2. grein: Norðmenn gerðu það – hvert stefnum við?
Vefgátt um nám og störf
Utdanning.no – Fimm lykilþættir
Norska vefsvæðinu Utdanning.no er í raun ætlað að hjálpa notendum við að svara gamalkunnugri lykilspurningu; „Hvað vil ég verða?“ Hvaða námsleiðir og störf eiga mögulega samleið með áhuga, styrkleikum og getu hvers og eins?
Þar í landi, líkt og víðar, er stór hluti ungs fólks óöruggur í tengslum við námsval og velur jafnvel með það helst í huga „að halda öllum dyrum opnum“. Því er afar mikilvægt að réttar upplýsingar séu aðgengilegar auk viðeigandi aðstoðar, þannig að valið geti sem mest byggst á þekkingu og áhuga.
Stefna vefjarins er að búa yfir alhliða og notendavænu yfirliti allra námsleiða innanlands, uppfæra reglulega og gera aðgengileg önnur fyrirliggjandi gögn sem stuðlað geta að upplýstu námsvali. Fimm þemu má segja að séu gegnumgangandi á vefsvæðinu; áhugi – námsleiðir – vinnumarkaður – starf og ráðgjöf.
Áhugi
Á Utdanning.no er að finna ýmiss konar verkfæri og hjálpartæki sem ætlað er að virka hvetjandi og hjálpa til við val á námi, starfi eða til að auðvelda leiðir á milli skólastiga. Dæmi um slík eru Jobbkompasset sem veitir, á myndrænan hátt, yfirlit yfir störf í mismunandi atvinnugreinum, Karakterkalkulatoren og Studievelgeren til að reikna meðaleinkunnir og sjá hvað þarf til að komast inn á einstaka námsbrautir, Karriereplanleggeren til aðstoðar háskólanemum við að skipuleggja starfsferilinn, Finn lærebedrift þar sem finna má hugsanleg starfsnámsfyrirtæki í nærumhverfinu og Utdanningssystemet sem er myndræn framsetning norska menntakerfisins.
Þá er ótalið gríðarmikið efni um náms- og starfsfræðslu sem hefur verið skyldunámsgrein í efstu bekkjum grunnskóla frá árinu 2008 og Veilederforum.no sem er verkfærabanki fyrir ráðgjafa og leiðbeinendur, þróaður í samvinnu við Kompetanse Norge.
Námsleiðir
Á vefnum má sjá á einum stað, hvaða námsleiðir standa til boða og hver inntökuskilyrðin eru, hvort sem um er að ræða bók- eða iðnnám, háskóla eða endurmenntun. Kalla má fram upplýsingar á borð við hvar námið er í boði, hvaða fyrirtæki taka nema á samning, við hvað fólk starfar að loknu námi og hvaða menntun er algeng innan ákveðinna starfsstétta.
Líkt og annað á vefnum eru slíkar upplýsingar settar fram á einfaldan og skiljanlegan hátt auk tilfallandi efnis sem til dæmis byggir á niðurstöðum nemendakannanna eða tölum um brottfall.
Ár hvert eru upplýsingar um þúsundir námsleiða aðgengilegar í samvinnu við fjölda skóla og samstarfsaðila víðs vegar í Noregi auk vefsvæða á borð við Vilbli.no, Samordna opptak og folkehogskole.no. Upplýsingunum er safnað skipulega saman en það auðveldar notendum að finna og bera saman á einum stað námsleiðir í sama fagi í mismunandi skólum. Einnig er námið tengt upplýsingum um þær starfsgreinar sem við eiga hverju sinni.
Allar námsleiðirnar eru uppfærðar árlega og víða leitað fanga. Samstarfsaðilar skipta hundruðum bæði innan formlega skólakerfisins og utan. Til hægðarauka var sett upp sérstök samstarfsgátt, sem allar viðurkenndar menntastofnanir í Noregi hafa aðgang að, geta þar sett inn og ritstýrt eigin efni en ákveðin krafa er gerð um framsetningu. Vettvangurinn er samstarfsaðilum að kostnaðarlausu.
Vinnumarkaður
Almennar upplýsingar um vinnumarkað og atvinnumöguleika að námi loknu eru einnig afar mikilvægar í ljósi örra samfélagsbreytinga en skiljanlega veltir ungt fólk á leið í nám, slíku fyrir sér. Þar er hins vegar almennt oft um að ræða upplýsingar sem eru ekki mjög aðgengilegar eða vel skiljanlegar. Úr því er reynt að bæta á Utdanning.no og varpa upp sem skýrastri mynd af vinnumarkaði dagsins í dag, atvinnuleysistölum, störfum sem fólk í raun sinnir að loknu námi og spám um þarfir atvinnulífsins. Þannig er reynt að veita ungu fólki aðstoð við undirbúning þátttöku í atvinnulífinu og um leið, bæta samsvörun á milli námsvals og þess sem atvinnulífið þarfnast. Slíkum upplýsingum er miðlað á skýran og myndrænan hátt, svo notendur hafi aðgang að samanburðarhæfum og viðeigandi upplýsingum um undirbúning, atvinnutækifæri, strauma og stefnur á vinnumarkaði.
Störf
Ritstjórn Utdanning.no setur saman stuttar almennar lýsingar á störfum og sendir til fagfólks og fagfélaga til umsagnar og gæðatryggingar. Hverri slíkri lýsingu fylgir viðtal í tengslum við nám og/eða starf þar sem fram koma ýmsar viðbótarupplýsingar. Þá er margs konar tölfræði tengd hverju starfi svo sem um laun, fjölda á vinnumarkaði og fyrirtæki í greininni en slíkar upplýsingar eru fengnar frá norsku Hagstofunni, Vinnumála- og velferðarstofnuninni og stéttarfélögum. Alls er nú að finna á vefsvæðinu lýsingar á um 600 störfum.
Hvað varðar upplýsingar um störfin sjálf er gerð grein fyrir helstu verkefnum, hvaða hæfni er nauðsynleg, viðeigandi menntun, launum og starfsumhverfi. Starfslýsingarnar eiga að veita raunhæfa mynd af þeirri hæfni sem krafist er í einstaka starfi og eru lýsingarnar sem fyrr segir, gæðatryggðar af fagaðilum.
Að auki fylgja starfslýsingunum upplýsingar um símenntunarmiðstöðvar og fyrirtæki sem taka nema á samning og er framsetningin hugsuð bæði fyrir nemendur í leit að heppilegri námsleið en einnig fyrir kennara, ráðgjafa og foreldra sem aðstoða í því ferli.
Ráðgjöf
Í veröld náms og starfa er ekki alltaf einfalt að finna út úr hlutum á eigin spýtur. Því er á Utdanning.no yfirlit yfir þjónustu náms- og starfsráðgjafa auk þess sem nú er í undirbúningi rafræn ráðgjöf á landsvísu þar sem hægt verður að hafa samband við ráðgjafa kvölds og morgna, alla daga vikunnar og fá aðstoð eftir ýmsum leiðum; spjalli, fyrirspurnum, síma, á samfélagsmiðlum o.s.frv. Ráðgjafarnir munu starfa í tengslum við vefinn og er stefnt að opnun þjónustunnar í september 2020. Ráðgjafahlutinn byggir einnig á kortlagningu þátta sem stjórna vali ungs fólks á námi og starfi. Þá er hluti vefsvæðisins samstarfs- og verkfærakista fyrir ráðgjafa en hugmyndin með því er að einfalda þeim vinnuna, bæta aðgengi að upplýsingum og stuðla að auknum gæðum í ráðgjöf.
Ráðgjafarhlutanum Veilederforum.no er aðallega ætlað að virka sem verkfæri fyrir náms- og starfsráðgjafa. Þar er sjónum þó einnig beint að mikilvægum hópum á borð við foreldra sem vilja liðsinna börnum sínum um náms- og starfsval, þeim sem sinna náms- og starfsfræðslu í skólum sem og fólki sem vinnur á mörkum skóla og atvinnulífs.
Fyrir hverja?
Vefnum Utdanning.no er í raun ætlað að ná til allra þeirra sem standa frammi fyrir vali á námi, starfi eða starfsferli. Hann er öllum opinn, ekki er þörf á innskráningu og þjónusta í tengslum við vefinn er notendum að kostnaðarlausu. Fókusinn er ekki síst á yngra fólkið enda afar mikilvægt að læra að taka slíkar ákvarðanir, að vel athuguðu máli. Til þess er að sjálfsögðu nauðsynlegt að hafa aðgang að viðeigandi upplýsingum um leiðir, möguleika, námskröfur og hvað valið getur haft í för með sér, auk rafrænna verkfæra sem auðveldað geta náms- og starfsval. Sem dæmi um aðra markhópa má nefna fullorðið fólk sem íhugar breytingu á starfsferli og nemendur sem eru á leið til að taka sín fyrstu skref í atvinnulífinu.
Vefurinn er afar vel kynntur í Noregi þó lengi vel hafi almenn netleit verið helsta uppspretta heimsókna þangað. Mjög vel er hugað að uppbyggingu efnisins, tæknilegum þáttum og viðeigandi efni hverju sinni svo þarfir notenda séu alltaf í fyrirrúmi. Þá er eðlilega náið fylgst með ýmiss konar leitartölfræði, fjölda heimsókna og því hvað notendur virðast vilja og þarfnast.
Samfélagsmiðlar eru markvisst nýttir. Á Facebook er aðallega deilt ábendingum og hollráðum í tengslum við nám og störf, upplýsingum um umsóknarfresti og aðrar mikilvægar dagsetningar. Á Twitter er fréttum frá fjölmiðlum og menntastofnunum deilt; um starfsferil, atvinnulíf og menntun en einnig er að finna myndbönd á YouTube. Þá er sameiginlegt rafrænt fréttabréf Utdanning.no og Veilederforum.no sent út nokkrum sinnum á ári til náms- og starfsráðgjafa, kennara og annarra hagsmunaaðila þar sem kynnt er það sem nýtt er á vefsvæðinu. Einnig taka fulltrúar vefjarins þátt í margskonar kynningum og viðburðum í tengslum við ráðgjöf um nám og störf auk þátttöku í þematengdum ráðstefnum svo sem um rafræna ráðgjöf, degi náms- og starfsráðgjafar og stærri námskynningum.
Sérstaða og gildi
Upplýsingasíður um nám og störf geta, eðli máls samkvæmt, verið af ýmsum toga, svo sem heimasíður einstaka skóla eða símenntunarmiðstöðva. Sérstaða Utdanning.no er hins vegar sú að þar er að finna á einum stað upplýsingar um svo að segja allt nám að loknum grunnskóla og tengingu þess við atvinnulífið, framsett á hlutlausan og aðgengilegan hátt þar sem ekki er á neinn hátt gert upp á milli starfa, námsgreina eða námsstiga. Þá er efni vefjarins ritstýrt með það í huga að upplýsingarnar séu sambærilegar á milli greina og sem skiljanlegastar hinum almenna notanda. Síðan er einföld í notkun og hentar jafnt nemendum í efri bekkjum grunnskóla og fullorðnum sem geta þar nálgast upplýsingar á eigin forsendum, óháð stað og stund.
Í stóra samhenginu má leiða líkum að því að slíkt vefsvæði dragi mjög úr kostnaði samfélagsins vegna illa ígrundaðs námsvals og brottfalls frá námi. Þá nær vefurinn til afar breiðs hóps notenda og samræmir og ýtir í raun undir notagildi upplýsinga sem eru aðgengilegar á öðrum vefsvæðum. Þar að auki er vefurinn prýðileg samstarfsgátt til að deila upplýsingum og efni á einn stað.
Næst
Í tveimur greinum hefur aðdraganda, markmiðum og efni Utdanning.no nú verið gerð skil. Fyrri greinina má lesa hér. Í þriðju og síðustu greininni, sem birt verður að mánuði liðnum, verður sjónum beint að því hvað af vinnu og reynslu Norðmanna megi læra fyrir upplýsingamiðlun og þróun náms og starfsráðgjafar hér á landi.
Heimildir:
Byggt á Digital utdannings- og karriereveiledning. Strategisk utviklingsplan, Karriereveiledning i en digital verden (2015) og Karriereveiledning for individ og samfunn (2016) auk upplýsinga af Utdanning.no, Veilederforum og fleiri vefsvæðum sem vísað er til í textanum.
Ingu H. Andreassen prófessor í Bergen er þakkaður yfirlestur og gagnlegar ábendingar en Inga átti sæti í sérfræðinganefnd ríkisstjórnar Noregs um náms- og starfsráðgjöf 2015 – 2016.