- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Café Lingua blæs lífi í samskipti og menningarnæmi fullorðinna

Tungumál er ekki bara tungumál heldur líka språk, Sprache, lingua, langue, kieli og kalba – sú staðreynd leynist ekki ef maður skellir sér á viðburðaröðina „Café Lingua – lifandi tungumál“.

Hvað er Café Lingua?

Café Lingua er sprelllifandi tungumálavettvangur á vegum Borgarbókasafnsins, Vigdísarstofnunar, Mála- og menningardeildar Háskóla Íslands og námsgreinarinnar íslenska  sem annað mál, þar sem fólk kemur saman til að fræðast um tungumál hvers annars og spreyta sig á þeim tungumálum sem það hefur sjálft tileinkað sér. Mikilvægt markmið þessa samstarfsverkefnis menningar- og menntastofnana er að virkja þau tungumál sem hafa ratað til Íslands með fólki hvaðanæva að og auðgað mannlíf og menningu landsins ásamt því að vekja áhuga á heiminum í kringum okkur. Café Lingua er gátt inn í mismunandi tungumála- og menningarheima og tilvalinn vettvangur fyrir fullorðna sem vilja efla tungumálakunnáttu sína hvort sem um er að ræða íslensku eða erlend tungumál.

Lifandi tungumál

Á hverri önn er útbúin dagskrá sem er kynnt á vefjum samstarfsaðilanna og á samfélagsmiðlum. Það er til dæmis hægt að fylgjast með í hópnum Café Lingua – lifandi tungumál á Facebook, þar sem um 1650 manns hafa nú þegar skráð sig. Stundum er eitt tungumál kynnt af fólki sem talar það að móðurmáli og í annan stað, eins og á hinum svokölluðu stefnumótum tungumála, er hægt að kynna sér mörg tungumál í einu, þar sem gestir setjast við borð merkt mismunandi tungumálum og fara síðan á milli þeirra.

Sagan

Verkefnið hóf göngu sína árið 2012 sem hluti af fjölmenningarstarfi Borgarbókasafnsins og hefur síðan teygt anga sína víða og sett svip sinn á samfélagið. Fjölmiðlar hafa í gegnum tíðina sýnt viðburðunum mikinn áhuga og þannig tekið þátt í að dreifa boðskapnum um dýrmæti tungumála heimsins (og fólksins sem þau tala!). Hér á vef Borgarbókasafnsins má sjá úrval á umfjöllun í fjölmiðlum.

Eins og kemur fram á vef Borgarbókasafnsins þá eru markmið verkefnisins:

  • Að virkja þau tungumál sem hafa ratað til Íslands með fólki hvaðanæva að og auðgað mannlíf og menningu.
  • Að vekja forvitni borgarbúa á heiminum í kringum okkur.
  • Að fólk með íslensku sem annað mál fái tækifæri til þess að tjá sig á íslensku sem og að kynna móðurmál sitt fyrir öðrum.
  • Að áhugasamir geti lagt sitt af mörkum til tungumálalandslags Reykjavíkur

Á opnun Café Lingua í nóvember 2012 heiðraði Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, samkomuna og sagði meðal annars eftirfarandi í opnunarræðunni sinni:

Hér á Café Lingua gerist það skemmtilega, – hingað getum við komið til að tala tungum, – eins og postularnir. Hingað, á Café Lingua, getum við komið og æft okkur í að spjalla á ýmsum tungumálum, – fólk af erlendum uppruna sem vill til að mynda spjalla á íslensku, – sem er nú erfitt mál að læra, – og svo einnig við heimamenn sem viljum stofna til samtals og umræðna á einhverju því tungumáli sem hér verður á boðstólum.

Eins og svo margt annað sem Vigdís, stolt okkar allra og velgjörðarsendiherra tungumála UNESCO, hefur sagt urðu þessar hugleiðingar að veruleika. Fjölmörg tungumál hafa verið kynnt í gegnum tónlist, bókmenntir, frásagnir og skapandi miðlun á þeim árum sem verkefnið hefur verið starfrækt og á stefnumótum tungumála eykst í hvert skipti áhugi þeirra sem eiga rætur að rekja til annarra landa á því að setjast við borðið þar sem hægt að rækta íslenskukunnáttuna.

Fjölbreytt tungumálalandslag

Hugmyndin er að afhjúpa hið fjölbreytta tungumálalandslag Reykjavíkur og stuðla að áhuga á tungumálum og tungumálanámi almennt. Haustið 2014 gerðist Háskóli Íslands samstarfsaðili Café Lingua og eftir nokkurra ára náið samstarf gerðist Vigdísarstofnun formlegur samstarfsaðili 2017. Í samstarfinu felast tækifæri til að styrkja stöðu tungumála, fjöltyngi og vettvanginn fyrir gagnvirk samskipti enn frekar og á sama tíma að virkja mikilvæga faglega krafta á þessu sviði. Auk Vigdísarstofnunar og Háskóla Íslands er verkefnið unnið í samstarfi við marga aðila í samfélaginu, stofnanir, félög og einstaklinga sem tengjast ólíkum tungumálum.

Margvíslegir viðburðir í samstarfi margra

Í gegnum árin hafa verið viðburðir þar sem eitt tungumál hefur verið á dagskrá. Þeir viðburðir hafa farið fram í menningarhúsum Borgarbókasafnsins og verið skipulagðir af borgarbúum með  annað móðurmáli en íslensku. Tælenska, pólska, franska, spænska, víetnamska, svahílí, arabíska og farsi eru meðal þeirra fjölmörgu tungumála sem hafa verið á dagskrá. Á tyllidögum eins og Degi íslenskrar tungu, Degi táknmálsins eða í tengslum við til að mynda „viku frönskunnar“ – La Semaine de la Francophonie – hafa einstök tungumál fengið sérstaka athygli. Eins hafa árlegir hátíðisdagar eins og Alþjóðadagur móðurmálsins og Evrópski tungumáladagurinn veitt okkur kærkomið tækifæri til að vekja athygli á mikilvægi tungumála ásamt tungumálaauðgi fjöltyngdra borgarbúa.

Hver dagur – dagur tungumáls

Hver og einn dagur er í raun dagur tungumálsins, því tungumálið er líflína okkar þegar kemur að samskiptum, tjáningu tilfinninga og lýðræðislegri þátttöku. Að hittast þvert á tungumálabakgrunn gerir okkur einnig kleift að þora að fara út fyrir þægindarammann, að kynnast nýju fólki og heimi sem það tilheyrir. Í hverju einasta tungumáli felst einstakur fjársjóður, menning og saga sem þarf að vernda – og það gerist ekki á betri hátt en að miðla því til annarra.

Með verkefni eins og Café Lingua getum við nýtt tungumál margbreytilegs hóps  borgarbúa sem virkt tæki til að skapa vettvang fyrir óformlega tungumálafræðslu- og samskipti og um leið stuðlað að menningarnæmi og -færni í samfélaginu. Það væri upplagt að innleiða svipaða hugmynd á fleiri stöðum eins og í framhaldsskólum og þannig hlúa að ástríðu Íslendinga fyrir tungumálum heimsins og löngun til að tileinka sér þau á hagnýtan hátt. Verkefnið er mjög góð leið til að vinna markvisst að heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna nr. 4.7 sem segir meðal annars að hlúa skuli að friðsamlegri menningu, með mannréttindum, kynjajafnrétti, alheimsvitund, viðurkenndri menningarlegri fjölbreytni og framlagi menningar til sjálfbærrar þróunar.

Rós ekki bara rós

Rós er ekki bara rós heldur líka rosa, rose, roos, ruusuu og roza – og eins og allt sem gerir hvert og eitt tungumál einstakt, þá er bæði dásamlegt og fróðlegt að komast að því sem er líkt og við eigum sameiginlegt.

Að lokum langar mig að vísa í orð tveggja einstaklinga sem hafa fylgst með og tekið þátt í að þróa Café Lingua gegnum hið talaða orð, í von um að boðskapurinn um farsælt samstarf muni berast áfram.

Ég kynntist fyrst verkefninu þegar ég stundaði nám við Háskóla Íslands. Hafandi annað móðurmál en íslensku fannst mér gaman að fá að tala móðurmálið mitt dönsku í Café Lingua, bæði við fólk sem var að læra það en líka við þátttakendur sem töluðu önnur Norðurlandamál. Núna vinn ég við háskólann sem kennari í íslensku sem öðru máli og í dönsku, en í báðum námsgreinum hvetjum við alltaf nemendurna til að hittast á Café Lingua og æfa tungumálið utan kennslustofunnar: það er svo mikilvægt að nota tungumálið, að þurfa að útskýra hluti sem maður þarf kannski að umorða, og ekki bara festast í beygingartöflum og viðtengingarhætti – þótt sumum nemendum finnist það að vísu eins gaman og mér. Það gleður mig alltaf að sjá nemendur mína vera altalandi á íslensku og djúpt niðursokkna í samtali þegar ég mæti stundum sjálfur á Café Lingua. 
Marc D. S. Volhardt, aðjúnkt í íslensku sem öðru máli.

Jafnvel þótt undraheimar veraldarvefsins bjóði óteljandi og spennandi nýjungar til tungumálanáms og kennslu, þá jafnast fátt á við það að eiga uppbyggilegt samtal við einhvern sem hefur það tungumál sem þú ert að læra að móðurmáli. Þá skiptir engu hvort þú ert að læra viðkomandi tungumál sem erlent mál, þriðja mál eða annað. Þetta á ekki hvað síst við á Íslandi, þar sem flestöll erlend tungumál heyrast afar sjaldan í fjölmiðlum eða á götu úti. Tækifæri til að sækja viðburði Café Lingua þar sem „skipst er á tungumálum“, samtímis því sem unnið er með menningarlæsi og menningarskilning, eykur næmni nemenda fyrir umhverfi sínu og umheiminum öllum. Að auki er það bráðskemmtilegt og stuðlar að auknu áræði og framförum í meðferð talaðs máls. 
Hólmfríður Garðarsdóttir, formaður STÍL og prófessor við Mála- og menningardeild, HÍ

Jafnframt vil ég færa þeim ásamt öðru starfsfólki Háskóla Íslands og Vigdísarstofnunar, samstarfsfólki mínu á Borgarbókasafninu og öllum þeim félögum, tungumálaskólum og einstaklingum sem hafa tekið virkan þátt í að gera þessa hugmynd að virkum þætti í menningar- og menntunarlífi á Íslandi kærar þakkir fyrir árangursríkt samstarf.

Áhugasamir um efni greinarinnar geta meðal annars fundið fróðlegar upplýsingar á vef Borgarbókasafnsins www.borgarbokasafn.is og Vigdísarstofnun www.vigdis.hi.is. Myndir eru af vef Borgarbókasafnsins.

Kristín R. Vilhjálmsdóttir

Kristín R. Vilhjálmsdóttir er sjálfstætt starfandi menningar- og tungumálamiðlari, verkefnastjóri fjölmenningar á Borgarbókasafni Reykjavíkur febrúar 2008 - febrúar 2020 og hugmyndasmiður Café Lingua - lifandi tungumál. Kristín er með kennaramenntun frá Kennaraháskólanum í Silkeborg og meistaragráðu í hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi