Undanfarin ár hefur Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) veitt fyrirmyndum í námi fullorðinna viðurkenningu. Viðurkenningin er veitt til þeirra sem hafa skarað fram úr og sýnt góðan námsárangur, frumkvæði og kjark við að yfirstíga ýmsar hindranir eins og læsis- eða námsvanda. Fyrirmyndirnar eru valdar úr hópi tilnefninga frá samstarfsaðilum Fræðslumiðstöðvarinnar. Á ársfundi Fræðslumiðstöðvarinnar 2017 var viðurkenningin veitt í níunda sinn og í þetta skiptið féll hún í skaut tveggja einstaklinga: Jönu Kharatian frá MSS, Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, og Ólafs Björns Stefánssonar frá Farskólanum, Miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra. Fyrirmyndirnar eiga það sameiginlegt að hafa verið þátttakendur í vottuðum námsleiðum framhaldsfræðslunnar og í kjölfarið bætt stöðu sína á vinnumarkaði.
Jana Kharatian
Jana kom til landsins í desember 2006 og var ánægð með land og þjóð. Hún var svo lánsöm að fá nánast strax vinnu í bakaríi og skildi mikilvægi þess að geta talað íslensku. Fljótlega eftir að hún kom til landsins sem innflytjandi hóf hún nám í íslensku hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum á árunum 2007–2008. Jana gerði sér frá upphafi grein fyrir að til þess að ná markmiðum sínum þyrfti hún að ná góðum árangri í tungumálinu og með því gæti hún sýnt virðingu sína fyrir þjóðinni í verki. Hún sýndi strax mikinn áhuga á að mennta sig og hefur verið einstaklega duglegur námsmaður. Hún var mjög heppin með kennara og henni finnst gaman að læra alltaf eitthvað nýtt.
Jana hóf störf á leikskóla og það hjálpaði henni mikið við að ná góðum tökum á töluðu máli. Árangursríkt starf hennar á leikskólanum hvatti hana áfram til að mennta sig á því sviði og tók hún þá grunnnám skólaliða árið 2010. Hún var ánægð í vinnunni og hlakkaði á hverjum degi til að fara til vinnu og hitta börnin. En henni fannst hún ekki kunna nóg og ákvað að halda áfram námi.
Árið 2014 hóf Jana nám í Leikskóla- og stuðningsfulltrúabrú hjá MSS sem er kennt á tveim árum. Hún lauk því námi í desember 2016 með framúrskarandi árangri. Hún segir að námið hafi verið erfitt vegna þess að hún hefur ekki íslensku að móðurmáli en þrátt fyrir það hafi hún haft ánægju af náminu. Hún hóf störf hjá Njarðvíkurskóla sem skólaliði en fór að starfa sem stuðningsfulltrúi með tímanum í sama skóla og styrkti námið hana í því.
Jana hefur alltaf verið mjög jákvæð í garð námsins og tókst henni mjög fljótlega að ná tökum á íslenskunni. Það sýndi sig þegar hún kom svo í Leikskóla- og stuðningsfulltrúabrú að hún var reiðubúin til að leggja mikið á sig og skilaði öllum verkefnum og prófum mjög vel af sér. Hún hefur einstaklega góða nærveru og mikla útgeislun. Hún er þakklát fyrir að hafa fengið þessi tækifæri til náms og að starfsmenn MSS þar hafi allir sem einn hafi haldið vel utan um námsmenn og stutt þá og hvatt á alla lund.
Ólafur Björn Stefánsson
Fyrrverandi námsmaður í Farskólanum, Miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra, Ólafur Björn Stefánsson, hlaut einnig viðurkenningu. Ólafur hóf nám í framhaldsskóla en gafst fljótlega upp vegna lesblindu. Fór síðar í nám í fiskvinnslu í Dalvík og gekk ljómandi vel í öllum fögum nema tungumálum, hætti aftur og hélt til sjós. Að nokkrum árum liðnum fór hann aftur í land og vann verkamannavinnu. Flutti til Reykjavíkur og fór að vinna hjá Samskipum en hitti fljótlega mann sem átti eftir að skipta sköpum í lífi hans. Það var Anton Kjartansson pípulagningameistari sem bauð honum vinnu.
Að loknu fyrsta árinu við smíðar var hann „lánaður“ yfir í pípulagningadeildina þar sem hann kunni vel við sig og þótti verkefnin skemmtileg. Fyrr en varði var Ólafur kominn á samning í pípulögnum en langaði auðvitað ekkert í skólann. En sem nemi á samningi komst hann ekki hjá því að setjast aftur á skólabekk og enn og aftur voru tungumálin honum óyfirstíganleg hindrun og Ólafur gafst upp og hætti.
Hann flutti aftur til síns heima fyrir norðan og fór að vinna þar. Þá bar svo til að Heiða, náms- og starfsráðgjafi, heimsótti vinnustaðinn og tók hann tali. Sagði honum að hann hefði tækifæri til þess að hefja nám að nýju því að um kvöldið yrði kynning á raunfærnimati í Farskólanum. Hann sló til, fór á kynninguna og skráði sig í framhaldinu í raunfærnimat. Fékk nánast allt fagið metið en skorti enn tungumálin. Hann hóf nám í námsleiðinni Nám og þjálfun í almennum bóklegum greinum en námsaðferðin sem beitt er þar, með verkefna- og hópavinnu, hentaði honum afar vel. Lauk náminu með ágætis árangri og að því loknu hafði sjálfstraustið eflst og hann fór suður og lauk sveinsprófi frá Iðnskólanum í Hafnarfirði. Lét ekki þar við sitja, skráði sig í nám við Tækniskóla Íslands þaðan sem hann lauk meistaranámi í pípulögnum. Kann vel við sig í starfi og nýtur lífsins.