varpa ljósi á hindranir sem geta staðið í vegi fyrir þróun hæfni í atvinnulífinu og efla og auka skilvirkni og samspil formlegrar menntunar og náms sem fram fer á vinnumarkaði. Netið hélt tvo fundi árinu. Skýrsla með niðurstöðum var birt og kynnt á þremur viðburðum á vordögum í Osló, í Þórshöfn á Færeyjum og í Reykjavík. Fleiri kynningar eru í undirbúningi haustið 2017.

Verkefni um almenna starfshæfni

Höfundi var falið að leiða nýtt samstarfsverkefni norrænu ráðherranefndarinnar og NVL um almenna starfshæfni (no. grunnleggende ferdigheter i og for arbeidslivet). Tveir fundir voru haldnir til undirbúnings, verklag er ákveðið á þann hátt að vinnuhópi með fulltrúum landanna var komið á laggirnar. Vinnuhópurinn skipuleggur starfið og þrjá samræðufundi. Á samræðufundina verður sérfræðingum frá löndunum á því sviði sem ræða á um boðið. Hlutverk fræðimannanna er að leggja fræðilegan grundvöll að umræðunum á samræðufundunum og skjalfesta þar. Draga saman og skrifa áfangaskýrslu eftir hvern fund og síðan lokaskýrslu að öllum þremur afloknum. Það sem af er ári 2017 hafa verið haldnir tveir fundir með vinnuhópi og einn samræðufundur.

Starfið á Íslandi

Fundur fulltrúa frá Íslandi

Haldinn var fundur allra fulltrúa Íslands í undirnetum NVL og vinnuhópum ásamt framkvæmdastjóra NVL í febrúar. Þar miðluðu fulltrúar upplýsingum um starfsemi sinna hópa og greindu frá helstu áherslum í starfinu. Síðan NVL var komið á laggirnar hafa þess háttar fundir verið haldnir á Íslandi árlega. Fulltrúar í netunum hafa verið þakklátir fyrir að fá betri yfirsýn yfir starfsemi annarra neta og telja að samlegðaráhrif jákvæð. Af þessu hafa sprottið hugmyndir af samstarfsverkefnum á milli neta.

Námskeið um náms- og starfsráðgjöf í atvinnulífinu

Dagana 19.–20. október 2017 stóðu, NVL, Starfsmennt, EPALE og Euroguidance og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins fyrir námskeiði um náms- og starfsráðgjöf í atvinnulífinu – Worklife guidance. Leiðbeinandi var Teea Oja frá Oulu í Finnlandi. Hún hefur unnið sem náms- og starfsráðgjafi með einstaklingum og hópum, þróað aðferðir og fjölbreytt verkfæri sem nýta má í ráðgjöf en hún hefur tekið þátt í fjölda verkefna er snúa að slíkri þróun. Teea hefur þjálfað náms- og starfsráðgjafa, kennara, stjórnendur og lykilstarfsmenn í ráðgjöf. Á námskeiðinu var fjallað um leiðir til að ná tengingu við fyrirtækin og þjálfun og fræðslu til lykilstarfsmanna um hvernig nýta megi aðferðir og verkfæri ráðgjafar, á vinnustöðum, með það að markmiði að hvetja starfsmenn til hæfniþróunar. Um 50 manns sóttu námskeiðið en auk ráðgjafa og verkefnastjóra símenntunarmiðstöðva voru námsog starfsráðgjafar frá Vinnumálastofnun og Virk og fræðsluog mannauðsstjórar frá opinberum stofnunum.

Hæfnistefna til hvers?

Hæfnistefna til hvers? er yfirskrift ársfundar Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sem haldinn verður 30. nóvember 2017. Fundurinn er haldinn í samstarfi við NVL. Aðalfyrirlesari verður Gina Lund, framkvæmdastjóri Færnistofnunarinnar í Noregi (Kompetanse Norge) sem kynnir vinnu við mótun hæfnistefnu Norðmanna sem og stefnuna sjálfa. Hægt er að skoða stefnu Norðmanna hér. Fulltrúum atvinnulífsins, fyrirtækja og fræðsluaðila verður boðið að taka þátt í panelumræðum um þörf fyrir að móta slíka stefnu fyrir Íslendinga. Eins og hefð er fyrir þá verða veittar viðurkenningar til fyrirmynda í námi fullorðinna

DialogWeb og fréttabréf NVL

Eitt mikilvægasta verkefni NVL er að miðla upplýsingum um verkefni, aðferðir og aðgerðir er varða fullorðinsfræðslu á Norðurlöndunum. Á heimasíðu NVL, www.nvl.org, eru upplýsingar um starfsemi NVL. Þar er líka veftímaritið DialogWeb, nýjar greinar birtast í hverri viku. Höfundur er einnig fulltrúi Íslendinga í ritstjórn þess. Hún hefur reglulega skrifað greinar í ritið og miðlað upplýsingum um það sem efst er á baugi og varðar fræðslu fullorðinna á Íslandi. Á þriðja þúsund áskrifendur hvaðanæva að á Norðurlöndum fá í hverjum mánuði glóðvolgar fréttir af því sem efst er á baugi í menntamálum hvers norrænu landanna, 11 sinnum á ári. Það er í þremur útgáfum, á finnsku, íslensku og skandinavísku málunum (dönsku, norsku og sænsku). Hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfinu á vefnum http://nvl.org/Nyheter með því að smella þar á hnappinn „Abonnera på Nyhetsbrev“ og fylla út umsóknarform.

Sigrún Kristín Magnúsdóttir

Sigrún Kristín Magnúsdóttir er sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Hún er ritstjóri Gáttar og stýrir viðburðum á vegum FA. Sigrún Kristín hefur lokið BA-prófi frá
Háskóla Íslands, MSc.-prófi í stjórnsýslu ferðamála frá University of Massachusetts og kennsluréttindum frá Kennaraháskóla Íslands. Hún hefur sinnt ýmsum störfum við menntun og fræðslu fullorðinna um þriggja áratuga skeið.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi