- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Nauðsyn öflugrar framhaldsfræðslu

Framhaldsfræðslu á vettvangi atvinnulífsins hefur vaxið fiskur um hrygg og er hún nú margháttuð og umfangsmikil. Hún gegnir lykilhlutverki í stuðningi við markmið um aukna menntun og hærra menntunarstig þjóðarinnar. Hlutverk Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins er að veita fólki á vinnumarkaði, sem ekki hefur lokið prófi frá framhaldsskóla, tækifæri til að afla sér menntunar eða bæta stöðu sína á vinnumarkaði, ásamt því að vera ein meginstoð íslenska framhaldsfræðslukerfisins. Þar er lagður grunnur að öflugu kerfi framhaldsfræðslu, s.s. í raunfærnimati, hæfnigreiningum, kennslufræði, gæðamati, gerð námskráa og í náms- og starfsráðgjöf, svo eitthvað sé nefnt.

Í tengslum við kjarasamninga 2008 lýsti ríkisstjórn Íslands því yfir að stefnt yrði að því að lækka hlutfall einstaklinga sem ekki hefðu lokið formlegu námi umfram skyldunám úr 30% niður í 10% árið 2020. Tíu árum síðar hefur hlutfallið aðeins lækkað og er nú á bilinu 20–25%. Ljóst er að betur má ef duga skal. Til þess þarf að auka skilvirkni menntakerfisins verulega, draga úr brotthvarfi, auk þess að gera stórátak í að auka menntun þeirra sem nú starfa á vinnumarkaði og hafa að forminu til aðeins lokið grunnskólanámi.

Á síðustu árum hafa framlög til þess hluta menntakerfisins sem er fyrir þá sem minnsta menntun hafa dregist saman á sama tíma og framlög til framhaldsskóla og háskóla hafa aukist. Þannig hafa framlög til framhaldsfræðslu dregist saman um 12,9% frá árinu 2013 á sama tíma og framlög til framhaldsskóla hafa aukist um ríflega 57% og til háskóla um 72%. Þessi þróun endurspeglar hvorki markmið um að fjölga þeim sem lokið hafa formlegu grunnnámi umfram skyldunám, né þær áherslur, sem settar voru fram í lögum nr. 27/2010 um framhaldsfræðslu, um að auðvelda aðgengi fólks með stutta skólagöngu að námi. Í þeim hópi eru þeir sem standa hvað höllustum fæti á vinnumarkaði og finna fyrstir fyrir þeim öru tæknibreytingum sem nú eiga sér stað. Auka þarf fjármagn til Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins til að gera henni kleift að sinna hlutverki sínu við að þróa öflug verkfæri sem veita fólki á vinnumarkaði, sem ekki hefur lokið námi í framhaldsskóla, tækifæri til frekari menntunar. Framlög til framhaldsfræðslu, fyrir þá sem minnsta formlega menntun hafa, þarf að auka til samræmis við önnur skólastig, ásamt því að efla enn frekar þróun og stuðning við framhaldsfræðslukerfið.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins er mikilvægur þátttakandi í umræðu og stefnumótun um framhaldsfræðslu á Íslandi. Með sameiginlegu átaki þarf að gera einstaklingum kleift að auka hæfni sína, innan óformlega og formlega menntakerfisins, meðal annars með því að leggja áherslu á menntun alla starfsævina sem farið geti fram jöfnum höndum innan símenntunarstöðva, á vinnustöðum eða í skólum. Brýnt er að byggja brýr milli framhaldsfræðslunnar og formlega skólakerfisins og að nýta raunfærnimat á móti viðmiðum atvinnulífsins og námskráa, til að meta hæfni einstaklinga, óháð því hvar hennar er aflað. Huga þarf að heildarmyndinni og að hætta að líta á nám í formlega kerfinu og fullorðinsfræðslunni sem tvö aðskilin og ósamræmanleg kerfi.

Samfélagið og vinnumarkaðurinn standa frammi fyrir gífurlegum áskorunum á næstu áratugum. Örar tæknibreytingar kalla á að einstaklingar munu þurfa að afla sér aukinnar menntunar. Tryggja þarf að misræmi myndist ekki milli menntunar sem er í boði og þarfa atvinnulífsins og því er mikilvægt að greina færni- og mannaflaþörf á vinnumarkaði og vinna að hæfnistefnu fyrir Ísland. Þar gegnir Fræðslumiðstöðin veigamiklu hlutverki. Þá þarf að kortleggja nánar þörf á sí- og endurmenntun þeirra sem fyrir eru á vinnumarkaði, þar sem flest bendir til þess að mikilvægi slíkrar fræðslu og menntunar fari vaxandi í náinni framtíð.

Það góða og mikilvæga starf sem unnið hefur verið hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins er óumdeilt. Halda þarf áfram að finna leiðir til að ná til markhópsins, skilgreina menntunarþarfir hópsins og tryggja áframhaldandi gæði framhaldsfræðslu.

Eyrún Valsdóttir

Eyrún Valsdóttir er deildarstjóri Fræðsludeildar ASÍ og skólastjóri Félagsmálaskólans. Hún er með B.ed.-gráðu frá Kennaraháskóla Íslands, M.Paed.-gráðu frá Háskóla Íslands og MA-gráðu í náms- og starfsráðgjöf frá sama skóla. Hún starfaði áður sem náms- og starfsráðgjafi í Tækniháskóla Íslands (THÍ) og eftir sameiningu THÍ og HR sem forstöðumaður markaðs- og kynningarsviðs. Þar áður vann hún í 17 ár hjá VISA (nú Valitor) samhliða námi.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi