- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Stórfelldar breytingar

Myndin sem Dominic Barton, forstjóri alþjóðafyrirtækisins McKinsey, dró upp í fyrirlestri hér á landi á dögunum var skýr. Fyrirsjáanlegar breytingar á vinnumarkaði eru ekkert annað en bylting. Fyrirtækið hefur að beiðni stjórnvalda í Kanada metið áhrif þess sem kallað hefur verið fjórða iðnbyltingin á vinnumarkaðinn þar í landi. Sú greining nær til 18 milljóna starfa. Niðurstaðan er að innan 15 ára megi búast við að 40% starfanna verði sjálfvirknivædd. Störfin eru af öllu tagi – líka þau sem nú krefjast langrar formlegrar menntunar. Barton talaði í fyrirlestrinum um hættu á rofi í samfélaginu ef við förum ekki að horfast í augu við þær samfélagslegu áskoranir sem þessu fylgja og undirbúa hvernig við bregðumst við.

Heillandi er að velta fyrir sér stóru spurningunum sem kvikna: Hvernig munum við skipta þeim störfum sem verða eftir og hinum sem verða til, Hvernig deilum við þeim gæðum sem skapast í æ sjálfvirknivæddari fyrirtækjum, Hver verða áhrifin á samfélagið, fjölskyldur og einstaklinga?

Umfang breytinganna er þvílíkt að það þýðir ekki fyrir okkur að bregðast við með okkar íslenska „þetta reddast“. Vissulega verða til ný störf í byltingunni, við þurfum að greina hvernig störf það verða, hvaða hæfni þau munu krefjast.

Sjálfvirknibylting er ekki bara hafin, heldur er hún komin vel á leið. Sem dæmi á hún sér stað í fiskvinnslu á Íslandi víða um land. Þar eru sjálfkeyrandi lyftarar sem flytja kassa sem vélmenni stafla á bretti og skurður og frágangur á hráefni er sjálfvirkur. Hver sem fer í banka sér líka strax merki um þessa sjálfvirkni. Þar sem áður voru nokkrir gjaldkerar er nú einn starfsmaður sem leiðbeinir við tæki sem afgreiða og svo er víðar, allir þekkja líka netverslunina.

Ljóst er að það mun ekki nægja til undirbúnings að gerbreyttri framtíð að beina fræðslu og menntun um hana einungis að ungmennum í skólum. Hlutverk skóla verður þó áfram afar mikilvægt, að kenna grunn sem dugar í síbreytilegum heimi.

Menntun til nýrra starfa hlýtur hins vegar í auknum mæli að flytjast inn í fyrirtækin þar sem breytingarnar verða. Fyrirtæki eru og þurfa að vera námsstaðir. Sú hugsun skilar okkur áleiðis. Henni fylgir jafnframt að við skiljum það að allir læra til starfa í vinnu og þurfa að halda því áfram alla starfsævina.

Hugsuninni fylgir einnig að fyrirtæki taki ábyrgð á þjálfun síns fólks til nýrra starfa og að til sé umgjörð í samfélaginu sem nær utan um þá menntun sem aflað er í starfi og með óformlegum hætti, þannig að hægt sé að byggja á þekkingu, styrkleikum og áhuga einstaklinga þegar störf breytast. Í samráði aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda þarf að móta hæfnistefnu fyrir íslenskt samfélag. Hún þarf að taka til allrar menntunar hvar sem hennar er aflað.

Hlutverk Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, FA, er að vera samstarfsvettvangur fyrir aðila á vinnumarkaðarins bæði hins opinbera og almenna um fullorðins- og starfsmenntun á íslenskum vinnumarkaði. Hún hefur í samstarfi við starfsmenntasjóði og samstarfaðila sína verið fararbroddi við að þróa hæfnigreiningar starfa. Á hæfnigreiningum og skipulegri skráningu þekkingar er hægt að þróa þekkingu og hæfni einstakra starfsmanna, eins og þegar er byrjað að gera í ákveðnum atvinnugreinum. Starf FA að þessu er afar mikilvægt í þeirri framtíð sem við þurfum alltaf að horfa til.

Ég hef verið í stjórn FA í rúmlega tíu lærdómsrík ár. Á þessum áratug hafa lokist upp fyrir mér margar víddir menntunar. Framundan eru afar spennandi tímar. Ég er þess fullviss að FA mun gegna veigamiklu hlutverki við að undirbúa íslenskt atvinnulíf fyrir framtíðina.

FA, starfsfólki og samstarfsaðilum fylgja óskir mínar um að í þeirra starfi verði lögð lóð sem dugi vel á þá vogarskál að ekki verði hér rof í samfélaginu í þeim stórfelldu breytingum sem framundan eru.

Guðrún Eyjólfsdóttir

Guðrún Eyjólfsdóttir er fráfarandi formaður stjórnar SA og verkefnisstjóri hjá Samtökum atvinnulífsins.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi