Árið 2018 var Starfsmennt falið verkefni, að vinna með Fangelsismálastofnun að uppsetningu náms fyrir fangaverði og var með verkefninu unnið úr bókun með kjarasamningi fjármála- og efnahagsráðherra og SFR – stéttarfélags í almannaþjónustu, nú Sameyki, frá árinu 2015. Námið tók til tiltekins hóps starfsmanna Fangelsismálastofnunar sem ekki hafði gefist færi á að ljúka námi frá Fangavarðaskólanum. Ákveðið var að nýta tækifærið og flytja allt bóklegt nám í rafrænt námsumhverfi en bjóða áfram upp á verklega kennslu í staðnámi. Þetta var meðal annars gert til þess að starfsmennirnir ættu tök á að sinna náminu hvenær sem var sólarhringsins og hvar sem var á landinu. Starfsstöðvar Fangelsismálastofnunar eru á mörgum stöðum og starfið sjálft er unnið í vaktavinnu og þótti því jákvætt að nemendur gætu nálgast það hvenær sem var sólarhringsins.
Um ákveðna tilraun var að ræða og voru markmið hennar tvíþætt, annars vegar að gefa þessum tiltekna hópi tækifæri til að ljúka grunnnámi fangavarða og hljóta þar með fastráðningu en hins vegar að greina kosti og galla rafræns námsumhverfis með það fyrir augum að innleiða það hjá fleiri hópum í markhópi Starfsmenntar. Tilraunaverkefnið þýddi nýja nálgun hjá Starfsmennt og kúvendingu í starfsemi Fangavarðaskólans og hafði í för með sér ýmsar áskoranir sem gerð verða skil hér.
Tilraun með fjarnám og staðlotur
Fangavarðaskólinn hafði fram til þessa verið rekinn sem dagskóli. Það reyndist ekki heppilegt fyrirkomulag af nokkrum ástæðum. Nemendurnir komu víðsvegar að af landinu með tilheyrandi ferðakostnaði, húsnæðisskortur háði skólanum og dekka þurfti fjarveru nemendanna af vöktum meðan þeir sinntu náminu sem aftur hafði aukinn launakostnað í för með sér, að ekki sé minnst á niðurskurð fjármagns frá ríkinu frá árinu 2008. Fangaverðir áttu misgott með að sækja dagskólann, sérstaklega þeir sem bjuggu úti á landi. Því var brýnt að reyna að finna lausn fyrir þennan hóp fangavarða sem hafði beðið þess lengi að fá skipan í embætti og sem tæki jafnframt á ofangreindum vandamálum. Fangelsismálastofnun hafði hug á að reyna fjarnám af einhverju tagi og úr varð ofangreint tilraunasamstarfsverkefni stofnunarinnar og Starfsmenntar.
Tillaga að áherslum byggð á fræðsluþörf
Starfsmennt tók að sér að greina fræðsluþarfir starfsmanna og gerði tillögu að áherslum í grunnnámi og símenntun fangavarða. Ljóst var að ekki yrði hægt að kenna allt í fjarnámi og að skipuleggja þyrfti nokkrar stuttar staðlotur sem meðal annars yrðu nýttar til að kenna ýmsa líkamlega færni, til dæmis sjálfsvörn og öryggistök. Valin voru sex meginþemu sem voru sett upp sem rafræn námskeið; skýrslugerð og öryggismál, afbrota- og sakfræði, lög og reglur, fangelsisfræði, sálfræði og tölvukerfi. Starfsmennt keypti svo aðgang að námsumsjónarkerfinu Eloomi sem nota skyldi í þessum tilgangi. Samkomulag varð um að 20 nemendur fengju aðgang að nýja Fangavarðaskólanum og að námið færi fram veturinn 2018–2019 með útskrift í maí 2019 í huga.
Þegar nemendalistinn var klár varð ljóst að ein helsta áskorunin var sú mikla breidd sem fólst í hópnum, sem samanstóð af konum og körlum, á ýmsum aldri og með mismikla tækniþekkingu og menntun að baki (allt frá grunnskólaprófi til háskólaprófs). Það skipti því miklu máli að námsefnið yrði sett þannig fram að allir gætu nýtt sér það. Einnig skipti máli að einn tengiliður kæmi að skólanum sem sæi um að leysa úr öllum fyrirspurnum og tæknivandamálum. Ákveðið var að bjóða nemendum sérstaklega að nýta sér önnur námskeið á vegum Starfsmenntar er lytu að tölvufærni og námstækni. Haldinn var sérstakur kynningarfundur með öllum nemendum þar sem þeir fengu kennslu á Eloomi kerfið og aðstoð við að feta sín fyrstu spor þar. Einnig var komið á sambandi við verkefnisstjóra Starfsmenntar sem hélt utan um verkefnið, námsmannahópinn og námskerfið.
Áskorun fyrir kennara
Önnur helsta áskorunin laut að kennurunum. Þeir voru allir sérfræðingar á sínu sviði en enginn þeirra sérfræðingur í því að búa til rafrænt námsefni. Nokkur kvíði var í sumum enda um alveg nýja nálgun að ræða og ekki voru allir sannfærðir um að rafrænt námsefni væri yfirhöfuð góður kostur. Því var búinn til leiðbeiningabæklingur fyrir kennarana, þar sem farið var yfir kosti og galla rafrænna kennsluhátta og var stuðst við rannsóknir um það hvaða leiðir væru vænlegastar til árangurs. Einnig voru haldnar vinnustofur fyrir kennarana þar sem farið var í kennslufræði fullorðinna, rafræna kennsluhætti og framsetningu á rafrænu námsefni. Fyrsti hlutinn var námskeið, haldið í október, þar sem Hróbjartur Árnason, lektor við menntavísindasvið Háskóla Íslands, fór yfir aðferðafræði kennslu fullorðinna. Tvær vinnustofur voru svo haldnar í október og nóvember. Helsti árangurinn af vinnustofunum varð sá að það dró úr kvíða meðal kennaranna við að búa til kennslumyndbönd, þeir fengu fleiri verkfæri í hendurnar til að vinna með og þeir áttuðu sig á mikilvægi þess að búta námsefnið niður í margar litlar einingar. Auk þess mynduðu þeir tengsl við verkefnisstjórann sem hafði það hlutverk að vinna allt námsefnið inn í kerfið og halda utan um það.
Almenn ánægja með fyrirkomulagið
Fangavarðaskólanum var hleypt af stokkunum 19. nóvember 2018 og gert var ráð fyrir að útskrifa 20 fangaverði í maí 2019. Haldnir voru tveir rýnifundir með kennurum og stjórnendum Fangavarðaskólans á fyrstu þremur mánuðunum þar sem farið var yfir upplifun kennara og stjórnenda af náminu. Auk þess voru tvær staðlotur haldnar fyrir nemendurna þar sem skerpt var á áherslum og vinnuaðferðum, ýmis tæknimál voru afgreidd er lutu að námskerfinu sjálfu og verkleg þjálfun fór fram. Gert var ráð fyrir að kalla saman rýnihópa kennara og nemenda til að meta lokaárangur af verkefninu og upplifun af kerfinu þegar verkefninu lyki.
Verkefnið fór vel af stað og um miðbik námstímans hafði mikil ánægja komið fram að hálfu bæði kennara og nemenda. Nemendur voru ánægðir með að stjórna yfirferðinni sjálfir. Þeir gátu hlustað eins oft og þeir vildu á netfyrirlestrana og dregið hafði verið úr magni lesefnis til að koma til móts við mismikla lestrarfærni nemenda. Þeir voru ánægðir með að geta sinnt náminu þegar tími gafst í vinnunni, til dæmis á næturvöktum, eða í frítíma sem hentaði þeim. Þá voru vísbendingar um að námið efldi sjálfstraust nemenda og hvetti þá til frekara náms að þessu loknu. Kennararnir voru að mestu ánægðir með framganginn en söknuðu þó beinna samskipta við nemendurna. Þar felast tækifæri til að bregðast við, mætti til dæmis stofna spjallhóp á samfélagsmiðlum til að opna á samskipti milli nemenda og kennara og draga úr fjarlægðinni sem myndast gjarnan milli þeirra í fjarnámi. Gæði námsins héldust, þrátt fyrir þessa breytingu úr staðnámi í fjarnám, þar sem enn var verið að kenna það sem á að kenna af sömu kennurum. Meiri líkur voru jafnvel á að nemendur næðu að tileinka sér það sem verið var að kenna þar sem þeir gátu farið oft í gegnum efnið. Enginn missti af fyrirlestri því efnið var alltaf aðgengilegt. Sá tími sem fór í námið hefur styst þar sem mikill tími hafði sparast í ferðum milli staða, kaffipásur, óþarfa spjall, tafir og endurtekningar. Kennslutíminn styttist þar sem kennarinn tók upp fyrirlesturinn og gat klippt út óþarfa lýsingar, hikorð og bið. Nemandinn gat því lokið sama námi á styttri tíma en fór í staðnámið. Auk þess sparaðist tími og kostnaður kennara við undirbúning þar sem hægt var að endurnýta það efni sem búið var að taka upp en kennarinn hefði annars þurft að mæta í hvert sinn sem nám færi fram í dagskóla, þótt verið væri að kenna það sama og kennt var daginn áður eða á fyrra námskeiði. Mesti sparnaðurinn var þó fólginn í samgöngum (að ferja nemendur utan af landi í skólann) og í því að nemendur þurftu ekki lengur að yfirgefa vinnustöðina sína til að sinna náminu, sama hversu mikið var að gera á henni hverju sinni, því að þeir geta valið hvenær náminu var sinnt og nýtt lausan tíma milli verkefna, til dæmis á næturvöktum, í kaffitímum eða jafnvel á ferðum til og frá vinnu. Starfandi fangaverðir voru mjög áhugasamir um verkefnið og fengu gjarnan fengið að fylgjast með netfyrirlestrunum yfir öxlina á nemendunum. Næsta skref verður því að ljúka mati á verkefninu, huga að betrumbættu verklagi og að stafvæðingu endurmenntunarhluta fangavarða, Áfanga.
Jákvæðar niðurstöður tilraunaverkefnis
Segja má að tilraunaverkefnið hafi gefið vísbendingar um mjög jákvæða niðurstöðu fyrir starfsnám í rafrænu námsumhverfi. Ljóst er að aðrar opinberar stofnanir geta tekið Fangelsismálastofnun sér til fyrirmyndar og stuðlað að frekari símenntun sinna starfsmanna í gegnum rafræna miðla. Gott gengi Fangavarðaskólans má þakka viðamiklum undirbúningi og fullyrða má að betur sé heima setið en að fara of geyst í sakirnar við framkvæmd rafræns náms. Undirbúningurinn þarf að miðast við námsefnið, nemendurna, kennarana og kerfið sem á að halda utan um námið. Sé hins vegar vel staðið að undirbúningnum ætti námið að geta skilað stofnunum sömu gæðum á náminu en á mun styttri tíma og með mun minni kostnaði en hefðbundið staðnám. Rúsínan í pylsuendanum er svo að samhliða því að efla rafrænt nám starfsmanna eykst stafræn færni þeirra. Þeir eflast í að takast á við áskoranir fjórðu iðnbyltingarinnar, hverrar áhrifa er nú þegar farið að gæta og munu aukast þegar fram líður.