- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Læra sænsku í eldhúsinu

Í hópi innflytjendanáms í matreiðslu eru 13 einstaklingar með átta mismunandi móðurmál. En í skólanum tala þeir aðeins saman á sænsku. Framtíðardraumurinn er að opna veitingastað á Álandseyjum.

Ilmurinn af hádegisverði dagsins berst um eldhúsið á Strandgötunni í Maríuhöfn. Þar er hópur innflytjenda, nemendur í matreiðslu við verkmenntaskóla Álandseyja sem ber yfirskriftina Hrk18i. Brýnt er að taka eftir lágstafnum i en hann stendur fyrir innflytjendur. Þeir fá hlutastarfspróf fyrir þá sem hafa annað móðurmál en sænsku.

Í eldhúsinu eru Maia Jabbor og Hourieh Mannan meðal 13 nemenda. Samtals tala einstaklingarnir í hópnum átta ólík móðurmál. En í skólanum er bara töluð sænska.  

Í skólanum fá nemarnir nánast daglega æfingu í matreiðslu og að koma matnum fallega fyrir á fötum.

– Við lærum heilmikið á hverjum degi, í dag hef ég til dæmis lært að forsjóða grænmeti, segir Maia Jabbor.

Í náminu er efni tengt verknámi eins og grunnur í matreiðslu, matreiðsluaðferðir, hráefni og sérfæði, tilbúningur hádegisrétta, matseðlagerð og uppskriftir, grunnur í bakstri, matartækni og matarskammtar.

– Ég held áfram að búa til mat á daginn þegar ég kem heim. Kannski Álandseyjapönnukökur, bollur og sósur. Mér finnst gaman að tileinka mér nýjar aðferðir og vann stundum í eldhúsi á meðan ég bjó í Líbanon, segir Hourieh Mannan.

Mikið af auka sænsku í náminu

Á námsárunum tveimur er lögð áhersla á að nemendur bæti sig í sænsku, þeir þurfa að ljúka 16 einingum í sænsku, eða samtals 480 kennslustundum. Í sænskunáminu beina kennarar sjónum einkum að orðum, orðtökum og samræðum sem tengjast eldhúsinu. Með öðrum orðum fagorðum eins og hníf, steikingarpönnu, frysti, hvítlaukspressu og þar að auki sænskum heitum alls hráefnis og allra matreiðsluaðferða. Talsverð áskorun fyrir nemendur sem eru á ólíkum stigum hvað varðar skilning og framburð á sænsku. Verkmenntaskólinn á Álandseyjum hefur valið að kaupa viðbótarþjónustu til þess að bæta sænskukunnáttuna. Um er að ræða úrræði sem ber heitið  tungumálatilraunastofan (se. språklabbet) sem Lars Sundblom rekur. Í úrræðinu fá nemendur verkfæri, myndir og hljóð sem auðvelda þeim nám í sænsku tengdri atvinnugreininni.  

– Við lærum sænsku ekki aðeins þegar við erum að elda heldur einnig þegar við erum í bóklega náminu, þá lærum við fagheiti og málfræði. Mig langar að læra miklu meira og verða betri í sænsku, segir Maia.

Í náminu fá nemendur góða þjálfun í faginu á kennsluveitingastaðnum Hirtinum og á mismunandi veitingastöðum á Álandseyjum.

– Allir hér á Álandseyjum eru vingjarnlegir og hjálpsamir. Ég kann vel við kennarana sem tala við okkur og yngri nemendur sem sýna okkur hvar allt er í eldhúsunum, segir Hourieh.

Hourieh Mannan hefur undirbúið sig undir starfsmenntaprófið sem fram fer á hádegisverðarstað skólans. Þá verður borið fram hakkabuff með kartöflum.

Dreymir um framtíðina

Í lok maí undirgangast nemarnir próf og að því lokun geta þeir unnið í eldhúsi sem aðstoðarmenn. En flestir velja að halda áfram námi til þess að verða matreiðslumenn. Og hvað dreymir þá um framtíðina?

– Ef við megum láta okkur dreyma og ímynda okkur að vild? Opna eigin veitingastað á Álandseyjum. Þar myndum við bjóða upp á mismunandi rétti og bakstur frá fleiri ólíkum löndum. En líka frá Álandseyjum. Ég er með fullt af uppskriftum í höfðinu. Margir kunningjar mínir segja að ég geri góðan mat og að ég ætti að fara að selja hann á torginu, segir Hourieh.

Í lýsingu á hópnum kemur fram að nemarnir eru líflegir, skrafhreifir en mjög áhugasamir og metnaðarfullir um námið. Þeir hafa tilfinningu fyrir bragði og finnst gaman að reyna eitthvað nýtt. 

Í lok janúar hófst nám í framreiðslu fyrir innflytjendur. Framundan fyrir þá átta einstaklinga sem hófu námið eru tvö ár í auka sænsku og fagnámi sem felur í sér framreiðslu, drykkjafræðslu, þjónustu gesta og kassatækni.

Mikilvægt fyrir allan verkmenntaskóla Álandseyja

Settur skólameistari Anna-Lena Groos áréttar mikilvægi náms fyrir innflytjendur.

– Við höfum þörf fyrir aðflutt vinnuafl á Álandseyjum. Það skiptir miklu fyrir hagvöxtinn. Innflytjendur fá sjaldan vinnu ef þeir kunna ekki sænsku. Hjá okkur læra þeir tungumálið, bæði málfræðina og fagmálið. Ég hef þá trú að þeir hafi góða möguleika á að fá vinnu ef þeir ná tökum á tungumálinu, segir hún  og vísar til þess að í náminu felast margar kennslustundir í sænsku bæði í kennslustofunni og í eldhúsinu. 

Hún vildi gjarnan bjóða við skólann upp á samskonar nám fyrir þá sem starfa við verslun og jafnframt grunnnám fyrir þá sem starfa við upplýsinga- og samskiptatækni.   

– Reikna með að það myndi verða að veita talsvert meiru fjármagni til skólans ef ákveðið yrði að veðja á þetta. Það þýðir ekki að beita aðhaldi þegar lagt er upp með nám af slíku tagi. Margir nemendur hafa þegar menntað sig þegar þeir koma hingað.

Meðal vanda þeirra er að þeir njóta ekki nægilega hárra námsstyrkja og margir eiga erfitt með að sækja um námslán.

– Það getur reynst erfitt að fjármagna nám í tvö ár. Ég skil það. Þess vegna ætti ríkið að endurskoða styrkjakerfið fyrir þá sem koma annarsstaðar frá og vilja leggja stund á nám hér, segir hún.

Greinin er frá NVL (Norræna tengslanetinu um nám fullorðinna) og er birt í Gátt með góðfúslegu leyfi. NVL styður samstarf um ævimenntun á Norðurlöndunum öllum, þróar þekkingu fyrir yfirvöld og fræðsluaðila. Netið er ein af áætlunum Norrænu ráðherranefndarinnar. Nánari upplýsingar um ævimenntun á Norðurlöndum má finna á nvl.org

Marika Kvarnström

Marika Kvarnström er kennslu- og samskiptastjóri við menntaskólann á Álandseyjum. Að aflokinni kennaramenntun í sænsku og trúarbrögðum lauk hún námið í blaðamennsku við Háskólann í Uppsölum. Marika hefur unnið sem blaðamaður og fréttastjóri í áratug meðal annars á Gefla Dagblad, Aftonbladet og Ålandstidningen.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi