- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Menntun og fræðsla – Samkaup

Mannauðurinn er öflugasta auðlindin sem fyrirtæki eiga. Það er því mikilvægt að fyrirtæki bjóði starfsmönnum sínum upp á tækifæri og aðstæður til að auka þekkingu sína og hæfni. Stjórnendur Samkaupa leggja mikla áherslu á að efla sýn starfsfólks til framtíðar og veita því möguleika til starfsþróunar og frekari sjálfsstyrkingar innan fyrirtækisins. Starfsmenn átta sig þá betur á möguleikum sínum til að efla hæfni og færni í starfi en það hefur heilmikil áhrif á starfsánægju og vilja til að gera betur.

Vinnumarkaðurinn er í stöðugri þróun og áherslur breytast. Eitt af meginmarkmiðum Samkaupa er að vera með forskot í samkeppni á grundvelli mannauðs og fyrirtækjamenningar. Það forskot birtist í þekkingu, hæfni og einstakri þjónustufærni starfsfólks, ímynd sem byggð er upp í öllum vörumerkjum Samkaupa.

Samkaup nýtur þess að hjá fyrirtækinu starfar breiður hópur fólks sem býr yfir mikilli færni og þekkingu. Margir úr hópi starfsfólks hafa áralanga reynslu og búa þar af leiðandi að því að hafa aflað sér umtalsverða færni og þekkingu sem snýr að verslun og þjónustu. Þessa færni hafa starfsmenn öðlast í gegnum reynslu í versluninni sjálfri, í starfsþjálfun, með formlegum og rafrænum námskeiðum, þátttöku í verkefnum á vegum félagsins og fleira. Það er því sorglegt að þessi mikla færni, reynsla og kunnátta sé vanmetin í hinu formlega menntakerfi. Samstaða fyrirtækisins og starfsfólks okkar verður þá enn mikilvægari.

Raunfærnimat, verkfæri sem gagnast

Raunfærnimat er það verkfæri sem býður okkur að draga fram og skilja þá þekkingu sem starfsmaðurinn býr yfir. Þekking og hæfni einstaklinga sem vinna í verslunum er gríðarleg eftir áralanga starfsreynslu og eftir að hafa sótt fjölda námskeiða. Stór hluti hluti þessara starfsmanna hafa af einhverjum ástæðum ekki lokið formlegu námi. Það sem við höfum lagt upp með er að bjóða starfsfólki Samkaupa að fara í raunfærnimat á móti viðmiðum í okkar vinnustaðarnámi. Þekking þeirra og hæfni er þá metin til framhaldsskólaeininga. Einingarnar getur starfsfólk svo nýtt meðal annars áfram í Fagnámi verslunar og þjónustu í gegnum Verslunarskóla Íslands. Þarna kemur stuðningur okkar og menntakerfisins saman, í raunfærnimati.

Þróunarverkefnið: Starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks (SVS) vann að þróun fagnáms fyrir starfsfólk í verslun og þjónustu. Í upphafi verkefnisins voru störf í verslun kortlögð og skilgreint hvað einstaklingar sem starfa við verslun og þjónustu þurfa að kunna. Því næst var lagður grunnur að raunfærnimati í samstarfi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Mími-símenntun. Þróunarhópur vann að verkefninu, í hópnum sátu fulltrúar frá Verzlunarskólanum, SVS, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Mími-símenntun, Samkaup, Lyfju og Húsasmiðjunni.

Árangur vinnunnar er ný námsbraut kennd við Verslunarskóla Íslands þar sem starfsfólki samstarfsfyrirtækja skólans býðst að vera þátttakendur í námi sem byggir á að styrkja og efla verslunarstarfsmenn. Á tímum þar sem sjálfvirknivæðing er að aukast, er starf verslunarfólks að breytast og á sama tíma eflist vægi þeirra starfsmanna sem vinna í verslunum til muna. Aðrir hæfniþættir verða veigameiri og mikilvægt að átta sig á virði þeirra. Starfsmenn hlusta á viðskiptavininn, greina þarfir hans og veita framúrskarandi þjónustu. Að auki gegna þessir starfsmenn oft lykilstörfum innan sinnar verslunar.

Fagnám í verslun og þjónustu: Námið er í boði í Verzlunarskóla Íslands og er 90 einingar. Það er í þremur vörðum þar sem bóklegir áfangar og vinnustaða- nám flettast saman. Vinnustaðanámið fer fram í samvinnu við fyrirtæki sem áttu þátt í þróun þess, þau eru: Samkaup, Lyfja og Húsasmiðjan.  Reynt starfsfólk getur farið í raunfærnimat og fengið stöðu sína metna til styttingar á náminu. Þeir sem ljúka Fagnámi í verslun og þjónustu og vilja halda áfram námi geta lokið stúdentsprófi í fjarnámi frá Verzlunarskólanum

Fagnám fyrir verslunarstarfsfólk

Fagnámið er frábært tækifæri fyrir starfsmenn í verslun til að auka virði sitt til framtíðar. Það er gaman að segja frá því að tveir starfsmenn Samkaupa munu um áramót útskrifast með Fagbréf í verslun og þjónustu ásamt því að ljúka einnig stúdentsprófi samhliða, með fullum stuðningi Samkaupa.

Hvatning og stuðningur okkar, sem vinnuveitanda, er ákveðin forsenda þess að starfsþróun eigi sér stað samhliða vinnu starfsfólks. Með því að stuðla að og kynna raunfærnimat fyrir okkar starfsfólki, hvetja það áfram til fagnáms og frekari starfsþróunar, höfum við möguleika á að efla fólkið okkar á markvissari hátt og sjá það blómstra enn frekar í sínu starfi. 

Stuðningur við starfsmenn er aðdráttarafl

Að starfa innan veggja Samkaupa á að vera eftirsóknarvert. Fátt er eins mikilvægt í stefnu fyrirtækisins eins og að styðja sem best við starfsfólkið og fjölga tækifærum í gegnum fræðslu og menntun inn á vinnustöðum um land allt. Með því að auka færni, starfsánægju og starfsáhuga stuðlum við að jákvæðu viðhorfi bæði innan veggja Samkaupa sem og utan.
Samkaup ætlar sér að styrkja forskot sitt á samkeppnismarkaði í krafti mannauðs og þekkingar en á sama tíma mæta starfsmönnum sínum á sem allra bestan máta, virða þekkingu þeirra og vinna með þeim að aukinni færni, öllum til góða.

Gunnur Líf Gunnarsdóttir

Gunnur lauk B.Ed prófi frá Háskóla Íslands árið 2011 og MBA námi frá sama skóla. Hún hefur stýrt fjölbreyttum verkefnum hjá Hjallastefnunni og starfaði við fræðslumál og stjórnun ásamt því að vera persónuverndarfulltrúi hjá hugbúnaðarfyrirtækinu InfoMentor ehf. áður en hún hóf störf hjá Samkaupum.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi