- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Norrænt tengslanet um nám fullorðinna

Norrænt tengslanet um nám fullorðinna (NVL) er áætlun á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur vistað NVL á Íslandi frá því að netið var sett á laggirnar. Samningur um tengslanetið gildir til loka ársins 2020 og er greinarhöfundur fulltrúi Íslendinga í netinu.

Um NVL

Móðurnet NVL er skipað fulltrúum frá öllum Norðurlöndum auk tengiliða frá Færeyjum, Grænlandi og Álandseyjum ásamt framkvæmdastjóra, verkefnastjóra og vefstjóra. NVL starfrækir einnig fjölda annarra tengslaneta undir stjórn og ábyrgð landanna. Í tengslanetunum eru sérfræðingar og fulltrúar stofnana og samtaka á ýmsum sviðum, meðal annars í læsi, menntun fanga, raunfærnimati og náms-og starfsráðgjöf. Netin eru viðvarandi líkt og raunfærnimatsnetið eða tímabundin líkt og netið um færni í atvinnulífinu sem var stofnað í haust og mun starfa næstu tvö árin. Einnig var nýtt net um hæfni leiðbeinanda sett á laggirnar á árinu. NVL hvetur til þverfaglegs samstarfs á milli ólíkra tengslaneta, stofnar til nýrra sérfræðineta og eflir með því norrænt samstarf. Í þessari grein verður fjallað um það helsta í starfi NVL á Íslandi.

Móðurnet NVL

Móðurnet NVL hefur á þessu ári haldið fjóra sameiginlega fundi. Tengiliður Íslands hefur sótt þá alla. Fyrsti fundurinn var haldinn í Aarhus í febrúar en VIA University College tók við af Kompetanse Norge sem hýsingaraðili NVL-áætlunarinnar í upphafi árs. Fundinn í Stokkhólmi, sem haldinn var í byrjun júní, sátu einnig stjórnendur þeirra stofnana sem hýsa NVL á Norðurlöndum, auk fulltrúa landanna í sérstökum verkefnum sem lúta að fræðslu fullorðinna á vegum Evrópusambandsins (European Agenda for Adult Learning). Móðurnetið fundaði á Íslandi í ágúst. Lokafundur í ár verður svo haldinn í Kaupmannahöfn í byrjun desember.

Starfið á Íslandi

Fyrsti viðburður netsins á Íslandi var fundur sem haldinn var í Hannesarholti snemma árs. Þar kvaddi fráfarandi NVL fulltrúi á Íslandi, Sigrún Kristín Magnúsdóttir, íslenska meðlimi í tengslanetum NVL. Á fundinum miðluðu einnig fulltrúarnir upplýsingum um starfsemi sinna hópa og greindu frá helstu áherslum í starfinu. Fulltrúar í netunum hafa verið boðaðir árlega á sambærilega fundi og hafa verið þakklátir fyrir að fá að hitta aðra fulltrúa og þar með betri yfirsýn yfir verkefni tengslanetanna.

Í apríl kom NVL að námskeiði sem haldið var á vegum félags náms- og starfsráðgjafa. Leiðbeinandi á námskeiðinu var dr. Norman Amundson, prófessor í ráðgjafarsálfræði við Háskólann í Bresku Kólumbíu í Kanada. Amundson er heimsþekktur fyrirlesari og kennari á námskeiðum innan náms- og starfsráðgjafar. Í skrifum sínum og fyrirlestrum hefur Amundson lagt áherslu á mátt skapandi hugsunar, ímyndunaraflsins, vitundar um menningu, jákvæðrar afstöðu til lífsins, vonar og virkni.

Fjölmenni var á góðum fundi FA, NVL og SA um hæfnistefnu og raunfærnimat í atvinnulífinu sem haldinn var í húsakynnum Samtaka atvinnulífsins í byrjun apríl. Tormod Skjerve, norskur sérfræðingur um hæfnistefnu og mat á hæfni, hélt erindi um hæfnistefnu Norðmanna og hvernig raunfærnimat á móti viðmiðum atvinnulífsins hefur verið framkvæmt í norsku atvinnulífi.

Í haustbyrjun hélt Distans-tengslanetið og NVL á Íslandi fjölmenna ráðstefnu á Grand hóteli. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Nám fullorðinna, þróun dreifbýlis og gagnvirk skapandi tækni“. Auk áhugaverðra fyrirlesara fengu þátttakendur tækifæri til að auka leikni sína í notkun nýrra verkfæra við nám og kennslu. Styrktaraðilum ráðstefnunnar, Microsoft, Promennt, Epale og Tækninám.is, eru færðar sérstakar þakkir fyrir þátttöku og framlag.

Þema ársfundar Fræðslumiðstöðvar atvinnulífisins, sem haldinn verður 29. nóvember á Grand hóteli, er raunfærnimat í atvinnulífinu. Fundurinn er haldinn í samstarfi við NVL. Fyrirlesarar verða Marina Nilsson og Kersti Wittén frá Visita í Svíþjóð. Fulltrúum atvinnulífsins, fyrirtækja og fræðsluaðila verður boðið að taka þátt í pallborðsumræðum um þema fundarins. Eins og hefð er fyrir verða veittar viðurkenningar til fyrirmynda í námi fullorðinna.

DialogWeb og fréttabréf NVL

Eitt mikilvægasta verkefni NVL er að miðla upplýsingum um verkefni, aðferðir og aðgerðir er varða fullorðinsfræðslu á Norðurlöndum. Á heimasíðu NVL, www.nvl.org, eru upplýsingar um starfsemi NVL. Þar er líka veftímaritið DialogWeb en slóð að veftímaritinu er https://nvl.org/DialogWeb. Nýjar greinar birtast í hverri viku. Fulltrúi Íslands í ritstjórn er Sigrún Kristín Magnúsdóttir. Hún hefur reglulega skrifað greinar í ritið og miðlað upplýsingum um það sem efst er á baugi og varðar fræðslu fullorðinna á Íslandi.

Undanfarin ár hefur NVL einnig gefið út fréttabréf. Sú útgáfa lagðist niður í upphafi árs en var endurvakin á haustdögum. Á þriðja þúsund áskrifendur hvaðanæva að á Norðurlöndum fá í hverjum mánuði glóðvolgar fréttir af því sem efst er á baugi í menntamálum hvers norrænu landanna. Fréttirnar eru yfirleitt á skandinavísku málunum en hluti þeirra er jafnframt á íslensku og finnsku.

Hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfinu á vefnum http://nvl.org/Nyheter með því að smella þar á hnappinn „Abonnera på Nyhetsbrev“ og fylla út umsóknarform.

Hildur Hrönn Oddsdóttir

Hildur Hrönn Oddsdóttir er sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og fulltrúi NVL á Íslandi. Hildur hefur lokið fil.kand.-prófi í trúarbragðasögu frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð, M.Sc. í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands og kennsluréttindum frá sama skóla. Hún hefur sinnt þróun og skipulagi á námi og kennslu fyrir fullorðna um árabil.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi