- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Metnaðarfullar umbætur í Noregi: Enginn á að úreldast

Evrópa líður fyrir skort á hæfni. Sumir íbúar hafa ekki notið grunnmenntunar sem skyldi. Hæfni annarra er úrelt. Margir þarfnast endur- og símenntunar til að fylgja breytingum í atvinnulífinu. 

Skömmu fyrir sumarleyfið fóru fram umræður á Stórþinginu um frumvarp ríkisstjórnarinnar; Hæfniumbætur. Lærum allt lífið. Gegnumgangandi boðskapur í umbótunum er að til þess að halda í við þróunina verðum við að læra allt lífið. Einkunnarorðin eru að skapa meira og virkja fleiri. Enginn á að þurfa að vera utan vinnumarkaðar vegna úreltrar hæfni. Aðeins fáum vikum eftir að umbætur norsku ríkisstjórnarinnar höfðu verið samþykktar kynnti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins nýjar aðgerðir vegna uppfærslu á Áætlun um nýja færni og störf (The Skills Agenda).

Háleit markmið norsku umbótanna

Hæfniumbæturnar hafa tvö meginmarkmið: Enginn á að úreldast. Brúa verður bilið á milli framboðs og eftirspurnar. Með öðrum orðum á atvinnulífið að geta ráðið starfsfólk sem býr yfir þeirri hæfni sem þörf er fyrir á hverjum tíma og eins á starfsfólk að fá tækifæri til þess að afla sér nauðsynlegrar hæfni.   

Sundurleitt samsafn

Aðgerðir sem tengjast hæfniumbótunum spanna vítt svið. Fullyrt er að breyta verði menntakerfinu. Veita verði rými fyrir aukinn sveigjanleika og mæta betur þörfum fullorðinna. Vinnandi fólk verður að geta sótt sí- og endurmenntun samhliða starfi. Námstilboð þurfa að vera sveigjanlegri og skipta verður lengra námi niður í áfanga. Veita þarf þeim sem skortir grunnleikni aðstoð við að hefja nám. Þörf er á að fjölga þeim sem hafa fagbréf og þeim sem hafa lokið framhaldsnámi á sviði starfsmenntunar til þess að hæfniþörf sé mætt. Hæfniumbótunum fylgir sundurleitt samsafn af skipulagi styrkveitinga, aðgerðum til örvunar og síðast en ekki síst fjölda góðra fyrirætlana. Sumar viðvarandi aðgerðir verða framlengdar og efldar og nýjum verður bætt við.  

Hver á að fylgja þeim eftir og halda í alla þræði? Hver er verkefnastjóri átaksins? Við spurðum ráðherra vísinda og háskóla, Henrik Asheim.

„Við í þekkingarráðuneytinu“

– Hæfniumbæturnar varða umbætur á öllum sviðum menntakerfisins og fjölmargir koma að því að hrinda þeim í framkvæmd.  Meðal annars í samstarfi margra undirstofna ráðuneytisins. En þegar allt kemur til alls erum það við í þekkingarráðuneytinu sem berum ábyrgð á því að fylgja umbótunum eftir þannig að markmiðunum sem við höfum sett okkur verði náð, segir Asheim ráðherra vísinda og háskóla.   

Atvinnugeiraáætlun fyrir þá sem gætu orðið án atvinnu

Í samstarfi ríkisins og aðila atvinnulífsins höfðu áætlanir um hæfniþróun í ákveðnum atvinnugreinum verið gerðar 2019. Nokkrum vikum áður en umræður um hæfniumbæturnar hófust voru áætlanir fyrir eftirfarandi atvinnugreinar samþykktar: ferðaþjónustu, hársnyrtingu, raforku- og endurnýjanlegan iðnað, mannvirkjagerð, smásölu/sérvöruverslun, og matvæla- og drykkjagerð. 100 milljónum norskra króna var veitt til þess að þróa hæfni og mennta þau sem eiga á hættu að missa vinnuna  eða eru atvinnulaus vegna Kórónufaraldursins. Starfsgreinaáætlanirnar eiga að koma til móts við þarfir fyrir hæfniþróum fyrirtækja og starfsfólks.  

Krefjandi fyrir marga

Þrátt fyrir bestu fyrirætlanir og góðar hvatningaraðgerðir getur verið krefjandi að hefja nám. DilogWeb spurði ráðherrann hvaða hugmyndir hann hefði sem myndu virka hvetjandi fyrir fólk til að hefja nám, ekki síst þau sem ekki hafa mikla menntun að baki?

– Ég tel að við þurfum að skapa fullorðnum betri aðstæður til þess að leggja stund á nám. Það á bæði við um kerfi Lánasjóðsins og skipulag námsins. Á tímum kórónufaraldursins höfum við séð að þátttaka er mjög góð eins og í atvinnugreinaáætluninni. Þeir sem hafa minni menntun tilheyra einmitt markhópi áætlananna. Að hafa tækifæri til þess að hefja sérsniðið nám og vera áfram á bótum hefur fleytt þeim yfir hindranirnar. Jafnframt er brýnt að tilboðin verði þróuð áfram í samvinnu við atvinnulífið, til þess að þátttakendur verði hæfir til starfa og að fólk skynji gagnsemi þess að bæta við sig menntun, segir Asheim.

Henrik Asheim, ráðherra vísinda og háskóla í Noregi

Nám í heimabyggð er mikilvægt

Í Hæfniumbótunum kemur greinilega fram að í sumum hlutum Noregs er erfitt að fá hæft starfsfólk. Á hinn bóginn eru fjölmörg dæmi um fullorðna sem bæta við sig menntun í heimabyggð, til dæmis með aðstoð símenntunarmiðstöðvar sem býður upp á sveigjanleg námstilboð og leggja til mikilvæga hæfni í heimabyggð.  

– Hvernig ætlar ráðuneytið að nýta þannig fræðsluaðila – heima í héraði eða sveit?

Þessu svarar Asheim ráðherra:

– Norska ríkisstjórnin hefur áhuga á sveigjanlegri námstilboðum sem ekki eru miðstýrð til þess að fólk geti, óháð búsetu eða kringumstæðum í eigin lífi, aflað sér menntunar. Við styrkjum líka hlutverk héraðanna. Þau bera til dæmis ábyrgð á að laga framboð á símenntun og í fagskólum að þörfum á svæðinu og  að tengja háskóla og aðra fræðsluaðila sem bjóða upp á hæfniþróun við atvinnulífið á svæðinu. Þar að auki hefur sveitastjórnar- og nýsköpunarráðuneytið hrint í framkvæmd tilraunaverkefnum um hæfniþróun sem á að auka aðgengi að réttri hæfni út í héruðunum.

Hæfni á sveigjanlegan hátt

Lögð er áhersla á aukinn sveigjanleika aðferða í ólíku samhengi í umbótunum. Margir fræðsluaðilar, ekki síst einkareknir aðilar, búa að yfirgripsmikilli og áralangri reynslu af sveigjanlegum námsaðferðum. Fjöldi fræðsluaðila hafa sinnt vefbundnu námi svo að segja frá því að Internetið kom til skjalanna.  

DialogWeb spyr ráðherrann hvernig ráðuneytið muni nýta þessa hæfni.

– Að hálfu ríkisstjórnarinnar er lögð mikil áhersla  á menntun og hæfniþróun í kjölfar efnahagskreppunnar. Við höfum auglýst styrki meðal annars til vefnáms og atvinnugreinaáætlana. Meðal þeirra sem hlotið hafa styrki með þessu markmiði er fjöldi einkarekinna fræðsluaðila sem hafa tafarlaust komið á svæðisbundnum tilboðum. Þetta er verðmætur skerfur til þessara umfangsmiklu aðgerða.   

Hæfnibyltingin í ESB

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins telur þörf fyrir hæfnibyltingu. Skömmu eftir að norska þjóðþingið hafði samþykkt hæfniumbæturnar, lagði ESB fram uppfærða áætlun um hæfni og störf, (The Skills Agenda) Hún er enn metnaðarfyllri en norsku umbæturnar og raunhæfari í tölulegum markmiðum sem sett eru fram. Þar kemur fram að í Evrópu er þörf fyrir hæfnibyltingu til þess að tryggja atvinnu í kjölfar breytinga á tækni og umhverfi. Í áætluninni kemur fram að milljón ný störf verði til í kjölfar breytinganna. Rík þörf verður fyrir að auka hæfni (upskilling) og tileinka sér nýja færni (reskilling). Bent er á að starfstengd fög verði sérstaklega mikilvæg atvinnulífinu á komandi árum. Helmingur íbúa ESB á aldrinum 25 til 65 ára á að taka þátt í námi ár hvert. Sem þýðir að 120 milljónir manna eiga sitja á einhverskonar „skólabekk“ árið 2021.

Nánar í næstu grein eftir Torhild Slåtto Skólarnir hafa verk að vinna

Torhild Slåtto

Torhild Slåtto er sjálfstæður greinahöfundur og skrifar í norska og norræna fjölmiðla. Torhild var framkvæmdastjóri samtaka um sveigjanlegt nám í Noregi og hefur því umtalsverða reynslu af sveigjanlegu námi fyrir fullorðna. Hún hefur átt þátt í mörgum NordPlus verkefnum og var fulltrúi Norðmanna í Distansneti NVL 2005 – 2018. Torhild starfaði áður sem blaðamaður á dagblöðum og hefur skrifað ótal greinar í tímarit, bækur og annars konar útgáfur. Hún hefur fjölbreytt nám að baki í blaðamennsku, meistarapróf í félagsfræði og hefur auk þess sótt fjölda námskeiða, svo sem verkefnastjórnun, fjarkennslu og skapandi skrifum.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi