- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Hæfnistefna – af hverju?

Undanfarin misseri hefur umræða um nauðsyn hæfnistefnu fyrir Ísland farið vaxandi og flestum ber saman um að móta þurfi skýra framtíðarsýn þegar kemur að mennta-, atvinnu- og vinnumarkaðsmálum. Breytingar í atvinnulífinu og á vinnumarkaði færa okkur í senn nýjar áskoranir og tækifæri, fyrir einstaklinga, fyrirtæki og samfélagið allt. Að auka hæfni á vinnumarkaði og gera hana sýnilega er megininntak hæfnistefnu, en mikilvægt er að hæfni sé í samræmi við þarfir atvinnulífsins og mögulega þróun í efnahagslífinu á komandi árum. Því er mikilvægt að ákveða hvert skuli stefna, setja markmið og hvaða aðferðum eigi að beita til að ná þeim. Með mótun slíkrar stefnu má koma Íslandi í fremstu röð hvað varðar menntun, verðmætasköpun og velferð.

Við mótun hæfnistefnu þarf að huga að mörgum þáttum. Tryggja þarf aðgengi fólks til framtíðar að þekkingardrifnum vinnumarkaði og þeim störfum sem þar verða til ásamt því að  skapa tækifæri til aukinnar menntunar og hæfni sem eykur framleiðni atvinnulífsins.

Menntun alla ævi

Leggja þarf áherslu á menntun alla starfsævina sem farið geti fram jöfnum höndum innan símenntunarmiðstöðva, fyrirtækja og skóla, þar sem samfella og samstarf mismunandi kerfa er tryggt. Sérstaklega þarf að tryggja að þeir einstaklingar sem minnsta formlega menntun hafa, njóti tækifæra til að styrkja stöðu sína svo þeir nái að fylgja örum breytingum á vinnumarkaði.

Greining og mat á tækifærum

Nauðsynlegt er að fyrir liggi góð þekking, greining eða mat á starfstækifærum innan einstakra faga, greina og starfssviða til nokkurra ára. Mótun hæfnistefnu kallar á umfangsmikla greiningu á vinnumarkaði þar sem færniþörf til framtíðar er metin. Með færnispám verða til mikilvægar upplýsingar sem nýtast við stefnumótun og ákvarðanatöku hjá stofnunum, stjórnvöldum og einstaklingum og gefa þar með betri mynd af þróun á vinnumarkaði og samspili við menntakerfið. Með þessum gögnum hefur löndum í kringum okkur meðal annars tekist að draga úr misræmi milli framboðs á menntun og starfa og draga úr brottfalli í skólum.

Markmið um samræmi milli eftirspurnar og framboðs á námi

Margar nágrannaþjóðir okkar hafa mótað sér hæfnistefnu með það að markmiði að tryggja að framboð á námi og fræðslu sé í samræmi við þarfir samfélagsins hverju sinni. Lögð er áhersla á að atvinnulífið taki virkan þátt í mótun hæfnistefnu og að þannig sé stuðlað að aukinni framleiðni, samkeppnishæfni og nýsköpun. Ef við berum okkur saman við nágrannalöndin þá skortir hér sérstaklega upplýsingar fyrir einstaklinga í atvinnuleit og við námsval. Einnig vantar upplýsingar fyrir fyrirtæki til stefnumótunar til skemmri og lengri tíma en þær verða enn mikilvægari sé horft til áskorana fjórðu iðnbyltingarinnar sem nú er hafin. Aukin samkeppni og aðlögun atvinnulífs er þegar farin að hafa áhrif og kortlagning hér á landi, yfir störf sem gætu horfið og ný störf sem gætu orðið til, er skammt á veg komin.

Huga þarf að mati á raunfærni innflytjenda

Fjöldi innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði hefur vaxið verulega á síðustu árum og eru þeir nú 12 – 13% af heildarfjölda launafólks. Menntun, færni og hæfni þessara einstaklinga er afar víðtæk. Sumir eiga erfitt með að fá hæfni sína metna á íslenskum vinnumarkaði og aðrir með litla formlega skólagöngu að baki eru í meiri hættu gagnvart svartri atvinnustarfsemi og félagslegum undirboðum. Leggja þarf áherslu á markvissa þjálfun og menntun fyrir innflytjendur með það að markmiði að gera þeim kleift að aðlaga sig að íslensku samfélagi og vinnumarkaði. Þá þarf að auðvelda erlendu starfsfólki að fá menntun sína og hæfni metna.

Festa íslenska hæfnirammann í sessi

Horfa þarf til hæfni, færni og leikni, óháð því hvar hennar er aflað, og festa íslenska hæfnirammann í sessi. Hæfniramminn skapar skilyrði fyrir og hvetur til nýsköpunar og nýrrar hugsunar við uppbyggingu og skipulag náms og þeirrar færni sem náminu er ætlað að veita. Hann stuðlar að gagnsæi og gefur einstaklingum möguleika á að sjá stöðu sína, starfsþróunarmöguleika og möguleika til náms.

Efla raunfærnimat

Raunfærnimat er mikilvægur þáttur framhaldsfræðslu þar sem raunfærni fólks er metin á móti viðmiðum námskráa og/eða atvinnulífsins. Raunfærnimat er liður í styttingu náms í formlega skólakerfinu, bættri stöðu á vinnumarkaði og almennri færniuppbyggingu og er jafnframt hvati til að ljúka formlegu námi. Öll þekking og hæfni er verðmæt, sama hvar og hvernig hennar er aflað, og með raunfærnimati fær fólk á vinnumarkaði aukna möguleika til að sækja sér menntun og þjálfun til að auka færni sína. Þar með styrkist staða fólksins, fagstéttanna, fyrirtækjanna og þjóðarinnar almennt, hvað varðar þekkingarstig og framþróun. Þá er einnig mjög áríðandi að koma á heildstæðu raunfærnimatskerfi, sem tekur til allra skólastiga, frá framhaldsfræðslu til háskóla. Með sameiginlegu átaki þarf að gera öllum kleift að auka hæfni sína, bæði innan óformlega og formlega menntakerfisins.

Efla starfsnám

Auka þarf vægi starfsnáms í íslensku menntakerfi þar sem áhersla er lögð á fjölbreytni í námsframboði og því er mikilvægt að þróa nýjar námsleiðir. Lítið framboð hefur verið af námi fyrir þá sem vilja sækja sér frekari iðn- eða verkmenntun að loknu framhaldsskólanámi. Einkum hefur staðið til boða að bæta við sig námi til stúdentsprófs og hefja hefðbundið háskólanám í kjölfarið. Áríðandi er að þeim sem lokið hafa starfsnámi á framhaldsskólastigi gefist kostur á frekara námi í beinu framhaldi af því, þar sem áhersla er lögð á aukna faglega þekkingu og sérhæfingu. Með stofnun fagháskóla væri komið betur til móts við þær kröfur.

Gagnsemi hæfnistefnu

Til þess að við getum aðlagast og notið góðs af þeim hröðu breytingum á vinnumarkaði sem blasa við, er áríðandi að móta hæfnistefnu sem byggir á heildrænni sýn. Tryggja þarf að þegnar þjóðfélagsins búi yfir góðri hæfni og geti notið góðs menntakerfis sem er í senn fjölbreytt og sveigjanlegt og að aðgengi allra sé tryggt. Móta þarf stefnu sem allir koma að (skólakerfið, atvinnulífið og stjórnvöld) þar sem sameiginlegur skilningur á gagnsemi hæfnistefnu verði tryggður og allir aðilar skuldbindi sig til að ná þeim markmiðum sem sett verða fram. Mikilvægt er að jafnvægi ríki á milli framboðs og eftirspurnar eftir hæfu vinnuafli, sem leiðir til hæfari og virkari vinnumarkaðar. Huga þarf að heildarmyndinni og gæta þess að ekki verði litið á formlega kerfið og fullorðinsfræðsluna sem tvö aðskilin og ósamræmanleg kerfi. Skoða þarf samspil allra þátta og móta hæfnistefnu fyrir íslenskt samfélag í samráði aðila vinnumarkaðarins, stjórnvalda, fræðslustofnana og skólakerfis.

Eyrún Valsdóttir

Eyrún Valsdóttir er deildarstjóri Fræðsludeildar ASÍ og skólastjóri Félagsmálaskólans. Hún er með B.ed.-gráðu frá Kennaraháskóla Íslands, M.Paed.-gráðu frá Háskóla Íslands og MA-gráðu í náms- og starfsráðgjöf frá sama skóla. Hún starfaði áður sem náms- og starfsráðgjafi í Tækniháskóla Íslands (THÍ) og eftir sameiningu THÍ og HR sem forstöðumaður markaðs- og kynningarsviðs. Þar áður vann hún í 17 ár hjá VISA (nú Valitor) samhliða námi.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi