Erasmus+ menntaáætlun Evrópusambandsins hefur veitt styrki til að efla starf landstengiliða í fullorðinsfræðslu (National Coordinators for Adult Agenda) í aðildarlöndum og EFTA-löndum. Hlutverk landstengiliðanna er að miðla upplýsingum um stefnur og strauma í námi fullorðinna, s.s. í gegnum EPALE, jafningjasamstarf og þátttöku í evrópskum samstarfsverkefnum.
Evrópuverkefni landstengiliðs
Menntamálaráðuneytið fékk í samstarfi við Rannís styrk til tveggja ára frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til þess að styðja við þróun formlegs samráðsvettvangs í framhaldsfræðslu. Mennta- og menningarmálaráðherra skipaði því svokallaðan Samráðshóp um nám fullorðinna í byrjun árs 2018 til fjögurra ára. Hlutverk hópsins er að vera faglegur vettvangur um málefni sem tengjast námi þeirra fullorðnu einstaklinga sem tilheyra markhópi laga nr. 27/2010 um framhaldsfræðslu. Til að fá sem mesta breidd í hópinn var óskað eftir tilnefningum frá 17 hagsmunaaðilum og voru 33 fulltrúar tilnefndir. Með starfi samráðshópsins á að vera hægt að taka fyrir einstök málefni, skiptast á skoðunum, veita upplýsingar, skýra mismunandi sjónarmið, vekja athygli á málum og finna úrlausnarefnum farveg.
Rýnt í regluverk framhaldsfræðslunnar
Eitt fyrsta verkefni samráðshópsins var að rýna í lög um framhaldsfræðslu með það fyrir augum að móta tillögur sem nýst geta við gerð nýs frumvarps um nám fullorðinna. Fundað var með öllum fulltrúum samráðshóps í upphafi árs en síðan var ákveðið að stofna smærri vinnuhópa sem fulltrúar samráðshópsins dreifðu sér í. Tveir samráðsfundir hafa verið haldnir á árinu en sá þriðji féll niður og einnig hafa verið haldnir fjöldi minni vinnufunda um endurskoðun laganna. Þá hafa svæðisbundnir fundir einnig verið skipulagðir og náðist að halda fjölmennan fund á Akureyri 18. apríl sl. en fyrirhugað var að hitta álíka fjölda hagsmunaaðila á Ísafirði degi fyrr, áður en vestfirsk veður létu til sín taka. Enn er því stefnt að því að ná til fleiri hagsmunaaðila utan höfuðborgarsvæðisins. Til að starfið sé sem mest sýnilegt er haldið utan um vinnu samráðshópsins, samsetningu hans, fundargerðir, gögn og skýrslur á opnum vinnuvef.
Þrátt fyrir að lög um framhaldsfræðslu séu tiltölulega ný og hafi nú þegar lyft grettistaki í námi fullorðins fólks með stutta skólagöngu að baki, þá er talin þörf á því að skerpa á áherslum, einfalda regluverkið eins og kostur er og skýra betur verksvið þeirra sem undir lögin heyra. Við endurskoðun laganna á m.a. að horfa til þess hvort útvíkka eigi lögin þannig að þau nái yfir breiðara svið náms fullorðinna og tryggja betur jafna stöðu fólks til að efla grunnfærni sína og atvinnuhæfni. Einnig þarf að líta til þess hvernig mæta megi þörfum fullorðinna til náms og endurmenntunar í ljósi samfélagsbreytinga og þróunar nýrrar tækni sem líklegt er að hafa muni áhrif á störf, starfsþróun og hæfniuppbyggingu.
Umræður og álitamál
Með námi fullorðinna/framhaldsfræðslu er átt við nám sem mætir þörfum þeirra sem ekki hafa lokið námi á hæfniþrepi 1–3 (ISQF), þ.e. námslok á framhaldsskólastigi. Til málaflokksins heyrir einnig íslenskukennsla innflytjenda og nám fatlaðra fullorðinna á hæfniþrepi 1 og 2. Eitt álitamál við endurskoðun laganna var hvort ein lög gætu náð utan um mismunandi þarfir þessara hópa og verið þannig liður í einföldun á regluverkinu eða hvort sérlög þyrfti um hvern hóp. Enn er unnið að niðurstöðu þess máls.
Innan hópanna var einnig rætt um markhóp laganna, skilgreiningu hugtaka, hvernig viðurkenningu fræðsluaðila ætti að vera háttað, hvernig gæði væru tryggð, við hvaða aldursmörk ætti að miða, hvort námskrár, skipulag og fyrirkomulag náms mættu þörfum markhópsins, um eftirlitsskyldu ráðuneytis, tengsl framhaldsfræðslu við önnur skólastig, mat á óformlegu námi, raunfærnimat á móti störfum, hlutverk vinnumarkaðarins og síðast en ekki síst fjármögnun. Til hliðsjónar voru einnig hafðar skýrslur og úttektir á framhaldsfræðslukerfinu og öllu haldið skilmerkilega saman á vinnuvefnum. Á þessari upptalningu má sjá að verkefnin eru mörg sem huga þarf að.
Samstaða og meira samráð
Meðal þess sem samstaða hefur ríkt um í vinnuhópum er að lykilstoðirnar sem útfæra megi nánar grundvallist á sveigjanleika og jafnræði, hæfnimiðun, framsækinni nálgun og að gæði verði ávallt höfð í fyrirrúmi. Einnig er rík samstaða um mikilvægi náms- og starfsráðgjafar og hlutverks hennar innan framhaldsfræðslu sem og raunfærnimats. Hins vegar eru nokkur mál sem þarfnast meiri yfirlegu, s.s. um skilgreiningu markhópsins, viðurkenningu fræðsluaðila og aldursmörk þjónustunnar. Það bíða okkar því áfram spennandi verkefni sem verða áfram í umræðunni.
Þá hafa þátttakendur í samráðinu lagst í leit að þjálu og lýsandi orði sem nær yfir umfang náms fullorðinna en hugtakið framhaldsfræðsla þykir mörgum ekki nógu gegnsætt. Samráðið stendur því enn yfir og stefnt er að því að fullvinna tillögurnar og lesa þær saman við annað það regluverk sem snertir nám fullorðinna. Ef vel tekst til í þessari undirbúningsvinnu náum við að skapa umgjörð um nám fullorðinna sem getur bæði verið til fyrirmyndar og mætt framtíðaráskorunum.