- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Raunfærnimat í húsasmíði. Hvað svo?

Fjöldi fullorðinna einstaklinga hefur um mislangt skeið starfað í byggingariðnaði án starfsréttinda á því sviði. Margir hafa langa reynslu að baki og hafa tekist á við flest þau verkefni sem starfið býður upp á og öðlast þannig bæði þekkingu og færni sem nýtist í starfi.

Færni og þekking metin að verðleikum

Frá árinu 2004 hefur reyndu starfsfólki í ýmsum iðngreinum boðist að undirgangast raunfærnimat og sýna fram á og fá viðurkennda þekkingu sína og færni. Með þessari viðurkenningu hefur viðkomandi gefist kostur á að stytta nám sitt kjósi hann eða hún að ljúka námi í greininni. Þegar þessi leið var kynnt á sínum tíma mætti hún víða tortryggni og rætt var um að með henni væri iðnnámið gjaldfellt verulega. Frá upphafi hafa rúmlega 4.000 manns undirgengist raunfærnimat, ekki síst í húsasmíði og öðrum byggingargreinum og raddir um gjaldfellingu náms hafa að mestu þagnað.

Það þarf ekki að taka fram að flestir þeir sem undirgangast raunfærnimat eru í fullu starfi og eiga erfitt með að láta af því til að stunda nám í dagskóla, einkanlega ef það þýðir jafnframt að viðkomandi þarf að flytja búferlum með fjölskyldu sína. Reynslan hefur sýnt að fjölskyldufólk, sem flytur búferlum vegna náms, á mun síður afturkvæmt í heimabyggð sína en þeir sem geta stundað nám með vinnu. Þá vaknar spurningin um það hvaða valkostir eru fyrir hendi fyrir þá sem gjarnan vilja stunda nám í iðngrein sem byggir að stórum hluta á verknámi án þess að raska um of högum sínum að öðru leyti.

Helgarnám í húsa- og húsgagnasmíði við FNV

Það var í ljósi þessa sem Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra bauð í fyrsta sinn upp á helgarnám í húsasmíði árið 2008 fyrir nemendur sem náð hafa 23 ára aldri og hafa reynslu af störfum við húsasmíði. Síðar bættist við nám í húsgagnasmíði.

Námið er byggt upp á þann hátt að nemendur mæta um hádegi á föstudegi og verja helginni til náms í faggreinum húsasmíði og húsgagnasmíði, bæði bóklegum og verklegum í fimm til sex helgar á önn í fjórar annir.  Það er misjafnt hvaða leiðir nemendur fara til að ljúka námi í almennum greinum. Sumir stunda fjarnám við FNV en aðrir kjósa að stunda nám í símenntunarmiðstöðvum í sinni heimabyggð samkvæmt námskrám á borð við Nám og þjálfun.

Kostir helgarnámsins

Helgarnámið býður upp á að nemandinn haldi áfram í starfi og geti búið áfram í sinni heimabyggð með lágmarksröskun á tekjum og fjölskyldulífi. FNV hefur átt í afar góðu samstarfi við Farskólann, miðstöð símenntunar, um námsframboð fyrir þá sem vilja fara þessa leið. Sumir hafa komist á bragðið og haldið áfram námi til iðnmeistara eða stúdentsprófs.

Nemendur í helganáminu eru víða að af landinu og sumir koma um langan veg. Þessir nemendur hafa náð góðum árangri í námi eins og frammistaða þeirra á sveinsprófum hefur sýnt og mikil ánægja er meðal þeirra með þetta fyrirkomulag. Um næstu áramót munu 23 nemendur ljúka námi en alls hafa um 140 nemendur farið þessa leið við FNV og fyrirséð er að a.m.k. tveir hópar munu hefja nám  á vorönn 2019.

Þessi samtvinnun vinnu og náms, sem m.a. byggir á niðurstöðum raunfærnimats, hefur sannað gildi sitt og raunfærnimatið hefur reynst ótvíræður hvati fyrir fullorðna einstaklinga til að hefja nám til starfsréttinda sem kemur bæði viðkomandi og samfélaginu öll til góða.

Þorkell V. Þorsteinsson

Þorkell V. Þorsteinsson, settur skólameistari við FNV, hann hefur starfað við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra frá haustinu 1980 sem enskukennari, umsjónarkennari, náms- og starfsráðgjafi, aðstoðarskólameistari og nú síðast sem settur skólameistari skólaárið 2018–2019.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi