- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Þróttur – nám fyrir starfsfólk íþróttamannvirkja

Aukin fagþekking – styrkari staða

Þróttur er námsleið ætluð til að styrkja starfsfólk íþróttamannvirkja í starfi, auka faglega þekkingu þess og bæta verkferla. Miðað er að því að mæta síauknum kröfum sem gerðar eru til þessa hóps hvað varðar móttöku ólíkra hópa viðskiptavina, allt frá skólabörnum, til ferðamanna, eldri borgara og fólks með ólíkar fatlanir sem allir sækja þjónustu íþróttamannvirkja. Þá er vonast til að aukin fagþekking skili sér í bættum vinnubrag og starfsánægju, geri starfsmönnum fært að þróa starfshæfni sína og þjónustu enn frekar ásamt því að draga úr starfsmannaveltu. Námið á einnig að gefa innsýn í vaxandi möguleika afþreyingariðnaðarins og mikilvægi frístunda í lífi borgaranna og ræða hvernig efla megi þá þjónustu enn frekar til almannaheilla.

Grunnurinn skiptir öllu

Kjölur, stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu, hafði frumkvæði að gerð námsleiðar fyrir starfsfólk íþróttamannvirkja í samstarfi við stjórnendur Akureyrarbæjar árið 2010. Fræðslusetrið Starfsmennt var fengið til að halda utan um námshönnunina og var ákveðið að byrja á greiningarvinnu með stjórnendum og almennu starfsfólki íþróttamannvirkja á svæðinu til þess að skoða hverjar fræðsluþarfir hópsins væru og þróa grunn að námskrá upp úr því. Í fæstum tilfellum er gerð krafa um menntun þegar ráðið er í störf við íþróttamannvirki og eru flestir starfsmenn því með stutta formlega skólagöngu að baki. Formleg vinna hófst svo árið 2011 með því að kanna jarðveginn hjá bæjarfélögum um mikilvægi náms af þessu tagi. Meginverkefni voru skilgreind og að hausti sama ár hófst undirbúningsvinna og þarfagreining af fullum krafti. Fundað var með stjórnendum allra íþróttamannvirkja á Akureyri, sundlauga, íþróttahúsa, og skíðasvæðis, auk fulltrúa frá bæjarskrifstofum og rætt um þörf slíkrar námsleiðar, mögulegt fyrirkomulag og áhersluþætti. Unnið var náið með starfsfólki Akureyrarbæjar og Kjalar, stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu en Starfsmannafélag Reykjavíkur og Akraness komu einnig að þessari vinnu. Síðar sama ár voru rýnihópafundir haldnir með þátttöku starfsfólks víðs vegar af Norðurlandi, sex starfsmönnum íþróttamannvirkja Akureyrarbæjar og fimm fulltrúum íþróttamannvirkja á Sauðárkróki, Ólafsfirði, Dalvík, Borgarnesi og Siglufirði. Í hópunum voru jafn margir fulltrúar starfsmanna og stjórnenda enda afar mikilvægt að sjónarmið og áherslur beggja hópa kæmu fram við þessa vinnu.

150 stundir – 24 námskeið

Afurð verkefnisins, 150 stunda námskrá með 24 sjálfstæðum námskeiðum sem taka á ólíkum þáttum starfsins, lá svo fyrir í lok árs 2011.

Náminu er skipt upp í fjórar lotur sem endurspegla þær áherslur sem fram komu í greiningarferlinu. Fyrsta lotan Samskipti og sjálfstyrking tekur á samskiptum, bæði innan vinnustaðar og við viðskiptavini á fjölbreyttan hátt, ásamt því að vinna að bættu sjálfstrausti og -öryggi starfsmanna. Meðal þess sem fjallað er um er mikilvægi liðsheildar, góðrar þjónustu og umburðarlyndis gagnvart ólíkum gestum og samstarfsmönnum.

Í annarri lotu, Samskipti við skóla, er fjallað um þá snertifleti sem eru á samstarfi íþróttamannvirkjanna við grunnskóla en í mörgum tilfellum sækja nemendur íþróttatíma og ýmsa afþreyingu til þeirra. Í greiningarvinnunni kom í ljós að starfsmenn töldu talsvert vanta upp á þekkingu í samskiptum við nemendur og skýrara verklag í samskiptum við grunnskóla. Meðal þess sem farið er yfir er hvar mörkin liggja í samskiptunum, þ.e. hvað er á ábyrgð kennara/skóla og hvað á ábyrgð starfsmanna íþróttamannvirkja. Einnig var sett inn fræðsla um agastjórnun og hvernig þekkja megi einkenni ólíkra greininga ásamt því að fjalla um birtingarmyndir eineltis svo starfsmenn gætu af öryggi stigið inn í ef þeir teldu þess þörf.

Þriðja lotan Starfið og starfsumhverfið snýr meira að vinnustaðnum sjálfum þó einhver skörun sé við umfjöllunarefni fyrstu lotu. Hérna er til dæmis farið yfir áhrif vaktavinnu, fjallað um sérstöðu íþróttamannvirkja og tengingu við afþreyingar- og ferðaþjónustu en hátt hlutfall erlendra og innlendra ferðamenn sækja sundlaugar landsins heim á hverju ári. Í þessari lotu eru einnig námskeið sem snúa að skipulagi starfsins.

Í fjórðu lotu eru svo Önnur námskeið sem mikilvægt var að hafa með en áttu ekki heima í hinum lotunum þremur. Þarna má m.a. nefna veðurfræði enda bæði sundlaugar og skíðasvæði oft háð duttlungum veðurguðanna og því getur komið sér vel að hafa skilning á veðurkortum og spám. Þarna er einnig tölvufræðsla sem og erlend tungumál sem skipta stöðugt meira máli með fjölgun ferðamanna.

Samskipti og sjálfsstyrking
  • Sjálfsstyrking og starfsánægja
  • Að efla liðsheild og hópavinnu
  • Ég og sveitarfélagið – Ímyndarnámskeið
  • Þjónustustjórnun • Að eiga við erfiða gesti
  • Að takast á við breytingar
  • Einelti á vinnustað
  • Fjölmenning og siðir
Samskipti við skóla
  • Samskipti við skóla – Hvar liggja mörkin?
  • Agastjórnun – Frávik, greiningar og sérþarfir
  • Samskipti við ólíka hópa: börn, unglinga, aldraða og fatlaða
  • Einelti í skólum
Starfið og starfsumhverfið
  • Vinnuumhverfi – Starfsleiði og áhrif vaktavinnu
  • Ábyrgð og sérstaða starfsins
  • Tímastjórnun og forgangsröðun
  • Viðburðastjórnun – Námskeið fyrir stjórnendur • Öryggi og áföll – Viðbrögð við áföllum á vinnustað • Frístundir og afþreying
Önnur námskeið
  • Veðurfræði – Örnámskeið
  • Tungumál – Enska fyrir atvinnulífið, talmál
  • Hreinsitækni – Snyrtilegt umhverfi og ræsting – Meðhöndlun efna
  • Tölvur og tölvuvinnsla
  • Sjálfsvörn – Grunnatriði í líkamlegri sjálfsvörn

Þar sem þarfir hverrar stofnunar fyrir sig geta verið ólíkar er gert ráð fyrir að námskeiðin séu sniðin að þeim þegar þess er þörf. Þá er sérstaklega átt við verkleg námskeið sem snúa að verkferlum og verkefnum innan hvers vinnustaðar, s.s. hreinsitækni. Námskeiðið Samskipti við skóla – Hvar liggja mörkin? er einnig þess eðlis að mikilvægt er að vinna með samstarfsstofnunum, þeim grunnskólum sem senda nemendur til íþróttamannvirkjanna hverju sinni ef það á að skila tilætluðum árangri.

Fyrsta rennsli lokið á Akureyri

Eftir að námskrá lá fyrir ákvað Akureyrarbær að Þróttur yrði hluti af símenntunaráætlun þeirra starfsmanna sem starfa innan íþróttamannvirkja bæjarins, íþróttahúsa, sundlauga og skíðasvæða. Kennsla hófst vorið 2012 og lauk fyrsta rennsli námskrárinnar í upphafi árs 2017.

Til þess að fylgjast með framgangi verkefnisins hafa reglulega verið haldnir stöðufundir með stýrihópi sem var skipaður í upphafi af stjórnendum og almennum starfsmönnum íþróttamannvirkja, ásamt fulltrúum frá Akureyrarbæ, Kili, stéttarfélagi og Fræðslusetrinu Starfsmennt. Niðurstöður þeirra funda hafa verið jákvæðar, starfsmenn almennt ánægðir með innihald og framsetningu námskeiða og stjórnendur talið þau nýtast fólki beint í starfi og því ekki verið talin þörf á að breyta framsetningu námskrárinnar.

Sérstök ánægja hefur verið með þau námskeið sem lúta að samskiptum við grunnskólana enda var það ljóst strax við þarfagreiningu að þar væri mikil þörf á fræðslu, skýrari verkferlum og samskiptum milli stofnana. Eins var mikil ánægja með sjálfsvarnarnámskeið og starfsmenn lýstu því að þeir teldu sig mun öruggari í starfi en áður en í rýnihópum kom fram að fólk upplifði sig oft berskjaldað gegn gestum sem geta verið ofbeldisfullir og jafnvel undir áhrifum áfengis og lyfja. Þá hafa þátttakendur verið beðnir að fylla út kennslumat á vef Starfsmenntar í lok hvers námskeiðs og hafa niðurstöður þess verið með svipuðu sniði.

Það er því ljóst að mikilvægt er að nálgast fræðsluna og starfið frá ólíkum hliðum þess og huga að mörgu fleiru en í fyrstu blasir við.

Bergþóra Guðjónsdóttir

Bergþóra Guðjónsdóttir er verkefnastjóri hjá Fræðslusetrinu Starfsmennt.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi