- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Atvinnulífið vill staðfesta hæfni til starfa innan ferðaþjónustunnar

Ferðaþjónustan hefur vaxið ört á undanförnum árum. Ferðamönnum hefur fjölgað og að sama skapi hótelum, veitingastöðum, bílaleigum og fyrirtækjum sem bjóða upp á ýmiss konar afþreyingu. Störfum hefur fjölgað í takt við þarfirnar og kalla nú á meiri fjölbreytni og sérhæfingu. Í greiningu KPMG, Framtíð ferðaþjónustunnar á Íslandi árið 2030 – sviðsmyndir og áhættugreining, er skortur á hæfu starfsfólki talinn meðal helstu áhættuþátta í vexti og viðgengi atvinnugreinarinnar. Þar kemur fram að verði vöntun á starfsfólki með viðeigandi menntun eða reynslu í ferðaþjónustu muni það hafa alvarleg langtímaáhrif á upplifun ferðamanna og ímynd landsins.

Samtal atvinnulífs og menntakerfis

Til að komast að því hver þörf ferðaþjónustunnar er fyrir hæfni og menntun kallaði Hæfnisetur ferðaþjónustunnar til víðtæks samtals hagaðila í ferðaþjónustu, stjórnenda og starfsfólks fyrirtækja, fulltrúa aðila atvinnulífsins, auk stjórnenda og starfsfólks skóla og fræðsluaðila, um fyrirkomulag náms í ferðaþjónustu. Alls tóku rúmlega 130 manns þátt í samtalinu og voru niðurstöður þess nýverið kynntar í skýrslunni Hæfni er grunnur að gæðum. Skýrslan er innlegg atvinnulífsins í mótun mennta- og hæfnistefnu ferðaþjónustunnar.

Átta svið ferðaþjónustunnar

Samtalið hófst með fjölmennum fundi í ársbyrjun 2018. Eftir það var ákveðið að halda áfram með þeim hætti að stofna sex vinnuhópa, einn fyrir hvert starfssvið ferðaþjónustunnar. Í hverjum hópi voru fulltrúar atvinnulífs og fræðsluaðila, auk annarra ef ástæða þótti til. Sviðin voru valin með hliðsjón af kortlagningu í skýrslunni Fjárfestum í hæfni starfsmanna. Við gerð Hæfni er grunnur að gæðum var tveimur sviðum bætt við til að ná ítarlegri heildarsýn. Með því að kalla atvinnulíf og menntakerfi saman með þessum hætti gafst þátttakendum tækifæri til þess að miðla reynslu, fá nýjar hugmyndir, koma skoðunum og tillögum á framfæri um þarfir atvinnugreinarinnar.

Ferðaþjónustan hefur skýra framtíðarsýn um menntun í greininni. Hún byggir á sveigjanlegu og þrepaskiptu námi sem hefur greinilega tengingu við hæfniramma um íslenska menntun.

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar, sem hefur leitt þessa vinnu með öflugum stuðningi ráðuneyta, aðila vinnumarkaðarins, fræðsluaðila, skóla og fyrirtækja, er reiðubúið til að koma að þessari vinnu áfram enda er umgjörð og hugmyndafræði Hæfnisetursins vel til þess fallin að stuðla að frekara samstarfi.

„Vinnan að baki skýrslunni er mikilvægt framlag til eflingar ferðaþjónustunni á Íslandi og þar með til eflingar lífskjörum og lífsgæðum okkar Íslendinga,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, um skýrsluna Hæfni er grunnur að gæðum sem Hæfnisetur ferðaþjónustunnar gefur út.

Á mynd: María Guðmundsdóttir, fræðslustjóri SAF og formaður stjórnar Hæfnisetursins, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri FA og Hæfnisetursins, og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Næstu skref

Starfsmenn Hæfnisetursins hafa tekið næstu skref, skipulagt röð funda til að kynna skýrsluna og niðurstöður hennar. Þegar hefur verið fundað með starfsgreinaráði matvæla-, veitinga- og ferðaþjónustugreina, nokkrum af fagnefndum Samtaka ferðaþjónustunnar, auk fulltrúa Ferðamálaskólans í MK og Háskóla Íslands. Þar hafa hugmyndir um að koma á nýjum námslínum verið kynntar. Námslína vísar til samhengis fleiri námsbrauta á mismunandi skólastigum. Námslok á einni braut hafi gildi á vinnumarkaði og veiti jafnframt rétt til áframhaldandi náms á næsta stigi, sem dæmi má nefna framhaldsfræðsla, framhaldsskóli, háskóli.

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar var sett á stofn árið 2017 á grundvelli skýrslu Stjórnstöðvar ferðamála sem stjórnvöld og Samtök ferðaþjónustunnar ýttu úr vör um hæfni í ferðaþjónustu. Markmiðið er að auka framleiðni og gæði í ferðaþjónustu sem og starfsánægju og fagmennsku starfsfólks, einkum framlínustarfsmanna og millistjórnenda. Hæfnisetrið er vistað hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins ehf. sem er í eigu aðila vinnumarkaðarins. Starfsemin er tryggð til ársloka 2020 en atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fjármagnar verkefnið. Samfara því að leiða samtal atvinnulífs og menntakerfis um formlegt nám í ferðaþjónustu vinnur starfsfólk Hæfnisetursins hörðum höndum að því að koma á tengslum fræðsluaðila og fyrirtækja í verkefninu Fræðsla í ferðaþjónustu. Árið 2018 var samið við um 70 fyrirtæki í ferðaþjónustu með tæplega 2.000 starfsmenn. Tengt því verkefni er þróun á rafrænum tækjum til að nota í fræðslu, meðal annars með vinnslu fagorðalista, þjálfunarefnis og smáforrita. Sjá nánar á hæfni.is.

Haukur Harðarson

Haukur Harðarson er sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins síðan 2008, hann er verkefnastjóri Hæfniseturs ferðaþjónustunnar. Önnur helstu verkefni hans tengjast raunfærnimati og greiningarvinnu.

Jóna Valborg Árnadóttir

Jóna Valborg Árnadóttir er sérfræðingur hjá Hæfnisetri ferðaþjónustunnar. Hún er með MS-gráðu í mannauðsstjórnun og M.Paed. gráðu í íslensku og kennslufræði. Jóna Valborg sinnir verkefna- og viðburðastjórnun, kynningarmálum, ráðgjöf og ritstjórn.

Sigrún Kristín Magnúsdóttir

Sigrún Kristín Magnúsdóttir er sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Hún er ritstjóri Gáttar, ritstjórnarfulltrúi Íslands í DialogWeb og vinnur verkefni í Hæfnisetri ferðaþjónustunnar.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi