- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Greinileg þörf fyrir nýja nálgun á tímum veirunnar

Með þróun upplýsingatækninnar undanfarin ár hefur tækifærum fullorðinna á Íslandi til að stunda sveigjanlegt nám fjölgað ört. En fræðsluaðilar og kennarar þurfa að takast á við nýjar áskoranir sem nú blasa við á tímum kórónaveirunnar þegar ekki er lengur hægt að koma saman í skólastofunni. Verður nokkurn tíma unnt að snúa aftur til þeirra kringumstæðna sem fyrr voru taldar „hversdagslegar eða venjulegar“? Eða verður ný nálgun og nýjar aðferðir við nám og kennslu lífseigari en vírusinn? 

Við forvitnuðumst í samtali við tvo sérfræðinga um þróunina á Íslandi, þá reynslu sem liggur fyrir og hugmyndir um þróunina í framtíðinni. Þau Sólveig Jakobsdóttir, prófessor í fjarkennslufræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands með áherslu á upplýsingatækni, kennslutækni og margmiðlun og Hróbjartur Árnason lektor við sömu stofnun, í deild menntunar og margbreytileika og sérfræðingur í námi fullorðinna ræddu við greinahöfund um tækifæri fullorðinna til náms, og þróunina á Íslandi. Hróbjartur var um árabil fulltrúi Íslands í Distans, neti Norræna tengslanetsins um nám fullorðinna, NVL sem miðlaði norrænni reynslu og nýjungum á sviði sveigjanlegs náms og beitingu upplýsingatækni við nám og kennslu. 

Sveigjanlegt nám engin nýjung á Íslandi

Sólveig hefur um langt skeið fylgst með þróun sveigjanlegs náms og kennslu, nefnir að þegar á áttunda áratug síðustu aldar hafi fullorðnir sem ekki höfðu lokið námi á framhaldsskólastigi fengið tækifæri til þess að setjast aftur á skólabekk í nám sem var sérstaklega ætlað þeim, í svokölluðum öldungadeildum.

Námið sem var auglýst sem „… námskeið fyrir fólk sem hefur áhuga á að ljúka stúdentsprófi án setu í menntaskóla …“  naut mikilla vinsælda, en eitt af markmiðunum var augljóslega að aðstoða fullorðið fólk við sjálfsnám því kennslustundir voru helmingi færri en í dagskólanum.

Sólveig Jakobsdóttir

– Um aldamótin fylgdu í kjölfarið fleiri tækifæri með fjarnámi innan framhaldsskólakerfisins og á síðustu árum hafa símenntunarmiðstöðvar um land allt markvisst nýtt fjölbreyttar aðferðir upplýsingatækni með tilboðum ætluðum til að mæta þörfum ólíkra hópa. Tilboðin beinast einkum að fjölmennum hópum á vinnumarkaði, fólki sem af einhverjum ástæðum hefur hætt námi, stofnað fjölskyldu en vill ljúka námi og bæta stöðu sína á vinnumarkaði. Fyrir þann hóp hentar fjarkennsla vel, sveigjanlegur máti sem gerir vinnandi fjölskyldufólki kleift að sinna námi.

Tvennskonar tækifæri fyrir fullorðna

– Það hefur verið gott framboð fyrir fullorðna síðasta áratug, heldur Sólveig áfram. Í Menntaskólanum á Tröllaskaga er boðið upp á sveigjanlegt nám með áherslu á virkni nemenda og sjálfstæði. Skólinn er hluti af fjarmenntaskólanum en það er samstarf framhaldsskóla um list- og starfsnám á framhaldsskólastigi. Skólinn er til fyrirmyndar hvað varðar skapandi kennsluaðferðir til þess að mæta einstaklingsbundnum þörfum. Í Keili, sem er alhliða menntafyrirtæki í eigu háskóla, fyrirtækja og almannasamtaka eru fjölbreytt tilboð af sveigjanlegu námi fyrir fullorðna til dæmis Háskólabrú fyrir  þá sem ekki hafa lokið stúdentsprófi en stefna á háskólanám.   

Óvæntar kringumstæður á fordæmalausum tímum

Í kjölfar þess  að heilbrigðisráðherra tilkynnti um samkomubann og menntamálaráðherra um lokun framhaldsskóla og háskóla í miðjum mars 2020 kom fjölmennur vinnuhópur saman til þess að ræða hvernig hægt væri að styðja kennara og leiðbeinendur í nýjum aðstæðum. Í hópnum voru fulltrúar frá Menntamiðju, Nýsköpunarmiðju menntamála við Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, Kennarasambandi Íslands, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Menntamálastofnun. Öllum var ljóst að rík þörf var fyrir aðstoð og stuðning við kennara á erfiðum tímum, kennt yrði áfram þótt skólarnir væru lokaðir. Hugmyndin um menntabúðir var fljótlega kynnt og hlaut góðar undirtektir. 

 – Við frá háskólunum hugsuðum okkur að þetta gæti verið framlag okkar til þess að létta kennslu við þessar óvenjulegu kringumstæður. En allir í hópnum voru reiðubúnir til þess að gera tilraun og var þrengri hópi falið að þróa hugmyndina og gera hana að veruleika, segir Sólveig.

Frjóir fimmtudagar

Hópurinn kom upp eigin síðu á netinu þar sem áhugasamir gátu skráð hugmyndir um framlög í dagskrá. Í stað þess að hittast í ákveðnu herbergi eða sal í stofnun eða húsi var ákveðið að stofna mismunandi veflæg fundaherbergi í fjarfundakerfinu Zoom. Fimm manna vinnuhópur með fulltrúum háskólanna tók að sér að setja upp fundarherbergin og standa fyrir fyrstu fjarmenntabúðunum sem fram fóru fimmtudaginn 26. mars. Tilraunin gekk vonum framar, rúmlega 200 þátttakendur gátu valið á milli 24 kynninga í fjórum námslotum. Frjóir fimmtudagar með fjarmenntabúðum urðu alls þrír. Eftir aðrar búðirnar í röðinni fimmtudaginn 16. apríl, þar sem 150 manns tóku þátt í 15 kynningum, voru aðstandendur í vafa um hvort halda ætti þær þriðju. Þriðju fjarmenntabúðirnar voru þó haldnar 7. maí eða á sama tíma og víkka átti út samkomubannið, þá voru þátttakendur rúmlega 50. Þar gafst þeim tækifæri til þess að ræða og meta reynsluna af viðburðunum og um það bil 50 svöruðu könnun sem aðstandendur sendu út. Í það heila voru þátttakendur jákvæðir og töldu að þeir hefðu haft mikið gagn af þátttökunni og hefðu öðlast dýrmæta reynslu á tímabilinu.  

Hvað ber framtíðin í skauti sér?

Sólveig og Hróbjartur eru sammála um að aukin beiting upplýsingatækni við nám og kennslu sé komin til að vera ekki einungis í skólunum heldur einnig á vinnustöðunum. Ný tækni var kynnt og nýtt í kófinu af starfsfólki sem hafði verið sent heim að vinna. Bæði starfsfólk og nemendur munu krefjast meiri sveigjanleika á næstunni. Spurningin snýst um hvernig skipulagningu og áætlunum verður háttað í framtíðinni. 

Hróbjartur Árnason

Jöfn tækifæri til náms

– Þátttakendur búa víðsvegar um landið. Það er líka í samræmi við niðurstöður af ráðstefnum sem NVL stóð fyrir um áhrif menntunar á byggðaþróun. Þátttakendur þar töldu að krafan um sveigjanlegt nám snerist í rauninni um jafnrétti til náms. Flestum finnst að það sé mikilvægt að geta aflað sér þekkingar óháð búsetu, vilja geta lagt stund á nám án þess að þurfa alltaf að ferðast langa leið að einhverri stofnun, segir Hróbjartur. Það var greinilegt á erfiðum tímum veirunnar voru þátttakendur í fjarmenntabúðunum hvaðanæva af landinu, kennarar sem á námstímanum höfðu kynnst menntabúðum. Þátttakendur voru kennarar á öllum skólastigum, flestir úr grunnskólum en einnig margir úr framhaldsskólum og símenntunarmiðstöðvum en fæstir úr háskólum og leikskólum.

Áhrif upplýsingatækni  

– Reynsla sýnir að kennarar sem hafa almennt samþætt upplýsingatækni í kennslu sinni eru fljótari að finna út hvernig þeir geta haldið áfram að kenna við kringumstæður eins og við höfum upplifað þetta vor. Því meira efni og verkefni sem þú hefur lagt út á netið og þar með lagt upp úr þátttöku og umræðna á netinu því sveigjanlegri verður þú. Þeim mun líklegra er að þú sért fljótari til við að nýta öll tækifæri til þess að halda áfram kennslunni á netinu, segir Hróbjartur. Nemendur mínir eru vanir því að allt efni og öll verkefni séu á netinu og þeir eru virkir í umræðum á netinu. Það að koma saman í sama rými verður bónus. Við hefðum átt að hittast í staðlotu á meðan á samkomubanninu stóð í vor, en nemendur mínir upplifðu engan mun á því að hittast í staðinn í fleiri daga í skemmri tíma í einu á netinu auk þátttöku í fjarmenntabúðunum.

Ný tækifæri koma í ljós

– Til langs tíma held ég að árangurinn verði sá að fleiri og fleiri munu leggja allt kennsluefni, verkefni og vænan part af samræðunum út á netið. Það mun svo aftur auka á sveigjanleika og opna fleirum tækifæri hvar á landinu sem þeir búa eða einstaklingum sem þurfa að takast á við fötlun af einhverju tagi.  Við sem kennarar munum eiga auðveldara með að mæta margháttuðum þörfum svo allir geti lagt stund á það nám sem þeir óska á hvaða skólastigi sem er, segir Hróbjartur Árnason. Komið hefur í ljós að námsmenn kunna vel að meta beitingu upplýsingatækni og það hefur jákvæð áhrif bæði hvað varðar áhrif og virkni í skólastarfi. Kennarar nýta sér tækni til þess að einstaklingsmiða kennsluna að félagslegum aðstæðum námsmanna og það er í samræmi við kenningar.

Upptökur af fjarmenntabúðunum og ítarefni má finna hér

Menntabúðir (en. EduCamp) eru óformlegur jafningjavettvangur á sviði menntunar, ætlaður starfsfólki í skólum og frístundastarfi og hjá öðrum fræðsluaðilum. Í menntabúðum getur starfsfólk miðlað tilraunum og lausnum og lært af hvert öðru. Fólk hittist til þess að kenna og læra saman um nýja tækni, hugbúnað og ýmislegt fleira. Sérstök áhersla er lögð á lausnir og leiðir í námi og kennslu. Innihald og röð kynninga og framkvæmd er ákveðin af þátttakendum. 

Hugmyndin um menntabúðir kom fram undir lok fyrsta áratugarins, hún byggir á grundvelli hefðbundinnar ráðstefnu með samkomu á sal og nokkrum samhliða smiðjum þar sem mörgum finnst að kaffitímarnir séu helsti vettvangur sköpunar og veiti þar að auki bestu tækifærin til þess að stofna til nýrra tengsla. Menntabúðir voru fyrst kynntar fyrir nemendum í kennslufræði við Háskóla Íslands árið 2012. Tilraunin hlaut góðar undirtektir og stúdentarnir fóru strax að miðla reynslu sinni þeir lærðu saman og þróuðu sig faglega sem kennarar. Það sama gildir um stúdenta á síðari árum sem hafa deilt þekkingu um virkni og færni í framkvæmd menntabúða. 

Tilraunin á tímum Covid -19 á vordögum 2020 gekk út á að reyna hvort hægt væri að halda menntabúðir á netinu. Myndu nægilega margir vilja leggja sitt til málanna? Þætti fólki það nægilega áhugavert til þess að fylgjast með? Svarið við báðum þessum spurningum var jákvætt. Þegar allt er talið voru virkir þátttakendur á viðburðunum þremur um fjögur hundruð, ánægjan var mikil og þeir ætla sér að nýta aðferðina áfram, bjóða samstarfsfólki og nemendum að leggja til málanna um leið og tækifæri gefst.

Greinin var skrifuð á norsku fyrir DialogWeb veftímarit Norræna tengslanetsins um nám fullorðinna NVL, en er birt hér í íslenskri þýðingu með góðfúslegu leyfi.

Sigrún Kristín Magnúsdóttir

Sigrún Kristín Magnúsdóttir er sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Hún er ritstjóri Gáttar og sinnir verkefnum í Hæfnisetri ferðaþjónustunnar. Hún hefur unnið við menntun og þjálfun í rúmlega þrjá áratugi, við stjórnun, kennslu og skipulagningu m.a. hjá Sambandi veitinga- og gistihúsa, við Hótel- og matvælaskólann í MK og Listaháskóla Íslands.

Sigrún Kristín hefur BA-próf frá Háskóla Íslands í norsku, heimspeki og tónlistarfræðum, M.Sc.-próf í ferðaþjónustustjórnsýslu frá University of Massachusetts og kennsluréttindi frá Kennaraháskóla Íslands

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi