- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Leikur að læra?

3. grein: Norðmenn gerðu það – hvert stefnum við?
Vefgátt um nám og störf

Norrænir upplýsingavefir um nám og störf

Þegar undirbúningur hófst við gerð íslensks upplýsinga- og ráðgjafavefjar um nám og störf árin 2012-2013 var eðlilega horft til nágrannalanda þar sem finna mátti vefi á borð við hinn danska UddannelsesGuidenUtbildningsinfo Svía eða Opintopolku Finna. Á þeim tíma þótti norski vefurinn Utdanning.no svo sem ágætur til síns brúks en sjónum var frekar beint að Danmörku auk Skotlands og Nýja Sjálands sem þá höfðu verið að gera spennandi hluti.

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Fjölmörg Evrópulönd halda í dag úti opinberum gagnabönkum og vefsvæðum um nám og störf og víða er hægt að leita fanga. Það sem helst veldur því að „turen går til Tromsø“ þessi misserin er að þaðan er norska vefnum stýrt í dag, vef sem hefur tekið miklum og afar áhugaverðum breytingum síðastliðin ár, líkt og fjallað hefur verið um í fyrri greinum.

Til upprifjunar má nefna að á Utdanning.no er að finna gríðarlegt magn upplýsinga um störf og námsleiðir þar sem megináhersla er lögð á gagnvirka og alhliða þjónustu sem stuðlar að upplýstu náms- og starfsvali. Helstu styrkleikar liggja í hlutleysi upplýsinganna, því hversu notendavænn og aðgengilegur vefurinn er auk gæðatryggingar efnisins og samstarfi menntakerfis og atvinnulífs.

Ritstjórn og þekking

Af verklagi Norðmanna í tengslum við vefinn má margt læra. Fyrir utan aðlaðandi vinnustað í Tromsø og sterkt fagumhverfi, þar sem ritstjórn og tæknifólk vinnur í kallfæri hvort við annað, virðist skipulag vinnunnar til mikillar fyrirmyndar.

Öllu efni vefjarins er ritstýrt en byggir í grunninn á mismunandi gagnasöfnum frá aðilum á borð við Hagstofu, vinnuveitendasamtökum og skráningarkerfum framhaldsskóla. Ritstjórn hefur einnig reglulega samband við um 300 samtök á vinnumarkaði til að fá staðfest að upplýsingar séu í samræmi við raunverulegar aðstæður í hverri grein.

Meginverkefni Utdanning.no kalla á margvíslega færni þeirra sem halda vefsvæðinu við frá degi til dags og leggja drög að frekari uppbyggingu. Hlutleysi, skilvirkni og uppfærsla efnisins, miðlun þess á notendavænan hátt og samstarf út á við kallar allt á fjölbreytta þekkingu starfsfólks. Í tengslum við vefsvæðið starfa yfir 20 manns, að lágmarki tvö á hverju hæfnisviði þar sem saman fer fólk sem þekkir vel til ritstjórnar, hönnunar, gagnasafna, forritunar- og tæknimála, samhliða yfirgripsmikilli þekkingu á menntakerfinu öllu og tengsla við atvinnulífið.

Allt efni er sett fram þannig að 15 ára nemandi á að geta lesið og skilið. Skýr framsetning texta er því mikilvæg  samhliða því að geta kallað eftir röddum og upplifunum notenda, uppfært efnið með hliðsjón af því og tryggt að gæði efnisins séu sem mest.

Hvað tæknimálin varðar er kallað eftir sérfræðiþekkingu á sviðum sem tengjast forritun, gagnasöfnum, leitarvélum, efnisframsetningu, öryggisþáttum og ekki síst því hvernig nýta megi opinber gögn um nám og atvinnulíf  betur, bæta aðgengi og auka gæði.

Nú gæti sá grunur læðst að einhverjum að það geti vart verið mikil fjárhagsleg hagkvæmni í því að hafa tvo tugi manna og kvenna í vinnu við að halda úti vefsíðu um nám og störf í Noregi. Á það ber hins vegar að líta að vefgáttin nýtist öllum almenningi frá unglings- til fullorðinsára, nær til allra skólastiga og tengir þau saman við vinnumarkað og starfsgreinar. Því virðist það mat Norðmanna að peningum sé vel varið í upplýsinga- og ráðgjöf um nám og störf, og að sú þjónusta hafi í raun batnað til muna með margvíslegum samfélagslegum ávinningi. Vissulega kallar Utdanning.no bæði á fjármagn og mikla samhæfingu og samstarf en á móti kemur að ekki er sífellt verið að prófa sig áfram með tímabundin átaksverkefni, óskilvirka þjónustu eða mörg tiltölulega lítið sótt vefsvæði. Þá geta vel fram settar upplýsingar á netinu minnkað þörf á einstaklingsráðgjöf sem þá er hægt að beina að þeim hópum sem  þurfa mest á henni að halda.

Tenging við náms- og starfsfræðslu í skólum

Áhersla Norðmanna á náms- og starfsfræðslu er einnig mjög áhugaverð í samhengi við vefinn. Þar er um að ræða sjálfstæða námsgrein með námskrá sem reglulega er uppfærð, síðast 2015 en næst á þessu ári, 2020. Mikið hefur verið lagt í stuðning við slíka fræðslu á borð við leiðbeiningahefti með kennsludæmum, fræðslumyndband fyrir foreldra, upplýsingar fyrir kennara auk fjölbreyttra kennsluhugmynda og  námsefnis. Vefurinn Utdanning.no spilar raunar lykilhlutverk í fræðslunni með læsilegum upplýsingum um fjölda starfa og námsleiða, myndböndum, viðtölum, tölfræði og fræðsluefni.

Tilgangur náms- og starfsfræðslunnar er margvíslegur og hefur styrkt samstarf á milli grunnskóla, framhaldsskóla og atvinnulífs og stuðlað að námsvali sem byggir á þekkingu á náms- og starfsleiðum með hliðsjón af áhuga, styrkleikum og framtíðaráformum nemenda.

Umgjörð náms- og starfsfræðslunnar er því til mikillar fyrirmyndar þó sums staðar í landinu séu  skiptar skoðanir á því hvernig til hefur tekist í framkvæmd. Margt hefur þó tekist afar vel, samvinna á milli skóla og atvinnulífs er skipulögð og markviss en svo dæmi sé tekið er nú orðin tiltölulega jöfn skipting aðsóknar á verk- og bóknámsbrautir framhaldsskóla og eðlilegt að velta fyrir sér tengslum þess við þá miklu áherslu sem lögð er á bein kynni af atvinnulífinu í náms- og starfsfræðslunni.

Næsta skref

Íslenska vefsvæðið NæstaSkref.is sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur þróað og haldið úti var upphaflega hluti stærra verkefnis sem bar heitið Þróun raunfærnimats til að efla starfshæfni fullorðinna með litla formlega menntun. Um tilurð þess vefjar og stöðu má  fræðast nánar í Gáttargrein frá árinu 2018 en markmið hans er „að veita greinagóðar upplýsingar um störf á íslenskum vinnumarkaði, námsframboð og raunfærnimatsleiðir.“

Sennilega er það illa falið leyndarmál að við vinnu þess vefsvæðis hefur lengi blundað að vefurinn geti nýst sem flestum sem best, ekki eingöngu markhópi framhaldsfræðslunnar. Greinilegt er að vefurinn nær til mun fleiri, er mikið notaður í skólum og fyrirspurnir sem berast frá notendum eru afar fjölbreyttar.

Af verkum og reynslu Norðmanna undanfarin áratug má margt læra þó ekki sé raunhæft fylgja að öllu leyti í þeirra fótspor.  Þættir á borð við „rafræna ráðgjöf“, „miðlæga upplýsingaveitu á netinu“ og „náms- og starfsfræðslu í skólum“ eru þó dæmi um hluti sem full ástæða er til að leiða hugann að.

Að lokum

Nú hefur í þremur stuttum greinum verið gerð grein fyrir stefnumótun Norðmanna hvað varðar upplýsingamiðlun og ráðgjöf um nám og störf, rafræna útfærslu og tengingu við almenna náms- og starfsfræðslu.

Ekki aðeins er Utdanning.no hreint magnaður vefur hvað varðar efni, uppbyggingu, notagildi, samstarfsmöguleika og gæðamál heldur byggir innihaldið á opnu höfundaleyfi og gerir með því öðrum auðveldara um vik.  Freistandi er að segja að með vefnum hafi frændur okkar á liðnum árum tekið forystu meðal Evrópuþjóða hvað varðar upplýsingagjöf um nám og störf, viðeigandi kennslu og ráðgjöf.

Það er óneitanlega áhugavert að velta fyrir sér hvert við Íslendingar stefnum í þessum efnum og er greinarhöfundi hugleikið hvort og með hvaða hætti vefsíða Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, NæstaSkref.is getur leikið hlutverk á þeirri leið.

Heimildir

Byggt á Digital utdannings- og karriereveiledning. Strategisk utviklingsplan  og  Karriereveiledning i en digital verden (2015) auk upplýsinga af Utdanning.noVeilederforum og fleiri vefsvæða sem vísað er til í textanum.

Ingu H. Andreassen prófessor í Bergen er þakkaður yfirlestur og gagnlegar ábendingar en Inga átti sæti í sérfræðinganefnd ríkisstjórnar Noregs um náms- og starfsráðgjöf 2015 – 2016.

Arnar Þorsteinsson

Arnar Þorsteinsson hefur undanfarin ár starfað hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og IÐUNNI fræðslusetri, að mestu við uppbyggingu upplýsingaefnis um nám og störf. Hann starfaði vel á annan áratug sem náms- og starfsráðgjafi við grunnskóla en lærði og lauk prófum í náms- og starfsráðgjöf, uppeldis- og menntunarfræði, barnavernd og heimspeki.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi