- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Hver er saga lýðskóla á Íslandi?

Ágrip af sögu lýðskóla á Íslandi. Hvers vegna hefur lýðskólaformið ekki notið jafn mikilla vinsælda hér og hjá nágrannaþjóðum okkar í Danmörku, Noregi og Svíþjóð? Hér verður stiklað á stóru og minnst á helstu skóla sem byggðu á hugmyndafræði lýðskólanna hér á landi á liðnum öldum. Jafnframt verður fjallað um nýrri tilraunir til að starfrækja lýðskóla á síðustu árum hér á landi.

Hugmyndafræði lýðskólanna

Hugmyndafræði lýðskólanna tengist þróun samfélaga og stjórnmála í Evrópu á 19. öld. Uppruna þeirra má rekja til hugmyndafræði danska prestsins Nikolai Frederik Severin Grundtvigs. Hann taldi að nám ætti ekki eingöngu að byggjast á utanaðlærdómi og endurtekningu á kenningum sem ekki skiptu neinu máli fyrir daglegt líf nemendanna. Nám átti að fara fram í gegnum hið lifandi orð, í samtali á milli nemanda og kennara. Nemendur og kennarar áttu að búa saman, nemendur áttu að kynnast sjálfum sér og samnemendum sínum, leysa vandamál, taka tillit og sýna umburðarlyndi.

Fræðsla fyrir alla

Grundtvig trúði því að nemendur ættu að tileinka sér þekkingu og færni sem gagnaðist þeim í daglegu lífi. Upphaflega var megináherslan lögð á móðurmálið, sögu þjóðarinnar og samfélagsfræðslu. Síðar bættust við mannkynssaga, stærðfræði og náttúru- og heilbrigðisgreinar. Grundtvig var afar  umhugað um skóla og menntun, að allir ungir og aldnir ættu rétt á námi, óháð eigin stöðu eða foreldra sinna. Samhengi er á milli hefða lýðskólanna og sameiginlegra gilda, sem byggist á því að allir séu jafnir. Þýðing menntunar sé afgerandi fyrir þróun samfélagsins, lýðræðisins og ábyrga þátttöku í samfélaginu.

Útbreiðsla á Norðurlöndunum 

Líta má á lýðskólana sem norrænt skólaform fyrir fullorðna, nám fyrir karla og konur, forsenda fyrir því að þau verði góðir og gegnir samfélagsþegnar. Þau eiga í gegnum námið að finna og þroska hæfileika sína og sig sjálf. Fyrsti lýðskólinn var stofnaður í Danmörku árið 1884, í Noregi 1864 og í Svíþjóð 1868 en aðeins seinna í Finnlandi eða 1889. Í upphafi voru lýðskólarnir fyrst og fremst menntastofnanir bænda en frá upphafi tuttugustu aldarinnar tengdust þeir einnig verkalýðshreyfingunni og í kjölfarið fylgdu ýmis félög, samtök og sveitarfélög sem stofnuðu lýðskóla þar sem námið tengdist viðkomandi málefni.  Lýðskólahreyfingin var í upphafi norrænt fyrirbrigði en nú eru lýðskólar eða sambærilegir skólar víða um lönd

Norræna lýðskólaráðið

Árið 1956 var Norræna lýðskólaráðinu komið á laggirnar. Hlutverk þess er að styðja við samstarf lýðskólanna á Norðurlöndum og jafnframt skapa góð skilyrði fyrir þróun lýðskólanna á Norðurlöndum. Liður í starfsáætlun ráðsins 2018 varðar Ísland og þróun lýðskóla hérlendis. Ráðið vill vinna með Ungmennasambandi Íslands og menntamálaráðuneytinu og veita stuðning við mótun laga um lýðskóla. Þróun og útbreiðsla lýðskóla hefur verið frábrugðin því sem átt hefur sér stað á hinum Norðurlöndunum.

Eldri tilraunir með lýðskóla á Íslandi

Guðmundur Hjaltason gerði fyrstu tilraun til þess að starfrækja lýðskóla á Íslandi, árið 1881. Hann hafði sótt nám við lýðskóla bæði í Noregi og Danmörku. Guðmundur gerði nokkrar tilraunir til að reka lýðskóla á Íslandi norðanverðu en án árangurs. Vafalaust eru margar ástæður fyrir því að tilraunir hans tókust ekki, meðal annars fátækt og fólksflótti, en jafnframt samkeppni við ríkisskólann að Möðruvöllum.  Guðmundur flutti með fjölskyldu sína til Noregs 1902 en snéri aftur 1909. Þá var hann ráðinn sem erindreki ungmennafélaganna og ritstjóri Skinfaxa. Á næstu árum fór hann víða um landið og hélt ótal fyrirlestra um æskulýðsmál og alþýðumenntun. Segja má að með starfi sínu og umfjöllun um menntun ungs fólks hafi hann á vissan hátt rutt brautina fyrir stofnun héraðsskólanna sem voru heimavistarskólar eins og lýðskólarnir.

Hvítárbakki – Reykholt

Næsta tilraun til reksturs lýðskóla var skólinn á Hvítárbakka sem Sigurður Þórólfsson stofnaði árið 1905. Sigurður byggði einnig á reynslu sinni frá Danmörku, þar sem hann hafði numið einn vetur við lýðskóla. Hann var vaskur talsmaður lýðskóla, hafði beitt aðferðum þeirra á fleiri stöðum á Íslandi en ekki hlotið þann skilning sem hann vonaðist eftir til. Sigurður keypti ásamt konu sinni jörðina Hvítárbakka í Borgarfirði og rak þar skóla fram til 1920. Eftir að hafa starfrækt skólann í sautján ár seldi hann skólann Borgfirðingum. Skólinn var rekinn áfram í sama anda fram til ársins 1931 þegar hann var fluttur í Reykholt. Skólinn í Reykholti þróaðist á skömmum tíma í átt að hefðbundnum héraðs- eða gagnfræðaskóla. Aftur verður vikið að Reykholti síðar í greininni.

Búnaðar- og bændaskólar í upphafi aldar

Undir lok nítjándu aldar voru stofnaðir fjórir búnaðarskólar, á Hvanneyri, Hólum og Eiðum og í Ólafsdal. Námið var bæði bóklegt og verklegt og náði yfir tvö ár. Námsmenn tóku þátt í bústörfum á skólabúinu að norskri fyrirmynd. Rekstur skólanna var erfiður. Upp úr aldamótunum 1900 urðu  miklar umræður um breytingar á búfræðimenntun. Sterkar raddir komu fram um að fækka skólunum og færa skipulag námsins að danskri fyrirmynd, þar sem  bóklega námið fór fyrst og fremst fram í skólanum en verklega námið fólst í því að námsmenn réðu sig til starfa á fyrirmyndarbúum. Árið 1902 tekur nýr skólastjóri við á Hólum og má segja að þá hafi skólanum verið breytt í bændaskóla með lýðháskólasniði. Kennslufyrirkomulag og námsgreinar, bóknám með áherslu á söng og íþróttir, var rakið beint til dönsku lýðskólahefðarinnar. Ný lög voru sett 1905 þar sem kveðið var á um að skólarnir skyldu heita bændaskólar en ekki búnaðarskólar. Námið skyldi vera eingöngu bóklegt, undirstaða alhliðamenntunar fyrir bændur landsins. Til viðbótar náminu skyldu haldin námskeið fyrir bændur. Ríkið skyldi aðeins styrkja tvo skóla, á Hvanneyri og á Hólum, en Eiðaskóli starfaði sem bændaskóli samkvæmt sérstakri reglugerð fram til 1919.

Síðari tilraunir á tuttugustu öld

Á tuttugustu öld voru gerðar margar tilraunir til að starfrækja lýðskóla. Í Haukadal stofnaði Sigurður Greipsson íþróttaskóla 1927. Hann hafði dvalið bæði í Noregi og Danmörku til þess að sækja sér menntun og heillaðist af lýðskólunum. Í Haukadalnum byggði Sigurður skóla og síðar einnig sundlaug. Hugmyndafræðin að rekstri skólanna var sú sama og lýðskólanna í Noregi og Danmörku. Þar voru engin próf og auk hinna hefðbundnu greina móðurmáls og íþrótta voru kenndar ýmsar bóklegar greinar eins og heilsufræði, stærðfræði, íþróttasaga og danska. Flestir nemendur, alls 43, innrituðust haustið 1939 en uppfrá því fækkaði þeim. Sigurður eltist, heilsu hans hrakaði og var skólinn lagður niður 1970.

Lýðskóli þjóðkirkjunnar í Skálholti

Ein mikilvægasta tilraun til þess að virkja Íslendinga til náms við lýðskóla var gerð á síðari hluta tuttugustu aldar í Skálholti. Tilraunin gekk út á að skapa skóla á hugmyndafræði lýðskóla sem auk þess átti að gegna því hlutverki að mennta starfsfólk kirkna, einkum safnaðarnefndamenn og leiðbeinendur fyrir æskulýðinn. Enn og aftur voru hugmyndir sóttar til Danmerkur og Noregs. Árið 1969 fól kirkjuráð Heimi Steinssyni, síðar fyrsta rektors nýs lýðskóla í Skálholti, að kynna sér starfsemi lýðskóla. Hann starfaði við skóla í Haslev í rúm tvo ár og síðan í eitt misseri við norskan lýðskóla á Karnöy. Skólinn í Skálholti hóf göngu sína haustið 1972 en var í fyrsta sinn settur formlega árið 1974 og fyrstu lög um hann voru sett 1977. Þar var áhersla lögð á að skólinn skyldi starfa á grundvelli kristinnar kirkju en jafnframt var kveðið á um að skipulag náms og starfs skyldi vera með frjálsu sniði, að hætti norrænna lýðskóla. Í Skálholti var rekinn lýðskóli allt fram til 1987 en frá byrjun níunda áratugarins var ákveðið að koma á leiðtoganámstefnum um helgar. Námsmenn í lýðskólanum tóku að hluta til virkan þátt í þeim. Í framhaldi af endurskoðun á samkomulagi um rekstur Skálholtsskóla voru sett ný lög um skólann árið 1993. Samkvæmt lögunum skyldi meginmarkmið Skálholtsskóla vera að styrkja sambandið á milli kirkjunnar og þjóðlífs og stuðla að auknum og bættum áhrifum kristninnar í íslensku samfélagi. Skólinn var settur undir stjórn og ábyrgð kirkjuráðs og átti að efla þjóðkirkjuna, meðal annars með fræðslu starfsmanna. Þrátt fyrir að í lögunum sé kveðið á um að skólinn skuli starfa á grundvelli hugmyndafræði norrænna lýðskóla er ljóst að með lögunum lýkur hlutverki Skálholtsskóla sem lýðskóla. Nú starfar skólinn með opnu fyrirkomulagi sem kirkjulegt fræðslu- og menntasetur.

Lokatilraunin á tuttugustu öldinni

Lokatilraun til þess að starfrækja lýðskóla á tuttugustu öldinni gerði Oddur Einarsson þegar hann stofnaði skóla í Reykjavík árið 1996. Hann hafði sótt nám við háskóla í Svíþjóð og á Íslandi, meðal annars í frístundafræðum,  heimspeki, leikhús- og kvikmyndafræði, auk kennslufræði alþýðufræðslu. Oddur hafði áður kennt við lýðskóla í Danmörku, svo og á Íslandi við lýðskólann í Skálholti og stýrt framhaldsskólanum í Reykholti. Í Reykholti hafði hann einmitt unnið að þróun kennslunnar í átt að því sem tíðkaðist þá í lýðskólum.

Oddur Einarsson, sannur talsmaður lýðskóla 

Oddur var sannfærður um að hugmyndafræði Grundtvigs og hefðir norræns lýðskóla væru tilvalin leið fyrir ungt fullorðið fólk sem ekki hafði gengið vel innan hefðbundna skólakerfisins. Í skólanum átti að leggja áherslu á ábyrgð og frelsi námsmanna. Þeir áttu að hafa áhrif á kennsluna, vera félagslega virkir og þróa hæfni sína í samvinnu og samskiptum. Á þann hátt myndi kennslan hafa áhrif og breyta lífsháttum þeirra.

Lýðskólinn í Reykjavík

Gugmyndafræði Grundtvigs lá einnig til grundvallar þegar lýðskóli var stofnaður í Reykjavík, árið 1996. Frá upphafi voru skólanum reistar þröngar skorður, starfsskilyrði voru slæm. Skólinn hafði hvorki húsnæði við hæfi né fjárframlög frá hinu opinbera. Haustið 1997 var kolfelld tillaga tengd frumvarpi til fjárlaga fyrir 1998, um framlag upp á fimm milljónir til skólans. Framlög frá helstu styrktaraðilum, Norræna húsinu, Rauða krossinum og Námsflokkum Reykjavíkur, dugðu ekki til. Kennarar voru oftast fjórir, að Oddi meðtöldum, og námsmenn á bilinu 20 – 30 á hverri önn. Flestum námsmanna hafði ekki gengið sem skyldi í hefðbundna skólakerfinu, fólki sem vildi þróast og leitaði að stöðu sinni í lífinu og unglingum sem komu frá fjölskyldum sem tókust á við félagslega örðugleika. Skólinn var lagður niður árið 2000.

Hvers vegna hafa lýðskólar ekki blómstrað á Íslandi?

Sennilega eru margar ástæður fyrir því að lýðskólar hafa ekki náð fótfestu á Íslandi. Hér verður tæpt á tveimur þeirra. Önnur varðar fjárhag, lýðskólar hér á landi hafa aldrei notið traustra fjárframlaga, hvorki frá stjórnvöldum, ríki eða sveitarfélögum, né stuðnings frá alþýðuhreyfingum, samtökum eða félögum. Allir fyrrnefndir skólar áttu í fjárhagskröggum. Hin ástæðan  snertir þróun opinbera skólakerfisins á framhaldsskólastigi, snemma á tuttugustu öldinni með tilkomu héraðsskólanna, og síðar á áttunda áratugnum með þróun fjölbrautaskóla og öldungadeilda.

Héraðsskólarnir

Á því tímabili sem Jónas Jónsson frá Hriflu var starfandi menntamálaráðherra,  1927 – 1931, var fleiri héraðsskólum komið á laggirnar. Hugmyndafræðin sem starf skólanna byggði á fólst í því að byggja ætti upp fjölbreyttar mennta- og íþróttamiðstöðvar í hverju héraði. Íbúarnir áttu að eiga þess kost að mennta sig heima í héraði og halda síðan áfram að búa þar. Andstætt lýðskólunum voru héraðsskólarnir hluti af opinbera skólakerfinu. Þeir áttu af hagkvæmniástæðum helst að vera á jarðhitasvæði og einnig til þess að hægt væri að byggja við þá sundlaugar. Kennslan var um margt lík þeirri sem fram fór í lýðskólunum. Þeir voru heimavistarskólar þar sem áhersla var lögð á móðurmálið, samfélagið, gagnleg vinnubrögð og heilbrigði. Í ráðherratíð Jónasar voru þrír héraðsskólar stofnaðir, þeirra á meðal skólinn á Laugarvatni. Ungmennafélag Íslands hefur nú, nærri öld síðar, uppi áform um að stofna nýjan lýðskóla á Laugarvatni og vinnur að undirbúningi hans. Meira um það síðar.

Fjölbrautaskólar

Fyrsti fjölbrautaskólinn með áfangakerfi, Fjölbrautaskólinn i Breiðholti, var stofnaður 1975, og margir fylgdu í kjölfarið. Námið er á framhaldsskólastigi,  með almennum bóklegum greinum til undirbúnings háskólanámi og með starfsnámi til sveinsprófs í iðngreinum eða á styttri starfsnámsbrautum. Námið er byggt á einingum og nemendur hafa mikið val hvað varðar braut, kjarna og valgreinar.  Áfangar eru kenndir á afar ólíkum sviðum, listum, tónlist, heimspeki og erlendum tungumálum, svo einhverjir séu nefndir. Í mörgum fjölbrautaskólum var um tíma einnig boðið upp á kvöldnám fyrir fullorðna í öldungadeildum. Á þann hátt mæta skólarnir þörfum ungs fólks og fullorðinna til þess að kanna áhugasvið sitt, reyna eitthvað nýtt, þróast og skapa.

Nýjar vonir kvikna á tuttugustu og fyrstu öldinni

Fyrsti lýðskólinn sem hóf störf á tuttugustu og fyrstu öldinni er LungA á Seyðisfirði sem er í senn listahátíð og lýðskóli. Þar hófu fyrstu nemendur nám árið 2014. Á ráðstefnu sem haldin var í apríl 2018 í Norræna húsinu í Reykjavík, undir yfirskriftinni Hvernig á að búa til skóla úr engu? kom fram að í samanburði við Norðurlöndin og ef miðað væri við höfðatölu ættu að vera að minnsta kosti fimm lýðskólar á Íslandi. Þá kom einnig fram að í undirbúningi væri rekstur lýðskóla á tveimur stöðum á Íslandi, á Flateyri og Laugarvatni. Kennsla hófst síðan í haust við skólann á Flateyri og Ungmennafélag Íslands vinnur að undirbúningi lýðskóla á Laugarvatni.

Tvær námsbrautir á Flateyri

Nú á haustdögum 2018 hófst kennsla við lýðskólann á Flateyri.  Spár forsvarsmanna hans rættust þegar 32 námsmenn höfðu verið skráðir og skólinn telst vera fullsetinn, sjá á https://lydflat.is/. Gríðarleg fjölgun íbúa hefur orðið með því að námsmenn, kennarar og stjórnendur hafa flust í bæjarfélagið, sem telur 160 íbúa. Á annarri námsbraut skólans er sérstaklega kennt um náttúruna, með fjörðum, fjöllum og jökli. Námsmenn hljóta þjálfun í að mæta ólíkum áskorunum sem fylgja því að njóta náttúrunnar og að leiðbeina öðrum um hana á ábyrgan og sjálfbæran hátt. Hin námsleiðin snýr sérstaklega að menningu, sköpun og hugmyndavinnu. Áhersla er lögð á að námsmenn þroskist sem skapandi einstaklingar og að þeir tileinki sér færni, aðferðir og verkfæri til þess að geta tekist á við krefjandi verkefni í framtíðinni.

Ungmennafélag Íslands undirbýr lýðskóla á Laugarvatni

Eins og áður kom fram, er undirbúningur hafinn við þriðja lýðskólann, af hálfu Ungmennafélags Íslands, UMFÍ. Hann á að vera á Laugarvatni þar sem íþróttaskólinn var starfræktur áður en hann var fluttur til Reykjavíkur. Hafið er samstarf sveitarfélagsins, UMFÍ, menntamálaráðuneytisins og annarra yfirvalda með það að markmiði að fyrstu námsmennirnir geti hafið nám eftir tvö ár, eða haustið 2020. Allir samstarfaðilarnir eru virkir og meðal íbúanna á svæðinu er áhugi á að skapa viðvarandi starfsemi á staðnum. Að undirbúningnum kemur einnig Norræna lýðskólaráðið sem vinnur með UMFÍ og yfirvöldum menntamála að mótun nýrra laga um lýðskóla.

Sólskinssaga af lýðskóla:

„Nei, við finnum út úr einhverju hér!“

Var svar Aðalheiðar Borgþórsdóttur, þegar dóttir hennar Björt Sigfinnsdóttir, sem þá var á táningsaldri, sagði mömmu sinni að hana langaði til að flytja yfir fjallið til Egilsstaða til þess að hefja þar nám í framhaldsskóla. Til þess að halda áfram námi að loknum grunnskóla þyrfti hún að flytja frá Seyðisfirði til Egilsstaða. Móðurinni fannst Björt ekki nægilega þroskuð til þess að flytja að heiman. Svo þær fundu upp á einhverju. Í júlí árið 2000 sköpuðu þær LungA, listahátíð ungs fólks á Austurlandi, sem hefur síðan verið haldin hvert ár.

Listahátíðin þróaðist

Hugmyndafræðilegur grunnur að listahátíðinni er sköpun, listir og menning.  Á hátíðinni eru í boði námskeið, fyrirlestrar og aðrir viðburðir sem ná hámarki eina helgi með sýningu og tónleikum. Árið 2010 kom fram hugmynd um að skapa skóla í kringum LungA og fyrstu námsmennirnir hófu nám haustið 2014. Það ár fékk skólinn Erasmus+ styrk sem gerði aðstandendum skólans kleift að þróa nýja námsleið og skapa skólanum um leið betri skilyrði til framtíðar. Dagsdaglega eru hátíðin og skólinn rekin sitt í hvoru lagi, en heitið, gildin og hugmyndafræðin eru af sama meiði.

Frábær blanda er grunnurinn

Grundvöllurinn að LungA er frábær blanda af stórbrotinni náttúru, sköpun, menningu og listum og tjáningu. Stofnunin nýtur jákvæðrar umfjöllunar fyrir mikil gæði og virka alþjóðlega þátttöku, því LungA er ekki aðeins þekkt á Íslandi. Í evrópsku samstarfi hefur töluverður fjöldi námsmanna frá mörgum ólíkum löndum tekið þátt í listahátíðinni og numið við skólann. Á heimasíðu skólans er LungA lýst sem sjálfstæðri stofnun sem rekin er af listamönnum þar sem gerðar eru tilraunir með hugsanir, framkvæmd og tilvist með það að markmiði að trufla, riðla og breyta hugmyndum um fagurfræði, nám og skilning. LungA hlaut heiðursviðurkenningu Erasmus+ á 30 ára afmæli menntaáætlunar Evrópusambandsins í nóvember 2017.

Facebook: https://www.facebook.com/pg/LungA.School/about/?ref=page_internal

Sigrún Kristín Magnúsdóttir

Sigrún Kristín Magnúsdóttir er sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Hún er ritstjóri Gáttar og vinnur verkefni í Hæfnisetri ferðaþjónustunnar. Hún hefur unnið við menntun og þjálfun frá 1987, við stjórnun, kennslu og skipulagningu m.a. hjá Sambandi veitinga- og gistihúsa, Hótel- og matvælaskólann í MK, Listaháskóla Íslands. Hún var fulltrúi Íslands í Norræna tengslanetinu um nám fullorðinna frá stofnun þess 2005 til loka árs 2017.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi