- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Virkir nemendur í Keili með aðstoð vendináms og fjölbreyttrar tækni

Keilir – miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs er menntastofnun á Ásbrú. Keilir var formlega stofnaður vorið 2007 með stofnun Háskólabrúar og í þá námsleið sóttu strax nokkuð margir fullorðnir einstaklingar sem vildu ná sér í ígildi stúdentsprófs. Núna 12 árum síðar eru deildirnar orðnar fjórar innan skólans og nemendahópurinn er á öllum aldri, frá ýmsum löndum og með mjög fjölbreyttan bakgrunn. Lagt hefur verið upp með að beita fjölbreyttum kennsluaðferðum fyrir fullorðna í skólastarfinu til að reyna að koma til móts við þarfir sem flestra. Áhersla er lögð á að reyna að vera fagleg með því að þróa og breyta eftir þörfum og bjóða upp á hátt þjónustustig við nemendur. Í ferlinu hefur innleiðing vendináms líklega haft mestu breytinguna í för með sér en þó hafa önnur atriði vissulega líka skipt miklu máli.  

Hvað er vendinám?

Í stuttu máli sagt er vendinám (e. flipped learning) kennslufræðileg nálgun þar sem námið er nemendamiðað, nemendur fá meiri ábyrgð og eignarrétt á sínu námi en kennarinn er meira eins og leiðsögumaður á hliðarlínunni. Í upphafi var talað um vendikennslu eða speglaða kennslu (e. flipped classroom) og kom sú hugmyndafræði frá Bandaríkjunum, þar sem Jonathan Bergmann og Aaron Sams byrjuðu árið 2007 fyrir tilviljun að taka upp fyrirlestrana sína fyrir nemanda sem missti af kennslustundum (Bergmann og Sams, 2012).
Fljótlega fóru fleiri nemendur að nýta sér upptökurnar, bæði nemendur sem voru í tímum hjá þeim en þurftu að heyra efnið aftur og eins nemendur í öðrum skólum sem áttu erfitt með að fylgjast með í sínum eigin kennslustundum. Þeir félagar urðu fljótt þekktir meðal skólafólks í Bandaríkjunum og síðar um allan heim. Vendikennsla er því upprunalega útgáfan þar sem aðferðin er að nemendur undirbúa sig heima með því að horfa á innlögn kennarans á myndbandi fyrir kennslustundina og nota svo tímann í skólanum til að vinna úr upplýsingunum undir handleiðslu kennarans.

Ekki leið á löngu áður en menn áttuðu sig á því að þessi hugmyndafræði bauð upp á miklu fleiri möguleika og því þróaðist vendikennsla yfir í vendinám sem er mikið víðara hugtak þar sem eiginleg bein kennsla hefur færst úr hóparými yfir í persónulegt rými á meðan hóparýmið er orðið að lifandi námsvettvangi þar sem nemendur tileinka sér námið á eigin forsendum í samvinnu við aðra undir handleiðslu kennarans. Það má því segja að vendinám sé einskonar regnhlífarhugtak sem veitir aukið svigrúm í kennslustofunni og býður upp á að kennarar noti þær kennsluaðferðir sem þeim finnst henta hverju sinni. Stóra markmiðið er að virkja nemendur og gefa þeim tækifæri til að fá sem mest út úr dýrmætum samverutíma með kennara í kennslustundum, á forsendum nemendanna.

Innleiðing vendináms

Vorið 2012 kynnti Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis, hugmyndafræði vendikennslu fyrir kennarahópi Háskólabrúar. Ástæðan fyrir því að þessi hugmyndafræði heillaði starfsfólk var sú að flestir gerðu sér grein fyrir því að þrátt fyrir góða kennara og nemendur með einbeittan námsvilja var orkan í skólastofunni ekki alltaf eins og best varð á kosið. Kennarar héldu gjarnan langa, lærða fyrirlestra um námsefni dagsins fyrir hátt í hundrað manna hóp, þar sem augljóst var að einungis nemendur sem sátu fremst  fylgdust með af einbeitingu. Á flestöllum tölvuskjáum nemenda mátti sjá annað hvort fréttasíður eða samfélagsmiðla. Stemningin meðal nemenda var þreytuleg, enda voru þeir fremur óvirkir stóran hluta úr skóladeginum. Þegar Hjálmar kynnti vendikennslu fyrir kennarahópnum og spurði hvort þeir væru ekki bara til í prufa þessa kennsluaðferð strax um haustið, var vel tekið í það af flestum kennurum. Kennarahópurinn var öflugur, ungur og ferskur og tilbúinn að gera ýmsar tilraunir til að finna bestu leiðirnar fyrir nemendahópinn, með tæknina að vopni.

Þetta var vissulega stórt skref en með góðum stuðningi frá stjórnendum og tölvudeild stigu kennarar sín fyrstu skref í að færa námskeiðin sín yfir í form vendikennslu haustið 2012. Vinnan við það að taka upp alla fyrirlestra og undirbúa vel allt námsefnið var töluvert mikil, en það einfaldaði samt málið fyrir flesta okkar kennara að þeir kenndu nánast allir líka í fjarnámi og voru því vanir að taka upp fyrirlestra fyrir þau námskeið. Tölvudeildin stóð þétt við bakið á kennurum og í sameiningu var fundin lausn á þeim tæknilegu hindrunum sem upp komu. Það var greinilegt hversu miklu máli það skipti fyrir kennara að finna góðan stuðning þegar tæknin var að stríða þeim, án hans hefðu margir eflaust gefist fljótt upp.

Lærum af reynslunni

Ýmsir hnökrar komu fljótlega í ljós á fyrstu mánuðum eftir innleiðingu vendináms. Til dæmis varð fljótt greinilegt að of lítið var að hafa bara einn kennara í stórum bekk í stærðfræði. Þegar kennarinn var loksins kominn í þá aðstöðu að hafa svigrúm til að aðstoða nemendur sem sátu við að reikna stærstan hluta tímans, var mjög mikil þörf fyrir leiðsögn hans. Það var því ekki gott að hafa of marga nemendur í einu til að sinna, öðruvísi en þegar mest af orkunni fór í að tala yfir hópinn í öruggri fjarlægð upp við töfluna. Þetta var umsvifalaust leyst með því að setja inn aukakennara og í framhaldinu var tryggt með skipulagsbreytingu að hver nemendahópur væri ekki mjög stór.

Ein byrjendamistök voru algeng hjá kennurum í upphafi. Ef hluti af nemendahópnum mætti óundirbúinn í tíma, hafði ekki horft á innlögnina heima, áttu kennarar það til að flytja þá bara fyrirlesturinn á töflu áður en þeir settu nemendur í að vinna með efnið. Þetta hafði þau áhrif að þeir fáu nemendur sem mættu undirbúnir, hættu því umsvifalaust – því það var þá orðin tímasóun fyrir þá að horfa á fyrirlesturinn heima ef þeir vissu að kennarinn myndi hvort sem er endurtaka hann í kennslustundinni. Í dag er vinnulagið þannig að ef nemandi mætir óundirbúinn í tíma, þarf hann sjálfur að glíma við afleiðingarnar af því.

Sumir kennarar upplifðu á eigin skinni hversu erfitt það var að sleppa tökunum og gefa nemendum skólastofuna eftir til að vinna á sínum eigin forsendum. Einn tungumálakennari lýsir þessu svona eftir fyrstu önnina sem hann notaði vendikennslu:

Ég var með alla önnina vel skipulagða. Allir fyrirlestrar tilbúnir, allt námsefni skýrt raðað upp inni í áfanganum og öll verkefni skilgreind. Þegar ég mætti í fyrstu tímana, gætti ég þess að nota ekki mikinn tíma í að tala yfir hópinn, heldur ætlaðist ég til að þau ynnu sjálfstætt í fjölbreyttum verkefnum. Ég skrifaði í byrjun tímans á töfluna lista yfir þau verkefni sem ég ætlaðist til að þau ynnu í tímanum og tímasetti hvenær ætti að skipta úr til dæmis lesskilningi yfir í málfræði og svo framvegis. Það tók mig ekki margar kennslustundir að átta mig á því að þetta var ekki rétta leiðin. Með því að segja þeim að núna ættu þau að fara úr einu verkefni yfir í annað, var ég stanslaust að stöðva flæði hjá þeim – sumir voru löngu búnir og aðrir áttu heilmikið eftir. Þróunin í þessu námskeiði varð því sú að ég bakkaði alveg út úr því að reyna að stjórna tíma þeirra í kennslustofunni. Ég skrifaði á töfluna þau verkefni sem viðmiðið var að leysa þennan dag og sagði þeim að stjórna tíma sínum sjálf til að leysa þau. Ég gekk á milli borða og tók reglulega stöðuna hjá hverjum og einum, hafði tíma til að sinna hverjum nemanda fyrir sig. Með breyttu fyrirkomulagi kom vinnusemi mjög átakalítið hjá flestum nemendum, en þau þurftu samt aðeins líka að læra inn á nýja nálgun. Það var merkilegt að upplifa hversu flókið það var að gefa frá sér stjórnina í skólastofunni, hætta að vera miðpunktur athyglinnar. Þetta var góð og dýrmæt lexía.”

Nú, 7 árum eftir að innleiðing vendikennslu hófst, er kennarahópurinn reynslunni ríkari og langflestir hafa farið yfir í að nota vendinám. Flest öll námskeið eru orðin vel unnin, góð kennslumyndbönd koma í stað fyrirlestra í kennslustofu, verkefni eru vel skipulögð og úthugsuð með það að markmiði að hafa nemendur alltaf virka. Kosturinn við vendinám er að mesta vinnan við námsefnisgerð og fyrirlestra fer fram í fyrsta sinn sem námskeið er kennt, en um leið og fyrirlestrarnir eru orðnir góðir, er hægt að beina orkunni annað. Það hefur endurspeglast í markvissum tilraunum kennara með fjölbreytt námsmat sem hefur gengið nokkuð vel, þar sem yfirlýst stefna stjórnenda skólans er að fækka formlegum lokaprófum og auka leiðsagnarmat.

 Fjölbreytt tækni

Grundvöllur að mörgum aðferðum sem við í Keili notum í dag er tæknin. Sannleikurinn er sá að við gætum ekki framkvæmt nærri allt það sem við erum að gera án tækninnar. En við höfum líka áttað okkur á því að tæknilausnirnar þurfa ekki alltaf að vera flóknar eða dýrar til að styðja við hugmyndafræðina.

Það sem hefur skipt okkur hvað mestu máli, er að hafa kennslukerfi þar sem allt sem tengist námskeiðinu er aðgengilegt á einum stað. Frá upphafi höfum við notað kennslukerfið Moodle með góðum árangri. Þar hefur hver áfangi sitt svæði og kennarar setja þangað inn allar upplýsingar, svo sem kennsluáætlun, fyrirlestra (glærur og myndbönd), lesefni, heimasíður, verkefni og fleira. Öllum verkefnum er skilað rafrænt til kennara, annað hvort sem Moodle próf eða verkefni í skilahólf (texti, glærur eða myndbönd). Greinar og textar sem áður hefðu verið fjölfölduð fyrir nemendur, eru sett inn sem skjöl eða tengill á heimasíðu. Þetta hefur dregið mjög úr útprentuðum skjölum, það er algjör undantekning ef nemendur fá eitthvað á pappír. Moodle býður einnig upp á úrval möguleika til að ýta undir fjölbreyttari nálgun á námsefninu. Þar inni geta nemendur skrifað dagbók sem er alltaf aðgengileg kennaranum, hægt er að setja inn tékklista sem nemendur geta merkt við hvað af námsefninu þeir hafa skoðað eða lokið. Einnig er Moodle nú orðið tengt við ritstuldar- og endurgjafarforritið Turnitin, sem hefur einfaldað yfirferð á verkefnum til mikilla muna.

Til þess að draga úr þeim tíma sem kennari talar yfir nemendum, með formlegan fyrirlestur eða innlögn, hafa allir kennarar verið hvattir til að útbúa myndbönd með öllu sínu kennsluefni. Sú vinna er tímafrek og því er mjög mikilvægt að tæknin sé einföld. Við höfum aðeins verið að fikra okkur áfram með upptökuforrit í gegnum tíðina en erum um þessar mundir að færa okkur úr því að nota Camtasia yfir í Panopto sem er beintengt Moodle. Í ljós hefur komið að það skiptir ekki öllu máli hvaða forrit er notað til að fyrirlestrarnir verði ásættanlegir, það sem er mikilvægt að huga að er að forritið sé einfalt í notkun, aðgengilegt fyrir óvana kennara, að hljóðgæði skili sér vel og að hægt sé að hýsa upptökurnar á viðunandi hátt.

Kennarar eru hvattir til að nýta sér alla kosti snjalltækja til fulls, flestir nemendur eru með snjallsíma og margir hafa aðgang að iPad. Kennarar fengu iPad til afnota við innleiðingu vendinámsins, en þar sem nemendur höfðu almennt ekki aðgang að slíkum tækjum varð notkunin takmörkuð. Nokkrir kennarar nýta sér þó smáforrit eins og  Educreations til að fara yfir verkefni nemenda og Explain Everyting var vinsælt um tíma til að búa til fyrirlestra. Einnig hafa raungreinakennarar nýtt sér ýmis smáforrit til að krydda námsefnið, enda af nógu að taka.

Kennarar hafa verið duglegir að nýta sér ýmsar vefsíður til að brjóta upp námið. Það hefur verið vinsælt að nota Kahoot spurningasíðuna til að keppa um hver er fljótastur að svara rétt. Eins hefur Answergarden nýst vel til að draga skoðanir nemenda nafnlaust fram í dagsljósið, sérstaklega ef um erfið mál er að ræða, þegar fólk vill síður segja skoðanir sínar undir nafni.

Öll þessi tækni hefur gert það að verkum að þjónusta við fjarnema hefur stórbatnað. Í dag er í mörgum áföngum orðinn lítill munur á því að vera í fjarnámi eða staðnámi, áfangarnir eru að mestu leyti settir upp á sama hátt, námsefnið er það sama og verkefnaskilin sambærileg. Kennarar hafa nýtt sér myndsímtöl til að taka nemendur í munnlegt mat, hvar sem er á landinu og mikil samskipti eiga sér stað með tölvupósti, hvort sem er í staðnámi og fjarnámi. Margir kennarar hafa prufað að nýta sér samfélagsmiðla með ágætis árangri, oft eru stofnaðir nemendahópar inni á Facebook þar sem aðgengilegt er að koma með fyrirspurnir og umræður um námsefnið. Snapchat hefur verið virkjað, sem og Twitter og Instagram, oftast með það að markmiði að færa námsefnið inn í veruleika nemenda, tengja betur nemendur og kennara ásamt því einfaldlega að hafa meira gaman.

Virkni nemenda

Reynslan hefur kennt okkur að vendinám snýst ekki bara um tæknina. Þessi hugmyndafræði gefur okkur meira svigrúm til að virkja nemendur til að stunda sitt nám, frekar en að áherslan sé lögð á kennsluna. Okkar upplifun er að árangur verður sýnilegri þegar nemendum er gefið færi á því að axla ábyrgð á eigin námi og skipuleggja tíma sinn sjálfir út frá þeim verkefnum sem eru gefin upp. Vinnusemi og kappsemi aukast, metnaðurinn blómstrar og innri áhugahvöt nemandans virkjast.

Kennarar áttuðu sig fljótt á því að verkefnin sem lögð eru fyrir nemendur í skólastofunni skipta oft meira máli en til dæmis kennslumyndböndin sjálf. Vel úthugsuð og skipulögð verkefni sem virkja nemendur og aðstoða þau við að dýpka sig í námsefninu geta verið afgerandi til að festa námsefnið í sessi, hvort sem um er að ræða einstaklingsverkefni eða hópaverkefni. Mikilvægt er að velja vel í hvað dýrmætur tíminn með kennaranum fer.

Ef kennara tekst að sleppa tökum á skólastofunni og leggja námið í hendur nemendanna, aukast líkurnar á því að námið verði einstaklingsmiðað – hver og einn finnur sína leið að takmarkinu. Fyrir okkar fjölbreytta nemendahóp hefur þetta skipt mjög miklu máli. Sumir þurfa að hlusta oft á það sem kennarinn hefur að segja í innlögn um efnið, en það er ekki vandamál þegar innlögnin er myndband sem alltaf er aðgengilegt. Aðrir þurfa ekkert á innlögn kennarans að halda, þeim hentar betur að lesa námsbókina eða kunna efnið fyrirfram. Sumir vilja dýpka sig í ákveðnum málefnum og klára ákveðna efnisþætti námsins áður en haldið er áfram, öðrum hentar betur að gera lítið í einu og hafa viðfangsefnin fjölbreytt. Undir merkjum vendináms hefur svigrúm aukist til þess að hver og einn nemandi geti aðlagað námið að eigin þörfum og minna verður um tímasóun. Kennararnir hafa líka meiri tíma til að ganga á milli nemenda, skoða hvernig þeim gengur, hvar þeir eru staddir og hvar aðstoðar er þörf. Vendinám hefur skapað umgjörð fyrir mikil og góð samskipti nemenda og kennara, sem er að okkar mati eitt af lykilatriðunum í farsælu námi.

Fjölbreytt tækni hefur sannarlega verið mikil hjálp við að ýta undir virkni nemenda. Æfingar og verkefni sem eru forrituð með lausnum inni á kennslukerfinu, hvetja frekar til æfinga heldur en ef sömu æfingar eru í vinnubókum með lausnum aftast. Annar kostur við þann möguleika er að kennarar geta betur fylgst með virkninni á þennan hátt, frekar en að skoða vinnubækur nemenda.

Dagbækur sem nemendur skrifa reglulega inn á lokað svæði kennslukerfisins, þar sem þeir ígrunda námsefnið og eigin frammistöðu, hafa gefist vel – kennarar hafa aðgang að þeim og geta gefið endurgjöf eftir þörfum. Sjálfvirkir verkefnalistar hafa virkað mjög hvetjandi fyrir nemendur, það er gott að sjá hvernig saxast á listann og hvetjandi að hafa góða yfirsýn yfir verkefni áfangans. Slík lausn gefur kennurunum einnig betri innsýn inn í framvindu náms hjá hverjum og einum nemanda, sem auðveldar honum einnig að grípa fyrr inn í ef einhverjar blikur eru á lofti, til dæmis ef nemandi er óvirkur eða sinnir ekki því sem hann á að vera að gera.

Upplifun nemenda

Að okkar mati eykur vendinám jafnrétti til náms. Þær kannanir sem Menntasvið Keilis gerir reglulega meðal nemenda sinna, hafa allar sýnt að nemendur eru ánægðir með vendinám og fyrirkomulagið sem því fylgir, ekki síst nemendur sem glíma við einhvers konar námsörðugleika. Nemendur fá meira svigrúm til að aðlaga námið að sínum þörfum og hafa meiri aðgang að kennurum. Þeir nefna oft hversu mikill munur er að geta horft eins oft og þeir vilja á fyrirlestur kennarans.

Flestir nemendur tala um það að þeir myndu aldrei vilja fara til baka í hefðbundið form og hafa nefnt það að þeir vildu óska þess að vendinám hefði verið í boði þegar þeir voru ungir. Einnig hafa margir óskað sér þess að háskólarnir færðu sig yfir í vendinám. Nemendur hafa verið sáttir við þá tækni sem notast er við í Keili, þeir finna fljótt hversu gott er að hafa allar upplýsingar á einum stað. Tæknin gefur möguleika á betri þjónustu og utanumhaldi fyrir nemandann.

Fjarnámið í Keili hefur þróast mikið frá upphafi. Með aðstoð góðra kennslumyndbanda frá kennurum, góðu skipulagi á kennslukerfinu, krefjandi verkefnum og fjölbreyttu námsmati er fjarnámið nú komið á það stig að nemendur eru mjög ánægðir. Þjónustustigið er hátt, sem felst meðal annars í því að kennarar leggja metnað sinn í að svara tölvupóstum nemenda hratt og vel, kennarar eru gjarnan í mynd í upptökum svo nemandinn tengist honum sjónrænt, þeir eru duglegir við að nýta sér snjalltæknina, til dæmis með beinum útsendingum á Facebook, Snapchat verkefnum og lifandi endurgjöf á verkefni með smáforritum í spjaldtölvum. Hröð og mikil samskipti styrkja tenginguna milli nemenda og kennara, sem getur gert gæfumuninn í því hvort nemendur fái þann stuðning sem þeir þurfa til að meðtaka námsefni áfangans og ljúka honum.

Heimild

Jonathan Bergmann og Aaron Sams. (2012). Flip your Classroom. Reach Every Student in Every Class Every Day. USA: ISTE.

Sigrún Svafa Ólafsdóttir

Sigrún Svafa Ólafsdóttir starfar sem kennsluráðgjafi á Menntasviði Keilis ásamt því að vera dönskukennari á Háskólabrú síðan haustið 2010. Hún hefur lokið Cand. Arch. prófi í arkitektúr frá Arkitektaskólanum í Århus ásamt því að ljúka viðbótardiplómu í menntun framhaldsskólakennara frá Menntavísindasviði HÍ. Hún hefur einnig tekið þátt í bæði evrópskum og norrænum samstarfsverkefnum um þróun vendináms, meðal annars Erasmus+ og verkefninu NEXT undir merkjum Nordplus Junior.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi