- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Hvað kanntu? Hvað þarftu að kunna?

Okkur er tíðrætt um hraðar breytingar í atvinnulífinu. Hugtök eins og fjórða iðnbyltingin, sjálfvirknivæðingin og stafræna byltingin reyna að fanga innihald þessara breytinga. Spurningin sem aðilar framhaldsfræðslunnar spyrja sig er hvernig eigi að taka á þessum hröðu breytingum í okkar verkefnum í atvinnulífinu. 

Eitt er víst, sjálfvirknivæðingin mun hafa mikil áhrif á störf þeirra sem teljast til markhóps framhaldsfræðslunnar, sem er starfsfólk á vinnumarkaði án framhaldskólamenntunar. Í skýrslunni „Ísland og fjórða iðnbyltingin“ eftir Huginn Frey Þorsteinsson o.fl. er byggt á aðferðafræði í nýlegri skýrslu OECD til að meta áhrif sjálfvirknivæðingar á íslenskt atvinnulíf í nánustu framtíð. Er talið að sjálfvirknivæðingin hafi einhver áhrif á 85-95% starfa sem markhópur framhaldsfræðslunnar sinnir á Íslandi í dag. 

Áhrif iðnbyltinga, sem við mennirnir stýrum að miklu leyti, felast í breytingum á störfum, sum störf hverfa, önnur verða til. Þannig hefur það verið og allar líkur á að svo muni áfram verða. Það er margt sem framhaldsfræðslan getur gert til að undirbúa markhópinn og atvinnulífið undir þessar breytingar. 

Í fyrsta lagi er aðalsmerki framhaldsfræðslunnar vönduð ráðgjöf um nám og störf. Um allt land starfa ráðgjafar um nám og störf sem geta leiðbeint fyrirtækjum og markhópnum um menntunarúrræði og önnur úrræði til að auka hæfni. Til viðbótar hefur Fræðslumiðstöð atvinnulífsins unnið sífellt að endurbótum að starfsfræðsluvefnum NæstaSkref.is sem býður upp á upplýsingar um nám og störf á aðgengilegan hátt. Vefurinn er vel sóttur. 

Í öðru lagi hafa verið útbúin hæfniviðmið um almenna starfshæfni sem hingað til hafa mest verið nýtt til raunfærnimats fyrir atvinnuleitendur. Almenn starfshæfni tiltekur viðmið sem við flokkum gjarnan sem mjúka hæfni eins og samstarfshæfni, frumkvæði, nýsköpun, lausnamiðun og fleira. Þessi viðmið eru til frá hæfniþrepi eitt til sex samkvæmt íslenska hæfnirammanum. Ef framhaldsfræðslan og skólakerfið eru öflug í þjálfun almennrar starfshæfni geta fyrirtæki og stofnanir tekið að sér aukið hlutverk í þjálfun faglegra þátta í starfi viðkomandi. Við sjáum þessa viðleitni ágerast í atvinnulífinu og hefur svo reyndar verið alllengi. Ekki er þar með sagt að þjálfun mjúkrar hæfni verði eina hlutverk framhaldsfræðslunnar og skólakerfisins, langt í frá. En mikilvægur hluti. Framhaldsfræðslan býr líka yfir tækjum til að auka hæfni markhópsins á sviði upplýsingatækni en aukin hæfni á sviði upplýsinga leysir ein engin vandamál. 

Í þriðja lagi er Fræðslumiðstöð atvinnulífsins nú í miðjum klíðum, ásamt samstarfsaðilum, í vinnu við tilraunaverkefnið Raunfærnimat á móti viðmiðum atvinnulífsins. Þar er unnið að því að raunfærnimeta markhópinn í atvinnulífinu í nokkrum störfum, einkum þeim störfum sem ekki geta byggt á námi í faginu með tilheyrandi námskrá. Í stað viðmiða námskrár er metið á móti viðmiðum starfa sem hafa verið hæfnigreind samkvæmt aðferðum Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins eða öðrum viðurkenndum aðferðum. Vanti upp á hæfni hjá einstaklingum verður þeim boðið upp á starfsþjálfun á vinnustað, samhliða sínu starfi, undir leiðsögn starfsþjálfa.  

Í fjórða lagi er einmitt þjálfun starfsþjálfa enn eitt verkfærið í verkfæratösku framhaldsfræðslunnar við að kljást við hraðar breytingar á vinnumarkaði. Þjálfun og eftirfylgni á vinnustað í samvinnu við vinnustaðinn verður æ mikilvægara í framtíðinni þar sem skilgreiningar og verkefni starfa breytast hratt. 

Í fimmta lagi á þessum lista, sem er langt frá því að vera tæmandi, er hlutverk framhaldsfræðslunnar að þjálfa hæfni hjá markhópnum sem ólíklegt er að tölvur leysi af hólmi. Eiginleika eins og samhygð, umönnun, hvatningu, gagnrýna hugsun, siðferðiskennd og aðra þá eiginleika sem okkur eru nauðsynlegir í samskiptum manna á milli og þar sem viðfangsefnið er manneskjan. 

Í sjötta  lagi er mikilvægt hlutverk okkar allra að láta rödd samfélagssáttar hljóma, hvernig verður arðinum skipt á réttlátan hátt í þjóðfélaginu og hvernig tryggjum við velferð? 

Verkefnin eru ærin og gríðarlega spennandi. Mikilvægast af öllu er að framhaldsfræðslan verði ekki bara lítið notuð verkfærakista án fjármagns til skilvirkrar notkunar. Þar þurfa aðilar vinnumarkaðarins að leggjast á árar með okkur og tryggja sjálfbæra fjármögnun framhaldsfræðslunnar til framtíðar. 

Sveinn Aðalsteinsson

Sveinn Aðalsteinsson er framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi