- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Að meta hæfni í atvinnulífinu

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) stóð fyrir námsferð í apríl 2018 til að afla þekkingar á framkvæmd raunfærnimats í atvinnulífinu í Svíþjóð. Námsferðin var að hluta til fjármögnuð með styrk frá Erasmus+ KA1 – menntaáætlun ESB. Auk sjö starfsmanna FA fóru sex fulltrúar stjórnar FA í ferðina. Hér á eftir fer samantekt á helstu áherslum úr kynningum þeirra aðila sem heimsóttir voru.

Raunfærnimat í atvinnulífinu – staðan í Svíþjóð

Landsskrifstofa fagháskóla (Myndigheten för Yrkeshögskolan) var tengiliður vegna heimsóknarinnar í Svíþjóð. Landsskrifstofan hefur það hlutverk að greina þarfir atvinnulífsins fyrir fagháskólanám og styðja við þróun þess. Hún hefur jafnframt haft umsjón með þróun raunfærnimats á landsvísu í gegnum árin og vann nýlega að því að móta viðmið og leiðbeiningar fyrir raunfærnimat í atvinnulífinu. Viðmiðin eru unnin samkvæmt beiðni yfirvalda í samstarfi við Landsnefndina um raunfærnimat

(Valideringsdelegationen) sem er skipuð fyrir árin 2015–2019. Í viðmiðunum eru kynntar aðferðir, gagnlegar leiðir og verkfæri sem starfsgreinar geta valið úr. Áhersla er lögð á mikilvægi þess að vanda til verka við þróun hæfniviðmiða og framkvæmd raunfærnimats. Samtals eru um 25 raunfærnimatslíkön til innan starfsgreina í Svíþjóð.

Hér á eftir fara nokkur dæmi sem kynnt voru í námsferðinni. Dæmin eiga það sameiginlegt að hver grein stýrir sínu raunfærnimatskerfi og haldið er utan um þau miðlægt í samstarfi við aðra aðila. Framkvæmdaaðilar greiða fyrir afnot af gögnum og renna þær greiðslur í uppfærslu og viðhald á kerfinu.

Raunfærnimat í verslun – dæmi

Atvinnurekendur innan verslunargeirans komu á laggirnar Verslunarráði (Handelsrådet) sem vinnur að fimm áhersluþáttum. Einn þeirra er störf og hæfni. Í Svíþjóð hefur um fjórðungur fólks starfsferil sinn í verslun og þjónustu. Því er sá vettvangur mikilvægur inngangur inn á vinnumarkaðinn. Sumir álíta að fólk eigi að geta gengið inn í störfin af götunni en atvinnurekendur eru ekki á því. Í greininni er þörf á ákveðinni hæfni.

Verslunarráðið hefur útbúið stutt myndbönd sem ætluð eru ungu fólki sem hefur áhuga á greininni. Jafnframt hefur það hafið kortlagningu á störfum innan geirans og þeirri hæfni sem hann þarfnast. Þessa hæfni vill ráðið kynna og hefur sett fram vefsíðuna yrkerkarten.se í því skyni. Ljóst er að miklar tæknibreytingar eru fram undan sem mun meðal annars hafa í för með sér aukna vinnu án eiginlegs vinnustaðar og að tæknin taki jafnframt yfir ákveðin störf. Sérfræðiþekking mun verða mikilvægari. Á heimasíðu Verslunarráðsins má finna samantekt á helstu áskorunum í þessu samhengi sem unnar hafa verið með rannsakendum á sviðinu.

Nýtt raunfærnimatskerfi í verslun og þjónustu, sem hefur verið í þróun síðustu fjögur ár, hefur nú verið tilraunakeyrt. Því er lýst í kynningarmyndbandi sem er aðgengilegt á heimasíðu Verslunarráðsins. Í ferlinu er byrjað á því að kortleggja færni starfsmannsins með spurningalista, síðan tekur við 360 gráðu mat (þar sem yfirmaður og tveir samstarfsmenn svara spurningum um færni viðkomandi) og áhorf í starfi (observation). Matið tekur um þrjá daga og er framkvæmt rafrænt. Það miðar mikið að persónulegri færni (soft skills) og skiptist í átta flokka. Fjórir aðilar úr atvinnulífinu koma að matinu. Niðurstöðurnar eru kynntar í kóngulóarvef til að bera saman niðurstöður matsaðila og starfsmanns. Færnin er vottuð með skjali sem lýsir færni á fjórþættum skala: afmörkuð færni, grunnþekking, fagþekking, sérfræðiþekking. Umsjónaraðili matsins fær sérstaka þjálfun og þeir fræðsluaðilar sem sjá um matið þurfa að vera með vottaðan umsjónarmann á sínum vegum.

Mynd 1. Raunfærnimatskerfi Verslunarráðsins í Svíþjóð

Vonin er að þetta kerfi geti nýst við þjálfun og sem grunnur í starfsmannasamtölum. Með því hefur færnin verið skilgreind á mælanlegan hátt og útbúnar leiðir til að gera hana sýnilega. Í kjölfarið er hægt að skipuleggja sameiginlega áframhaldandi færniþróun.

Raunfærnimat í ferðaþjónustu – dæmi

Samtök fyrirtækja í ferðaþjónustu – VISITA eru tengd um 6000 fyrirtækjum. VISITA vinnur meðal annars að uppbyggingu hæfni innan ferðaþjónustunnar og hefur umsjón með raunfærnimatskerfi í samstarfi við Fræðsluráð hótel- og veitingarstaða (Utbildningsradet för hotell och restauranger – UHR) og Stéttarfélag starfsmanna í hótel- og veitingagreinum (Hotell och Restaurang Facket – HRF).

Umsjónaraðili kerfisins er UHR menntun ehf. Kerfið fór af stað árið 2015 og býður upp á raunfærnimat í fjórum störfum: þjónustu, matreiðslu, móttöku og hótel- og ráðstefnuhaldi. Matið getur farið fram á sænsku, ensku og arabísku. Það tekur um 11 daga, veitir vottorð um starfshæfni og dregur fram þörf fyrir menntun. Í boði er bæði raunfærnimat á móti viðmiðum atvinnulífsins eða á móti námskrá. Vonir standa til að viðmið atvinnulífsins verði hluti af námskrá.

Raunfærnimatið hefst með kortlagningu á færni og sjálfsmati (6–8 klst). Ef nægileg færni er til staðar tekur við praktískt mat sem fer fram á veitingastað með gestum (ekki skólaeldhúsi). Gefið er út eins konar starfsvottorð sem lýsir þeirri færni sem er til staðar, hvaða færni þurfi að bæta við og á hvaða þrepi, þ.e. hvort viðkomandi sé fær um að vinna sem kokkur eða aðstoðarkokkur svo dæmi sé nefnt. Í kjölfarið getur starfsmaðurinn farið í viðbótarnám eða þjálfað viðbótarfærni í gegnum starfið. Ef viðkomandi uppfyllir öll viðmið fær hann sveinsprófsskírteini. Matsaðilinn þarf að hafa að baki sex ár í faginu, vera virkur í því og hafa tengingu inn á veitingastað. Matsaðilar fá sérstaka þjálfun hjá UHR sem ber jafnframt ábyrgð á gæðum. UHR getur afturkallað leyfi framkvæmdaraðila ef gæðum er ábótavant. Um 500 manns hafa farið í gegnum í kerfið síðan 2014. Af þeim hafa 200 stoppað eftir kortlagningar- og sjálfsmatshlutann, 300 hafa lokið praktíska matinu og fengið skírteini og 100 af þeim hafa fengið sveinsprófsskírteini (fullt hús).

Fast track“, sem er raunfærnimatskerfi fyrir innflytjendur, hefur verið til í matvælanámi frá 2015. Það er aðferð til að koma innflytjendum sem fyrst í starf. Þeim stendur til boða að fara í raunfærnimat á sínu tungumáli (einkum arabísku og ensku). Áhersla er á starfshæfni, ekki hæfni í sænsku. Um 98% af þeim sem fara í gegnum raunfærnimatið eru atvinnuleitendur og koma frá Vinnumálastofnun.

Raunfærnimat í fasteignaumsjónargeiranum – dæmi

FAVAL – Menntanefnd fasteignaumsjónargeirans  (Fastighetsbranschens  Utbildningnämnd) er í eigu vinnumarkaðarins. Það er sjálfstætt fyrirtæki sem er ekki hagnaðardrifið. FAVAL hefur þróað og haldið uppi raunfærnimatskerfi síðan 2011. Skortur var á starfsfólki í geiranum og ekki til nein formleg menntun fyrr en eftir 2011. Hér er því um að ræða raunfærnimat sem styðst við námskrá þó viðmiðin séu upprunnin úr atvinnulífinu. Þau eru yfirfarin reglulega af atvinnulífinu. Yfir 100 einstaklingar hafa nú farið í gegnum kerfið en það er nú í örum vexti. Það tekur tíma að gera það sjálfbært. Í dag eru þrír starfsmenn sem halda utan um kerfið. Utanumhald um rafræna hlutann, spurningabanka og umsjón vegna rafræna hluta kerfisins hefur verið aðkeypt frá fyrirtækinu Mappas.

Markhópur kerfisins er fólk sem vinnur við fasteignaumsjón. Þrjár mismunandi brautir eru til: fasteignaumsjón, fasteignatækni og fasteignastjórnun. Mest hefur verið metið í fasteignatækni sem er nám á sama þrepi og nám iðnaðarmanns í íslenska hæfnirammanum.

Fyrirtæki eru sífellt að fá meiri áhuga á kerfinu, þá sérstaklega til að taka stöðuna á þekkingu starfsmanna, finna þekkingargöt og bæta í þau. Starfsmaðurinn verður að samþykkja að fyrirtæki fái aðgengi að upplýsingum um hann að loknu raunfærnimati. Oft þarf litlu að bæta við þekkingu til að viðkomandi standist viðmiðin að fullu. Á niðurstöðuskjali kemur fram hvaða færniþætti viðkomandi hefur staðist en til hliðar eru listaðir þeir þættir sem viðkomandi stóðst ekki. Ef viðkomandi stenst alla þætti fær hann skírteini. Þeir sem hafa lokið raunfærnimatinu eru eftirsóttir starfskraftar á vinnumarkaði. Fyrir einstakling kostar ferlið 8.000–9.000 SEK.

FAVAL þjálfar matsaðila og hefur eftirlit með gæðum. Framkvæmdaaðilar verða að geta boðið upp á fræðslu á þeim sviðum sem metið er í og geta leiðbeint um niðurstöður matsins. Matsaðilar eru sérfræðingar frá bæði atvinnulífi og skólakerfi.

Ferlið er í þremur hlutum (sjá nánar hér):

  1. Sjálfsmat/skimun inn í raunfærnimat
  2. Fræðileg nálgun (fjölvalsspurningum svarað í tölvu)
  3. Verklegt mat

Dæmi um rafræn raundæmi í verklegu mati:

  • Taka út íbúðir eftir leigu og gera verk- og kostnaðaráætlun vegna viðhalds.
  • Skipuleggja vinnuviku með tilliti til veðurfars.
  • Hvernig á að svara símtölum frá leigjendum varðandi vandamál.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins er nú í desember að hefja vinnu við tilraunaverkefni til að þróa raunfærnimat í atvinnulífinu í samstarfi við hagsmunaaðila. Unnið verður að þróun mats í þremur starfsgreinum (4–5 störfum) þar sem aðkoma fyrirtækja er lykilatriði.

Ljóst er að margar hugmyndir er hægt að sækja í smiðju Svía bæði hvað varðar umgjörð og fyrirkomulag matsins þannig að það geti staðið sem sjálfbært kerfi sem stuðlar að auknum sýnileika og þróun hæfni á vinnumarkaði.

Fjóla María Lárusdóttir

Fjóla María Lárusdóttir hefur starfað sem sérfræðingur hjá FA frá árinu 2003 en vann áður sem náms- og starfsráðgjafi hjá Menningar- og fræðslusambandi alþýðu og Mími-símenntun. Hún hefur lokið M.Sc.-prófi í náms- og starfsráðgjöf frá California State University á Long Beach og B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands. Helstu verkefni hennar tengjast þróunarmálum og verkefnastjórnun á vettvangi framhaldsfræðslunnar með áherslu á náms- og starfsráðgjöf fyrir fullorðna og raunfærnimat.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi