- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

VISKA – nýtt Evrópuverkefni um aukinn sýnileika á starfshæfni innflytjenda

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) og IÐAN-fræðslusetur taka þátt í nýju þriggja ára verkefni sem Erasmus+, mennta-, æskulýðs- og íþróttaáætlun Evrópusambandsins styrkir. Í verkefninu, sem ber heitið VISKA (Visible Skills of Adults), er ætlunin að stuðla að aðgengilegu raunfærnimatskerfi til að auka sýnileika á starfshæfni innflytjenda. Verkefnið heyrir undir aðgerðaáætlun 3 (Key action 3) sem veitir styrki í verkefni þar sem þróaðar eru nýjungar í menntamálum í alþjóðlegu samstarfi og er ætlað að hafa stefnumótandi áhrif. Heildarfjármagn til verkefnisins er 1,8 milljónir evra sem dreifist á fjögur þátttökulönd sem eru auk Íslands: Belgía, Írland og Noregur sem leiðir verkefnið. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og IÐANfræðslusetur stýra verkefninu hér á landi fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytisins og var það Rannís sem hafði umsjón með mótun þess. Verkefnið hófst í febrúar síðastliðinn og mun ljúka í febrúar 2020.

VISKA er tilrauna- og rannsóknarverkefni sem miðar að því að þróa tæki, undirbúa og framkvæma stefnumótandi tilraun þar sem stuðlað er að heildrænu og aðgengilegu raunfærnimatskerfi fyrir markhóp þess. Markhópurinn er aðallega innflytjendur og flóttafólk auk einstaklinga sem ekki hafa lokið formlegri menntun á framhaldsskólastigi. Áhersla er lögð á að þróa viðmið og aðferðir til að draga fram og meta þekkingu, leikni og hæfni fullorðinna, sérstaklega með markhópinn í huga. (1,2,3) VISKA beinir jafnframt sjónum að því forgangsatriði að gera yfirfæranlega færni (e. transversal skills/ transferable skills) einstaklingsins, svo sem persónulega og sérhæfða færni sýnilega svo að hún nýtist sem best. Þetta á einnig við um færni sem aflað er utan hins formlega skólakerfis, til dæmis starfsreynslu, nám á netinu, sjálfboðastörf og annars konar óformlegt nám.(4) Í VISKA verkefninu er lögð áhersla á þörfina til að skapa sameiginleg viðmið fyrir mat á færni á alþjóðavísu til að auðvelda hreyfanleika vinnuafls.

Í verkefninu verður unnið að fimm meginþáttum:

  1. Þróa og efla tengslanet hagsmunaaðila í sveitarfélögum og á landsvísu (stefnumótendur, aðilar vinnumarkaðarins og fagfólk sem vinnur með raunfærnimat/mat á færni).
  2. Þróa og/eða aðlaga verkfæri sem nýtt eru við mat á færni, með rafræna miðla og einstaklingsnálgun í huga, til að nýta með sérstökum markhópum og tryggja gæði raunfærnimatsferlisins.
  3. Skapa sameiginleg viðmið fyrir skráningu og mat á yfirfæranlegri færni fyrir fjölbreytta markhópa (innflytjendur og/eða fólk með litla formlega menntun).
  4. Þjálfun og/eða færniuppbygging fyrir náms- og starfsráðgjafa og aðra fagaðila sem koma að raunfærnimati með ákveðna markhópa í huga.
  5. Bæta aðgengi að og þekkingu á mati á færni og þeirri þjónustu og stuðningi sem í boði er með áherslu á ákveðna markhópa.

Meginþættirnir miða að því að efla starfshæfni innflytjenda með því að draga fram og meta færni þeirra og auka þar með möguleika á að fá störf við hæfi og hlúa að félagslegri aðlögun. Þessar áherslur eru í fullu samræmi við þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2016–2019(5) . Þar segir meðal annars að Alþingi álykti að tryggja eigi innflytjendum jafna stöðu og tækifæri til náms, meta eigi þekkingu þeirra og reynslu og gera ferli þar að lútandi einfaldari. Í framkvæmdaáætluninni eru sett fram markmið sem starfshópar á vegum velferðarráðuneytisins, innanríkisráðuneytisins, mennta- og menningarmálaráðuneytisins, innflytjendaráðs og Vinnumálastofnunar munu vinna að á tímabilinu. Þar á meðal eru starfshópar sem eiga meðal annars að stuðla að:

  • einföldun og samræmingu á verklagi við mat á menntun þar sem áhersla er lögð á að raunfærnimat nýtist innflytjendum,
  • jöfnum tækifærum og réttindum innflytjenda á vinnumarkaði og að þeim bjóðist aukin tækifæri til endurmenntunar og starfstengds náms, 5 Þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2016–2019. Sótt af netinu 29.08.17, https://www.althingi.is/altext/ 145/s/1692.html
  • fræðslu og ráðgjöf um réttindi og skyldur og helstu upplýsingar um íslenskt samfélag, þar á meðal upplýsingar um atvinnutækifæri, húsnæðismál, íslenskukennslu og menntun almennt (fyrir flóttafólk).

Stofnaður hefur verið innlendur samráðshópur fyrir verkefnið sem samanstendur af fulltrúum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, velferðarráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitafélaga, Vinnumálastofnun, Rauða krossinum og Leikn, samtökum fullorðinsfræðsluaðila á Íslandi. Samráðshópurinn hefur ráðgefandi hlutverk í verkefninu og styður við framþróun þess sem og stefnumótun byggt á þeim lærdómi sem það gefur af sér. Eitt af markmiðum samráðhópsins er að tengja sérstaklega saman VISKA verkefnið og vinnu starfshópa framkvæmdaáætlunar um málefni innflytjenda til að nýta samlegðaráhrif. Tengiliður verkefnisins fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytisins er Ólafur Grétar Kristjánsson. Allir samstarfsaðilar í löndunum fjórum vinna saman að heildarþróun verkefnisins en bera samhliða ábyrgð á ákveðnum verkþáttum. Norðmenn sjá um verkefnastýringu. Írar hafa umsjón með rannsóknarhluta þess í gegnum stöðumat, gagnasöfnun meðan á tilraunahluta stendur og úrvinnslu úr heildarniðurstöðum. Belgar sjá um að upplýsingum um verkefnið og niðurstöður þess sé miðlað á ýmsa vegu. Hlutverk FA og Iðunnar eru eftirfarandi: Fræðslumiðstöð atvinnulífsins vinnur að sameiginlegri skilgreiningu landanna á yfirfæranlegri færni (transversal skills) og mun sjá um þróun á tækjum og aðferðum sem verða nýtt í tilraunahluta verkefnisins. Stefnt er að því að þróa viðmið fyrir yfirfæranlega færni til að nýta við skráningu á færni og í raunfærnimat. Í því skyni er lögð áhersla á að skráningartækið sé í formi sjálfsmats sem hægt er að vinna með á netinu. Þróaðir verða ferlar fyrir þjónustuaðila (ráðgjafa, verkefnastjóra og matsaðila) og unnið að heildrænum gæðaþáttum sem stuðla að sýnileika á hæfni einstaklingsins. Jafnframt verður skilgreind færni þjónustuaðila og þróuð þjálfun fyrir þá. IÐAN fræðslusetur tekur að sér að prófa matstækin sem FA þróar með 50 einstaklingum. Markhópurinn eru innflytjendur og flóttafólk sem hyggst starfa í bygginga- og mannvirkjagreinum eða matvæla- og ferðaþjónustugreinum. Ætlunin er að hópurinn fari í gegnum fyrsta og annað skref raunfærnimatsins (kortlagningu og skráningu á færni) og að þeir sem eigi erindi fari í fullt raunfærnimatsferli (mat og viðurkenning). IÐAN hefur komið á laggirnar bakhópi sem í sitja fulltrúar atvinnurekenda- og launþegasamtaka frá bæði byggingar- og mannvirkjagreinum sem og matvæla- og ferðaþjónustugreinum. IÐAN sér jafnframt um innri gæðamál í verkefninu. Í verkefninu hefur verið unnið að því að greina núverandi stöðu í málaflokknum og draga fram mynd af þeirri stöðu sem æskilegt er að stefna að. Afurðirnar, ferlin og prófun á þeim í tilraunahluta þess munu draga fram gagnlegan lærdóm og niðurstöður koma til með að veita upplýsingar fyrir stefnumótun landanna í málaflokkunum í kjölfar VISKA verkefnisins. Sjá nánar um verkefnið á vefsíðu þess: www.viskaproject.eu

Neðanmálsgreinar

  1. New skills agenda for Europe, COM (2016)
  2. Council recommendation on validation of non-formal and informal learning (2012)
  3. Greining á þjónustu við flóttafólk (velferðarráðuneytið, innanríkisráðuneytið og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands)
  4. Council conclusions Rethinking Education (2013)
  5. Þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2016–2019. Sótt af netinu 29.08.17, https://www.althingi.is/altext/ 145/s/1692.html

Fulltrúar samstarsaðila þátttökulanda í VISKA verkefninu á fyrsta fundi í Osló.
Arnheiður Gígja Guðmundsdóttir

Arnheiður Gígja Guðmundsdóttir hefur starfað sem sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins síðan 2012. Hún hefur lokið MA-prófi frá Háskóla Íslands í náms- og
starfsráðgjöf, diplóma í sama fagi frá Háskólanum í Þrándheimi í Noregi, BA-prófi í uppeldis- og menntunarfræði og hefur kennsluréttindi frá HÍ. Gígja starfaði áður hjá Mímisímenntun sem náms- og starfsráðgjafi og einnig í grunnog framhaldsskólum. Helstu verkefni hennar hjá FA tengjast náms- og starfsráðgjöf í atvinnulífinu og raunfærnimati.

Fjóla María Lárusdóttir

Fjóla María Lárusdóttirhefur starfað sem sérfræðingur hjá FA frá árinu 2003 en vann áður sem náms- og starfsráðgjafi hjá Menningar- og fræðslusambandi alþýðu og Mími-símenntun. Hún hefur lokið M.Sc.-prófi í náms- og starfsráðgjöf frá California State University á Long Beach og B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands. Helstu verkefni hennar tengjast þróunarmálum og verkefnastjórnun á vettvangi framhaldsfræðslunnar með áherslu á náms- og starfsráðgjöf fyrir fullorðna og raunfærnimat.

Helen Gray

Helen Gray hefur starfað hjá IÐUNNI-fræðslusetri frá 2005 sem sérfræðingur á sviði menntamála. Hún er með MA-próf í menntunar- og uppeldisfræði frá Háskóla Íslands, með
kennsluréttindanám frá sama skóla og BS-próf í næringarrekstrarfræði frá Háskólanum í Umeå í Svíþjóð. Helstu verkefni Helenar snúa að þróunarverkefnum, bæði innlendum og
erlendum, á sviði iðnmenntunar.

Rakel Steinvör Hallgrímsdóttir

Rakel Steinvör Hallgrímsdóttir hefur starfað sem námsog starfsráðgjafi hjá IÐUNNI fræðslusetri frá árinu 2011 en vann m.a. áður í þrjú ár hjá Mími símenntun. Hún er með
MA-próf í náms- og starfsráðgjöf frá Háskóla Íslands og B.Ed.-próf frá Kennaraháskóla Íslands. Helstu verkefni Rakelar tengjast ráðgjöf, raunfærnimati og kynningu á þeim málaflokkum innan fyrirtækja.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi