Raunfærnimat er ein þriggja stoða sem framhaldsfræðslan hvílir á, hinar eru náms- og starfsráðgjöf og vottaðar námsleiðir
Krefjandi aðstæður sköpuðust á síðast liðnum vormánuðum í þann mund sem til stóð að hefja þrjú verkefni á sviði raunfærnimats hjá Fræðslunetinu – símenntun á Suðurlandi. Tímasetning og verkefnaval var vandlega ígrundað og var í beinum tengslum við vottaðar námsleiðir sem áætlað var að bjóða upp á að hausti. Því var fátt annað í stöðunni en að láta á það reyna að halda áætlun og færa raunfærnimatið í netheima.
Nú er það svo að Fræðslunetið – símenntun á Suðurlandi þjónar mjög stóru svæði, landfræðilega en starfssvæðið nær frá Þorlákshöfn í vestri til Hafnar í Hornafirði í austri. Þessi staðreynd hefur orðið til þess að í mörg ár eða frá árinu 2012 hefur verið boðið upp á dreifnám það er blöndu af stað- og fjarnámi. Sú þekking nýttist í vor þegar ljóst varð að ekki var um annað að ræða en að nota netheima fyrir raunfærnimat. Þrenns konar verkefni voru á áætlun og fljótlega sýndi sig að þátttakendur komu víða að og matsaðilar sömuleiðis. Verkefnastjórar unnu heima þannig að ljóst var að við þær aðstæður hentaði að nota forritið Teams til samskipta.
Raunfærnimat og forritið Teams
Forritið Teams býður upp á ýmsa möguleika sem hægt er að nýta til að hafa samskipti á milli fólks í hópi. Í raunfærnimati þarf að tengja saman fjóra einstaklinga, þátttakendur í raunfærnimati, tvo matsaðila og verkefnisstjóra, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
En hvernig gengur að vinna við þessar aðstæður?
Verkefnisstjóri sem var jafnframt náms- og starfsráðgjafi sá um að auglýsa og kynna verkefnin, svara fyrirspurnum, taka skimunarviðtöl, aðstoða við gátlistagerð, útvega matsaðila , veita upplýsingar um Teams-forritið og leiðbeina með notkun og ákveða matstíma. Þegar búið er að ákveða matstíma þarf að senda fundarboð til viðkomandi aðila og til þess að allt standist áætlun þarf að opna fundinn vel fyrir áætlaðan tíma – til þess að tryggja að allt sé í lagi og allir komist á fundinn. Aðstæður voru þannig í mars síðast liðnum að þó nokkrir hnökrar gerðu vart við sig – enda forritið kannski ekki alveg viðbúið þeirri umferð á vefnum sem varð.
Þátttakendur voru misjafnlega vel undirbúnir til að takast á við þá áskorun að nota eingöngu ,,fjar” skipti. Þeir sem fara í raunfærnimat eru einstaklingar sem oft hafa verið lengi á vinnumarkaði en í umhverfi þar sem ekki er krafist mikillar upplýsingatækni fyrir utan að geta nýtt sér samfélagsmiðla og sinnt bankaþjónustu. Útbreiðsla og notkun Teams hófst hins vegar fyrir alvöru með kórónuveirufaraldrinum og því voru fæstir þátttakenda sem heyrt höfðu um þetta forrit.
Nemendur framhaldsfræðslunnar eru mismunandi en margir eiga það sameiginlegt að vera að hefja nám eftir langt hlé sem oft á tíðum byrjar með raunfærnimati. Í því ferli er náms- og starfsráðgjöf mjög mikilvæg og styðjandi fyrir þátttakendur. Yfirstíga þarf ýmsa þröskulda sem ekki næst alltaf. Í þessum verkefnum kom berlega í ljós að einstaklingar af erlendum uppruna áttu mun erfiðara með þetta ferli en aðrir og heltust nokkrir þeirra úr lestinni sem leitt var að verða vitni að. Aðfluttir einstaklingar teljast til hóps sem fer vaxandi innan framhaldsfræðslunnar en er jafnframt viðkvæmari og þarf góðan stuðning. Einstaklingar í þessum hópi þurfa umtalsvert meiri þjónustu – fleiri viðtöl og mikla eftirfylgni. Þá ber að nefna að einstaklingar með erfiða skólasögu að baki eiga oftast erfitt með að stíga aftur inn í aðstæður sem að þeir hafa forðast lengi og flokkast því til viðkvæms hóps eins og aðfluttir.
Þeir sem nýta sér þjónustu framhaldsfræðslunnar eru oftar en ekki hópur einstaklinga sem af ýmsum ástæðum hafa ekki lokið formlegu námi – flestir hafa hætt í framhaldsskóla og farið út á vinnumarkaðinn. Þeir hafa margir hverjir unnið lengi við sömu eða svipaða atvinnugrein og aflað sér mikillar þekkingar og reynslu.
Í raunfærnimatsverkefnunum í vor var það raunin. Um er að ræða um það bil 50 einstaklinga sem áttu það sameiginlegt að hafa starfað mjög lengi við ákveðin störf án þess að hafa nokkur formleg réttindi. Þessi hópur stóð sig mjög vel og lét sig hafa það að fara í gegnum matið við snúnar aðstæður sem oftar en ekki tengdust tækni 21. aldar. Það verður líka að segjast að glíman við tæknivandamál dempaði spennu hjá þátttakendum sem algengt er að grípi um sig þegar tekist er á við nýjar aðstæður sem að einhverju leyti minna á drauga fortíðar hjá sumum.
Samantekt
Úrvinnsla úr erfiðum aðstæðum gekk vel þegar á heildina er litið. Það reyndi mikið á alla aðila en mest þó á þátttakendur sem margir hverjir hafa ekki mikla grunnþekkingu á stafrænni hæfni. Ferlið sýnir margt, meðal annars að hægt er að nýta fjarþjónustu fyrir flesta – en sumir einstaklingar þurfa meiri nánd og stuðning en hægt er enn að veita ,,á netinu”. Þessi reynsla skilaði mikilli þekkingu og reynslu sem túlka má með þeim hætti að það er vel hægt að nota netið fyrir raunfærnimat en niðurstaða verkefnisstjóra er að blönduð aðferð þar sem raunviðtöl væru notuð í byrjun væri betri fyrir þátttakendur – sérstaklega fyrir þá sem tilheyra viðkvæmum hópum.