- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

ValiGuide – hvað er það?

Undanfarin ár hefur þróun á raunfærnimati verið hröð og þörfin fyrir fræðslu og þjálfun þeirra sem fást við matið aukist að sama skapi.

Raunfærnimat

Vinna með þróun mats á færni fullorðinna, bæði formlegri og óformlegri, til þess að styrkja samstarf fullorðinsfræðsluaðila og atvinnulífsins hefur notið forgangs á Norðurlöndum. Af sögulegum ástæðum hefur verið rík og löng hefð fyrir fullorðinsfræðslu, virku þríhliða samstarfi og síðast en ekki síst hafa stjórnmálamenn og yfirvöld í auknum mæli beint athygli að félagslegri aðlögun á síðustu tímum. Til eru vísar sem benda til þess að þeim einstaklingum, sem ekki hafa lokið námi á framhaldsskólastigi og innflytjendum, gagnist raunfærnimatið best. Í kerfum landanna fyrir raunfærnimat eru ýmis atriði ólík en því er alls staðar aðallega beitt til þess að mæta þörfum einstaklinga fyrir sérsniðna menntun og til þess að veita fólki betri möguleika á vinnumarkaði. Einstaklingurinn er í brennipunkti í ferlinu en það telst jafnframt vera námsferli sem er valdeflandi og auðveldar aðlögun.

Verkefnaþrenning

NVL hefur beitt sér fyrir þróun raunfærnimats allt frá því að NVL hóf starfsemi árið 2005 en í kjölfarið var norrænt sérfræðinganet um raunfærnimat eitt af fyrstu undirnetunum sem komið var á laggirnar sama ár. Sérfræðinganetið hefur með stuðningi frá Nordplus voksen unnið að þremur verkefnum á sviði raunfærnimats. Haukur Harðarson ásamt Fjólu Maríu Lárusdóttir eru sérfræðingar hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og fulltrúar Íslendinga í sérfræðinganetinu. Grundvöllurinn var í raun lagður verkefni sem Nordplus styrkti og bar yfirskriftina Gæði í raunfærnimati á Norðurlöndum – kortlagningarverkefni. Í stað þess að bera saman vinnuna við raunfærnimat í löndunum völdum við að leggja áherslu á fyrirmyndardæmi, sameiginlegar áskoranir og hindranir fyrir vinnu að gæðum í raunfærnimati. Næsta verkefni var hrint í framkvæmd vegna þess að í ljós kom mikill áhugi á að tryggja gæði raunfærnimatsins á Norðurlöndum. Þrátt fyrir að það sé afar ólíkt á milli landanna hvernig raunfærnimatið er skipulagt og það hafi mismunandi sess og að staðið sé að raunfærnimatsferlinu á ólíkan hátt er eining um að efla beri gæðin. Skýrslan um það verkefni ber titilinn Gæðalíkan fyrir raunfærnimat á Norðurlöndunum. Á meðan við vorum að móta gæðalíkanið varð ljóst hve mikilvægt það er að þeir sem koma að raunfærnimatinu geri það á faglegan hátt og þess vegna var þriðja og síðasta verkefninu hrint í framkvæmd.

Eitt verkefni, tvær afurðir

Verkefnið með yfirskriftinni Færniprófílar og færniþróun starfsfólks sem kemur að raunfærnimati – kortlagningaverkefni 2014–2015 leiddi af sér tvær afurðir. Annað er skýrsla með sama nafni og hitt er vefurinn ValiGuide. Í skýrslunni er farið yfir árangur verkefnisins og þar er meginþáttum verkefnisins lýst: Kortlagning á verkefnum, hlutverkum og færniprófílum þeirra sem koma að mati á raunfærni.

  • Greining á þörf fyrir færniþróun þeirra sem koma að mati á raunfærni.
  • Samantekt áskorana og ráðlegginga er snerta aðgerðir til færniþróunar matsaðila.

Eflir beitingu raunfærnimats

Verkefnið í heild hefur styrkt beitingu raunfærnimats bæði á norrænum vettvangi jafnt og í löndunum sjálfum. Jafnframt hefur það leitt til þess að fagmennska matsaðila hefur aukist og þar með hefur hæfni þeirra til að takast á við verkefnin, sem felast í mati á óformlegri og formlegri færni, eflst.

Í verkefninu eru einnig kortlögð verkefni þeirra sem koma að mati á raunfærni eða hafa áhuga á að vinna með raunfærni, þar eru hlutverkin skjalfest og færniprófílar lagðir fram og jafnframt er greind þörf fyrir færniþróun. Þess vegna var ákveðið að gera líka ValiGuide.

Valiguide, leiðsögn um raunfærnimat

ValiGuide er rafrænn vettvangur ætlaður þeim sem koma að mati á raunfærni og ritstjórar síðunnar eru Svante Sandell, fulltrúi Svía í NVL og Haukur Harðarson. Markmiðið með ValiGuide er ekki aðeins að stuðla að aukinni fagmennsku í raunfærnimatsferlinu heldur jafnframt í hverju þrepi ferilsins og um leið stuðla að styrkingu mats á óformlegri og formlegri færni fullorðinna. Í ValiGuide er boðið upp á úrval efnis, ráðgjöf og ráðleggingar þeirra sem koma að matinu. ValiGuide á að veita innblástur, miðla þekkingu og reynslu og þar með stuðla að færniþróun á Norðurlöndunum öllum. Athyglinni er beint að framkvæmdinni með lýsingu á ferlinu í heild, greiningu, skjalfestingu, mati og vottun.

Viltu vita meira?

Á síðunni má finna yfirlit yfir gagnlegar greinar um raunfærnimat, skýrslur, leiðbeiningar bæði norrænar og evrópskar og einnig frá hverju landanna fimm. Óhætt er að mæla með ValiGuide við alla sem hafa áhuga á mati á raunfærni. Vefurinn er aðgengilegur og gagnlegur, getur bæði nýst þeim sem þegar hafa reynslu af raunfærnimati en ekki síður þeim sem hafa hug á að vinna við raunfærnimat.

ValiGuide:

Veitir á innblástur

  • Styður færniþróun í norrænu löndunum.
  • Beinir athyglinni að því hvernig staðið er að mati á raunfærni.
  • Eflir þekkingu á þeim áskorunum sem geta komið fram í ferlinu. Samstarfsaðilar í verkefninu Færniprófílar og færniþróun þeirra sem koma að mati á raunfærni – kortlagning.

Framkvæmdaraðili:

VIA háskólinn í Danmörku

Aðrir samstarfsaðilar:

Savo, starfsmenntun í Finnlandi Vox, norska færniþróunarstofnunin Starfsmenntastofnunin í Svíþjóð
Fræðslumiðstöð atvinnulífsins

Haukur Harðarson

Haukur Harðarson er sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð
atvinnulífsins síðan 2008. Helstu verkefni hans tengjast raunfærnimati og greiningarvinnu.

Sigrún Kristín Magnúsdóttir

Sigrún Kristín Magnúsdóttir er sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Hún er ritstjóri Gáttar og stýrir viðburðum á vegum FA. Sigrún Kristín hefur lokið BA-prófi
frá Háskóla Íslands, MSc.-prófi í stjórnsýslu ferðamála frá
Háskólanum í Massachusetts og kennsluréttindum frá Kennaraháskóla Íslands. Hún hefur sinnt ýmsum störfum við
menntun og fræðslu fullorðinna í nær þrjá áratugi.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi