- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Að stíga yfir þröskuldinn – góð reynsla af raunfærnimati í fisktækni hjá SÍMEY

Þann rúmlega áratug sem raunfærni fólks hefur verið metin hér á landi hefur reynslan verið mjög góð og undantekningalaust hefur raunfærnimatið skipt þátttakendur miklu máli.

Hvað er raunfærnimat?

Raunfærnimat felur í sér að þátttakendur fá staðfesta þá raunfærni sem þeir búa yfir og hafa öðlast í starfi. Fyrir fólk sem hefur lengi verið á vinnumarkaði en hefur á einhverjum tímapunkti löngun til þess að fá formlega staðfestingu á þekkingu sinni og hæfni í starfi og/eða fara í nám er raunfærnimat mikilvægt verkfæri. Skilyrði fyrir raunfærnimati er að þátttakendur séu að lágmarki 23 ára og hafi að baki í það minnsta þriggja ára starfsreynslu í viðkomandi atvinnugrein. 

Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar hefur um árabil metið raunfærni fólks í ýmsum greinum í sjávarútvegi í samstarfi við Iðuna fræðslusetur, Visku – fræðslu- og símenntunarmiðstöð Vestmannaeyja og Fisktækniskóla Íslands.

Raunfærnimat í fisktækni

Raunfærnimat í fisktækni tekur bæði til landvinnslu og sjómennsku og er unnið í samstarfi við Fisktækniskóla Íslands. Þess eru mörg dæmi að þátttakendur hafi í framhaldi af raunfærnimatinu farið í til dæmis fisktækni- eða gæðastjórnunarnám í Fisktækniskóla Íslands.

Raunfærnimatið hefst með samtali náms- og starfsráðgjafa SÍMEY við þátttakendur og síðan er skráð sú raunfærni sem þeir hafa öðlast í starfi sínu, námi og frístundum. Matsaðili metur stöðu viðkomandi og standist hann raunfærnimatið er það formlega staðfest.

Að taka skrefið

Emil Bjarkar Björnsson, verkefnastjóri og ráðgjafi hjá SÍMEY, segir að oft sé stærsta áskorun fólks í ferlinu að stíga yfir þröskuldinn og skrá sig í raunfærnimatið. Í mörgum tilfellum hafi fólk velt þessu lengi fyrir sér en loks látið verða af því að skrá sig:

Þegar fólk hefur ákveðið að stíga skrefið og fara í raunfærnimat tökum við viðtöl við þátttakendur og förum yfir gang matsins. Síðan vinnum við með þeim færnimöppu og þeir fara í gegnum svokallaða sjálfmatslista. Í matsviðtölunum fá þátttakendur staðfesta hæfni sína með hliðsjón af viðmiðunum Fisktækniskóla Íslands. Matsviðtalið er tekið af fulltrúum Fisktækniskólans en við hjá SÍMEY önnumst utanumhaldið, kynnum hvað í raunfærnimatinu felst. Í þessu ferli eigum við samtal við þátttakendur 5-6 sinnum. Í lokin tökum við þá í eftirfylgniviðtöl þar sem við förum yfir þá möguleika sem viðkomandi standa til boða til að nýta niðurstöður raunfærnimatsins. Út úr raunfærnimatinu fær fólk ákveðinn fjölda framhaldsskólaeininga en síðan er það undir hverjum og einum komið hvort og þá hvernig hann nýtir það sem út úr matinu kemur. Sumir láta sér nægja að fara í gegnum matsferlið, fá staðfestingu á þekkingu sinni og hæfni og fá þannig viðurkenningu og verðskuldað ,,klapp á bakið“.

Emil bætir við að í mörgum tilfellum nýti fólk sem unnið hefur lengi í sjávarútvegi raunfærnimat til þess að skrá sig til náms í ýmsum sjávarútvegstengdum greinum, til dæmis netagerð, fisktækni, vélstjórn eða skipstjórn.

Samanlögð reynsla og færni

Kristín Björk Gunnarsdóttir, verkefnastjóri og ráðgjafi hjá SÍMEY, segir að í mörgum tilfellum komi það fólki skemmtilega á óvart þegar það vinnur færnimöppuna sína, sem er í raun ítarleg ferilskrá, hversu mikilli færni og reynslu það býr yfir. Safnast þegar saman kemur; þegar horft sé yfir starfsferilinn komi oft í ljós að fólk hafi tekið fjölmörg námskeið, bæði starfstengd og annars konar námskeið, sem að öllu samanlögðu skipta máli í raunfærnimatinu:

Vinna okkar ráðgjafanna hjá símenntunarmiðstöðvunum felst í því að halda utan um raunfærnimat hvers og eins, kynna matið, kalla eftir þeim upplýsingum sem máli skipta við matið og fylgja því svo eftir.

Kristín segir að starfsmenn í sjávarútvegi sem hafa farið í raunfærnimat hjá SÍMEY hafi komið frá ólíkum fyrirtækjum í sjávarútvegi og nær undantekningalaust hafi upplifun þeirra af því verið jákvæð, þeir hafi haft orð á því að ferlið væri meira gefandi en þeir hafi fyrirfram gert ráð fyrir.

Alltaf ávinningur af raunfærnimati

Sem að framan greinir annast starfsmenn Fisktækniskóla Íslands matsviðtöl í fisktæni og hafa Ásdís V. Pálsdóttir verkefnastjóri og Klemenz Sæmundsson kennari tekið þau. Ásdís segir að löng og jákvæð reynsla sé af því að raunfærnimeta starfsfólk í sjávarútvegi um allt land, þar á meðal hjá Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar. Í gegnum tíðina hafi fjöldi fólks úr sjávarútvegstengdum greinum farið í raunfærnimat hjá SÍMEY, í október á síðasta ári hafi svo dæmi sé tekið tuttugu og tveir lokið þar raunfærnimati í fisktækni. Flestir hafi þeir starfað í fiskvinnslu en einnig í fiskeldi og við sjómennsku.  

Ásdís segir að í framhaldi af raunfærnimati í sjávarútvegi vakni oft sú spurning hvort fólk vilji fara í nám því útkoma úr raunfærnimati geti stytt leiðir fólks til að ná settu marki í námi umtalsvert. Þess séu mörg dæmi að eftir raunfærnimat í sjávarútvegi skrái fólk sig í fjarnám með vinnu í Fisktækniskólanum.

Fólk sem hefur lengi verið við störf í fiskvinnslu og aflað sér mikillar þekkingar og reynslu þarf ekki að taka fullt grunnám í fisktækni, mögulega þarf það að vera í eitt ár í náminu eða jafnvel skemmri tíma. Það er óumdeilt að ávinningur af raunfærnimati er alltaf mikill fyrir viðkomandi einstaklinga og einnig fyrir fyrirtækin. Þegar fólk hefur farið í gegnum raunfærnimatið hefur það hvata til þess að fara í nám og fyrirtækjunum er mikilvægt að hafa vel menntað fólk. Tækninni í sjávarútvegi fleygir fram og jafnframt aukast kröfur um menntun starfsmanna.

Ásdís bætir við að ávinningur af raunfærnimati sé ótvíræður, út úr því fái fólk metnar einingar í hinu formlega skólakerfi sem það geti nýtt sér, kjósi það svo.

Hver er reynsla fólks af raunfærnimatinu?

Reynslusögur starfsfólks í sjávarútvegi af raunfærnimati hjá SÍMEY segja meira en mörg orð um gildi þess að taka skrefið:

Óðinn Þór Baldursson hjá Hrísey Seafood

Óðinn Þór Baldursson
Óðinn Þór Baldursson er frá Hrísey en býr á Akureyri. Allt frá því að hann var í grunnskóla hefur hann unnið ýmis störf við sjávarsíðuna. Núna er hann verkstjóri í landvinnslu hjá Hrísey Seafood í Hrísey. Á síðasta ári fór Óðinn í raunfærnimat hjá SÍMEY og innritaði sig í framhaldinu til náms í íslensku, stærðfræði og ensku hjá SÍMEY.

Þegar mér var bent á þann möguleika að fara í raunfærnimat þekkti ég ekkert til þess en ákvað að slá til og sé ekki eftir því. Þetta reyndist í senn skemmtilegt og áhugavert og það kom mér á óvart hversu mikið af hæfni minni og reynslu var metið. Ég vissi svo sem hvað ég gæti og væri fær um að gera en það var gaman að sjá þetta skráð á einn stað. Í framhaldinu ákvað ég að fara í grunnfögin íslensku, stærðfræði og ensku hjá SÍMEY og í framhaldinu íhuga ég að fara í nám í Fisktækniskólanum eða afla mér frekari skipstjórnarréttinda.

Sólveig Sigurjónsdóttir ásamt samnemendum og skólameistara Fisktæknisluskólans Ólafi Birni Arnbjörnssyni

Sólveig Sigurjónsdóttir
Sólveig Sigurjónsdóttir hefur til fjölda ára verið verkstjóri í ÚA, landvinnslu Samherja á Akureyri. Hún fór í raunfærnimat hjá SÍMEY og í framhaldinu í nám í Fisktækniskóla Íslands.

Ég fann að raunfærnimatið ýtti við mér að gera eitthvað meira og ég hef hvatt fólk sem hefur lengi unnið hér hjá ÚA að skoða það í fullri alvöru að láta á það reyna að fara í raunfærnimat. Það tapar enginn á því, raunfærnimat er að mínu mati fyrst og fremst til þess fallið að auka sjálfstraust fólks og ýtir undir að það haldi áfram að bæta við þekkingu sína.

Stefán Benjamínsson
Stefán Benjamínsson starfaði frá 1993 í Krossanesverksmiðjunni á Akureyri. Þegar henni var lokað árið 2007 fór Stefán austur á Þórshöfn á Langanesi og vann áfram sem bræðslumaður í loðnubræðslu Ísfélags Vestmannaeyja. Nú býr hann og starfar á Akureyri. Stefán hafði lengi velt raunfærnmati fyrir sér áður en hann ákvað að taka skrefið.

Stefán Benjamínsson

Ég viðurkenni að það erfiðasta var ákvörðunin sjálf, að ganga yfir þröskuldinn í SÍMEY. Ég hef setið fjölda starfstengdra námskeiða en hef einhvern veginn ekki getað komið mér að því að taka næsta skref. En að lokum var þetta skyndihugdetta, ég vildi láta á þetta reyna og sé ekki eftir því. Raunfærnimatið gekk vel og mér finnst mikilvægt að hafa fengið formlega staðfestingu á því sem ég hef unnið í gegnum tíðina. Það skiptir verulegu máli. Í framhaldi af raunfærnimatinu skráði ég mig í tvær námsgreinar í gæðastjórnun í Fisktækniskólanum, annars vegar hagfræði og hins vegar haf- og fiskifræði. Þetta er áhugavert nám sem ég stunda í fjarnámi.

Ásdís Vilborg Pálsdóttir

Ásdís Vilborg Pálsdóttir er fiskiðnaðarmaður frá gamla Fiskvinnsluskólanum í Hafnarfirði. Ásdís starfaði sem verkstjóri og framleiðslustjóri frá árum 1983 til 2004. Ásdís er garðyrkjufræðingur frá Landbúnaðarháskólaunum á Reykjum. Hún hefur starfað hjá Fisktækniskóla Íslands síðan 2013 sem verkefnastjóri og hefur haldið utan um raunfærnimati í fisktækni síðan 2015.

Emil Bjarkar Björnsson

Emil Bjarkar er verkefnastjóri og náms- og starfsráðgjafi hjá SÍMEY. Að aflokinni kennaramenntun lauk hann framhaldsnámi frá Norges Idrettshögskole með áherslu á sálfræði og lífeðlisfræði, námi í ferðamálafræði og diplomanámi í náms- og starfsráðgjöf frá HÍ. Að auki er Emil svæðisleiðsögumaður.

Kristín Björk Gunnarsdóttir

Kristín Björk er verkefnastjóri og ráðgjafi hjá SÍMEY. Hún er garðyrkjufræðingur frá Garðyrkjuskólanum að Reykjum, með kennaramenntun frá KHÍ og markþjálfi frá Evolvia. Að auki er Kristín Björk landvörður.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi