- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

You Dig IT – erlent samstarfsverkefni um notkun rafrænna verkfæra í námi

Fræðslusetrið Starfsmennt tekur þátt í evrópska samstarfsverkefninu You Dig IT, How to deal with digital tools in 21st century education for low skilled adults. Verkefnið er styrkt af Erasmus+ menntaáætlun Evrópusambandsins og gengur út á að skoða rafræn verkfæri sem nýst geta í námi og kennslu og þjálfa leiðbeinendur í notkun þeirra. Um er að ræða samstarfsverkefni sem felur í sér sameiginlegt lærdómsferli þátttökustofnana, þar sem fólk deilir reynslu og lærir af öðrum (e. exchange of good practices). Á fyrsta fundi hópsins var ákveðið að leggja áherslu á smáforrit, eða öpp, í kennslu og námi og leitast við að skoða forrit sem henta fullorðnum námsmönnum.

Verkefnið hófst í september 2017 og er til tveggja ára. Þátttakendur auk Starfsmenntar eru Friesland College/FC Sprint², frá Hollandi, AIM Agency for Interculture and Mobility, frá Ítalíu, Institut für technologieorientierte Frauenbildung e.V., frá Þýskalandi, Internetcafe ZwischenSchritt ASB Wien Wohnen- und Soziale Dienst gGmbH, frá Austurríki, Novi Iskar Generation Y, frá Búlgaríu og Oefenen, frá Hollandi.

Stýrihópur You Dig IT verkefnisins

Markhópar þátttökustofnananna eru margvíslegir. Þannig sinnir austuríski samstarfsaðilinn aðallega heimilislausu fólki í Vín, sá búlgarski beinir starfinu einna helst að ungu atvinnulausu fólki, þýski samstarfsaðilinn hefur sérhæft sig í tölvu- og upplýsingatækninámskeiðum fyrir konur og verkefnastjórinn frá Friesland College í Hollandi er í starfsmenntageiranum. Þessi fjölbreytti bakgrunnur gefur færi á að fá enn breiðari sýn á gagnsemi smáforritanna í námi og kennslu.

Við val á smáforritum er eftirfarandi haft í huga: Að öppin henti fullorðnum námsmönnum, séu til bæði fyrir iOS og Android kerfi í ókeypis útgáfu og á ensku (önnur tungumál eru kostur), leiðbeiningar séu til um notkun þeirra og þeim eiga að fylgja sem fæstar auglýsingar, helst engar. Haldnar verða fjórar vinnustofur alls (Learning, Teaching and Training Activities) á meðan á samstarfinu stendur, þar sem hver þátttökustofnun kynnir eitt smáforrit og kennir hinum þátttakendunum notkun þess. Sem stendur hafa verið haldnar tvær vinnustofur, sú fyrri í Kassel í Þýskalandi og sú síðari í Vín í Austurríki.

Í yfirlitinu hér að neðan má sjá upplýsingar um nokkur þeirra forrita, sem hafa verið skoðuð og prófuð í vinnustofunum. Leitast var við að flokka þau eftir helstu virkni þeirra en frekari upplýsingar má finna á síðu verkefnisins https://www.smore.com/6mfav.

Gagnageymsla og verkefnisstjórnun:

  • Dropbox er skýjalausn, svæði til að geyma skjöl, myndir eða önnur gögn sem notandinn vill hafa aðgengileg hverju sinni. Þessi lausn getur nýst til að deila gögnum með öðrum en eins til að hafa eigin gögn aðgengileg á einum stað, óháð tæki. Nettenging og virkur aðgangur er það eina sem þarf. dropbox.com
  • Trello er einfalt og sveigjanlegt forrit sem nýtist jafnt teymum sem einstaklingum við að halda utan um verkefni og ýmiskonar skipulagsvinnu. Einstaklingur getur skipulagt vinnu sína og haldið utan um ýmis minnisatriði með aðstoð forritsins en það nýtist einnig vel fyrir hópa þar sem meðal annars er hægt að úthluta einstökum verkum og verkefnum til tiltekinna þátttakenda og setja inn tímaáætlanir. trello.com

Náms- og kennsluumhverfi:

  • Edmodo er náms- og kennsluumhverfi. Þar er hægt að mynda hópa og vera í samskiptum bæði við nemendur og foreldra, ef um ósjálfráða nemendur ræðir. Fyrir fullorðna námsmenn getur umhverfið nýst til að búa til hópa og skapa vettvang fyrir kennslu, nám, verkefnavinnu og samskipti. Kennarinn hefur sinn aðgang og geta fleiri en einn kennari haft umsjón með tilteknum hópi námsmanna. Námsmennirnir fá svo sinn eigin aðgang að hópnum og öllum gögnum sem tengjast náminu. Kerfið er fyrst og fremst hugsað fyrir formlega skólakerfið en gæti eigi að síður nýst í hópastarfi með fullorðnum námsmönnum. edmodo.com
  • LessonUp er náms- og kennsluumhverfi sem gefur kennara færi á að hanna sitt eigið námsefni og koma því á framfæri til nemenda. Þá er einnig til staðar ýmiskonar efni í kerfinu sjálfu, sem kennarar geta nálgast og nýtt til kennslu í sínu fagi. Hægt er að útbúa kennsluefni á ýmsa vegu svo sem með glærusýningu, myndböndum og hugarkortum og eins má búa til spurningakannanir þar sem hægt er að nota bæði texta og myndræna framsetningu. https://lessonup.io/
  • me er náms- og kennsluumhverfi þar sem hægt er að hanna og setja inn kennsluefni með aðstoð ýmissa sniðmáta sem til eru í kerfinu. Þar er einnig hægt að setja upp umræðu- og spjallþræði og spurningakannanir til að kanna þekkingu námsmanna á tilteknu efni. http://app.wizer.me/

Tungumálakennsla:

  • Google Translate aðstoðar notendur við að þýða orð og hugtök frá einu tungumáli yfir á annað. Þó svo að þýðingarnar hafi stundum verið ansi skrautlegar þá hefur forritinu farið mikið fram og getur því vel nýst sem ófullkomið verkfæri þegar fólk þarf að bjarga sér á öðru tungumáli en sínu eigin. Með forritinu er hægt að þýða stök orð og hugtök en einnig lengri setningar og texta þannig að notandi fái að minnsta kosti einhverja hugmynd um innihaldið. Forritið býður upp á að aðilar tali í snjalltækið og fái þýðingu þegar í stað (e. conversation) og einnig er hægt að taka mynd af styttri texta og fá þýðingu á honum (e. camera). https://translate.google.com/
  • Memrise býður upp á nám í ýmsum tungumálum meðal annars íslensku, bæði fyrir byrjendur og lengra komna. Verkefnin eru stutt og snörp og hægt er að velja verkefni út frá eigin móðurmáli en einnig út frá því erlenda tungumáli sem einstaklingur vill styrkja færni sína í. Námsmaður getur sett sér markmið, til dæmis að læra tiltekinn fjölda orða á hverjum degi og þannig fylgst með framgangi sínum í námi. memrise.com

Landafræði og menning:

  • Google Earth býður upp á þrívíddarmyndir af jörðinni þar sem notandinn getur ferðast um heiminn og skoðað jafnt borgir sem náttúru. Hægt er að fá yfirlitsmyndir yfir stærri svæði en eins er hægt að setja inn tiltekið heimilisfang og „ferðast“ þangað með forritinu. Forritið getur jafnframt nýst til að reikna út fjarlægðir milli staða og til að auka skilning á ólíkum lengdarmælieiningum. google.com/earth
  • Google World Wonders Project. Þetta forrit nýtist vel við fræðslu og nám um listir, menningu, menningararf og landafræði og getur verið skemmtileg viðbót við námsefni í erlendum tungumálum. Mikið er af myndum til að skoða og er bæði hægt að horfa á 360 gráðu myndbönd og fara í sýndarskoðunarferð um söfn og staði um allan heim. google.com/intl/en/culturalinstitute/about/wonders/

Samskipti:

  • Facebook forritið nýtist vel til að eiga í samskiptum við aðra og deila gögnum og upplýsingum. Hér á landi er notkun þess afar útbreidd og því auðvelt að búa til hópa sem tengjast tilteknum verkefnum eða námi/námskeiðum og ná þannig til heildarinnar á hraðvirkan og þægilegan máta. facebook.com
  • Zoom forritið nýtist í samskiptum milli aðila því það gefur fólki færi á að spjalla saman í mynd með því að nota snjallsíma eingöngu. Allt sem þarf er símanúmer og forritið sjálft, notandinn þarf ekki að stofna aðgang með notendanafni og lykilorði ef forritið er eingöngu notað í snjalltæki. Með Zoom er hægt að eiga samtal við fleiri en einn í einu og getur þannig nýst við fjarkennslu og fundahöld. https://zoom.us/

Annað:

  • Kahoot forritið er leikjaforrit sem gengur út á að brjóta upp kennslu með spurningakeppni, skoðanakönnun eða spjallþræði. Kennarar og nemendur geta skráð spurningar í forritið, bæði til að skapa umræðu um ákveðin málefni en eins til búa til keppni. Þátttakendur þurfa að skrá sig inn á svæðið í sínu tæki en sjá svarmöguleikana einungis á skjánum í kennslustofunni. Þannig verða þeir að vera á staðnum til að taka þátt. Þessi leikur hentar vel bæði í einstaklings- og liðakeppni og skapar ákveðna spennu því þátttakendur fá stig fyrir rétt svör en einnig fyrir snerpu. https://kahoot.it/
  • LearningApps.org er í raun vefur en ekki smáforrit (app) sem bæði býður upp á úrval af ýmiskonar smáforritum til að nota í námi og kennslu en einnig aðstoð við að útbúa sín eigin rafrænu verkfæri og smærri öpp til notkunar í kennslu. Á vefnum eru bæði leiðbeiningar og sniðmát sem allir geta notfært sér. https://learningapps.org/
  • Pinterest virkar eins og rafræn korktafla þar sem þátttakendur búa sér til sína eigin töflu bæði með eigin efni en eins með því að nota efni sem er til inni í kerfinu. Hægt er að búa til töflu fyrir nærri hvaða viðfangsefni sem er, allt eftir áhuga og markmiðum notandans. Myndræn framsetning efnisins getur nýst í tungumálakennslu, meðal annars með þeim sem eru að læra tungumál í nýju heimalandi, en einnig þegar fjallað er um sérstök málefni eins og tísku, uppskriftir, bílaviðgerðir, húsnæði og margt fleira, möguleikarnir eru nær óendanlegir. Á bakvið margar myndir er vefsíða með frekari upplýsingum. Þannig má til dæmis nefna að til er flokkurinn „menntun“ (e. education) þar sem hægt er að sækja sér ýmsar hugmyndir til að nýta í kennslu og leiðsögn. pinterest.com

Þátttaka í samstarfsverkefninu hefur skapað tækifæri til að fá kynningu á ýmsum rafrænum verkfærum en enn erum við hjá Starfsmennt frekar skammt á veg komin við hagnýtingu þeirra. Haustið 2018 verður hrint úr vör tilraunaverkefni í samvinnu við Fangelsismálastofnun ríkisins þar sem námsefni fyrir fangaverði verður gert aðgengilegt í rafrænu námsumhverfi. Það sama haust hefur hópur ríkisstarfsmanna nám í opinberri stjórnsýslu á fagháskólastigi við Háskólann á Bifröst. Báðir þessir hópar verða þátttakendur í því lærdómsferli sem framundan er hjá Starfsmennt sem felst í að tileinka sér nýja tækni við kennslu og í námi fullorðinna.

Guðfinna Harðardóttir

Guðfinna Harðardóttir er framkvæmdastjóri Fræðslusetursins Starfsmenntar. Hún hefur starfað sem mannauðssérfræðingur hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og við kjaramál, fullorðinsfræðslu, tölfræðiúrvinnslu og kennslu hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífs, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hagstofu Íslands og Verzlunarskóla Íslands. Guðfinna hefur lokið M.A. prófi í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands, cand. mag. prófi í þýsku frá Kaupmannahafnarháskóla og uppeldis- og kennslufræðum til kennsluréttinda.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi