- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Framhaldsfræðsla á tímamótum

Árið 2018 er 16. starfsár Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) og áttunda ár starfseminnar þar sem byggt er á lögum um framhaldsfræðslu nr. 27/2010. Unnið hefur verið að styrkingu innra starfs FA með ýmsum hætti á árinu, meðal annars með því að koma stefnu FA í framkvæmd og einnig var endurmenntunaráætlun starfsmanna hrint í framkvæmd. Þá hefur verið unnið að úrbótum á vinnuaðstöðu starfsmanna og nauðsynlegum breytingum á húsnæði FA í Skipholti 50b. Mjög endurbætt útgáfa af náms- og starfsfræðsluvefnum NæstaSkref.is var birt í ársbyrjun 2018 sem var mikið fagnaðarefni.

Núverandi þjónustusamningur við mennta- og menningarmálaráðuneytið tók gildi í ársbyrjun 2016 og gildir út árið 2021. Samningurinn byggir á lögum um framhaldsfræðslu sem ætlað er að mæta þörfum einstaklinga með stutta formlega skólagöngu. FA sinnir markhópnum ekki með beinum hætti heldur í gegnum samstarfsaðila sína sem eru fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar innan Kvasis, IÐUNNAR fræðsluseturs, Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins í iðngreinum og Starfsmenntar fyrir opinbera vinnumarkaðinn. Alls eru þetta 14 fræðsluaðilar sem jafnframt eru samstarfsaðilar Fræðslusjóðs.

Starfsáætlun FA er gerð fyrir hvert ár en hún byggir á þjónustusamningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið og er lögð fyrir það til samþykktar. Fyrir árið 2018 var unnin starfsáætlun með nýju sniði þar sem lögð er áhersla á verkefni og afurðir. Unnið er að því að festa það form betur í sessi fyrir árið 2019. Í lok árs er gerð ársskýrsla sem skilað er til mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Sú skýrsla var einnig með nýju sniði fyrir árið 2017. FA vistar einnig tengilið Norræna netsins um nám fullorðinna sem kostað er af Norrænu ráðherranefndinni og í október 2017 var fest í sessi verkefnið Hæfnisetur ferðaþjónustunnar sem styrkt er af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Fjármögnun var þar með tryggð út árið 2020 en staðan metin þá af ráðuneytinu.

Allt þetta starf byggir á áralöngu samstarfi fræðsluaðila og FA sem hefur gefið góða raun eins og úttekt Capacent leiddi í ljós árið 2015. Hins vegar eru ýmis teikn á lofti um að framhaldsfræðslan hugi að nýjum leiðum í starfi sínu. FA skoðar stöðugt hvaða leiðir eru vænlegar í því skyni að gera starf framhaldsfræðslunnar enn skilvirkara. Meðal annars var haldið málþing um nýjar leiðir í framhaldsfræðslunni í september 2017 þar sem markmið og leiðir voru ræddar.

Hvaða ytri aðstæður kalla á nýja nálgun í framhaldsfræðslu? Í fyrsta lagi hefur stærð markhópsins, einstaklingar á vinnumarkaði án framhaldsskólamenntunar, dregist saman á undanförnum árum samkvæmt gögnum Hagstofunnar. Hópurinn er nú um 23% af fólki á vinnumarkaði á aldrinum 25–64 ára. Hópnum er hins vegar mjög misskipt milli landshluta, lægst er hlutfallið á höfuðborgarsvæðinu, 18%, en mun hærra á landsbyggðinni eða 32%. Þetta getur þýtt að nálgun við markhópinn þarf að vera með öðrum hætti á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni.

Í öðru lagi hefur vöxtur ferðaþjónustunnar á síðustu árum verið með ólíkindum mikill þó dregið hafi úr honum í ár, 2018. Við þessu brugðust aðilar vinnumarkaðarins, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið (ANR) og FA með stofnun og fjármögnun ANR á Hæfnisetri ferðaþjónustunnar sem er verkefni vistað hjá FA. Þar leikur FA stærra hlutverk en áður í aðstoð við fræðsluaðila, t.d. við markaðssetningu og í þróun aðferða sem nýtast í fræðslu í ferðaþjónustu. Áhersla er lögð á sérsniðnar lausnir sem henta hverju fyrirtæki og öll fræðsla er á forsendum fyrirtækjanna. Hugsanlega getur þetta líkan þjónað sem aðferðafræði í fræðslu í öðrum atvinnugreinum þar sem áhersla er á fræðsluþörf einstakra atvinnugreina með virkri þátttöku viðkomandi samtaka á vinnumarkaði. Þar er sveigjanleiki framhaldsfræðslunnar í lykilhlutverki. Markaðssetning fræðslu skiptir augljóslega miklu máli, atvinnulífið þarf að vita betur að framhaldsfræðslan hefur úrræði sem henta.

Í þriðja lagi er samfélaginu, meðal annars aðilum vinnumarkaðarins, tíðrætt um þær miklu breytingar á atvinnuháttum sem eru fram undan þar sem stafræna byltingin er í aðalhlutverki. Bæði formlega skólakerfið og framhaldsfræðslan munu eiga erfitt með að bregðast skjótt við þeim breytingum en framhaldsfræðslan hefur ákveðið forskot vegna sveigjanleika. Hvernig eiga skólakerfin að semja námskrár og hæfnigreina störf sem verða til á örskömmum tíma úti í atvinnulífinu? Hér er engin ein töfralausn til. Við í framhaldsfræðslunni höfum hins vegar lagt áherslu á mikilvægi svokallaðrar „mjúkrar“ hæfni meðal starfsmanna, t.d. aðlögunarhæfni, lausnamiðun o.fl. auk þess sem færa má rök fyrir þörf á aukinni grunnleikni, svo sem talnafærni og læsi. Fagtengda þjálfunin færi síðan að meginhluta fram í fyrirtækjum eða stofnunum þar sem breytingar á störfum eiga sér stað. Fræðsluaðilar geta aðstoðað fyrirtækin með þjálfunarráðgjöf, umsjón, gæðastýringu og annarri aðstoð. Bæði formlega skólakerfið og framhaldsfræðslan eiga ákveðin hlutverk í þessu ferli, rétt eins og er í dag. Hins vegar er nauðsynlegt að kerfin tali enn frekar saman og finni lausnir sem eru einfaldar frá sjónarhóli notenda.

Hæfnigreiningar starfa, raunfærnimat og sérsniðnar lausnir eru lykilatriði á þessu ferðalagi.

Aðalatriðið er að fá alla aðila til að vinna saman og tala sama tungumálið, tungumál hæfnirammans þar sem hæfni starfa og hvers kyns nám er sett á þrep. Það tungumál gerir ráð fyrir að öll hæfni sé metin, viðurkennd og vottuð óháð því hvar, hvenær og hvernig hennar er aflað.

Það eru því spennandi tímar og áskoranir fram undan í framhaldsfræðslunni.

Sveinn Aðalsteinsson

Sveinn Aðalsteinsson er framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi