- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Norrænt tengslanet um nám fullorðinna

Norrænt tengslanet um nám fullorðinna (NVL) er áætlun á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) hefur vistað NVL á Íslandi frá því að netið var sett á laggirnar. Samningur um tengslanetið gildir til loka ársins 2020 og er greinarhöfundur fulltrúi Íslendinga í netinu.

Um NVL

Móðurnet NVL er skipað fulltrúum frá öllum Norðurlöndunum auk tengiliða frá Færeyjum, Grænlandi og Álandseyjum ásamt framkvæmdastjóra, verkefnastjóra og vefstjóra.  NVL starfrækir einnig fjölda annarra tengslaneta undir stjórn og ábyrgð landanna. Í tengslanetunum eru sérfræðingar og fulltrúar stofnana og samtaka á ýmsum sviðum, meðal annars um læsi, sjálfbærni, menntun fanga og raunfærnimat, auk náms- og starfsráðgjafar. NVL hvetur til þverfaglegs samstarfs á milli ólíkra tengslaneta, stofnar til nýrra sérfræðineta og eflir með því norrænt samstarf. Í þessari grein verður fjallað um það helsta í starfi NVL á Íslandi.

NVL móðurnet

Móðurnet NVL hefur á þessu ári haldið fjóra sameiginlega fundi. Ísland gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2019 og af því tilefni var fyrsti fundurinn haldinn í Reykjavík í febrúar. Þar sátu einnig stjórnendur þeirra stofnana sem hýsa NVL á Norðurlöndum, auk fulltrúa landanna í sérstökum verkefnum sem lúta að fræðslu fullorðinna á vegum Evrópusambandsins (European Agenda for Adult Learning) og Epale.  Annar fundurinn fór fram í byrjun september í Ósló og í október var fundur haldinn í Árósum hjá VIA University College sem er hýsir aðalskrifstofu NVL áætlunarinnar. Lokafundur í ár verður svo haldinn í Stokkhólmi í byrjun desember. Á fundum móðurnetsins er rætt um stöðu fullorðinsfræðslunnar á Norðurlöndum og þau verkefni sem eru á dagskrá í netum og í viðkomandi löndum.

Starfið á Íslandi

Fyrsti viðburður netsins á Íslandi var fundur sem haldinn var snemma árs. Þar voru meðal annars kynnt leiðarljós formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni.  Einnig miðluðu fulltrúarnir upplýsingum um starfsemi sinna hópa og greindu frá helstu áherslum í starfinu.  Fulltrúar í netunum hafa árlega verið boðaðir á sambærilega fundi og verið þakklátir fyrir að fá að hitta aðra fulltrúa og fá þar með betri yfirsýn yfir verkefni tengslanetanna.

Í febrúar var haldinn fundur vegna formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Fundurinn var haldinn í húsakynnum Samtaka atvinnulífsins og þar kynntu fulltrúar landanna meðal annars áherslur sínar í sérstökum verkefnum á sviði fullorðinsfræðslu. Gott samtal var einnig um norræna samvinnu  og hlutverk NVL á því sviði.

Í haustbyrjun komu þrjú starfandi net til landsins og héldu fundi og málstofur. Fyrst ber að nefna Alfaráðið sem hélt fjölmenna málstofu um læsi fullorðinna í Norræna húsinu í ágúst. Alfaráðið sinnir verkefnum á sviði tungumálakennslu fyrir innflytjendur. Á málstofunni héldu tveir meðlimir Alfaráðsins, Breate Linnerud ráðgjafi hjá Kompetanse Norge og Elisabeth Bergander tölvu- og tungumálakennari við símenntunarmiðstöðina í Sandvika í Noregi erindi um læsi og stafræna færni. Net um raunfærni ásamt Fræðslumiðstöð atvinnulífsins stóðu svo fyrir málstofu í september einnig í Norræna húsinu. Þar kynntu Fjóla María Lárusdóttir og Haukur Harðarson framvindu verkefnisins Raunfærnimat á móti viðmiðum atvinnulífsins, sem fjármagnað er af Fræðslusjóði. Loks ber að nefna að net um færni í atvinnulífinu stóð fyrir málstofu um arðsemi fjárfestingar í þjálfun og símenntun. Málstofan fór fram í Húsi atvinnulífsins og var vel sótt.

Þema ársfundar Fræðslumiðstöðvar atvinnulífisins sem haldinn verður 28. nóvember á Grand hótel er Framtíðin hér og nú. Fundurinn er haldinn í samstarfi við NVL. Fyrirlesarar verða Huginn Freyr Þorsteinsson, formaður nefndar forsætisráðherra um fjórðu iðnbyltinguna og Helena Mustikainen, sviðsstjóri hjá Sitra nýsköpunarsjóði í Finnlandi. Eins og hefð er fyrir, verður fyrirmyndum í námi fullorðinna veittar viðurkenningar.

Lilja D. Alfreðsdóttir og norsku þátttakendurnir Hawkira og Mariam
Mynd Hulda Anna Arnljótsdóttir

Í tilefni af formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni stóðu menntamálaráðuneytið, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, NVL og Epale fyrir skapandi vinnustofu um heimsmarkið Sameinuðu þjóðanna þann 10. október sem bar titilinn „CleverCompetence“. Þátttakendur voru ungt fólk á aldrinum 18 – 30 ára frá öllum Norðurlöndunum. Dagskráin hófst með heimsókn í CCP þar sem rætt var um þá möguleika til menntunar og þjálfunar sem felast í tölvuleikjum. Því næst var haldið í Borgarleikhúsið og unnið í vinnustofum þar sem þemu dagsins voru málefnin menntun, inngilding, sjálfbærni og framtíðin.  Stjórnendur á vinnustofunum voru Tryggvi Thayer, Kristín Vilhjálmsdóttir og kennarar frá Keili.

DialogWeb og Fréttabréf NVL

Eitt mikilvægasta verkefni NVL er að miðla upplýsingum um verkefni, aðferðir og aðgerðir sem snúa að  fullorðinsfræðslu á Norðurlöndunum. Á heimasíðu NVL, www.nvl.org,  má finna upplýsingar um starfsemi NVL. Þar er líka veftímaritið DialogWeb en slóð að veftímaritinu er https://nvl.org/DialogWeb. Nýjar greinar birtast í hverri viku. Fulltrúi Íslands í ritstjórn er Sigrún Kristín Magnúsdóttir. Hún hefur reglulega skrifað greinar í ritið og miðlað upplýsingum um það sem efst er á baugi og varðar fræðslu fullorðinna á Íslandi.

Undanfarin ár hefur NVL einnig gefið út fréttabréf. Á þriðja þúsund áskrifendur á Norðurlöndum fá í hverjum mánuði glóðvolgar fréttir af því sem efst er á baugi í menntamálum hvers norrænu landanna. Fréttirnar eru yfirleitt birtar á  skandinavísku málunum (dönsku, norsku og sænsku) en hluti þeirra er jafnframt birtur á íslensku og finnsku.

Hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfinu á vefnum http://nvl.org/Nyheter  með því að smella þar á hnappinn „Abonnera på Nyhetsbrev“ og fylla út umsóknarform.

Forsíðumyndin er frá Norrænu ráðherranefndinni sótt af www.norden.org

Hildur Hrönn Oddsdóttir

Hildur Hrönn Oddsdóttir er sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og fulltrúi NVL á Íslandi. Hildur hefur lokið fil.kand-prófi í trúarbragðasögu frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð, MSc.-prófi í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands og kennsluréttindum frá sama skóla. Hún hefur sinnt þróun og skipulagi á námi og kennslu fullorðinna um árabil.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi