Allt frá árinu 2007 hefur Fræðslumiðstöð atvinnulífsins veitt viðurkenningar til fyrirmynda í námi fullorðinna. Viðurkenninguna hljóta einstaklingar sem tilnefndir eru af samstarfsaðilum Fræðslumiðstöðvarinnar og eiga það sameiginlegt að hafa náð afburða árangri miðað við fyrri stöðu.
Einstaklingar sem hafa haft frumkvæði og kjark til að yfirstíga ýmiss konar hindranir og bæta stöðu sína bæði í námi og á vinnumarkaði, eftir að hafa nýtt sér úrræði sem FA hefur þróað hjá samstarfsaðilum. Fyrirmyndirnar rekja sögu sína og greina frá reynslu sinni. Oftar en ekki hafa þær orðið fyrir áföllum eftir að hafa tekist á við námsörðugleika í grunnskóla. Hafa gjarna hætt námi um leið og þær gátu. Yfirleitt eftir að hafa haft kennara sem gerðu lítið úr þeim, sem höfðu ekki skilning á örðugleika þeirra. En þær hafa ekki gefist upp og á leið sinni ratað til náms- og starfsráðgjafa á næstu símenntunarmiðstöð þar sem starfólk tók þeim opnum örmum og beindi á rétta braut, huggaði, hjálpaði og hvatti til að halda áfram og ná markmiðum um bætta stöðu.
Framtíðin hér og nú
Framtíðin hér og núvar yfirskrift ársfundar Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og Norræns tengslanets um nám fullorðinna sem haldinn var á Grand Hótel Reykjavík 28. nóvember síðastliðinn. Á fundinum voru Herdísi Ósk Sveinbjarnardóttur, tilnefndri af Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, og Þresti Heiðari Erlingssyni, tilnefndum af Farskólanum, Miðstöð símmenntunar á Norðurlandi vestra, veittar viðurkenningar sem fyrirmyndir í námi fullorðinna árið 2019. Í ár var viðurkenningin veitt einstaklingum hafa breytt stöðu sinni á vinnumarkaði eftir þátttöku í úrræðum Fræðslumiðstöðvarinnar. Viðurkenningarhafar fengu spjaldtölvur í boði Advania auk viðurkenningarskjala og blómvanda frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.
Herdís Ósk Sveinbjarnardóttir
Herdís stundar nám við Háskólann í Reykjavík. Hún er einstæð tveggja barna móðir á þrítugsaldri, lesblind og með athyglisbrest. Hún sagðist vera undrandi, en stolt yfir því að hafa verið beðin um að segja frá reynslu sinni. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hún segir sögu sína en hún hefur ákveðið að gera það hvenær sem færi gefst til þess einmitt, sem fyrirmynd, að geta veitt öðrum von um að geta náð árangri, fetað svipaða braut, þótt hún sé enginn dans á rósum.
Herdís átti sér draum um að verða barnalæknir en sá draumur varð að engu þegar hún fékk þau skilaboð frá skólanum að hún næði tæpast svo langt með þeim gáfum sem henni væru gefnar. Herdís leið fyrir einelti í grunnskóla og hefur mátt þola bæði líkamlegt og andlegt ofbeldi. „Þegar það er sagt við mann á hverjum einasta degi að maður sé heimskur og vitlaus, þá fer maður að trúa því smátt og smátt.“ Eftir að hafa beðið skipbrot og þurft að hætta vinnu lá leið hennar árið 2016 til VIRK og þaðan til Samvinnu hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS). Þar fékk hún tækifæri til efla sig og sjálfsmyndina, meðal annars á námskeiðinu Lærðu á lesblinduna, aftur í nám.
Leiðsögn, tæki og tól
Á námskeiðinu fékk Herdís í fyrsta skipti leiðsögn til þess að takast á við lesblinduna, hún lærði að notfæra sér aðferðir, tæki og tól til þess. Komst á bragðið, vildi ekki hætta og greip tækifærið þegar henni bauðst að sækja Grunnmenntaskólann samhliða endurhæfingunni. Þar fann hún sig, áttaði sig á því að hún væri alls ekki vitlaus og að hún gæti vel lært. Lauk Grunnmenntaskólanum með láði og tók um sumarið þátt í kvikmyndasmiðju. Um haustið 2017 hóf hún nám í Menntastoðum og hóf í framhaldinu nám hjá Keili þaðan sem hún lauk stúdentsprófi með ágætiseinkunn, 9,04. Hún þakkar árangurinn frábæru starfsfólki MSS, náms- og starfsráðgjöfum og kennurum sem trúðu á hana, kenndu henni aðferðir til þess að læra og hvöttu hana áfram. „Ég hefði aldrei trúað því að ég ætti eftir að ljúka námi fyrir fjórum árum, hvað þá heldur að ná stúdentsprófi.“
Ætlar að hjálpa öðrum í baráttu við kerfið
Á meðan Herdís stundaði námið í Keili átti hún í baráttu við kerfið og þar ákvað hún að leggja fyrir sig lögfræði. Hún setti sér markmið um að komast í nám við Háskólann í Reykjavík en hafði ekkert plan B. Hóf þar nám haustið 2019. Hún ætlar að vera ein af þeim sem leggja sig fram um að gera breytingar í framtíðinni. Að vera til staðar fyrir þá sem eru í sömu stöðu og hún var.„Ef þú vilt eitthvað þarftu að ná í það, ef þú ætlar eitthvað, gerðu það. Sjáðu fyrir þér drauminn rætast. Settu þér lítil markmið að stóra draumnum en um leið skaltu njóta þess að læra eitthvað nýtt. Við getum allt sem við ætlum, bara að byrja og ekki stoppa til þess að ná þeirri stöðu sem við viljum í lífinu.“
Þröstur Heiðar Erlingsson
Þröstur Heiðar Erlingsson er bóndi í Birkihlíð í Skagafirði þar sem hann býr ásamt konu sinni og sex börnum. Þau búa með kindur og kýr. Þröstur gekk í grunnskóla, fyrst í sveitaskóla í félagsheimilinu í heimahreppnum, síðan í Varmahlíðarskóla. Hann segir að þar hafi hann ekki passað inn, honum hafi leiðst ofboðslega og því ekki getað hugsað sér að fara í frekara nám. „Ég var skrifblindur, gat aldrei skrifað neitt rétt. Stílarnir mínir voru nánast rauðir þegar þeir voru búnir að fara yfir þá kennararnir. Mig langaði að vera úti í náttúrunni, njóta hennar og vinna. Þegar ég var í samræmdu prófunum gerði ég það. Prófin voru á morgnana og ég húkkaði mér far heim og dreif mig á skytterí á milli prófa.“
Dreymdi um að verða bóndi
Ævintýraþráin blundaði í honum. Þegar hann var 17 ára gamall vann hann á ýmsum stöðum á landinu en fór líka til Noregs og vann þar í sláturhúsi eitt haust. Eftir það skellti hann sér til Grindavíkur og fór til sjós og var í sjö vertíðir. Eftir það vann hann ýmis störf. Þröstur tók, ásamt konu sinni, við búi foreldra sinna árið 1999. Þau hafa byggt það upp jafnt og þétt, meðal annars með nýju fjósi rétt fyrir hrun. Þau vildu ekki láta gamla fjósið drabbast niður án hlutverks. Hugsuðu sig lengi um og ákváðu að koma þar upp kjötvinnslu vegna þess að afurðaverð til bænda var alltaf að lækka. Með sífellt lækkandi verði frá afurðastöðvum til bænda gerði hann sér grein fyrir því að heimavinnsla væri eina vitið.
Brjálaða gimbrin
Hjónin settu því upp kjötvinnslu í gamla fjósinu í Birkihlíð undir nafninu Brjálaða gimbrin og vísar það til ástandsins í sauðfjárræktinni. Í lok árs 2017 sá Þröstur auglýsingu frá Farskólanum um matarsmiðjuna Beint frá býli sem honum leist vel á. Þau hjónin ræddu um að það væri áreiðanlega gott fyrir þau bæði eða allavega annað að fara. En ekki hvarflaði að honum, eftir reynslu hans af skóla, að fara sjálfum. „Ég gat bara ekki hugsað mér að setjast á skólabekk aftur, allra síst í 80 klukkustundir. Ákvað samt að heyra í þeim í Farskólanum til þess að skrá konuna mína. En þar voru menn ákveðnir í að ég ætti að taka þátt, ég lét því slag standa og konan slapp.“
Skemmst er frá því að segja að Þröstur sér ekki eftir einni einustu mínútu sem hann varði á námskeiðinu. Kennararnir voru frábærir, allir úr heimabyggð, sérmenntaðir á sínu sviði, þátttakendur á annan tug tókust á um málin, krufu þau til mergjar og komust að niðurstöðu. Fjölbreytnin var ótrúleg og metnaðurinn til þess að gera námskeiðið skemmtilegt. Þröstur útskrifaðist af námskeiðinu vorið 2018. Í beinu framhaldi hóf hann, ásamt öðrum þátttakendum, sölu á afurðum sínum á bændamarkaði á Hofsósi þar sem hann hefur selt sínar vörur á sumrin síðan.
Allt lambakjöt sem Þröstur framleiðir selur hann nú sjálfur beint til sinna viðskiptavina auk þess sem hann selur einnig nautakjöt. Hann segir það mikinn kost að vera í beinu persónulegu sambandi við neytendur. Það skipti verulegu máli. Þau hjónin eru um þessar mundir að vinna við að koma upp löggiltu eldhúsi til að vinna afurðir sínar enn frekar.
Skortur á sí- og endurmenntun fyrir bændur
Þröstur hælir frumkvæði Farskólans að því að bjóða upp á námskeið fyrir bændur. Beint frá býli hefur nú verið haldið víðar meðal annars í Húnavatnssýslu og á Vestfjörðum. Bændur eru hópur sem sennilega er erfitt að ná á námskeið en hjá Farskólanum hefur þeim tekist það með fjölbreyttu framboði. „Á námskeiðunum hjá þeim kemur fólk á sínum forsendum, en ekki samkvæmt einhverju Excel skjali. Ég er til dæmis skráður á tvö námskeið eftir áramótin, úrbeining á folöldum og umhirða á dráttarvélum.“ Þröstur hvatti aðrar símenntunarmiðstöðvar til þess að fara að fordæmi Farskólans, að bjóða fólki í hinum dreifðu byggðum upp á fjölbreytt námskeið. Þótt það hafi átt erfitt með að læra í skólakerfinu geti það verið algerir snillingar á öðrum sviðum.
Hugum að stöðu landbúnaðar
Að lokum hvatti Þröstur fólk til þess að kynna sér stöðu landbúnaðar á Íslandi, ekki bara gleypa hráar upplýsingar sem miðlað er í fjölmiðum. Þær séu oft litaðar af hagsmunaaðilum, öflum sem hafa allt annað í huga en að efla innlenda framleiðslu. „Ég hvet fólk til þess að velta eftirfarandi spurningum fyrir sér: Er virkilega hagkvæmt að nota gjaldeyrinn okkar til að kaupa matvöru erlendis frá þegar hægt er að framleiða þær hér? Er virkilega hagkvæmt að fórna störfum sem unnin eru hér og í stað þess flytja inn matvörur? Við vitum ekki gildi neins fyrr en við höfum misst það. Sköpun er alltaf meira örvandi en eyðilegging. Áfram íslenskur landbúnaður, áfram Farskólinn og takk kærlega fyrir mig!“
Óbilandi og kraftmiklir eldhugar
Á fjölsóttum fundinum sögðu þau Herdís Ósk og Þröstur Heiðar sem sagt frá sinni reynslu af skóla, les- og skrifblindu og þeim hindrunum sem þau þurftu að hrinda úr vegi til að komast þangað sem þau höfðu stefnt að og dreymt um. Þau eru eldhugar hvort á sínu sviði, vilja vinna ötullega að því að aðrir fái notið þeirra tækifæra sem þau hafa nýtt sér. Tala fyrir því að fólk afli sér aukinnar fræðslu og þjálfunar. Við afhendingu viðurkenninganna hylltu fundargestir þau Herdísi Ósk og Þröst Heiðar sem standa vel undir nafni sem fyrirmyndir í námi fullorðinna árið 2019.