Í umræðu um menntun á Íslandi hefur eitt helsta þrástefið verið áhyggjur af lágu hlutfalli íslenskra ungmenna sem ljúka framhaldsskólanámi á tilsettum tíma (sjá t.d. Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2014). Þessar áhyggjur hafa þó dvínað samhliða því að komið hefur í ljós að á Íslandi ljúka hlutfallslega fleiri framhaldsnámi á þrítugsaldri eða síðar en í nokkru öðru OECD-landi (OECD, 2018). Tveir doktorsnemar við Menntavísindasvið HÍ vinna nú að rannsóknum á hindrunum og námshvata fólks sem sækir sér menntun og viðurkenningu á kunnáttu sinni.
Að átta sig á eigin kunnáttu og möguleikum
Í rannsókn Hildar Bettyar Kristjánsdóttur „Hvaða ávinningi skilar raunfærnimat einstaklingum í lífi og starfi“ voru tekin viðtöl við einstaklinga sem höfðu farið í gegnum raunfærnimat á árunum 2007–2013 og lokið formlegu námi í framhaldinu. Í viðtölunum var kannað hvort raunfærnimat í starfsnámi hafi sýnt að fólk án framhaldsskólamenntunar hafi þróast í starfi og hvaða áhrif slík uppgötvun hefur haft á sjálfsmat viðkomandi og hvort raunfærnimatið hafi hvatt fólk til frekari náms.
Alls voru tekin 19 viðtöl við tíu karlmenn og níu konur sem höfðu farið í raunfærnimat í iðngreinum og starfsnámi. Viðtalsformið sem stuðst var við í þessari rannsókn eru hálfopin viðtöl og leitast var eftir því að þátttakendur segðu lífssögu sína og hvaða þýðingu starfsreynsla og raunfærnimat hefði fyrir þá. Alheit bendir á að einstaklingar skrifi sína eigin lífssögu sjálfir. Ný tækifæri gefi þeim möguleika á að breyta henni og um leið til að þróast og þroskast innan samfélagsins (Alheit, 2009).
Þátttakendur í rannsókninni eiga það sameiginlegt að þeir líta ekki á sig sem brotthvarfsnemendur. Ýmsar ástæður komu í veg fyrir að þeir luku ekki formlegu námi t.d. fjölskylduaðstæður, erfið skólaganga, þunglyndi s.frv. Það sem einkennir þá er að þeir hafa áralanga starfsreynslu á vinnumarkaði, hafa unnið við ýmis störf og verið duglegir að leita sér þekkingar, spyrja spurninga og læra af öðrum. Þeir hafa fengið aðild að starfssamfélögum á vinnustað sínum, sem og á heimili og í félagsstörfum (Lave og Wenger, 1991). Slík aðild hefur verið samfelld og ríkur hluti í lífi þeirra.
Þátttakendur áttuðu sig á eigin þekkingu og færni við að fara í raunfærnimat. Fyrir suma nægði þessi uppgötvun eða viðurkenning en flestir nýttu þó raunfærnimatið til að sækja það nám sem þá vantaði til að ljúka lokaprófi í sinni iðn eða starfsnámi. Þarna hafði mikilvæg reynsla þeirra á vinnumarkaði verið metin á móti námskrá í framhaldsskóla og þá var ekki aftur snúið. Niðurstöður raunfærnimatsins leiddu til þess að áhugahvötin vaknaði hjá þátttakendum sem aftur leiddi til þess að þeir fóru í nám og luku því. Sumir tóku bóklegu greinarnar í símenntunarmiðstöð en faglegu greinarnar í framhaldsskóla.
Það skipti verulegu máli að meðan á raunfærnimatinu og náminu stóð fengu þátttakendur ríka hvatningu frá fjölskyldu, vinum, náms- og starfsráðgjafa, kennurum ásamt stuðningi frá vinnuveitanda. Þetta er í samræmi við niðurstöður alþjóðlegra rannsókna, þ.e. að ein helsta forsenda þess að starfsþróun geti átt sér stað er að hvatning komi frá því umhverfi og samfélagi sem einstaklingurinn tilheyrir (Illeris, 2007).
Við raunfærnimat birtist mannauður sem áður var hvorki viðurkenndur né skjalfestur og því ill- eða ósýnilegur. Í viðtölum og greiningu komu fram rík áhrif raunfærnimatsins á sjálfsmynd, sjálfstraust og félagslega stöðu þátttakenda. Sumir þátttakendur lýstu því að það væri auðveldara að koma skoðunum sínum á framfæri, þeir væru fyrirmynd annarra og öruggari í starfi að loknu námi.
Nýr lífskafli – loksins fullorðin
Í rannsókn Ingibjargar Jónsdóttur Kolka, „Reynsla ungs fólks af framhaldsskólanámi“ voru tekin 23 viðtöl við einstaklinga sem sneru aftur í framhaldsskóla í gegnum átaksverkefni Vinnumálastofnunar 2011 sem hét Nám er vinnandi vegur. Það verkefni fólst í því að styðja atvinnulaust fólk til þess að hefja aftur nám og fékk það atvinnuleysisbætur fyrsta árið í námi og niðurfelld skólagjöld.
Notuð er lífssöguleg rannsóknaraðferð (Witzel og Reiter, 2012) sem felst í opnum, óstöðluðum viðtölum þar sem reynt er að fá sögur fólks af ákveðnu tímabili í lífi sínu út frá afmörkuðum þemum. Sérstaklega er spurst fyrir um upplifun fólks af framhaldsskólanámi og rætt um skólasögu þeirra.
Eftirfarandi samantekt byggist á lífssögum níu þátttakenda, fimm kvenna og fjögurra karla, sem öll eru fædd 1984–1988 og voru því 23–27 ára þegar þau tóku þátt í verkefninu. Þau eru ólík innbyrðis og ástæður atvinnuleysis eru ólíkar.
Ástæður brotthvarfs úr námi eru námsleiði, þunglyndi og vanlíðan í skóla, ýmis frávik eins og ADHD og dyslexía, fjárhagur, veikindi eða óregla heima fyrir, sem og barneignir, einkum þegar konur eiga í hlut.
Flest þeirra lýsa því hvernig þeim fannst þau vera föst í láglaunastarfi, atvinnuleysi eða einhvers konar tómi þar sem þau vildu ekki vera. Þau lýsa því öll að tilboðið um að snúa aftur til náms í verkefninu Nám er vinnandi vegur hafi markað tímamót í sínu lífi, jafnvel að þá hafi lífið byrjað. Þau voru komin yfir tvítugt, sum að nálgast þrítugt og gerðu sér grein fyrir því að miðað við aldur væru þau komin á fullorðinsár en þeim fannst þau ekki vera orðin fullorðin og ekki búin að ljúka því sem þau ætluðu að hafa lokið þegar þau yrðu fullorðin.
Allir þessir þátttakendur, eins ólíkir og þeir eru, segjast hafa fengið tækifæri til þess að stjórna lífi sínu með þessari þátttöku og móta sjálfir framtíð sína. Þessi hópur fékk aðgang að menntun sem hann hafði talið lokaðan og margir tala um hvatninguna og stuðninginn sem fólginn var í þessu tækifæri. Þrátt fyrir að þátttakendurnir hafi einungis fengið fjárhagslegan stuðning í 1–3 annir, nægði sá stuðningur mörgum þeirra til þess að halda áfram og ljúka stúdentsprófi eða styttri námsleiðum og sumir hafa farið áfram í háskólanám og lokið því, aðrir eru enn í námi.
Margir þátttakandanna höfðu stundað ýmis störf sem þeir vildu ekki gera að framtíðarstörfum og sáu möguleika til þess að breyta því. Oft voru þetta illa launuð afgreiðslu- og þjónustustörf þar sem þeir voru á lægstu töxtum enda flestir ófaglærðir. Þannig hafði það verið fyrir hrun á meðan talað var um að hér ríkti góðæri og mikil velmegun. Hrunið færði þeim svo þetta gullna tækifæri sem þau nýttu.
Allir þátttakendur áttu það sameiginlegt að sjálfstraust þeirra jókst. Margir þeirra komust að því að þeir gátu lært og fengu jafnvel einkunnir sem þau höfðu ekki séð fyrr á skólagöngu sinni. Þetta sjálfstraust hefur áhrif á næstu kynslóðir því það var samdóma álit allra sem áttu börn að sjálfstraust og sjálfsmynd þeirra hefði mikil áhrif á hvernig þeir ælu upp börnin sín og tækjust á við allt sem viðkemur skólagöngu þeirra. Þetta var reyndar líka samdóma álit þeirra sem ekki áttu börn. Sumir þátttakendur lýsa því hvernig þeir hafa haft áhrif á systkini sín, frændsystkini og vini sína. Og þeir segja jafnvel frá breyttum viðhorfum foreldra sinna í kjölfar þessara breytinga. Þessi stuðningur hefur því haft góð áhrif á miklu fleiri en það fólk sem naut hans á sínum tíma.
Umræða
Þessar tvær rannsóknir skoða lífssögur tveggja hópa sem eru líkir að því leyti að þeir hafa ekki lokið framhaldsskóla en snúa nú aftur í nám eða fá metið hvað þeir hafa lært í starfi. En þeir eru um margt ólíkir, ekki síst á þann veg að annar hópurinn hefur í starfi lært ýmislegt sem hægt er að meta til náms en hinn hópurinn telur sig ekki hafa lært mikið í sínum láglaunastörfum. Staða beggja hópa markast bæði af hindrunum og tækifærum og samspil þeirra er um margt ólíkt því sem gerist meðal annarra OECD-landa. Tiltölulega stærri hópur hefur hrakist úr framhaldsskólum á Íslandi en fleiri og betri tækifæri hafa boðist á íslenskum vinnumarkaði. Þannig hefur brotthvarf úr framhaldsskóla almennt aðra lífssögulega merkingu á Íslandi en brotthvarf í þeim löndum þar sem annars vegar er meiri opinber fjárhagsstuðningur og hins vegar er ekki um jafn mikil tækifæri á vinnumarkaði að ræða fyrir ófaglært ungt fólk.
Mikil ásókn í raunfærnimat á Íslandi sýnir að oft getur námslöngun vaknað á fullorðinsárum þar sem próflaust fólk hefur lært í starfi innan starfssamfélaga. Námslöngun getur líka kviknað meðal þeirra sem á unglingsárum drógust ekki að skólanum en frekar að opnum vinnumarkaði. Rannsóknir okkar sýna að nokkrum árum síðar eru margir úr þessum hópi farnir að líta skólanám jákvæðari augum, ekki síst til að eiga kost á meira gefandi vinnu, starfsframa og þokkalegum tekjum.
Íslensk ungmenni eru ekki sér á parti að því leyti að stór hluti þeirra finnur ekki beina braut til fullorðinsára heldur á sér síbreytilegar lífsleiðir fram á tvítugs- og þrítugsaldur. Svipaðar tilhneigingar er einkum að finna á meðal annarra vesturevrópskra landa (Gestur Guðmundsson, 2015, Elín Sif Welding o.fl., 2017). Sérstaða Íslands er annars vegar sú að á margan hátt er minni stuðningur við unglinga á framhaldsskólaaldri og hins vegar eru meiri tækifæri á vinnumarkaði ófaglærðra.
Heimildir
Alheit, P. (2009). Biographical learning – within the new lifelong learning discourse. Í Knud Illeris (Ritstj.), Contemporary theories of learning: Learning theorists … In their own words (bls. 116–128). London: Routledge.
Elín Sif Welding Hákonardóttir, Sif Einarsdóttir, Arnheiður Gígja Guðmundsdóttir og Gestur Guðmundsson (2017). Aðgengi fullorðinna að námi á framhaldsskólastigi: Stofnana- og aðstæðubundnar hindranir á menntavegi. Tímarit um uppeldi og menntun 26:1–2, 65–86.
Gestur Guðmundsson (2015). Vegferð til fullorðinsaldurs. Alþjóðlegar fræðahefðir og erindi þeirra við íslenskar rannsóknir. Uppeldi og menntun 24:2, 9–32.
Illeris, K. (2007). How we learn: learning and non-learning in school and beyond. London: Routledge.
Lave, J. og Wenger, E. (1991). Situated learning: Legitimate peripheral participation. Cambridge UK: Cambridge University Press.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið (2014). Hvítbók um umbætur í menntun. Reykjavík: Mennta- og menningarráðuneytið.
OECD (2018), Education at a Glance: OECD Indicators, OECD Publishing, Paris. http://dx.doi.org/10.1787/ eag-2018-en
Witzel A. og Reiter, H. (2012). The Problem-centred Interview. Principles and practice. London: Sage Publications.