- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Löngun til að fara í listnám

Listþörfin er afar sterkt afl og gefur skapandi einstaklingum þrek til þess að afla sér þekkingar á sviði myndlistar sem krefst sjálfsaga og djúpra innri átaka við að greina og miðla hugmyndum sínum á skapandi, frjóan og frumlegan hátt. Nemendur fullyrða að sköpunargáfan færi þeim lífsfyllingu, að upplifa litina í samhljómi með formum sem sett eru á strigann eru bestu augnablikin, hugur og líkami vinni saman sem eitt.

Námið er ætlað fólki á vinnumarkaði 20 ára og eldra með stutta formlega skólagöngu að baki sem hefur áhuga á skapandi starfi, hugmyndavinnu, myndgerð, framsetningu og myndlistarsögu. Höfuðmarkmið námsins er meðal annars að veita einstaklingum tækifæri til að styrkja færni sína í myndlist, listasögu og skapandi starfi í þeim tilgangi að stuðla að jákvæðu viðhorfi til náms á sviði lista, auðvelda þeim að örva og nýta skapandi hæfileika sína og koma auga á ný tækifæri í framtíðinni. Meginþættir námsins eru teikning, lita- og formfræði, módelteikning, saga myndlistar í Evrópu – fyrri hluti, saga myndlistar í Evrópu – seinni hluti, saga myndlistar á Íslandi. Nemendur þurfa að vinna lokaverkefni sem er verk á útskriftarsýningu.

Kennsluhættir eru fjölbreyttir og miðast við hæfi fullorðinna og í samræmi við eðli sköpunar og lista. Leitast er við að laða fram styrk hvers og eins með margþættum kennsluaðferðum og efla þannig skapandi og frjóa hugsun námsmanna. Auk þess að kynnast vinnubrögðum í hugmyndavinnu og skapandi starfi finna námsmenn fyrir sköpunargleðinni sem á rætur sínar í eðlislægri forvitni og athafnaþrá. Það leiðir af sér nýjar uppgötvanir, eflir gagnrýna hugsun, styrkir sjálfsmynd og opnar nýjar leiðir og möguleika í daglegu lífi. Menntamálaráðuneytið hefur samþykkt að framhaldsskólar geti metið námsleiðina allt að 20 einingum.

Þetta samræmist íslensku framhaldsfræðslulögunum þar sem markmiðið er að veita einstaklingum með stutta formlega skólagöngu að baki aukin tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu og skapa sveigjanleg námsúrræði fyrir þá sem vilja hefja nám að nýju. Nemendur Fræðslu í formi og lit eru á misjöfnum aldri, með misjafnan bakgrunn á sviði myndlistar. Engar kröfur eru gerðar um lágmarksþekkingu í myndlist.

Að drífa sig í listnám og sjá alls ekki eftir því eru orð útskriftarnema 2017 í námsleiðinni Fræðsla í formi og lit.

Tæknileg þekking gefur listnemum leið til að túlka af tilfinningu það sem þeir vilja, nemendur temja sér tæknilegan, fræðilegan og huglægan hugsunarhátt listamannsins. Afrakstur listsköpunar einn og sér skiptir ekki höfuðmáli. Það er sköpunarferlið sjálft sem er til grundvallar. Tæknileg færni auðveldar nemendum að tileinka sér mismunandi útfærslumöguleika á hugmyndum sínum og veitir frelsi til sköpunar.

Á skömmum tíma lærðu nemendur ótrúlega mikið af kennurum sínum, bæði tæknileg atriði í myndlist og ekki síður hafa nemendur tileinkað sér það borðorð kennara sinna að þeir ættu fyrst og fremst að trúa á sig sjálfa. Nemandinn hún Þorbjörg sagði að það sem hún hafi lært í þessu námi ætti tvímælalaust eftir að nýtast sér vel og þá nefndi hún að félagsskapurinn í náminu hafi verið einstaklega skemmtilegur og gefandi og væri ljóst að nemendur myndu halda hópinn og vinna áfram að myndlistinni. Listnám styður mikilvægi hópkenndar þegar kemur að andlegri vellíðan fólks.

„You ain‘t seen nothing yet,“ sagði Þorbjörg og vísaði til frægra orða fyrrverandi forseta lýðveldisins.

Bryndís Arnardóttir

Bryndís Arnardóttir, Billa, er myndlistarmaður sem hefur lokið M.Ed.-prófi eða meistaragráðu í kennslufræði með áherslu á kennslufræði listgreina. Hún hefur við kennt við University Of Central Florida Orlando, Verkmenntaskólann á Akureyri og sinnt fræðslu fullorðinna hjá SÍMEY og í eigin fyrirtæki Listfræðslunni.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi