- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Horft um öxl og fram á veginn

– Skólahald í Mími á tímum COVID-19

Engan óraði fyrir því að bráðsmitandi veira myndi árið 2020 hrella samfélög um allan heim og ógna lífi og heilsu fólks eins og þegar COVID-19 tók völdin. Mikið hefur reynt á samhæfð neyðarviðbrögð í hverju landi, sóttvarnir og samkomutakmarkanir hafa sett mark sitt á innviði og hefur kapp verið lagt á að verja/tryggja meginstoðir samfélaga samhliða því að hindra smit manna á milli. Íslenskt menntakerfi hefur ekki farið varhluta af þeirri óvissu sem veiran hefur valdið og hefur skólahald breyst í takti við þær sóttvarnarreglur sem yfirvöld boða hverju sinni. Þannig hefur skólastarf í Mími-símenntun færst hraðar inn í hinn stafræna heim en Mímir er stærsta símenntunarmiðstöð landsins.

Mímir leggur sitt lóð á vogarskálarnar

Enda þótt símenntunarmiðstöðvar eins og Mímir séu ekki skilgreindar í íslensku skólakerfi sem formlegir skólar sinna þær veigamiklu hlutverki við að hækka menntunarstig þjóðarinnar meðal annars í gegnum svokallaða framhaldsfræðslu með því að veita fullorðnu fólki annað tækifæri til náms. Þannig eru símenntunarmiðstöðvar, og hafa verið, farvegur þúsunda einstaklinga aftur inn í skólakerfið í samstarfi við hið opinbera og aðila vinnumarkaðarins. Þá hafa símenntunarmiðstöðvar lagt sitt lóð á vogarskálarnar við að efla íslensku sem móðurmál hér á landi með því að kenna útlendingum íslensku.

Sem fræðsluaðili má segja að Mímir sé samfélagsleg auðlind enda er fyrirtækið rekið til almannaheilla án hagnaðarsjónarmiða. Eigandinn, Alþýðusamband Íslands, er stærsta fjöldahreyfing launþega á Íslandi og hefur í rúma öld látið sig varða velferð, hagsmuni og réttindi launafólks í landinu. Mímir er afsprengi þeirrar baráttu en Mími hefur verið ætlað að stuðla að framkvæmd, þróun og nýsköpun fræðslu fyrir fullorðið fólk á vinnumarkaði. Meginmarkmið Mímis er þannig að skapa tækifæri til náms fyrir fólk með stutta formlega skólagöngu og hvetja fólk á vinnumarkaði til símenntunar og starfsþróunar.

Mynd: Mímir -símenntun. Ljósmyndari: Þorkell Þorkelsson

Skólastarf í stafrænum heimi

Á vorönn tók starfsemi Mímis og skólastarf miklum breytingum á skömmum tíma í kjölfar samkomubanns vegna COVID-19. Í baráttunni við veiruna var skólum og fræðslustofnunum gert að loka húsnæði sínu tímabundið frá og með mánudeginum 16. mars.

Hjá Mími var ráðist í umfangsmikla vinnu í því augnamiði að tryggja nemendum mikilvæga samfellu í námi þrátt fyrir lokun skólans og minnka þannig líkur á mögulegu brottfalli úr námi. Hin tæknilega framtíð var því allt í einu í nútíð, kannski mun fyrr en við höfðum reiknað með. Á um tveimur sólarhringum færðist almenn þjónusta, nám og kennsla yfir á stafrænt form. Fjarkennsla var tekin upp hjá Mími í námsbrautum og námskeiðum sem áður voru kennd í staðnámi. Að sama skapi fóru viðtöl hjá náms- og starfsráðgjöfum fram með stafrænum hætti, sem og raunfærnimat.

Viðkvæmir námshópar

Um 2500 nemendur sækja nám hjá Mími á hverju ári. Í öllum tilvikum er um fullorðið fólk að ræða sem er oftar en ekki að hefja nám á ný eftir langt hlé, oft meðfram vinnu og fjölskyldulífi. Flestir sækja nám á námsbrautum framhaldsfræðslunnar fyrir fullorðna sem af ýmsum ástæðum hófu ekki eða kláruðu ekki formlegt nám á framhaldsskólastigi á sínum tíma og vilja taka upp þráðinn á ný. Annar stór námshópur eru innflytjendur sem eru að stíga sín fyrstu skref í samfélaginu og sækja námskeið í íslensku fyrir útlendinga. Á vorönn stunduðu rúmlega 800 einstaklingar slíkt nám hjá Mími en þeir telja um 1500 árlega.

Báðir þessir hópar eru viðkvæmir námslega og snýr skólastarfið í Mími, kennsluaðferðir og öll skólaumgjörð, að því að mæta þeirra þörfum og styðja til náms. Sérstaða Mímis er náið samstarf við atvinnulífið og verkalýðshreyfinguna. Þetta samspil við vinnumarkaðinn gerir starfseminni kleift að bregðast hraðar við breyttum aðstæðum og nýjum áherslum í atvinnulífinu. Kennarar eru margir hverjir sérfræðingar úr atvinnulífinu hver á sínu sviði, allir verktakar, og telja um 150 á ári hverju.

Fáir heltust úr lestinni

Bæði kennarar og nemendur sýndu aðdáunarvert frumkvæði og seiglu við að mæta nýjum kröfum um stafræn samskipti og á sama tíma tryggja gæði kennslunnar. Árangurinn lét ekki á sér standa og heltust færri nemendur úr lestinni en óttast var.

Þökk sé áherslu undanfarinna ára á innleiðingu á tækni hjá Mími var skólinn ágætlega búinn hvað tæknibúnað til fjarkennslu varðar. Enda þótt kennarar séu eins og gengur misvel staddir hvað stafræna færni varðar þá snerist stærsta áskorunin ekki endilega um hvernig koma eigi kennsluefninu á stafrænt form heldur fyrst og fremst að því hvernig samskipti, námsmat og þess háttar færu fram í hinum stafræna heimi. Mímir býr vel að hafa kennslukerfi sem nýverið var innleitt og nýttist í þessu skyni.

Stærsta verkefnið var að styðja við bæði kennara og nemendur við þessa umbyltingu og gæta þess að starfsfólk, kennarar og nemendur réðu við það álag sem kom til vegna COVID-19. Starfsfólk myndaði teymi sem hafði það hlutverk að aðstoða bæði kennara og nemendur í þessu skyni. Náms- og starfsráðgjafar skipuðu svokallað nemendateymi til þess að styðja við bakið á nemendum við námið og voru kennarar hvattir til að leita til tækniþróunarteymis skipað starfsfólki Mímis til að fá aðstoð við að gera kennsluna stafræna. Þá stóð bæði kennurum og nemendum til boða að fá lánaðan tæknibúnað til náms og kennslu. Neyðarstjórn Mímis fundaði daglega og hélt vikulega upplýsingafundi með starfsfólki Mímis. Þá skipti miklu máli að leggja enn meiri rækt við vinnustaðamenninguna, til dæmis með því að ramma inn vinnudaginn með aðstoð fjarfundarbúnaðar og tryggja grundvallar samskipti á meðan starfsfólk vann heima. Útbúin voru viðmið við heimavinnu sem tóku meðal annars á samskiptaformi og upplýsingaöryggi við fjarvinnu. Mikil vinna fór í að breyta verkferlum og sóttvarnarviðmiðum hjá Mími í takti við það sem yfirvöld boðuðu hverju sinni. Kynningarþátturinn var ekki síður krefjandi því ný viðmið þurfti sífellt að kynna bæði innan og utan Mímis og helst á fleiri tungumálum en íslensku. Þá var viðmiðunum fylgt eftir og reynt að tryggja að eftir þeim væri farið.

Haustönn gengur í garð

Við umbyltingu skólastarfs á vorönn mætti Mímir vissulega nýjum áskorunum en ekki síður nýjum lausnum. Sumt virkaði vel en annað síður og er dreginn mikilvægur lærdómur af reynslunni sem nýtist nú þegar haustönn gengur í garð. Ljóst þykir að veiran sé komin til að vera og því þarf að læra að lifa með henni um óákveðinn tíma og hlaupa langhlaup, ekki spretthlaup. Markmið Mímis er að skipuleggja skólastarfið þannig að það haldist óslitið þrátt fyrir skyndilegar breytingar á reglum heilbrigðisráðherra um sóttvarnir. Þetta þýðir að kennsla hjá Mími haustið 2020 getur með stuttum fyrirvara orðið  stafræn, breytist forsendur.

Í ljósi óvissunnar í vor var gripið til þess ráðs hjá Mími að auglýsa flest námskeið og námsbrautir í haust bæði í fjarnámi og staðnámi, þó með þeim fyrirvara að staðnámið geti breyst í fjarnám ef ástandið í samfélaginu myndi kalla á slíkt. Fleiri kjósa fjarnám en áður hjá Mími þó svo að staðnámið sé enn vinsælast. Fleiri námsbrautir eru nú í fjarnámi en áður og virðist markhópur Mímis kunna vel að meta enn meiri fjölbreytni til náms. Þá hafa fyrirspurnir aukist því fólk virðist óöruggt með hvort það eigi að velja fjar- eða staðnám. Náms- og starfsráðgjafar veita fólki ráðgjöf enda er einstaklingsbundið hvað fólk treystir sér í og hverjar aðstæður fólks eru hverju sinni. Þó er ljóst að ákveðinn hópur skráði sig úr námi í sumar sökum óvissu um hvort staðnám yrði í boði í haust.

Mímir býr sig undir stóraukna eftirspurn

Mímir gegndi hlutverki í menntun og virkni fólks á vinnumarkaði í hruninu og árunum á eftir og býr því að víðtækri reynslu og þekkingu á því hvernig megi bregðast við þrengingum á vinnumarkaði. Markhópurinn sem Mímir sinnir jafnt og aðrar símenntunarmiðstöðvar er einmitt sá hópur sem líklegt er að verði verst úti og missi störf. Reynsla okkar segir að gæta þurfi sérstaklega að viðkvæmustu hópunum en það eru þeir sem minnsta menntun hafa, sem og innflytjendur.  

Mímir býr sig nú undir stóraukna eftirspurn með þróun úrræða fyrir þá sem missa vinnuna, bæði vegna áhrifa COVID-19 og fjórðu iðnbyltingarinnar. Í deiglunni eru nýjungar til að mæta þessari þörf. Gott samstarf við atvinnulífið, starfsmennasjóði, stéttarfélög og verkalýðshreyfinguna er þar lykilatriði. Saman viljum við grípa þá sem missa vinnuna og aðstoða þá við færniuppbyggingu, sérstaklega hvað tækniþekkingu og færni varðar, því vitað er að fjórða iðnbyltingin hefur mikil áhrif á þróun starfa, bæði nú og í framtíðinni. Stærsta verkefni Mímis verður eftir sem áður að veita fullorðnum annað tækifæri til náms og efla sjálfstraust þeirra gagnvart námi og störfum. Einmitt núna þarf að gefa í og auka fé til þessa málaflokks.

Sólveig Hildur Björnsdóttir

Sólveig Hildur Björnsdóttir er framkvæmdastjóri hjá Mími-símenntun ehf. Sólveig er menntuð á sviði kennslu, fjölmiðlunar og stjórnunar og hefur fjölbreytta starfsreynslu henni tengdri. Hún hefur starfað sem framkvæmdastjóri Framvegis-miðstöð símenntunar, verkefnastjóri mannauðsmála hjá Hafnarfjarðarbæ og aðstoðarmaður framkvæmdastjóra hjá Rauða krossinum á Íslandi. Sólveig er stjórnarmaður í Kvasi - samtökum símenntunarmiðstöðva á Íslandi.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi