- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Hvetjum til fræðslu og þjálfunar starfsfólks!

Á Íslandi er unnið að tilraunaverkefni til að efla hæfni starfsfólks í ferðaþjónustu. Starfsfólk Hæfnisetursins og samstarfsaðila, sem eru símenntunarmiðstöðvar og fræðslufyrirtæki, heimsækja stjórnendur fyrirtækja í ferðaþjónustu með tilboði um að greina þarfir fyrir fræðslu og móta stefnu þar að lútandi. Ennfremur er stuðlað að svæðisbundnu samstarfi fyrirtækja í klösum við fræðsluaðila um námskeiðahald og þjálfun.

Hvað segja stjórnendur?

Verkefnastjóri Hæfnisetursins hafði samband við tvo stjórnendur og bað um álit á mikilvægi fræðslu í rekstri fyrirtækja og atvinnugreina. Stjórnendurnir eru þau  Sólborg Lilja Sigurþórsdóttir, hótelstjóri á Hótel Holti í Reykjavík og Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.

Þjálfun og fræðsla eru lykilatriði

Sólborg hefur mikla reynslu af stjórnun hótela og deildi með okkur reynslu sinni af verkefni sem henni var falið við undirbúning að opnun stærsta hótels Íslands á landsbyggðinni, hótel Stracta á Hellu.

„Ég skipulagði fræðsludaga þar sem meðal annars var lögð áhersla á þjónustu, öryggismál, hjálp í viðlögum og síðast en ekki síst upplýsingar um ferðaþjónustuaðila og áhugaverða staði í nágrenninu. Við gerðum  einnig kynningarefni um hótelið sjálft svo allir starfsmenn vissu fyrir hvað Stracta Hótel á Hellu stæði,“ segir Sólborg.

Fræðsla og þjálfun þjappa hópnum saman

„Þessi undirbúningur var lykilatriði í að tryggja sem mest gæði og upplifun fyrir gesti frá byrjun. Árangurinn var að starfsmenn höfðu meira sjálfstraust og vissu til hvers var ætlast – allir treystu sér til að sýna hótelið frá fyrsta degi. Á fræðsludögunum þjappaðist hópurinn saman og um leið jókst áhugi og metnaður fyrir krefjandi verkefnum. Allir lögðu sig fram um að fara fram úr væntingum gesta,“ segir Sólborg.

Sólborg Lilja Sigurþórsdóttir, hótelstjóri á Hótel Holti í Reykjavík.

Samhengið

Árið 2014 gerði Ferðamálastofa Íslands könnun á gæðum í ferðaþjónustu sem varð kveikjan að stofnun Stjórnstöðvar ferðamála. Könnunin leiddi í ljós að ferðamenn sem sækja Ísland heim voru ekki allskostar ánægðir og þótti verð og þjónusta ekki fara saman. Því var ákveðið að grípa til aðgerða svo bæta mætti þjónustuna. Árið 2015 mótuðu stjórnvöld stefnu fyrir atvinnugreinina sem birt var í Vegvísi í ferðaþjónustu. Stefnan er sett fram í sjö lykilþáttum og snýr einn þeirra að hæfni og gæðum, sem hafa ekki aðeins áhrif á upplifun ferðamanna og orðspor Íslands sem ferðamannalands, heldur einnig á verðmætasköpun og arðsemi fyrirtækja.

Stofnun Hæfniseturs ferðaþjónustunnar

Einn liður í  því að auka gæði í ferðaþjónustu er að mennta og þjálfa starfsfólk. Til að sinna því verkefni var Hæfnisetur ferðaþjónustunnar sett á laggirnar. Setrið er vistað hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins sem aftur er í eigu aðila vinnumarkaðarins. Hæfnisetur ferðaþjónustunnar er samstarfsverkefni um heildstæðar lausnir og úrbætur til þess að auka hæfni í ferðaþjónustu á Íslandi. Að því standa ráðuneyti menntamála og ferðamála, aðilar vinnumarkaðarins og fræðsluaðilar.

Starfsemi Hæfnisetursins

Starfsemi Hæfnisetursins snýst um að uppfylla þarfir ferðaþjónustunnar fyrir aukna hæfni, hvetja fyrirtækin til að fjárfesta í færni starfsmanna og að auðvelda þeim það. Þetta er gert með því að heimsækja fyrirtækin, ræða við stjórnendur og bjóðast til að greina fræðsluþarfir, móta leiðir til að efla færni og með því að auka samvinnu fræðsluaðila og fyrirtækja um fræðslu.

Hlutverk Hæfniseturs ferðaþjónustunnar er eftirfarandi:

  • Að starfa á forsendum ferðaþjónustunnar til að auka hæfni starfsfólks og þar með auka gæði, fagmennsku, starfsánægju og arðsemi greinarinnar.
  • Að greina fræðsluþarfir, móta leiðir, auka samvinnu um fræðslu og koma henni á framfæri til fræðsluaðila og fyrirtækja.
  • Að fá fræðsluaðila til að standa fyrir mælanlegri og árangursmiðaðri fræðslu í samræmi við þarfir greinarinnar.

Gæði þjónustunnar hafa gríðarleg áhrif

Sveinn Aðalsteinsson er framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sem hýsir Hæfnisetrið.

„Markmiðið er að auka framleiðni og gæði í ferðaþjónustu sem og starfsánægju og fagmennsku starfsmanna í þessari mikilvægu atvinnugrein. Það verður meðal annars gert  með hæfnigreiningum starfa, þróun raunfærnimats og námskeiða, þrepaskiptu starfsnámi og rafrænni fræðslu, ásamt fræðslu innan fyrirtækja. Hæfnisetrið býður þessi verkfæri til afnota  og er markmiðið að ná til sem flestra starfsmanna í ferðaþjónustu. Jafnframt verður lögð áhersla á að mæla árangur fræðslunnar í til dæmis starfsmannaveltu, framlegð, ánægju og fleiri rekstrarþáttum fyrirtækja,“ segir Sveinn.

Nokkrar staðreyndir um ferðaþjónustuna á Íslandi:

  • Samkvæmt talningu Hagstofu Íslands bjuggu 348.580 manns Íslandi 1. janúar 2018 og samkvæmt upplýsingum frá Ferðamálaráði Íslands heimsóttu meira en tvær milljónir ferðamanna landið á árinu 2017.
  • Velta í greininni hefur aukist um rúmlega 20% að meðaltali á síðastliðnum árum og ferðamönnum hefur fjölgað um nær 40%. Ferðamenn keyptu þjónustu af um það bil 650 fyrirtækjum, þar sem störfuðu 26.500 starfsmenn, þar af 7.500 af erlendum uppruna.
  • Rúmlega helmingur fyrirtækja í ferðaþjónustu er á landsbyggðinni og í tæplega 60 af hundraði þeirra starfa færri en 10 manns.
  • Á næstu þremur árum er gert ráð fyrir að hótelherbergjum í Reykjavík og nágrenni fjölgi úr 3.300 í 4.000. Þar á meðal verða fyrstu fimm stjörnu hótelin á Íslandi, það fyrra Marriott hótel  við hlið Hörpu, með 250 herbergi, en hið síðara með rúmlega 70 herbergjum verður staðsett við Bláa lónið.
Haukur Harðarsson

Haukur Harðarson er sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins síðan 2008, hann er verkefnastjóri Hæfniseturs ferðaþjónustunnar. Önnur helstu verkefni hans tengjast raunfærnimati og greiningarvinnu.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi