Önnur útgáfa upplýsinga- og ráðgjafarvefjarins NæstaSkref.is fór í loftið í byrjun árs 2018. Tilgangur vefsvæðisins er fyrst og fremst sá að auðvelda aðgengi að hlutlausum upplýsingum um nám og störf auk þess að gera ráðgjöf á því sviði aðgengilega á netinu.
Vefurinn var í upphafi hluti viðamikils Evrópuverkefnis sem kallaðist „Þróun raunfærnimats til að efla starfshæfni fullorðinna með litla formlega menntun“. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins stýrði verkefninu en í undirbúningi vefjarins var um að ræða formlegt samstarf við Sérfræðisetur í ævilangri náms- og starfsráðgjöf auk þess sem talsvert samráð var haft við mennta- og menningarmálaráðuneyti, velferðarráðuneyti og ýmsa aðila vinnumarkaðarins.
Við þróun vefjarins var litið til nágrannaþjóðanna þar sem finna má vefi á borð við hinn danska UddannelsesGuiden og norska vefsvæðið Utdanning.no og var markmiðið að búa til heildstætt upplýsinga- og ráðgjafarkerfi um nám og störf á Íslandi með almennum náms- og starfslýsingum, rafrænni áhugakönnun, upplýsingum um raunfærnimat og rafrænni ráðgjöf.
Unnið var að vefnum frá hausti 2012 og fram á vordaga 2014 en þá þegar var orðið ljóst að Evrópusambandið myndi draga í land hvað varðaði fjármagn til verkefnisins og því yrði minna úr verki en til stóð. Um hugmyndafræði og stöðu verkefnisins á þessum tíma má nánar lesa í skýrslu um umgjörð og uppbyggingu vefgáttarinnar (2013) og í skýrslu um þarfagreiningu og framkvæmdaáætlun (2012). Hér verður því ekki lýst nánar þeirri miklu undirbúningsvinnu sem fram fór á þessum árum heldur er ætlunin að lýsa stöðu mála og framtíðarhugmyndum eftir að Fræðslumiðstöð atvinnulífsins tók aftur upp þráðinn haustið 2016.
Tilgangur og markmið
Upphafleg markmið vefgáttarinnar voru mörg hver afar metnaðarfull þótt í grunninn hafi hugmyndin sprottið af þeirri einföldu staðreynd að upplýsingar um nám og störf hér á landi hafa lengi verið brotakenndar og óaðgengilegar. Almennar starfslýsingar voru komnar til ára sinna og löngu var orðið tímabært að gera aðgengilegt efni sem styddi við ráðgjöf og fræðslustarf um tengsl náms og starfs.
Hugmyndir menntastefnu um nám alla ævi og framþróun náms- og starfsráðgjafar voru vissulega ákveðinn grunnur þótt helsta markmiðið hafi einfaldlega verið að veita upplýsingar og ráðgjöf til almennings óháð stund og stað ásamt því að gera vefinn þannig úr garði að hann nýtist öllum í leit að upplýsingum um nám og störf.
Vefurinn átti þannig að gera notendum kleift að velta fyrir sér eigin hæfni og möguleikum í námi og starfi, meta eigin raunfærni og þjálfast í stjórnun eigin starfsferlis. Einnig var litið til hans sem spennandi verkfæris fyrir náms- og starfsráðgjafa til að aðstoða fólk við að ná settu marki og kenna ýmiss konar náms- og starfstengda leikni.
Litið var svo á að með þessum hætti yrði ávinningur hins almenna notanda fyrst og fremst bætt aðgengi að upplýsingum um störf og nám auk þjónustu náms- og starfsráðgjafa en hvort tveggja fræðslukerfið í landinu sem og atvinnulífið hefðu einnig talsverðan hag af því að hlutlausar og samræmdar upplýsingar væru aðgengilegar á einum stað.
Náms- og starfslýsingar
Eldri vefurinn, sem hafði verið aðgengilegur frá vori 2014, var í raun aðeins gagnagrunnur þeirra starfs- og námslýsinga sem unnar höfðu verið. Eftir að vinna við vefinn hófst að nýju árið 2016 var því fyrst ráðist í að lagfæra ýmislegt í þeim alls 320 lýsingum og síðan hafist handa við að taka saman upplýsingar um nýjar námsleiðir og vinna að gerð fleiri starfslýsinga. Í dag eru ríflega 250 starfslýsingar aðgengilegar og um 100 námslýsingar. Hugmyndin er að á hverjum tíma verði á vefnum um 300 lýsingar á störfum og 150 lýsingar á námsleiðum og þannig verður vonandi staðan í árslok.
Langflestar námslýsinganna hafa verið lesnar yfir af fulltrúum viðkomandi skóla eða fræðsluaðila. Hvað starfslýsingar varðar hefur stór hluti þeirra verið lesinn yfir af fagfélögum eða starfsgreinaráðum þó að þar megi enn gera betur. Sérstök áhersla hefur verið lögð á störf innan ferðaþjónustu, lista og skapandi greina enda lítið til af eldri lýsingum í þeim geirum sem raunar hafa vaxið umtalsvert, til dæmis frá því að Starfslýsingar I-III í ritstjórn Gerðar G. Óskarsdóttur komu út á árunum 1990 – 2001. Margar þær lýsingar sem nú eru á hugmyndastigi eða í vinnslu eru þó ögn tímafrekari en oft áður þar sem lítið er um aðgengileg gögn til að vinna úr og þarf oftar en ekki að vinna þær frá grunni; með viðtölum við fólk í bland við upplýsingar úr erlendum gagnabönkum.
Reynt er eftir megni að fylgja upphaflegum hugmyndum um verklag þar sem áhersla er lögð á samræmi, áreiðanleika upplýsinga og hlutleysi í framsetningu. Þá er áhersla lögð á að allur texti sé læsilegur og í samræmi við meint notagildi vefjarins og þarfir helstu markhópa, ásamt því að hann sé endurskoðaður og uppfærður reglulega.
Raunfærnimat
Fyrir utan almennar upplýsingar um raunfærnimat eru nú 25 svokallaðir skimunarlistar aðgengilegir á NæstaSkref.is. Listar sem eiga að gefa fyrstu vísbendingu um stöðu viðkomandi í ákveðnu fagi og hvort ástæða sé til að kanna málið nánar, hafa samband við ráðgjafa og ræða mögulega þátttöku í slíku mati. Uppsetning listanna á vefnum er með þeim hætti að fylla má þá út rafrænt á vefnum, vista, prenta út og senda ráðgjöfum símenntunarmiðstöðva.
Framhaldsfræðsla
Að höfðu samráði við Kvasi, samtök fræðslu- og símenntunarmiðstöðva var ákveðið að NæstaSkref.is tæki við hlutverki eldri vefjar framhaldsfræðslunnar sem aðgengilegur var á slóðinni framhaldsfraedsla.is. Á vefnum er því nú hægt að nálgast upplýsingar um allar símenntunarmiðstöðvar landsins, námsleiðir og þá ráðgjöf sem þar er í boði.
Rafræn ráðgjöf
Hugmynd um þjónustu náms- og starfsráðgjafa á netinu óháð tíma og rúmi er langt í frá ný af nálinni. Fyrir marga getur slík leið verið hvort tveggja fljótlegri og þægilegri en að panta viðtal við ráðgjafa á skrifstofu, ekki síst fyrir fólk sem býr utan helstu þéttbýliskjarna. Hér er þó að ýmsu að hyggja, til dæmis fjölmörgum siðferðilegum álitamálum sem upp geta komið í rafrænum samskiptum ráðþega og ráðgjafa. Því þarf að þjálfa ráðgjafa í slíkum samskiptum, sjá til þess að tæknileg kunnátta sé til staðar og að samskiptin séu bundin trúnaði hvort sem þau fara fram í gegnum síma, tölvupóst eða vefspjall.
Á ráðgjafarhluta NæstaSkref.is er því aðeins búið að taka eitt hænuskref í þessa átt sem felst í að ráðgjafi vefjarins tekur við erindum og vísar áfram til þess náms- og starfsráðgjafa í atvinnulífi eða skólakerfi sem metinn er líklegastur til að geta aðstoðað. Hugmyndin er sú að notendur vefjarins geti með afar einföldum hætti náð sambandi við náms- og starfsráðgjafa sem beini málum áfram. Fyrirmyndin er fengin af ráðgjafarhluta dönsku síðunnar UddannelsesGuiden þótt ekki sé ætlunin að bjóða upp á beint samband við ráðgjafa eins samfellt og reglulega og þar er gert. Fram að þessu hafa aðallega komið inn tiltölulega einfaldar fyrirspurnir frá fólki sem mjög ólíklega hefði haft samband við ráðgjafa með öðrum hætti. Í flestum tilfellum hefur slíkum fyrirspurnum verið vísað til ráðgjafa símenntunarmiðstöðva en sennilega er fátt því til fyrirstöðu að auka hér enn við með markvissara samstarfi við ráðgjafa á vettvangi.
Netspjall, tölvupóstur og símatímar geta allt verið gagnlegar aðferðir og samstarf við fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar er nauðsynlegt. Hugsa mætti sér að ráðgjafar skipti með sér vakt og þó ekki verði hægt að gefa fólki fullnægjandi svar á öllum tímum sólarhrings væri erindið komið inn á borð ráðgjafarinnar og þaðan væri hægt að beina því í rétta átt. Hér er samstarf við náms- og starfsráðgjafa alls staðar í skólakerfi og atvinnulífi lykilatriði og gæti orðið vísir að miðlægri miðstöð náms- og starfsráðgjafar sem er gömul hugmynd sem reglulega skýtur upp kolli.
Verkfæri
Á norska vefnum Utdanning.no er að finna afar fjölbreytt verkfæri og verkefni hvort tveggja fyrir almenna notendur vefjarins og einnig fyrir kennara í skólum eða starfandi náms- og starfsráðgjafa. Draumurinn er vissulega sá að á NæstaSkref.is verði í framtíðinni hægt að byggja upp eitthvað í þá veru en efni sem styður við almenna náms- og starfsfræðslu er t.a.m. af afar skornum skammti hér á landi. Fyrsta skrefið hefur þó verið stigið, því styrkur fékkst úr Fræðslusjóði til að þróa sérstaka útgáfu áhugakönnunarinnar Bendils þannig að hún henti fólki á vinnumarkaði og geti verið hluti vefgáttarinnar. Niðurstöður könnunarinnar beina fólki að ákveðnum náms- og starfslýsingum á vefnum og einfalda þannig leitina að áhugaverðu starfi eða námsleið. Einnig hafa verið uppi hugmyndir um að tengja meira slíkt efni meistararitgerðum nemenda í náms- og starfsráðgjöf en þar gæti verið um að ræða kannanir í tengslum við gildi, leikni, þarfir og sjálfsþekkingu um nám og störf, eða þjálfun í að stjórna eigin starfsferli eða ákvarðanatöku. Þá mætti horfa til kynningar- og fræðsluefnis um ástand og horfur á vinnumarkaði, stöðu kynjanna eða uppbyggingu íslensks menntakerfis.
Þriðja atlagan
Eftir að vefurinn var settur í loftið öðru sinni í upphafi árs 2018 komu fljótlega í ljós vankantar sem ljóst var að nauðsynlegt yrði að laga. Var því gerð þriðja atlagan að vefnum, nú í samstarfi við auglýsingastofuna Konsept. Útlit vefjarins var þar tekið til gagngerrar endurskoðunar auk þess sem virkni var einfölduð og leyst var úr ýmiss konar tæknilegum vanda. Sannaðist í þeirri vinnu að allt er þá þrennt er því þessi þriðja uppfærsla gekk vonum framar og gerir að verkum að hægt er að þróa vefinn áfram líkt og til stóð í upphafi ársins.
Næstu skref
Þegar vefurinn fór í loftið í fyrsta sinn vorið 2014 var á það bent að um væri að ræða verkefni sem þyrfti að halda vel utan um og þróa áfram í takt við þarfir og breytingar á vinnumarkaði. Einnig þyrfti að bæta við margskonar efni og bjóða upp á ráðgjöf svo úr yrði heildrænt upplýsinga- og ráðgjafarkerfi um nám og störf. Í dag má segja að vefurinn sé í fyrsta skipti fullbúinn til að takast á við slíkar áskoranir. Við siglum loks lygnan sjó hvað tæknimálin varðar og getum nú bætt við ýmiss konar efni og verkfærum ásamt því að þróa ráðgjöfina.
Til að sem best sé hægt að vinna að vexti og viðhaldi alhliða vefgáttar um nám og störf er hins vegar mikilvægt að fá að borðinu fleiri fræðslu- og hagsmunaaðila enda er það allra hagur að til sé verkfæri sem gerir fólki kleift að taka upplýstar og farsælar ákvarðanir um næstu skref í námi og starfi. Í því sambandi er rétt að minnast á að slíkur vefur mun alltaf þarfnast daglegrar umsýslu til að tryggja að lýsingar á námsleiðum, störfum og raunfærnimati séu uppfærðar, að ráðgjöf sé aðgengileg og að ný verkfæri séu stöðugt í vinnslu. Við ákvörðun um framtíð verkefnisins nú er afar mikilvægt að þau mál séu rædd enda lykilatriði ef vefgáttin á að þróast frá því að vera prýðileg hugmynd að raunverulegu verkfæri fyrir ráðgjafa og fólk í leit að upplýsingum um nám og störf.
Lokaorð
Óhætt er að segja að margt hafi farið á annan veg en vonast var eftir þegar byrjað var að leggja línur að heildstæðum upplýsinga- og ráðgjafarvef um nám og störf, á árunum 2010 – 2012. Fjármagn hefur komið og farið, tækniþróun hefur ýmist flækt málin eða einfaldað og trú fólks á framtíð vefsvæðisins hefur því verið með ýmsum hætti.
Eftir stendur þó vefur sem í grunninn er hugsaður fyrir markhóp framhaldsfræðslunnar en getur auðveldlega haft mun breiðari skírskotun og verið gagnlegur ungum sem öldnum, foreldrum, kennurum og ráðgjöfum.
Eins og áður er nefnt hefur upplýsinga- og fræðsluefni um nám og störf á Íslandi verið mjög af skornum skammti og þróunin hér, undanfarin 20 ár eða svo, ólík því sem hefur verið að gerast í nágrannalöndum okkar. Aðgengilegt efni á netinu er eitt af því sem okkur hefur sárlega vantað og er NæstaSkref.is vonandi aðeins upphaf að fleiri verkfærum og efni sem gerir fólk hæfara til að taka sjálfstæðar og upplýstar ákvarðanir um eigin framtíð í námi og starfi.
Heimildir og ítarefni
- Færniþörf á vinnumarkaði; horfur til næstu 10 ára (2014).
- Umgjörð og uppbygging vefgáttar sem veitir upplýsingar og ráðgjöf um störf og nám (2013).
- Upplýsinga- og ráðgjafakerfi um nám og störf; þarfagreining og framkvæmdaáætlun (2012).
- Upplýsingakerfi vantar um nám og störf (2010).