Náms- og starfsráðgjöf hefur verið í boði fyrir markhóp FA frá árinu 2006, þeim einstaklingum að kostnaðarlausu. Til markhópsins teljast fullorðnir einstaklingar sem hafa ekki lokið fullu námi frá framhaldsskóla, þ.e. ekki lokið stúdentsprófi, iðnnámi eða sambærilegu námi og þeir sem ekki hafa viðurkennt nám eða viðurkennda færni á sama þrepi til starfa í íslensku samfélagi þótt þeir hafi lokið námi erlendis. Viðtölin eru fjármögnuð af Fræðslusjóði í samræmi við lög um framhaldsfræðslu nr. 27/2010.
Alls eru 14 fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar um allt land sem sinna náms- og starfsráðgjöf fyrir markhópinn. Boðið er upp á einstaklingsviðtöl og hópráðgjöf, kynningarfundi á vinnustöðum, viðtöl í tengslum við raunfærnimat og fleira.
Á tímabilinu 2006–2017 voru tekin samtals 95.343 ráðgjafarviðtöl, árið 2006 var fjöldi viðtala 1.231 og árið 2017 voru þau 8.690. Eftirspurnin eftir ráðgjöf um nám og störf hefur aukist jafnt og þétt hjá markhópnum og hafa viðtölin verið í kringum 9.000 á ári síðustu árin. Fjöldi ráðgjafarviðtala náði hámarki árið 2013 þegar þau voru 11.089 en það má að hluta til skýra af úrræðum sem voru í boði vegna efnahagskreppunnar.
Árið 2006 buðu níu fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar upp á ráðgjöf fyrir markhópinn, þrjár til viðbótar bættust við árið eftir, ein bættist við árið 2010 og sú fjórtánda árið 2015. Hér má sjá myndrænt yfirlit yfir fjölda viðtala á hverja miðstöð frá árinu 2006.
Tvær þessara miðstöðva sinna nær eingöngu iðngreinum en hinar sinna öðrum starfsgreinum. Skiptingu viðtala hjá fræðslumiðstöðvum iðngreina og símenntunar- miðstöðva má sjá nánar á töflu 1.
Nánari skráning á ráðgjafarviðtölum, önnur en fjöldi þeirra og hjá hvaða fræðslu- og símenntunarmiðstöð viðtalið var tekið, var ekki framkvæmd fyrir árin 2006 og 2007. En eftir það hefur ítarlegri upplýsingum um viðtölin verið safnað sem gefa gleggri mynd af markhópnum sem sækir þessa þjónustu.
Hlutfall kynja
Frá því að mælingar hófust hafa karlar verið í örlitlum meirihluta þeirra sem sækja ráðgjafarviðtöl, fyrir utan árið 2008. Þetta má skýra af fjölda þeirra sem sækja raunfærnimat en þar eru karlar í meirihluta. Náms- og starfsráðgjöf er hluti af raunfærnimati.
Aldur ráðþega
Meirihluti þeirra sem sækja sér náms- og starfsráðgjöf hjá fræðslu- og símenntunar- miðstöðvum eru á aldrinum 26–40 ára og hefur hlutfall þess aldurshóps haldist nokkuð jafnt frá byrjun þessa úrræðis.
Menntunarstig
Menntunarstig þjóðarinnar hefur hækkað samkvæmt frétt Hagstofunnar frá 20. apríl 2018. Þar segir að háskólamenntuðum landsmönnum á aldrinum 25–64 ára hafi fjölgað um 14,7% frá árinu 2003 og að á sama tíma hafi þeim fækkað sem hafa eingöngu lokið grunnmenntun um rúmlega 11 prósentustig.
Meirihluti einstaklinga sem koma í náms- og starfsráðgjöf falla innan markhóps FA, þ.e. fullorðnir einstaklingar sem ekki hafa lokið framhaldsskóla eða sambærilegu námi. Árið 2008 höfðu 63% notenda aðeins lokið grunnskóla eða hafið nám í framhaldsskóla en ekki lokið því. Árið 2017 var hlutfall þeirra 84%. Menntunarstig notenda var ekki skráð árin 2006 og 2007.
Staða á vinnumarkaði
Þegar skoðuð er staða ráðþega á vinnumarkaði kemur í ljós að hlutfall þeirra sem voru atvinnuleitendur og/eða komu í náms- og starfsráðgjöf í gegnum VMST hækkaði mikið á árunum 2009–2013 en þeir voru 57% ráðþega árið 2010. Árið 2017 er þetta hlutfall orðið 11% af heildarfjöldanum. Að sama skapi fækkaði þeim sem voru í starfi á árunum 2009–2013 og lægsta hlutfall var 29% notenda árið 2010. Hins vegar var 70% notenda þjónustunnar í starfi árið 2017. Þeim sem eru í starfsendurhæfingu fjölgaði úr 3% í 8% á milli áranna 2016 og 2017 en á sömu árum fækkar atvinnuleitendum en það sýnir mögulega ákveðna þróun í þessum hópi.
Þjóðerni
Íslendingar hafa verið um 90% þeirra sem sækja þjónustu náms- og starfsráðgjafa framhaldsfræðslunnar. Árin 2006 og 2007 var þetta ekki skráð og árin 2008 og 2009 var þjóðerni ekki skilgreint nánar en í erlenda ríkisborgara og Íslendinga. Frá 2010 var farið að skrá ríkisfang ráðþega og því er hægt að skilgreina þjóðerni nánar. Hér eru Pólverjar teknir til sérstaklega þar sem þeir eru fjölmennastir erlendra ríkisborgara sem búa á Íslandi.
Árið 2017 sker sig úr bæði vegna þess að fjöldi erlendra ríkisborgara sem sækja þessa þjónustu er að aukast og einnig því þá var tekið upp nýtt skráningarkerfi fyrir framhaldsfræðsluna, Inna, sem gefur mun nákvæmari mynd á t.d. þjóðerni ráðþega.
Árið 2017 voru Íslendingar 86% allra notenda þjónustu náms- og starfsráðgjafa, Pólverjar 7% og aðrir erlendir ríkisborgarar 8%. Fjölmennustu þjóðernin má sjá á töflu 2.
Meirihluti notenda þjónustunnar, hvort sem það eru Íslendingar eða frá öðrum löndum, eru innan markhóps framhaldsfræðslunnar eins og áður hefur komið fram. Sem dæmi eru 56% Íslendinga, 55% Pólverja og 50% notenda frá öðrum löndum með menntun sem samsvarar að hafa hafið nám í framhaldsskóla en ekki lokið því. Hins vegar er athyglisvert að sjá að 38% erlendra ríkisborgara annarra en Pólverja, eru aðeins með grunnskólapróf á móti 25% Pólverja og 19% Íslendinga. Þetta sést nánar á mynd 8.
Ef skoðuð er staða á vinnumarkaði má sjá að meirihluti Íslendinga, Pólverja og annarra erlendra ríkissborgara eru í starfi. Athygli vekur hversu hátt hlutfall þeirra Pólverja, sem sækja þessa þjónustu, eru í atvinnuleit eða 34,8%.
Ástæður viðtala
Ástæðum þess að einstaklingar sækja þessa þjónustu er skipt upp í nokkra flokka og má sjá yfirlit fyrir árin 2014–2017 á mynd 10. Meirihlutinn sækir þjónustuna að eigin frumkvæði eða um 57% að meðaltali, þá koma um 14% að meðaltali eftir kynningu í fyrirtæki eða stofnun og um 7% eru í viðtölum vegna raunfærnimats.
Niðurstöður viðtala
Skráning á niðurstöðum viðtala er skipt upp í allmarga flokka og því eru hér aðeins skoðuð árin 2016 og 2017. Meirihluti viðtalanna eru vegna raunfærnimats, um 20%, eða til upplýsinga um formlegt nám, um 17% en einnig er algengt að viðtalið gangi út á aðstoð við starfsleit (tæp 9%) eða sjálfsstyrkingu um 9,5%.
Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur lagt áherslu á að þróa náms- og starfsráðgjöf fyrir markhóp framhaldsfræðslunnar þar sem horft er til þess að mæta þörfum hvers og eins í samræmi við viðhorf, hugmyndir og gæðakröfur í framhaldsfræðslu. Ráðgjöfin er einn af lyklunum að því að ná til markhópsins og tengja þá við viðeigandi tækifæri í námi og starfi. Þegar rýnt er í tölfræðina má sjá að þjónusta náms- og starfsráðgjafa er vel nýtt af þessum hópi og hugsanlega má draga þá ályktun að hún eigi sinn þátt í að hækka menntunarstig þjóðarinnar.