- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

„Við getum þá alltaf sungið Bítlalögin“

Þegar Bítlalögin og tölvan urðu til þess að konur í Borgarnesi og á Akureyri fóru í enskunám.

Borgarnes, vorönn 2013

Þá starfaði ég sem sem enskukennari við Menntaskóla Borgarfjarðar og hafði gert í ein 5 ár og var þátttakandi í gönguhópi kvenna sem hittust vikulega en ég var tiltölulega ný í hópnum og kom að þessum hópi í gegnum styrktarsamtökin Göngum saman.

Það var einmitt í þessum gönguferðum sem konurnar nálguðust mig, ein og ein í einu, gengu um stund við hliðina á mér og laumuðu síðan að mér einhverju á þessa leið: „Ég hef heyrt að þú talir alltaf ensku í kennslustundum?“ Jú, ég jánkaði því, ég hafði bæði verið í námi og starfi í Englandi og fannst það eðlilegt. „Já, ég væri til í að koma í tíma til þín, mér veitir ekkert af því að fá æfingu í talmálinu, maður hefur misst svo mikið niður síðan í den og ekki náð að æfa sig reglulega.“ Annað dæmi: „Ég er nú eiginlega alltaf á leiðinni til þín. Ég þarf að gera eitthvað í mínum málum, enskan hefur alveg setið á hakanum hjá mér og ég þori ekki orðið að opna munninn.“ Þriðja dæmið: „Þannig er að maðurinn minn talar alltaf fyrir mig enskuna, hann er miklu betri en ég en ég þarf að ná þessu svo að ég geti meira en bjargað mér, þetta gengur ekki lengur.“

Ég velti þessu töluvert fyrir mér og hvernig gæti staðið á þessu, hvers vegna höfðu konurnar ekki drifið sig á enskunámskeið? Það var greinilegt að löngunin var fyrir hendi hjá þeim og tækifærið innan seilingar því Símenntunarstöð Vesturlands í Borgarnesi bauð reglulega upp á enskunám, bæði í formi upprifjunar og einnig fyrir þá sem lengra eru komnir. Ég hafði einmitt kennt á slíkum námskeiðum hjá Símenntunarstöðinni og man að þegar við sömdum auglýsinguna um námskeiðið þá undirstrikuðum við að enskunámskeiðið ætti að henta þeim  sem þyrftu að dusta rykið af enskukunnáttunni og að  lögð yrði áhersla á talmál.

Hversvegna fóru þær bara ekki á námskeið?

Ég braut heilann um konurnar og vangaveltur þeirra um enskukunnáttu unglingsáranna sem þær höfðu tapað niður og það hamlandi óöryggi sem fólst í því að taka ekki skrefið og fara á hefðbundið enskunámskeið í formi fullorðinsfræðslu. Félagsfræðingar (Freire o.fl.) og menntunarfræðingar (Wlodkowski o.fl.) eru einmitt á einu máli um að þátttaka í endurmenntun færi einstaklingi ekki einungis aukið sjálfstraust og meiri starfsgleði heldur einnig ákveðna djörfung sem ýtir undir valdeflingu hjá einstaklingnum (Merriam og Caffarella o.fl.).  Kannski var einhver pottur brotinn í ferlinu sem ég kom ekki auga á, einhverjir hlekkir sem ekki hafði náðst að tengja saman við þessa keðju en ég hafði langa kennslureynslu að baki og hafði kennt fullorðnum á kvöldin í gegnum tíðina, þar sem allir voru með kennslubók, gerðu skriflegar æfingar og hlustuðu á leiðbeiningar frá kennaranum. Mér fannst þetta ekki einungis umhugsunarvert heldur dálítið dapurt því að löngun kvennanna var greinilega fyrir hendi og þær vildu gjarnan ferðast, skoða heiminn og njóta þess að víkka sjóndeildarhringinn en það vantaði mikilvægan ferðafélaga, enskuna! Var einhver lausn í sjónmáli? Ég velti fyrir mér að ég sjálf væri til dæmis ákveðin hindrun, ég áttaði mig á að ég hljómaði eins og „sérfræðingur að sunnan“ talaði ensku með breskum hreim og hljómaði líklega í þeirra augum eins og ég vissi ,,allt“ um enska tungu! Hvílík fyrra. Það vildi svo heppilega til að ég vissi hvað það var að vera ótalandi á nýtt tungumál, ég hafði búið í Grikklandi í 5 ár og þegar ég flutti þangað þá var ég sannarlega byrjandi sem kunni aldeilis ekki neitt. Ég mundi sannarlega hvað sá tími reyndi á og ég lumaði á skemmtisögum hvað það varðaði.

Tilboð um óhefðbundna kennslu

Ég ákvað að gera konunum tilboð, kallaði þær á fund og sagði þeim að ég ætlaði að bjóða þeim að koma á ókeypis enskunámskeið til mín, við gætum mögulega hist á tveggja vikna fresti og ég myndi sjá þeim fyrir námsefni, við gætum til dæmis lesið saman eina enska kilju og síðan talað saman um efnið. Einnig gætum við rætt um fréttatengt efni, kvikmyndir, mataruppskriftir og jafnvel ensku konungsfjölskylduna, hvað sem þær vildu ræða og fyndist áhugavert og já, við myndum tala saman á ensku, að minnsta kosti reyna það. Ég lagði áherslu á að þetta væri tilraun hjá mér og að báðir aðilar myndu vonandi hafa eitthvað upp úr krafsinu, ég væri í framhaldsnámi við Menntavísindasvið HÍ og þetta væri upplagt verkefni fyrir mig sem að ég gæti að öllum líkindum nýtt mér. Ég lagði einnig áherslu á að ég vildi kynna fyrir þeim einhverja undraheima tölvunnar, eins og  gagnlegar heimasíður, því þannig gætu þær síðan fundið námsefni sem kæmi sér vel og  nýtt sér sjálfar í stofunni heima, þegar þeim hentaði. Þær þögðu og horfðu á mig fullar vantrúar þangað til ein þeirra sagði: , Og  þú heldur sumsé að þú getir kennt okkur að tala ensku?“ Það vottaði fyrir glotti á nokkrum andlitum. Þetta hljómaði eins og ég væri að finna upp hjólið, þannig leið mér að minnsta kosti. ,,Ja, við getum þá alltaf sungið Bítlalögin,“ sagði ég og hélt ótrauð áfram að selja þeim þessa hugmynd, þetta yrði að minnsta kosti mannrækt hjá okkur og allir kynnu jú að syngja „Yesterday“. Þetta varð upphafið að námskeiðinu. 

Konurnar, sem allar voru útivinnandi, stunduðu líkamsrækt og voru fullar sjálfstrausts, höfðu af einhverri ástæðu talið sér trú um að ensk tunga væri bara ekki fyrir þær, málfræðin væri erfið og framburðurinn óþjáll, þetta sem þær hefðu lært í unglingaskóla væri að mestu gleymt og að það borgaði sig hreint ekki að fara á hefðbundið námskeið, sumar hefðu prufað það og ekkert grætt. Þær voru óöruggar, voru jafnvel búnar að ákveða fyrirfram að þetta væri vonlaust verk.

Bítlalögin gerðu gæfumuninn

Ég áttaði mig smátt og smátt á því að það að minnast á Bítlalögin gerði gæfumuninn, þar lá gömul þekking sem kom sér vel, hún var þeim kær og hún var á ensku, óöryggið vék fyrir gamalkunnri skemmtun sem Bítlatónlistin var og hafði ekkert með hefðbundið nám að gera. Þetta varð upphafið að samstarfinu. Þetta kennslufyrirkomulag er kallað þrepakennsla, vinnupalla fyrirkomulag (e. scaffolding) þar sem byggt er smám saman ofan á einhvern þekkingargrunn sem fyrir er hjá nemandanum og gerir honum kleift að vera með á nótunum frá upphafi.

Smám saman fórum við í gegnum efni sem ég kom með og við náðum að taka lagið og skoða einfalda texta á Youtube, þeim fannst ótrúlega spennandi að reyna sig við að syngja enska texta af skjánum, um leið og þær sungu lögin sem þær kunnu utan að, það fólst ákveðin skemmtun í því. Feimnin fór líka af þátttakendum og smátt og smátt voru sagðar gráthlægilegar sögur af því hvernig þær höfðu reynt að tala ensku hér og þar en orðin sem þær sögðu við hin og þessi tækifæri þýddu eitthvað allt annað. Ég sagði þeim á móti meðal annars frá því þegar ég fór í bakaríið í hverfinu mínu í Aþenu, nokkuð örugg með mig, sló um mig með nýfengnum orðaforða og bað um hálft kíló af eyrnalokkum. Ísinn var þar með brotinn, við áttum sameiginlega reynslu.

Taka ensku fagnandi sem viðbót við íslenskuna

Við héldum áfram að hittast nokkuð reglulega og hafa gaman, ég lagði til námsefnið og þær komu með eitthvað gott með kaffinu, við fengum lengst af inni í Rauða kross-húsinu við Borgarbraut en þar var gott pláss. Mætingin hjá hópnum var góð og þátttakendur  áhugasamir. Við vorum 7 þegar mest var og andrúmsloftið afslappað, þetta var sameiginlegt verkefni, þær voru að hjálpast að, ég léði þeim hjálparhönd. Ég var með mína tölvu með mér og sýndi þeim námsefni sem hægt var að nýta sér, til dæmis á heimasíðu hjá breska fréttamiðlinum www.bbc.co.uk. Markmiðið var að liðka til við enskunámið og sýna konunum fram á að þær gætu síðan hjálpað sér sjálfar og aflað upplýsinga í tölvunni eftir þörfum. Ensk tunga væri það tungumál sem væri ríkjandi í heiminum í dag, það þyrftu sem flestir að nýta sér hana. Upplagt væri að taka henni fagnandi sem viðbót við íslenskuna.

Í síðasta kennslutímanum í lok maí, kom blaðamaður, Heiðar Lind Hansson, frá Skessuhorni, svæðisfréttablaði Vesturlands, sem hafði frétt af þessum hópi og tók viðtöl við tvær konur sem þá voru tilbúnar að segja frá því hvernig þær hefðu með þessu óformlega enskunámi komist yfir ákveðna feimni, jafnvel hræðslu við að láta reyna á gamla þekkingu og að þær hefðu náð að hrista af sér gamlan kvíðahroll og jafnvel notið sín við að bæta við að rifja upp og treysta gamla enskugrunninn. Mér fannst við hafa náð takmarkinu og að stór skref hefðu verið stigin. Við höfðum sumsé allar séð kostinn við að hittast og læra saman, ég var reynslunni ríkari.

Akureyri, vorönn 2015

Ég var gestanemi við Háskólann á Akureyri á vorönn 2015 og þurfti að fást við rannsóknartengt efni í aðferðarfræðináminu og því ákvað ég að nýta mér reynsluna frá Borgarnesi og halda áfram með þessa nýju tilraun mína, enskunámskeið með Bítlatónlist og tölvu. Ég hafði samband við framkvæmdastjóra tómstundamiðstöðvarinnar Rósenborg sem Akureyrarbær starfrækir  og vildi bjóða hópi kvenna upp á samskonar enskunámskeið. Ég var svo heppin að Sigríður Ágústsdóttir, leirlistarkona, kveikti á þessari hugmynd og bauð mig velkomna í leirlistarhópinn sinn sem hittist tvisvar í viku og hafði gert lengi. Ég hitti konurnar, kynnti mig og sagðist vilja bjóða þeim ókeypis enskunám, einu sinni í viku og hvort þær væru jákvæðar gagnvart því að spjalla á ensku á meðan þær væru að eiga við leirinn og taka síðan þátt með spjalli og því að syngja kannski Bítlalög af og til með mér og með hjálp tölvunnar? Þær tóku vel í þessa tillögu.

Ég talaði við þær á ensku í klukkustund, milli klukkan 10 og 11  á þriðjudagsmorgnum og afhenti þeim efni, sagði frá og spurði þær auðveldra spurninga, jafnvel um það stykki sem þær voru að vinna að og ef að einhver vildi leggja orð í belg þá gerði viðkomandi það á ensku eða á íslensku. Ég gætti þess að stuða þær ekki með of krefjandi umfjöllunarefni og tók eftir því að ef að þeim fannst efnið strembið þá grúfðu þær sig yfir leirinn og drógu sig dálítið í hlé, vildu ekki láta trufla sig. Einhvern tíma í mars dreifði ég efni um ömmu George Clooney, Rosemary Clooney sem var fræg skautadrottning í Ameríku, þetta var framhald frá síðasta tíma og ein af konunum sem var sein fyrir vatt sér inn um dyrnar og sagði: ,,Ég ætlaði sko ekki að missa af þessari umfjöllun um Georg Clooney hjartaknúsara og ömmu hans í Ameríku.“ Við áttum skemmtilegt og gagnlegt samstarf en þessi hópur var örlítið ólíkur fyrri hópnum, til dæmis var meðalaldur þeirra  hærri. Sigríður hafði einnig búið í Englandi og talaði oft við okkur á ensku, það var áhugavert skref og gott fyrir andrúmsloftið og studdi enn frekar við markmiðið um það að gera ensku eftirsóknarverða.  Konurnar voru mjög þakklátar og vildu endilega bæta enskukunnáttuna, sögðust hafa gott af spjallinu og nokkrar nefndu að þær hefðu einmitt verið á leiðinni til þess að drífa sig í enskunám, eða á kvöldnámskeið hjá Símey. Ein þeirra var einmitt á hefðbundnu enskunámskeiði þar og kvartaði yfir því að þar væri allt of mikið málfræðiströggl og að ekki væri spjallað svona mikið saman og að á okkar ,,námskeiði“ væri skemmtilegra, meira líf og fjör. Það var kannski aðalatriðið að þeim fannst gaman að þessu, þær ræddu málin um leið og þær lærðu.

Hópunum svipaði saman

Ég komst að mjög svipuðum niðurstöðum með þennan hóp eins og kvennahópinn í Borgarnesi, það er að konurnar höfðu fundið hjá sér þörf fyrir að sækja sér meiri þjálfun í ensku, og höfðu áætlanir um að bóka sig á námskeið til þess að bæta enskukunnáttuna, en af einhverjum ástæðum höfðu þær flestar einnig haldið að sér höndum. Tvær töluðu þó um að þær hefðu farið á enskunámskeið fyrir einhverjum árum og farið í tvo kennslutíma en fannst þær ekki skilja nægilega mikið af því sem farið var yfir, horft var á of flókið efni í sjónvarpi, þær höfðu ekki getað fylgst með og tóku þá ákvörðun að hætta. Það var áhugavert og dálítil áskorun að velja söngtexta og lög sem allir gætu sungið saman, það er algengara að þekkja Bítlalagið sjálft, en textann þarf að vera hægt að bera fram, í rólegri laglínu. Það var til dæmis  til lítils að ætla að syngja með konunum fallega lagið „Michelle“, enda helmingur textans á frönsku. Einnig fannst mér spaugilegt að koma með tillögu að „When I´m sixty four“ það var kannski óþarfi að undirstrika aldur í þessum aldurshópi, þó að textinn sé kómískur. Einnig er óheppilegt að syngja „Penny Lane“, lagið er auðvitað ógleymanlegt og fjörugt en textann þarf að syngja heldur hratt. „Yesterday“ var sívinsælt, öllum fannst það mjög auðvelt, einnig lagið „Girl“, sem hefur að geyma litríkari orðaforða en er samt einfalt að syngja. Vegna óstöðugs netsambands í Gamla barnaskólanum, þar sem Rósenberg er til húsa, þurftum við að standa upp og fara fram á gang til þess að vera í sambandi með tölvuna og það var hreint ógleymanleg sjón að horfa á konurnar standa fyrir framan tölvuna, með svörtu svunturnar sínar og syngja saman. Þegar þær gleymdu sér í söngnum vögguðu þær sér í mjöðmunum í takt við lagið og sungu af einlægni: „Is there anybody going to listen to my story …“.

Ævintýrið varð að rannsókn

Þegar upp var staðið var þetta frábær reynsla fyrir mig, sannkallað ævintýri sem kom upp í hendurnar á mér og varð síðar að rannsókn sem ég byggði meistararitgerðina mína á. Þar skoðaði ég bæði kennsluaðferðir og hvernig mér tókst til að vekja áhuga á námsefninu og um leið hvort að ég náði að smita þann áhuga yfir til nemenda. Í upphafi hitti ég konur sem töluðu um litla enskukunnáttu og vilja sinn til þess að bæta úr því, þær vantaði samt áræðni og voru kannski að leita að einhverju nútímalegra námsumhverfi, þó að þær hefðu ekki fest það í orð. Allar konurnar voru orðnar þreyttar á gamaldags grunnskólaaðferðum og fannst að það væri lítið um tilboð á óhefðbundinni kennslu eða annarri aðferðafræði en þeirri sem þær þekktu úr fyrra námi. Ég var heppin að hafa kynnst þessum tveimur hópum, við skemmtum okkur vel, þetta var mannrækt sem við stunduðum og báðir aðilar höfðu gagn af þeim verkefnum og verkfærum sem við nýttum okkur. Þessi vinna gaf mér tækifæri til þess að þroskast sem uppeldisfræðimenntuð manneskja og víkkaði sjóndeildarhringinn til muna.

Ingibjörg Ingadóttir

Ingibjörg Ingadóttir er kennari með meistaragráðu í kennslufræðum.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi