- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

BREYTINGAR Á SAMFÉLAGI OG VINNUMARKAÐI – NÝ HLUTVERK FULLORÐINSFRÆÐARANS

Vægi fullorðinsfræðarans – fagmennska, kennslufræði fullorðinna – hæfni til að kenna fullorðnum

Í ótalmörgum norrænum og evrópskum skýrslum hafa verið færð rök fyrir því að „fullorðinsfræðarinn“ skipti mestu fyrir gæði náms fullorðinna og góðan árangur þátttakenda. Þess vegna er eftirtektarvert að við kortlagningu á starfi norrænna fullorðinsfræðara sem birt er í skýrslunni Den nordiske voksenlærer, (NCK/NVL 2011) kemur fram að nánast engar formlegar kröfur eru gerðar til þeirra um þekkingu á kennslufræði fullorðinna eða hæfni til þess að kenna fullorðnum. Jafnframt hafa fullorðinsfræðarar fá tækifæri til að að afla sér grunnmenntunar. Við framkvæmd kortlagningarinnar kom fram í viðtölum við stjórnendur að þeir telja vinnu með fullorðnum nemendum gera kröfu um sérstaka færni kennarans. Stjórnendurnir nefndu jafnframt mörg dæmi um æskilega sérhæfða kennslufræðilega hæfni, sem fullorðinsfræðararnir staðfestu að þörf væri á í annarri skýrslu um færni fullorðinsfræðarans og færniþróun Voksenlærerens kompetencer og kompetenceudvikling (NVL, Nordplus 2017). Fullorðinsfræðarar telja faglega þekkingu og reynslu afar mikilvæga auk góðrar þekkingar á fullorðinsfræðslu og kennslufræði. Þeir vilja öðlast meiri þekkingu á námi fullorðinna og námsferlum, verða betri í að mæta fullorðnum og getað miðlað og beitt kennsluaðferðum sem virkja þátttakendur. Þeir telja marga aðra sérhæfða hæfniþættir eins og upplýsingatækni og menningarlæsi ekki jafn mikilvæga. Í könnuninni er ekki ljóst hvers vegna þessir þættir eru taldir minna virði.

Ein útskýring kann að vera sú að „fullorðinsfræðarinn“, í breiðum skilningi þess orðs, getur náð yfir þann sem kennir, skipuleggur, ráðleggur, er ráðgjafi eða leiðbeinandi. Í hvaða hlutverki sem hann er þarf hann oft að mæta nýjum hópum, vinna með nýtt námsefni og á ólíkum námsvettvangi, skilyrtum af félagslegum kringumstæðum eins og til dæmis breytingum á framboði og innihaldi starfa, sjálfvirknivæðingu, stafvæðingu, lýðfræðibreytingum eða hreyfingu farandverkafólks.
Út frá þessu sjónarhorni verður uppfærð þekking á fullorðinsfræðslu og kennslufræðileg hæfni mikilvægur grundvöllur fyrir „fullorðinsfræðarann“ að byggja á svo hann geti unnið starf sitt óháð því í hvaða samhengi námið fer fram.
Traust og yfirgripsmikil fagleg þekking gerir fullorðinsfræðaranum kleift að velja úr námsefni, gera það blæbrigðaríkara og setja námsefnið í rétt samhengi og láta það markvisst taka mið af bæði aðstæðum og markhópnum. Þekking fullorðinsfræðarans á námi fullorðinna, almennri kennslufræði og kennslufræði fullorðinna, gerir honum mögulegt að beita og aðlaga fjölbreyttar kennsluaðferðir og námsferla að forsendum ákveðins markhóps og að raunverulegri umgjörð náms.

Margar leiðir eru færar í starfi „fullorðinsfræðarans“, hvaða leið er valin fer eftir því hvort um er að ræða markhópa í formlegu, óformlegu eða formlausu námi og á hvaða vettvangi námið fer fram. En fullorðinsfræðarar upplifa stöðugar breytingar, sífellt eru nýjar kröfur gerðar til þeirra og þeir þurfa sífellt að tileinka sér nýja þekkingu og hæfni, óháð því hvaða menntun þeir hafa að baki. Í kortlagningunni á starfi norræna fullorðinsfræðarans frá 2011 var lögð  fram tillaga um að:  „…koma þyrfti á styttri eða lengri norrænum námskeiðum og símenntun um kennslufræði fullorðinna, sem kortlagningin varpar ljósi á að þörf sé fyrir.“ Þessi þörf er jafnframt staðfest í skýrslunni um hæfni fullorðinsfræðarans og færniþörf frá 2017.  Ráðleggingarnar eru ennþá réttmætar.

Fjölmargar pólitískar aðgerðir á sviði fullorðins- og símenntunar í Danmörku (skammstafað VEU) og núverandi starfsemi menntastofnana bera þess merki að nú eigi sér stað breyting á stefnu þar sem athygli VEU færist í áttina frá námi við menntastofnanir til færniþróunar á vinnustöðum. Sem dæmi frá Danmörku má nefna að í síðustu kjarasamningum á VEU sviðinu (2017) beinist athyglin greinilega að uppbyggingu á hæfni sem tengist hæfniþróun í atvinnulífinu. Við marga fagháskóla hefur námsbrautum sem lýkur með diplóma fækkað umtalsvert og þær hafa vikið fyrir fræðslustarfsemi og námskeiðum sem fara fram á vinnustöðunum.

Stefna frá stofnananámi í átt að færniþróun á vinnustöðum?

Árið 2016 gaf Norræna ráðherranefndin út skýrsluna Atvinnulíf á Norðurlöndum. Áskoranir og tillögur. Í skýrslunni má finna fjölda ráðlegginga og tillagna á sviðum sem vænlegt væri að vinna sameiginlega að á Norðurlöndum, meðal annars að: „Ríkisstjórnir Norðurlanda fallist á hugmyndina um innleiðingu skyldunáms í fullorðinsfræðslu og endurmenntun fyrir allt vinnandi fólk á Norðurlöndum …“ sem þátt í atvinnulífinu. Þetta er nokkuð djörf og ef til vill ögrandi tillaga sem er grundvölluð á því að greina þær öru breytingar sem eiga sér stað í norrænum velferðarsamfélögum og á vinnumörkuðum. Breytingar sem gera kröfu um sífellda færniþróun starfsfólks og borgara. Í skýrslunni eru settar fram tillögur að tveimur grunnlíkönum fyrir færniþróun: 1. Kerfisbundið sameiginlegt þróunarverkefni með framkvæmd tilraunaverkefnis í hverju Norðurlandanna á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og 2. Þróun líkans sem ekki er jafn kerfisbundið en í auknum mæli lífrænt og sveigjanlegt fyrir færniþróun sem aðlaga má að ólíkum aðstæðum, starfsgreinum og samhengi.

„Fullorðinsfræðarinn“ mun gegna mikilvægu hlutverki við færniþróun í framtíðinni og verður að gagnast við nýjar aðstæður í námi og starfi sem eru samofnar námi á vinnustað og fer fram við raunverulegar aðstæður í samfélaginu. Við nýjar aðstæður og kannski með praktískari markmiðum verða gerðar nýjar kröfur til hlutverks fullorðinsfræðarans.
Þeir, sem vinna við að ráðgera, skipuleggja, og framkvæma námsferla fyrir fullorðna munu því, á sama hátt og þátttakendur, hafa þörf fyrir sífellda, starfstengda færniþróun, sem getur aukið við og umbreytt þekkingu þeirra og kunnáttu svo hún nýtist við nýjar kringumstæður.

Reynsla Norðurlandanna og forgangur færniþróunar fullorðinsfræðara

Norræna ráðherranefndin hefur um áraraðir lagt áherslu á þróun og endurbætur á skapandi vinnulagi sem eykur gæði fullorðinsfræðslu fyrir tilstilli færniþróunar „fullorðinsfræðarans“. Efst á baugi eru nýsköpun, efling frumkvöðlastarfsemi og hugsunar og eftirspurn er eftir þróun nýrra líkana fyrir nám fullorðinna. NVL, Nordplus fullorðinna og aðrir aðilar, þar á meðal danski kennaraháskólinn (DPU) sem nú er hluti af Háskólanum í Árósum, og miðstöð færniþróunar við sama skóla (NCK) hafa unnið með þessi þemu í tengslum við færniþróun norrænna „fullorðinsfræðarana“. Ótalmörg þróunarverkefni um sveigjanleg og samfelld færniþróunarlíkön hafa hlotið styrki og verið unnin og niðurstöðum þeirra og meðmælum hefur verið lýst í skýrslum.
Það er fyrst og fremst reynslan og árangurinn af þessum verkefnum sem mynda grundvöll fyrir eftirfarandi lýsingu á færni fullorðinsfræðarans sem (auk faglegrar, fullorðinsfræðslu- og kennslufræðilegrar þekkingar og kunnáttu) er mikilvæg til þess að vinna með samfelld og sveigjanleg námslíkön fyrir starfstengda og sífellda færniþróun (sbr. síðara líkan P. Nelsons)

Sérkenni í nýskapandi námsumhverfi fullorðinna yfirfærð yfir í lífrænt námslíkan

Í könnun sem NVL-net gerði árið 2014 og ber heitið Evaluation of Transformative Learning Circles, var rannsakað hvað einkenni nýskapandi námsumhverfi. Í ljós kom að þrátt fyrir ólíkt innihald námsins eftir svæðum og löndum, ólík markmið og mismunandi námsstig, var margt líkt með þeim aðferðum sem beitt var við skipulagningu og stýringu námsferla og hlutverk kennara. Einkum kom skýrt í ljós að innihald námsins miðaðist við þarfir þátttakendanna/notendanna, að hlutverk „fullorðinsfræðarans“ fólst fremur í því að vera leiðbeinandi en „sérfræðingur“, að einkum var unnið að „raunhæfum“ verkefnum í teymum eða hópum þar sem þátttakendur sköpuðu saman (e. co-created) nýja þekkingu og hæfni. Á grundvelli þessara niðurstaðna var búið til líkan fyrir starfstengda og sveigjanlega færniþróun, „Transformative Learning Circles” (TLC) því lýst, reynt og metið.

Upphafs-líkan úr TLC-tilraunaverkefninu gefur mynd af hlutverki fullorðinsfræðarans og þeirri stýringu á innihaldi sem var viðhöfð í mjög „skapandi“ námsumhverfi. Myndin getur einnig útskýrt þá þróun sem orðið hefur í átt frá námi við stofnanir yfir í starfstengda færniþróun.

Líkanið fyrir færniþróun sem er sett fram í verkefninu „Transformative Learning Circles” (TLC) er byggt  á norrænni hefð fyrir að virkja þátttakendur í námi og nota samvinnunám í námshringjum sem vinnulag. Síðar hefur þessi aðferð verið þróuð áfram, skjalfest og nýtt í fjölbreyttu norrænu samhengi til dæmis sem „rannsóknahringir“ við Mälardalen háskólann,þemabundnir námshringir” við símenntunarmiðstöðvar (HF og VUC) á Norður-Jótlandi, „stjórnendahringir” og „ummyndandi/umskapandi“ námshringir í NVL.

Líta má á vinnulagið sem dæmi um líkan fyrir fullorðinsfræðslu  og endurmenntun, sem veitir tækifæri til sveigjanlegrar, samfelldrar og starfstengdrar færniþróunar margra ólíkra þátttakenda með ólíkan bakgrunn. Líkanið getur nýst sem líkan fyrir færniþróun „fullorðinsfræðarans“ sem er viðfangsefni þessarar greinar.  

Færni þegar fullorðinsfræðarinn er leiðbeinandi

Bæði í upprunalegu námshringjunum og náms- og rannsóknahringjum sem fylgdu í kjölfarið, sameina þátttakendur krafta sína um ákveðið þema sem er mikilvægt. Þung áhersla er lögð á ábyrgð og virkni þátttakenda með það að markmiði að opna fyrir viðurkenningu á eigin þekkingu og kunnáttu, nákvæmri lýsingu áskorana og styrkja tækifæri þeirra til að grípa til aðgerða við ákveðnar aðstæður með nýrri þekkingu og innsýn. Eins konar leið til valdeflingar, sem getur veitt  þátttakendum kjark til þess að grípa til virkra aðgerða gegn þeim áskorunum sem blasa við þeim í einkalífi, samfélaginu, þeim einum eða í félagi við aðra (Pirjo Lahdenperä og Maria Marquard, 2019)

Eftirfarandi eru nokkur dæmi um sérstaka færni sem styrkir fullorðinsfræðarann í hlutverki leiðbeinanda í samfelldum námslíkönum.

Eftirláta öðrum ábyrgð – ábyrgjast tryggan ramma

Til þess að þátttakendur geti axlað ábyrgð verður „fullorðinsfræðarinn“ í hlutverki leiðbeinanda að eftirláta öðrum ábyrgðina.

Leiðbeinandinn ber ábyrgð á að tryggja umgjörð fyrir samræður og miðlun reynslu, þar á meðal af erfiðum áskorunum, en verður að forðast að setja fram formlega dagskrá fyrir innihaldið. Það getur krafist bæði þolinmæði og kjarks að gefa ferli tíma, og vera ekki of fljótur til að „finna upp á einhverju“ ef hægt gengur, undirtektir eru dræmar eða erfiðlega gengur að koma ferlinu í gang. Þátttakendum verður að skiljast að þeir bera raunverulega ábyrgð og að  ekkert gerist án þeirra virkni, annars munu þeir ekki axla ábyrgðina. Innihald námshringsins verður til út frá þörfum þátttakendanna og áskorunum sem tengjast tilteknum þemum og daglegum störfum þeirra. Ef þátttakendurnir deila ekki áskorunum og starfsháttum og eru sáttir við að miðla og ræða eigin reynslu er enginn grundvöllur fyrir áframhaldandi starfsemi námshringsins.

Þetta er mikilvægt atriði ef ætlunin er að leggja grundvöll að samfelldri, starfstengdri þróun sem byggð er á reynslu þátttakenda, samstarfsfólks eða samborgara. Forsenda þess er að geta og þora að axla ábyrgð, miðla reynslu og prófa og samskapa nýjar lausnir að loknu verkefni eða námsferli óháð ráðgjöfum, leiðbeinendum eða öðrum.  

Það getur reynst krefjandi að greiða fyrir ferlismiðuðum námsferlum af þessu tagi í markhópi fullorðinna.  

Ferlið er lifandi og hafa þarf rammann sveigjanlegan  án þess að missa sjónar á þemanu, áskorunum og framkvæmd.  

Þekking á fullorðinsfræðslu og fræðileg hæfni í að beita vinnulagi sem felst í miðlun reynslu og samræðum skiptir miklu.

Hugleiðing og brúarsmíði

Á  „hringfundum” verður til ný innsýn í gegnum hugleiðingar og samræður um málefni og áskoranir sem þátttakendur taka með sér. Þátttakendur læra af og með hver öðrum en heildstæð innsýn og þekking leiðbeinandans verður að skapa ramma fyrir hugleiðingar við hæfi. Leiðbeinandinn getur í framsögu tekið saman einkenni áskorana, fjallað um þemað og hvernig þátttakendur geta hugleitt og greint og svo framvegis.

Leiðbeinandi gefur þátttakendum hvorki ráð né raunverulegar hugmyndir en getur í framsögu, á faglegan og heildstæðan hátt og í réttu samhengi, sett fram dæmi um efni sem þátttakendur vilja vita meira um. Framsaga sem virkar eins og spegill, þar sem allir geta hugleitt eigin áskoranir og spurningar, getur lyft umræðum þátttakenda á hærra plan.  

Það krefst mikillar faglegrar þekkingar að beita aðferðinni á sveigjanlegan hátt og aðlaga hana að sérstökum þörfum. Leiðbeinandinn þarf að vera fær um að velja viðeigandi fagleg sjónarhorn, sem einmitt við þessar kringumstæður verða til þess að lyfta hugleiðingum þátttakenda á flug og dýpka uppbyggilegar og fróðlegar samræður á milli þeirra.

Ólíkur faglegur, persónulegur og félagslegur bakgrunnur þátttakenda birtist í mismunandi skoðunum, viðhorfum, athöfnum og tjáningu þeirra. Með því að tengja ummæli og tjáningu einstakra þátttakenda við viðfangsefnið getur leiðbeinandinn orðið brúarsmiður sem tekur ummælin alvarlega og leggur sitt af mörkum við að umbreyta andstæðum og mismun í lærdómsríka yfirsýn.  

Til að styðja við, reyna á og staðfesta þekkingu og kunnáttu þátttakenda þarf leiðbeinandinn að beita næmni og faglegum vinnubrögðum og veita þátttakendum eftirtekt svo og innihaldinu og ferlunum í rýminu. Mikilvægt er að geta stigið til hliðar sem leiðbeinandi og leyft þátttakendum að koma að hugmyndavinnu og uppbyggingu á nýrri þekkingu.  

Innleiðing í starfsemina og „heimaverkefni“

Í vinnu við starfstengda færniþróun er afar brýnt að beina athyglinni sérstaklega að innleiðingu á nýrri færni og þekkingu í reynd. Krafa til þátttakenda í „námshring“ getur falist í að þeir hafi hóp samstarfsfólks á vinnustað, í félagasamtökum eða annars staðar, með sér þar sem rætt er um og fundnar upp leiðir til þess að innleiða nýja þekkingu.  

Leiðbeinandinn/„fullorðinsfræðarinn“ verður að útbúa „heimaverkefni“ sem stuðla að því að þátttakendur láti reyna á nýjar aðferðir við lausn á raunverulegum áskorunum. Verkefni sem tryggja athugun, greiningu, íhugun og skjalfestingu á gagnsemi í raunverulegum kringumstæðum. Leiðbeinandinn nýtir svörin til þess að skipuleggja fundi námshringsins þar sem málum er fylgt eftir.

Svo leiðbeinandinn/„fullorðinsfræðarinn“ geti útbúið faglega viðeigandi „heimaverkefni“ þarf hann að hafi innsýn í samhengi þátttakenda, innihald starfa þeirra og skilja þær áskoranir sem við þeim blasa.  

Fjölbreytni, samsköpun og norrænn ávinningur

Í óteljandi verkefnum og könnunum hafa „fullorðinsfræðarar“ gefið til kynna að ávinningur þess að taka þátt í norrænum og þverfaglegum þróunarverkefnum sé mikill meðal annars í skýslunni Voksenlærerens komptencer og kompetenceudvikling. Þeim finnst þeir fá yfirsýn og innsýn sem er dýpri og blæbrigðaríkari heldur en ef þeir eru í samstarfi innan eigin lands eða geira. Þeir upplifa að fjölbreytni sé farvegur fyrir nýja innsýn og hugsanir sem leitt geta til nýrra skapandi aðgerða. Þegar samskapandi og skipulagt ferli fjölbreytts hóps „fullorðinsfræðara“, með mismunandi faglegan bakgrunn og af ólíku þjóðerni, heppnast vel gefst tækifæri til náms sem er víðara en einn fullorðinsfræðari eða leiðbeinandi er fær um að veita.

Áfram veginn

Sumir þeirra færniþátta, sem lýst er hér að ofan, geta verið mikilvægir í hvers konar kennslustarfsemi. Þrátt fyrir það er vert að leggja áherslu á að þessir þættir eru sérstaklega mikilvægir fyrir „fullorðinsfræðara“ sem fást við samfellda starfstengda færniþróun samstarfsfólks og samborgara. Marga af þessum hæfniþáttum verður fólk að tileinka sér í gegnum líkamlega reynslu, upplifanir, hagnýtar æfingar og tilraunir með nýjar aðferðir við framkvæmd.

Þeir sem fara í gegnum og kynnast samfelldum, starfstengdum og sveigjanlegum líkönum fyrir sí- og endurmenntun fá tækifæri til þess að læra bæði um þemað og vinnufyrirkomulagið. Þeir sem taka þátt í námsferlinu og íhuga það um leið, geta tileinkað sér bæði reynslu og þekkingu sem þeir geta svo ásamt samstarfsfólki notað til þess að koma á skipulagi sem felur í sér stöðuga færniþróun í störfum sem eru undirorpin breytingum. „Fullorðinsfræðarar“ geta bæði nýtt sér þetta vinnulag við eigin færniþróun og í starfstengdri sí- og endurmenntun á nýjum námsvettvangi.

Nú er unnið að þróun námshringja og annarra samskapandi forma við starfstengda og sveigjanlega færniþróun í ýmsu samhengi bæði formlegu og óformlegu, á vinnustöðum auk fleiri þróunar- og rannsóknarverkefna. Í framtíðinni verður þörf  fyrir hæfa „fullorðinsfræðara“ og yfirsýn yfir hvers konar færniþróun þeir þarfnast. Svið fullorðinsfræðslu er ennþá tiltölulega afmarkaður hluti kennslufræðinnar og þess vegna er mælt með að þessi aðferðafræði verði þróuð á norrænum vettvangi.

Maria Marquard

Maria Marquard er fulltrúi Dana í Norræna tengslanetinu um nám fullorðinna (NVL) og starfar sem sérfræðingur við menntavísindastofnun Árósarháskóla.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi