- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Mikilvægi fjarkennslu fyrir vænt samfélag

Reynsla á Norðurlöndum af Interneti og samskiptatækni var megin umfjöllunarefni námsstefnu sem Distansnetið eða bara Distans á vegum Norræna tengslanetsins um nám fullorðinna, NVL, hélt í maí síðastliðnum í Þórshöfn í Færeyjum. Fulltrúi Færeyinga í ritstjórn DialogWeb, rafrænu fréttabréfi NVL, Kristianna Winther Poulsen tók þátt í ráðstefnunni og ræddi við fulltrúa í Distans, sem um þessar mundir fjallar um aðgang að fjarnámi á Norðurlöndunum.
Himinn og haf eru á milli fyrstu bréfaskólanna, sem til skamms tíma voru eina tækifæri fjölmargra til að efla færni sína, og nútíma fjarkennslu, þar sem tæknin veitir nánast öllum íbúum Norðurlanda aðgang að menntun.

Hefur afgerandi áhrif á þekkingarstig

Torhild Slåtto er fulltrúi Norðmanna í Distans. Öll hennar störf hafa snúist um kennslu og menntun og nú gegnir hún starfi framkvæmdastjóra samtaka um sveigjanlegt nám í Noregi.

Eins og Torhild hélt fram í spaugi var Páll postuli, með bréfum sínum í Nýja testamentinu, meðal þeirra fyrstu sem iðkaði fjarkennslu. En hvort heldur er, með eða án Páls, hefur fjarkennsla gegnt mikilvægu hlutverki við að hækka almennt þekkingarstig Norðmanna. Fyrir 50 eða 100 árum síðan var opinbert menntakerfi ekki orðið sérlega þróað og því var fjarkennsla eini möguleikinn sem margir höfðu til þess að afla sér menntunar. Án þess tækifæris væri almennt menntunarstig norsku þjóðarinnar ekki eins hátt og raunin er í dag.

Frá bréfaskóla til Internets

Rík hefð er fyrir því að einkaaðilar bjóði upp á fjarkennslu. Fyrstu námskeiðin voru í hagfræði og bókfærslu. Síðar þróuðust námskeiðin og hægt var að taka námskeið í landbúnaðarhagfræði og öðrum fögum sem lúta að landbúnaði. Nú til dags er eiginlega hægt að velja hvaða fag sem er, hvenær sem er.

„Þetta er gott tækifæri fyrir marga sem ekki áttu kost á að afla sér menntunar. Til þess að komast út á vinnumarkaðinn er nauðsynlegt að hafa formlega pappíra upp á menntun og þrátt fyrir að formleg námstilboð séu ljómandi góð nú til dags, er fjarkennslan ennþá nauðsynleg,“ segir Torhild.

Góður lokaárangur

„Samkvæmt niðurstöðum norskrar könnunar um nám meðal þeirra sem leggja stund á fjarnám og þeirra sem fylgja staðbundnu námi eru engin vandamál tengd árangri. Komið hefur fram að árangur fjarnema er síst lakari, raunar þvert á móti, því einstaklingar sem sækja sér menntun með aðstoð netsins eru margir sérstaklega áhugasamir. Í samanburði við hefðbundna námsmenn eru fjarnemar jafnframt oft eldri og búa yfir meiri reynslu, sem einnig getur haft jákvæð áhrif á viðleitnina,“ útskýrir Torhild.

Hún bendir jafnframt á að nauðsynlegt sé að aðföng séu næg og að tryggður sé aðgangur að kennurum og ráðgjöfum. Þá séu gæði fjarkennslu alls ekki lakari heldur en hefð- og staðbundinnar kennslu.

„Kennararnir verða að búa yfir mikilli færni í þeim fögum sem þeir kenna og fyrir námsmennina er fjarkennsla góður kostur vegna þess að margir óska eftir sveigjanleika. En öll menntun krefst aga og maður verður sjálfur að finna tímann sem til þarf,“ bendir Torhild Slåtto á.

Sveigjanleiki er lykilorðið

Taru Kekkonen er fulltrúi Finna í Distans. Hún hefur unnið við fjarkennslu og upplýsingatækni í rúmlega tuttugu ár og er í dag kennslustjóri hjá Omnia, námsstofnun með yfir 50.000 skráða nemendur og námsmenn. Omnia er starfrækt í samstarfi sveitarfélaganna í Espoo-héraði í Finnlandi, þar sem sjónum er beint að námi og menntun í breiðum skilningi og hefur á dagskrá sinni fullorðinsfræðslu, ævinám og starfsmenntun.

Sleppið eftirliti

Taru leggur áherslu á að kennslufræðin verði að njóta forgangs, síðan fylgi tæknileg verkfæri.

„Nám er nám og ferlið verður til á milli einstaklinganna sem taka þátt í því. Síðan verður maður að finna samskiptarás, sem gerir þeim kleift að vera með í fræðslunni. Tæknin veitir tækifæri og gerir nám aðgengilegt en hún er verkfæri fremur en markmið. Okkur kennurum og leiðbeinendum hættir til að vilja hafa eftirlit með öllu, en það er einnig mikilvægt að við þorum að sleppa takinu. Fræðsla á netinu snýst um traust og ég hef lært af reynslunni að það sé þess virði,“ segir Taru Kekkonen.

Ber að taka alvarlega

Deirdre Hansen er fulltrúi Færeyinga í Distans. Hún starfar sem náms- og starfsráðgjafi við Fjarnám í Klakksvík, þar sem hún gefur fólki ráð um tækifærin sem felast í fjarkennslu. Deirdre finnst stjórnvöld ekki nýta nægilega vel þau tækifæri sem felast í fjarkennslu. Hún kynnti starfið á málstefnunni í Þórshöfn.

„Það ætti að samhæfa sviðið og stjórnmálamenn að taka það fastari tökum. Það eru svo mörg góð dæmi um tækifærin sem felast í fjarkennslu. Tækifærin eru þarna en þau eru ekki nýtt nægilega vel,“ segir Deirdre.

Ævinám og fjarkennsla

Sjálf hafði Deirdre unnið sem grunnskólakennari í meira en 20 ár, þegar hún ákvað að sækja sér menntun á háskólastigi. Á þeim tíma var ekki um neina náms- og starfsráðgjöf fyrir fullorðna að ræða, því fékk hún ekkert af fyrra námi sínu metið. Hún byrjaði því á byrjuninni og tók fimm ára meistaranám.

„Fyrir mig var það fínt og ég lærði mikið en fyrir samfélagið var þetta óþarflega langt og dýrt ferli,“ segir Deirdre, sem lýsir eftir tækifærum til mats á raunfærni og ævinámi.

„Fullorðinsfræðsla er tengd fjarkennslu og við þurfum skipulögð tækifæri á þessu sviði. Við erum mörg sem bíðum óþreyjufull. Í eyjasamfélagi eins og er í Færeyjum getur fjarkennsla aukið faglegt framboð, menntun, faglegt samstarf og þróun vinnumarkaðar,“ útskýrir Deirdre Hansen.

Þarfir framtíðarinnar

Ævinám og aðgengi að vinnumarkaði gegna lykilhlutverki í norrænum velferðarsamfélögum og eru undirstaða þess að fólk vinni. En kröfurnar sem þarf að uppfylla til þess að komast út á vinnumarkaðinn eru strangar bæði hvað varðar færni og aðlögun og gott  og skipulagt aðgengi að fjárnámi er nauðsynlegur hluti af þörfum framtíðarinnar, jafnt fyrir launþega sem atvinnurekendur.

Nánari upplýsingar:

ánar um fræðslumiðstöðina Omnia hér (á finnsku og ensku).

Nánar um Sveigjanlegt nám í Noregi hér (á norsku og ensku).

Nánar um Fjarnám í Klakksvík á Facebook hér (á færeysku).

Horfið á vídeóupptöku frá námsstefnunni málstofunni hér (á ensku).

Kristianna Winter Poulsen

Kristianna Winter Poulsen er fulltrúi Færeyinga í ritstjórn DialogWeb. Hún hefur starfað sem sjálfstætt starfandi blaðamaður síðan 2005. Þess utan hefur hún starfað sem hún fulltrúi í félags- og heilbrigðismálaráðuneytinu, Vísindaráðinu og verið deildarstjóri og verkefnastjóri í Atvinnuleysistryggingasjóði Færeyinga. Frá 2008 hefur hún gegnt formennsku í Jafnréttisráði Færeyja. Helstu umfjöllunarsvið Kristíönnu eru fullorðinsfræðsla, færniþróun, rannsóknir, jafnrétti og umhverfi.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi