- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Framhaldsfræðslan og íslenski hæfniramminn um menntun

Hæfnirammi um íslenska menntun hefur það markmið að endurspegla stigvaxandi hæfnikröfur í formlegu og óformlegu námi og varpa ljósi á þekkingu, leikni og hæfni sem krafist er að einstaklingar búi yfir við námslok. Íslenski hæfniramminn er tengdur evrópskum hæfniramma um menntun (EQF) sem einnig endurspeglar kröfur sem gerðar eru til einstaklinga um þekkingu, leikni og hæfni sem aflað er á ólíkum námsstigum. Hvert hæfniþrep er skilgreint út frá mismunandi viðmiðum eða hæfnikröfum sem eykur gagnsæi íslensks menntakerfis og ekki síður annarra menntakerfa innan Evrópu og auðveldar nemendum og starfsfólki flæði milli landa, hvort sem er til frekara náms eða nýrra starfa.

Íslenski hæfniramminn telur sjö þrep, hinn evrópski er hins vegar átta þrepa rammi. Fyrsta útgáfa íslenska rammans var birt árið 2014 en á þeim tíma náði ramminn aðeins til náms í formlega skólakerfinu. Á síðustu árum hefur þróun mála hér á landi og víða um Evrópu verið í þá átt að auka vægi og sýnileika óformlegs náms, auk þess að leita leiða til að tengja nám milli óformlegra og formlegra menntakerfa. Fljótlega eftir að fyrsta útgáfa hæfnirammans var birt lögðu framhaldsfræðsluaðilar ríka áherslu á að unnin yrði heildstæð endurskoðun á inntaki og uppbyggingu rammans. Í kjölfarið var óskað eftir tilnefningum frá hagsmunaaðilum og hófst þar með tveggja ára samráðsferli, undir stjórn Rannís, um heildstæðan hæfniramma þar sem sjónarmið ólíkra hagsmunaaðila voru tekin til greina.

Breyttur hæfnirammi

Fjölmargir framhaldsfræðsluaðilar settu mark sitt á endurskoðaðan hæfniramma um menntun og var uppfærð útgáfa hins íslenska hæfniramma samþykkt í október árið 2016. Þannig áttu fulltrúar stéttarfélaga og atvinnurekenda, starfsfólk Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og Iðunnar, auk fulltrúa nemenda og óháðra félagasamtaka, sinn þátt í að breyta áherslum rammans. Meginbreytingarnar fólu í sér nýja sýn á hæfniuppbyggingu einstaklinga og hvar menntunar væri aflað. Í uppfærðum hæfniramma er lögð áhersla á að menntun eigi sér ekki einungis stað innan formlegs skólakerfis, einstaklingar stunda einnig nám á vegum framhaldsfræðsluaðila, hjá símenntunarmiðstöðvum og á vettvangi óháðra fræðsluaðila. Nám og uppbygging hæfni og aukinnar þekkingar á sér einnig stað á vinnustöðum og í atvinnulífinu.

Að lokinni endurskoðun og víðtæku samráðsferli hagsmunaaðila var ákveðið að íslenski hæfniramminn yrði áfram 7 þrep en að þrepum 5 og 6, sem ná til bakkalárnáms og meistaranáms á háskólastigi, yrði skipt í undirþrep, 5.1. og 5.2. annars vegar og 6.1. og 6.2. hins vegar, til að skýra nánar ólíka hæfni sem námið leiðir til. Enn sem komið er nær starfsmenntun ekki hærra en upp á þrep 4 en hagsmunaaðilar í starfsmenntageiranum hafa þegar lýst yfir áhuga á að þróa námsleiðir með námslok á hærri þrepum. Nú gefst framhaldsfræðsluaðilum tækifæri til að undirbúa nýjar námsleiðir sem falla að markmiðum hæfnirammans en taka jafnframt mið af þörfum atvinnulífsins og áhuga fólks á námi utan hins formlega skólakerfis. Samhliða þessari þróun aukast möguleikar á raunfærnimati til muna.

Umsóknarferlið

Þegar horft er til nágrannaríkja okkar er tekið mið af því að nám, sem staðsett er á hæfniþrepi, taki að lágmarki eina önn. Fram að þessu hafa ekki verið sett fram sambærileg viðmið hér á landi en líklegt er að hugað verði að þeim þætti við frekari þróun íslenska hæfnirammans. Gera má ráð fyrir að framhaldsfræðsluaðilar taki ríkan þátt í þróunarvinnu til framtíðar þar sem lögð verður áhersla á samráð og að ólík sjónarmið þeirra sem vinna að þróun náms og styttri námsbrauta komi fram. Spurningunni um hvort námsframboð utan hins formlega skólakerfis verði allt fært á hæfniþrep í framtíðinni er hins vegar enn ósvarað.

Menntamálastofnun hefur umsjón með vottun námskráa í framhaldsfræðslu. Markmið með vottun námskráa er að tryggja gæði og gagnsæi náms í framhaldsfræðslu, staðfesta að námið uppfylli kröfur um inntak náms og hæfni nemenda að námi loknu í þeim tilgangi að tryggja samræmd viðmið við þróun og ritun námskráa. Fræðsluaðilar sem hyggjast bjóða upp á vottað nám sækja um til Menntamálastofnunar. Umsókninni þarf að fylgja lýsing á þeim hæfniviðmiðum sem nemendum er ætlað að ná að loknu námi. Fram til þessa hefur verið vandkvæðum bundið að ákveða á hvaða hæfniþrepi í rammanum tiltekin námsleið er. Það má einkum rekja til þess að ólíkir námsþættir innan tiltekinnar námsleiðar geta verið á ólíkum hæfniþrepum. Sem dæmi má nefna námsleið þar sem gert er ráð fyrir að við námslok búi einstaklingur yfir umtalsverðri hæfni í ákveðnu tungumáli en mun minni hæfni t.d. í stærðfræði. Fram til þessa hefur verið miðað við að námslok séu á því hæfniþrepi sem er mest viðeigandi jafnvel þó einstakir námsþættir falli betur að öðrum þrepum. Því er áríðandi að lýsingin á hæfniviðmiðunum sé nákvæm og rétt.

Til þess að auðvelda framhaldsfræðsluaðilum vinnu við umsókn um viðurkenningu á námslokum, sem sett verða á hæfniþrep, er nú unnið að rafrænni handbók um hæfnirammann fyrir námskrárgerð í framhaldsfræðslu. Gert er ráð fyrir að handbókin verði unnin í samvinnu þeirra sem starfa innan framhaldsfræðslu og að viðmið vegna vottunar námskráa með tilliti til hæfniþrepa verði skýr. Þessu til viðbótar hafa komið fram tillögur um að á prófskírteinum komi fram á hvaða hæfniþrepi námslok eru.

Evrópsk samvinna um hæfniramma

Í upphafi árs fól mennta- og menningarmálaráðuneyti Menntamálastofnun að taka við hlutverki landstengiliðs við evrópskan hæfniramma um menntun en undanfarin ár hefur ábyrgðin verið hjá Rannís. Menntamálastofnun mun hafa umsjón með áframhaldandi innleiðingu íslenska hæfnirammans. Ísland á fulltrúa í ráðgjafarnefnd um evrópskan hæfniramma en markmið þeirrar nefndar felst einkum í mótun sameiginlegrar stefnu innan Evrópuríkja um áframhaldandi þróun og innleiðingu hæfniramma þeirra ríkja sem taka þátt í samstarfinu, auk þess að vinna að meginmarkmiði ESB um óhindrað flæði Evrópubúa sem hyggja á nám eða störf innan ESB. Framkvæmdastjórn ESB hefur enn fremur sett upp vefgátt þar sem bera má saman hæfniþrep ólíkra landa sem ætlað er að auka gagnsæi og auðvelda samanburð á námsgráðum og námstækifærum milli landa. Jafningjafræðsla er reglulega í boði fyrir hagsmunaaðila en þar eru ólík viðfangsefni sem tengjast hæfnirammanum og innleiðingu hans tekin fyrir. Á síðasta ári var lögð áhersla á ýmsar hliðar raunfærnimats og má ætla að svo verði einnig í ár.

Á þeim 10 árum sem liðin eru frá því evrópski hæfniramminn (EQF) var settur á fót vorið 2008 hefur margt áunnist sem eykur skilning á ólíkum menntakerfum innan Evrópu. Þróunin heldur þó áfram í samræmi breytingar sem orðið hafa á síðustu árum á sviði menntunar og þjálfunar og þær áskoranir sem nútímasamfélög standa frammi fyrir.

Samstarf Evrópuríkja hefur verið ríkulegt á þessu 10 ára tímabili en ætla má að norrænt samstarf um verkefni tengd hæfniramma um menntun hafi skilað mestum árangri. Fulltrúar norrænu ríkjanna funda að jafnaði tvisvar á ári og fara yfir stöðu mála í hverju landi, megináskoranir og hvernig einstök verkefni hafa verið leyst. Það hefur reynst ómetanlegt að geta leitað til nágrannaþjóða eftir góðum ráðum en Ísland hefur einnig haft miklu að deila sem nýst hefur nágrönnum okkar.

Frekari upplýsingar um hæfnirammann.

Myndband um hæfnirammann um menntun.

Dóra Stefánsdóttir

Dóra Stefánsdóttir er sérfræðingur hjá Rannís og sér um evrópsku samstarfsverkefnin Europass og Euroguidance og tekur þátt í fleiri menntaverkefnum. Hún var annar umsjónarmaður verkefnis landstengiliðar evrópska hæfnirammans í þrjú ár og aðstoðar enn þá Menntamálastofnun við innleiðingu hans.

Ragnhildur B. Bolladóttir

Ragnhildur B. Bolladóttir er sérfræðingur á greiningarsviði Menntamálastofnunar og er meðal annars umsjónarmaður verkefnis landstengiliðar evrópska hæfnirammans. Þá hefur hún einnig umsjón með verkefnum sem snúa að framhaldsfræðslunni, svo sem vottun námskráa og viðurkenningum fræðsluaðila.

Sonja Dögg Pálsdóttir

Sonja Dögg Pálsdóttir starfar sem sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu á sviði háskóla- og vísindamála. Hún er fulltrúi Íslands í ráðgjafarnefnd um evrópskan hæfniramma.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi