Í nóvember síðastliðnum fór námsleiðin Fjölvirkjar af stað í Slippnum á Akureyri. Nokkuð er um liðið síðan boðið hefur verið upp á þá námsleið hér hjá Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar (SÍMEY) Í kjölfar verkefnis í Fræðslustjóra að láni í Slippnum Akureyri ehf. var ákveðið að bjóða upp á námið sem hluta af fræðsluáætlun Slippsins en með breyttu sniði frá því sem áður var. Sveigjanleiki námskrárinnar er nýttur með þarfir fyrirtækisins og starfsmanna að leiðarljósi.
Hugmyndin að námskránni Fjölvirkjar kom upphaflega frá Slippstöðinni á Akureyri, nú Slippnum Akureyri ehf, en SÍMEY hannaði námið í samvinnu við Slippstöðina, Einingu Iðju og Félag byggingamanna Eyjafirði árið 2003. Námið var fyrst stundað árið 2003 af starfsmönnum fyrirtækjanna Möl & Sandi, Sandblæstri & málmhúðun og Slippstöðinni á Akureyri. Námið er þannig uppbyggt að þægilegt er að móta það og laga að margvíslegum starfsgreinum en í námskránni kemur fram að námið sé „[æ]tlað lykilstarfsmönnum í iðnaðar-, framleiðslu og þjónustufyrirtækjum.“
Námið runnið úr Fræðslustjóra að láni
Aðdragandann að þessu námi í Slippnum nú í haust má rekja til verkefnisins Fræðslustjóri að láni sem unnið var vorið 2016. Við greiningu fræðsluþarfa kom fram þörf hjá fyrirtækinu sem sneri að öryggismálum, kostnaðarvitund, umhverfismálum og að efla verkkunnáttu ófaglærðra starfsmanna Slippsins. Við nánari skoðun kom í ljós að námskráin Fjölvirkjar reyndist geta tekið vel á þessum þáttum. Því var ákveðið að reyna að setja Fjölvirkjanámið upp sérstaklega fyrir ófaglærða verkamenn Slippsins á vinnutíma. Undirbúningur að náminu hófst svo síðastliðið vor en um undirbúninginn sá starfshópur innan Slippsins auk verkefnastjóra hjá SÍMEY. Í nóvember hófst kennsla að fullu og vinna nú tíu iðnverkamenn að því að efla sig í starfi undir leiðsögn þriggja sérþjálfaðra starfsmanna Slippsins.
Fyrirtæki í samkeppnisumhverfi
Slippurinn starfar í erfiðu starfsumhverfi. Fyrirtækið á í harðri samkeppni við erlendar skipasmíðastöðvar og gríðarmiklir fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi. Viðskiptavinir eru kröfuharðir og krefjast vandaðrar vinnu á skömmum tíma og á sem ódýrastan hátt. Því getur vankunnátta, léleg kostnaðar- og gæðavitund verið afar dýrkeypt. Þær kröfur sem gerðar eru til fyrirtækisins í því samkeppnisumhverfi sem það starfar í setja því stífan ramma. Slíkur rammi leiðir oft á tíðum af sér tímapressu sem gerir það að verkum að ekki gefst tími til að þróa hæfni starfsmanna með þeim hætti sem fyrirtækið hefur metnað og vilja til að gera. Það getur leitt til þess að þekking á ákveðnum störfum safnast á mjög fárra hendur.
Fjölbreytt og sérhæfð störf
Verkamenn Slippsins starfa við afar fjölbreytt og sérhæfð störf og innan veggja Slippsins liggur gríðarlega mikil og sérhæfð þekking á svið skipaviðgerða. Við skipulag námsins var lögð áhersla á að nýta þá þekkingu sem fyrir er í Slippnum. Kapp var lagt á að skapa farveg, eða svigrúm fyrir þá sem hafa öðlast sérþekkingu í störfum sínum til að deila kunnáttu sinni og hæfni. Þannig má þróa með markvissum hætti hæfni og kunnáttu verkamanna hjá Slippnum. Með Fjölvirkjanáminu fylgir fjármagn frá Fræðslusjóði sem nýtist fyrirtækinu til þess að skapa þetta svigrúm.
Fyrirkomulag námsins er með þeim hætti að þau verkefni sem starfsmennirnir vinna að eru raunverkefni sem Slippurinn hefur tekið að sér og skapa þau fyrirtækinu tekjur. Skipulagi námsins er þannig háttað að því er stillt upp í þrjá fasa, undirbúningsfasa, verkefnafasa og uppgjörsfasa. Megnið að náminu fer fram innan verkefnafasans. Fyrsti fasinn er undirbúningsfasi. Í þessum fasa var námið kynnt, kennslukerfið Inna skoðað og verkdagbækur sem gerðar voru sérstaklega fyrir Slippinn kynntar auk þess sem þátttakendur lærðu námstækni og sjálfseflingu í starfi.
Verknámsfasi
Að undirbúningsfasa loknum hefst verknámsfasinn. Hann felst í því að námshópnum er skipt upp í þrjá þriggja til fjögurra manna hópa sem er falið að vinna ákveðið verk. Í þessu tilraunaverkefni er lagt upp með þrjú verkefni sem hver hópur sinnir. Þau eru gler-, sand,- eða blautblástur, tankavinna og málningarvinna. Við hvert verkefni eru fimm námsþættir teknir sérstaklega fyrir. Það eru hagnýt stærðfræði, forvarnir og öryggi, gæðamál, stjórnun vinnuflokks, og starfsumhverfi. Við upphaf hvers verkefnis kemur námshópurinn saman ásamt leiðbeinanda sínum. Þar er verkefnið skilgreint og skipulagt. Farið er yfir alla námsþætti námskrárinnar og hópurinn látinn gera sér grein fyrir umfangi verksins, til dæmis fermetrafjölda og áætla efnismagn sem þarf að nota í tenglsum við þá staðla sem gefnir eru upp. Öryggisstjóri fyrirtækisins hittir hópinn og fer í gegnum öryggismál með honum og gerir áhættugreiningu fyrir verkið með þátttakendum. Gæðakröfur eru yfirfarnar sem og hvaða ferlar og staðlar eiga við verkið og hvar þá er að finna og stjórnun vinnuflokks rædd með tilliti til nýtingu mannafla. Að lokum eru umhverfisþættir skoðaðir með sérstakri áherslu á mengunarhættu og hvaða þættir eru helst líklegir til að valda sóun.
Þegar þessari undirbúningsvinnu er lokið þá er verkið unnið undir leiðsögn leiðbeinanda. Notaðar eru verkdagbækur þar sem þátttakendur fara í gegnum tékklista til þess að kanna hvort þeir hafa náð valdi á mismunandi þáttum og fengið staðfestingu leiðbeinanda. Í því ferli eru þátttakendur hvattir til þess að taka myndir og skrá með einhverjum hætti hugmyndir að úrbótum og fleiru sem þér sjá að sé til bóta til að vinna verkið.
Að hverju verki loknu fer fram uppgjör verks. Þá koma saman þátttakendur, leiðbeinendur og verkefnastjóri hjá SÍMEY þar sem farið er yfir verkið með tilliti til þeirra áætlana sem gerðar voru og spurt hvað gekk vel og hvað ekki og af hverju. Tillögur að úrbótum eru skoðaðar og skráðar og haldið til haga fyrir lokafasa námsins. Með þessum hætti fer hver hópur í gegnum öll þrjú verkefnin.
Síðasti fasi námsins eru svo samantekt og kynning á niðurstöðum verkefnanna, þátttakendur undirbúa kynningu á verkefnunum og koma með tillögur að úrbótum. Að námi loknu fara þessar kynningar fram fyrir stjórnendum Slippsins.
Stutt nám og hnitmiðað
Eitt af því sem oft er talað um þegar verið er að skipuleggja nám inni á vinnustöðum er að þar birtast nánast ósamræmanlegar kröfur um að námið sé stutt, ódýrt, hnitmiðað og praktískt og að það skilji mikið eftir. Þeir sem staðið hafa að skipulagningu náms vita að stutt námskeið skilja sjaldnast mikið eftir nema í afar stuttan tíma. Ef efla á hæfni starfsfólks þá þarf að gefa hæfniuppbyggingu tíma og svigrúm.
Við upphaf verkefnisins bauð SÍMEY leiðbeinendum Slippsins upp á Stiklunámskeiðið Fullorðnir nemendur og forsendur þeirra. Þar voru leiðbeinendur Slippsins fræddir um hugmyndafræði fullorðinsfræðslunnar og það teymi sem sér um námið skapað.
Utanumhald námsins er með þeim hætti að greinarhöfundur sem er verkefnastjóri hjá SÍMEY fer með umsjón með náminu ásamt Árna Frey Antonssyni, verkstjóra hjá Slippnum. Það má til gamans geta þess að Árni Freyr átti stóran þátt í gerð Fjölvirkja námskrárinnar á sínum tíma. Þáttakendum er skipt upp í þrjá minni hópa. Þegar verkefnastaðan hjá Slippnum býður upp á er byrjað á því að skilgreina námsverkefnið. Verkefnastjóri, verkstjóri og leiðbeinandi koma saman og skipuleggja lotuna. Þessu næst hitta verkefnastjóri og viðkomandi leiðbeinandi hópinn og fara í gegnum verkefnið og þætti þess og undirbúning. Þegar verkefninu er lokið hittast verkefnastjóri og leiðbeinandi hópinn þar sem þátttakendur gera upp verkið og skoða umbótatillögur og vinna inn í lokaskýrsluna.
Samvinna og samþætting er nauðsynleg
Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel en það krefst mikillar samvinnu og samþættingar milli vinnustaðarins og SÍMEY þar sem mikið reynir á sveigjanleika bæði Slippsins og ekki síður hjá SÍMEY. Hins vegar er til mikils að vinna að láta þetta verkefni ganga upp með hagsmuni Slippsins og ekki síst ófaglærðra starfsmanna Slippsins í huga.
Við væntum þess að með Verkamannaskóla Slippsins skapist grundvöllur og svigrúm til þess að ófaglærðum verkmönnum Slippsins lánist að fá þá umfangsmiklu starfsþjálfun sem þeir þurfa í sínum störfum. Starf verkamanna í Slippnum er mjög sérhæft og krefst mikillar kunnáttu og hæfni í öryggismálum, verkkunnáttu, meðhöndlun efna og tækja. Slík hæfni og kunnátta fæst ekki nema með mjög markvissri og ítarlegri fræðslu þar sem gríðarmiklir fjárhagslegir og heilsufarslegir hagsmunir eru í húfi. Slippurinn starfar í mjög mikilli samkeppni við erlendar skipasmíðastöðvar og hefur mikla þörf fyrir vel þjálfaða verkamenn til að standast samkeppnisaðilum sínum snúning. Við slíkar aðstæður eru starfsmenn Slippsins og varðveisla verklegrar kunnáttu gríðarlega mikilvæg fyrir iðnaðinn og samfélagið á Akureyri. Það er von okkar sem að þessu verkefni koma að það verði fyrirtækinu, starfsmönnum þess og fullorðinsfræðslunni til framdráttar á næstu árum.