- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Norðmenn gerðu það – hvert stefnum við?

Um Utdanning.no, vefgátt um nám og störf

1. grein – Staðan 2015

Sérfræðinganefndin

Árið 2015 settu norsk stjórnvöld á laggirnar sérfræðinganefnd sem hafði það hlutverk að gera úttekt á náms- og  starfsráðgjöf í Noregi. Í október sama ár skilaði nefndin skýrslunni Karriereveiledning i en digital verden sem var hluti af stærra stefnumótunarskjali og fylgdi í kjölfarið 2016, Karriereveiledning for individ og samfunn.

Í skýrslunum er bent á að norskt hagkerfi gangi í gegnum mikið breytingaskeið þar sem tækniþróun, minnkandi atvinnuþátttaka og sífellt stækkandi hópur innflytjenda leiki stórt hlutverk. Þar geti aðgangur að vandaðri ráðgjafaþjónustu í tengslum við náms- og starfsval skipt sköpum enda lifum við tíma þar sem fólk stendur jafnvel oft á lífsleiðinni frammi fyrir slíkum ákvörðunum. Aukinheldur sé markviss náms- og  starfsráðgjöf á netinu heppileg leið til að stuðla að endurskipulagningu og auknum afköstum innan menntakerfisins.

Sérstaða náms- og starfsráðgjafar sé raunar sú að hana megi hvort tveggja nálgast sem þjónustu við fólk sem stendur frammi fyrir ákveðnum valkostum um leið og færi gefst til að nýta sem best  mögulegt og fyrirliggjandi vinnuafl. Þörf sé á margskonar þjónustu, allt frá aðgengi að upplýsingum til virkni á vinnumarkaði. Fundur augliti til auglits við ráðgjafa henti einum, nafnlaus tengiliður á netinu öðrum.

Í stefnumótun Norðmanna er því bent á að byggja þurfi upp heildstætt kerfi ævilangrar náms- og starfsráðgjafar til að mæta þessum þörfum og ljóst að þar þurfi nokkrir samverkandi þættir að vinna saman. Farið er yfir stöðu náms- og starfsráðgjafar í landinu en sjónum einnig beint að rafrænni ráðgjöf og áhersla lögð á  þrennt:

  1. Upplýsingar – hvað skiptir fólk máli?
  2. Rafræn verkfæri til sjálfshjálpar
  3. Samskipti á netinu, beint og óbeint

Staða mála árið 2015 er metin svo að gæðum rafrænnar ráðgjafar sé að einhverju leyti ábótavant, til dæmis sé í mörgum tilfellum erfitt  að meta réttmæti og hlutleysi fyrirliggjandi upplýsinga á netinu. Bætt staða í þessum efnum eigi  hins vegar að geta létt undir með hefðbundnari ráðgjöf, hvort tveggja í skólakerfi og atvinnulífi, einfaldað aðgengi að henni og bætt þjónustuna, sér í lagi fyrir þann hóp sem mest þurfi á henni að halda. Auk þess sé í því fólgin augljós hagkvæmni sem leiði af minni kostaði vegna illa ígrundaðs námsvals og brotthvarfs frá námi eins og niðurstöður nokkurra verkefna, sem unnin hafi verið frá árinu 2010, bendi til.

Tillögur nefndarinnar

Einnig er bent á að árangur af rafrænni náms- og starfsráðgjafarþjónustu hafi lítið verið rannsakaður og því erfitt að segja með einhverri vissu, til um áhrif og árangur. Samt sem áður, og eftir að hafa horft til reynslu,  innan lands sem utan, eru lagðar fram eftirfarandi tillögur:

  • Koma á fót opinberri vefgátt um nám og störf
  • Þar verði rafræn náms- og starfsráðgjafarþjónusta fyrir almenning
  • Vefurinn nýtist við grunnnám, til dæmis náms- og starfsfræðslu í skólum
  • Byggt verði á fyrirliggjandi vef, Utdanning.no
  • Samstarf um vefinn stuðli að aukinni fagmennsku á sviði náms- og starfsráðgjafar
  • Eignarhald og stjórnun sé skýrt gagnvart ráðuneyti og viðeigandi umsýslustofnun
  • Hlutaðeigandi (d. Menntamála- og Vinnumálastofnun) taki þátt í stefnumótun
  • Ritstjórn veiti faglegan stuðning, gæðatryggi og stuðli að góðri samvinnu
  • Viðeigandi rýnihópar verði kallaðir til skrafs og ráðagerða

Þó fókusinn hér sé settur á rafrænu ráðgjöfina og vefsvæðið  Utdanning.no voru tillögurnar viðameiri enda öll ráðgjöf um nám og störf í Noregi undir. Þannig er til dæmis lagt til að huga að hugtakanotkun og tala um „karriereveiledning“ í stað „utdannings- og yrkesrådgivning“, efla náms- og starfsfræðslu í skólum og bjóða upp á nám fyrir kennara sem eigi að sinna slíkri fræðslu. Einnig er talið nauðsynlegt að stofna náms- og starfsráðgjafarmiðstöð í hverju fylki og lögbinda skyldu til að veita fullnægjandi náms- og starfsráðgjöf til allra 19 ára og eldri, huga afar vel að hæfni ráðgjafa og því að  þjónusta þeirra sé í boði við allar menntastofnanir landsins. Þarna sé í raun um að ræða ákveðið  lykilatriði í tengslum við hæfnistefnu þeirra í atvinnulífinu sem þá var sem kunnugt er í bígerð.

En aftur að áherslunni á aðgengilegar, hlutlausar og gæðatryggðar upplýsingar og faglega ráðgjöf á netinu. Þar voru sóknarfæri.

Því fyrir var …

Vefsvæðið Utdanning.no hafði verið í notkun frá árinu 2004 auk fjölda smærri vefja sem tengdust skólakerfi og atvinnulífi. Vefurinn hafði raunar vaxið og dafnað alla tíð þó talsverð tímamót hafi vissulega orðið 2015, í kjölfar fyrrnefndra skýrslna, þegar vefurinn varð í raun að opinberri upplýsinga-vefgátt Norðmanna um nám og störf. Nefndin sem að skýrslunum stóð, benti á nauðsyn þess að halda úti slíku alhliða vefsvæði en taldi einnig að  Utdanning.no væri þegar það vel á veg komið, mikið notað og í raun það vel gert að flestu leyti, að á því mætti byggja til framtíðar. Vefsvæðið hafði á þeim tíma verið í þróun í rúman áratug með tilheyrandi þekkingu á uppbyggingu og rekstri slíkrar notendavænnar upplýsingasíðu um nám og störf. Með því að þróa vefinn enn frekar og bæta þar við margvíslegu efni  var talið að hann gæti gagnast öllum þeim sem standa frammi fyrir ákvörðunum um val á námi eða starfi. Með því móti væri hægt að nýta það sem fyrir er og koma í veg fyrir þann óþarfa tvíverknað sem fælist í að byggja nýtt vefsvæði upp frá grunni.

Vissulega kallaði framhaldið á fleiri stöðugildi við vefinn og kostnað við hönnun, nýjar tæknilausnir,  samþættingu gagna, bætt myndmál og aukna þjónustu en þeim fjármunum þótti vel varið til lengri tíma litið.

Utdanning.no í dag

Ákvörðunin um að stórefla rafræna ráðgjöf og upplýsingavefinn Utdanning.no  virðist í dag hafa verið mikið gæfuspor. Á vefsvæðinu er áhersla lögð á gagnvirka og alhliða þjónustu sem stuðlar að upplýstu náms- og starfsvali og um hvort tveggja að ræða, efni sem unnið er frá grunni sem og gögn frá fjölda samstarfsaðila. Öllu efni síðunnar er ritstýrt í því augnamiði að gera notendum vefjarins auðveldara um vik að nálgast skýrar og skiljanlegar upplýsingar og taka vel ígrundaðar ákvarðanir um eigin stefnu í námi og starfi.

Þar er nú að finna yfirlit 8000 námsleiða á framhalds- og háskólastigi. Auk þess er um 350 námsgreinum sérstaklega lýst og 600 störfum, yfir 500 viðtöl eru við fólk í námi og starfi og ríflega 100 greinar um náms- og starfsráðgjöf. Þá er fjölbreytt efni um jafnrétti á vinnumarkaði, náms- og starfsfræðslu og norska menntakerfið. Eru þá raunar ótalin ýmiss verkfæri til innblásturs og aðstoðar við náms- og starfsval þar sem hugað er að þörfum mismunandi markhópa; nemenda, foreldra, kennara og ráðgjafa.

Fjöldi fólks úr atvinnulífi og fagfélögum stuðlar að gæðatryggingu efnisins með aðkomu sinni, yfirlestri og endurgjöf. Vefurinn deilir einnig efni frá samstarfsaðilum, svo sem háskólum, framhaldsskólum og margs konar náms- og starfstengdum þjónustustofnunum.

Vefurinn er í sífelldri þróun og mikið notaður sem sjá má af því að árið 2016 voru tæplega sex milljónir heimsókna á vefinn og 20 milljón síðuskoðanir en árið 2018 hafði heimsóknum fjölgað í rúmlega 7,7 milljónir. Fylgst er markvisst með notkuninni og niðurstöður nýttar til að bæta og styrkja vefsvæðið.

Næst

Í annarri grein, sem birt verður á þessum sama vettvangi að mánuði liðnum, verður nánar fjallað um efni, innihald og uppbyggingu vefjarins Utdanning.no. Þriðja og síðasta greinin birtist síðan í mars og fjallar um þann lærdóm sem hugsanlega má draga af reynslu Norðmanna.

Heimildir

Byggt á Digital utdannings- og karriereveiledning. Strategisk utviklingsplan, Karriereveiledning i en digital verden (2015) og Karriereveiledning for individ og samfunn (2016) auk upplýsinga af Utdanning.no,  Veilederforum og fleiri vefsvæðum sem vísað er til í textanum.

Ingu H. Andreassen prófessor í Bergen er þakkaður yfirlestur og gagnlegar ábendingar en Inga átti sæti í sérfræðinganefnd ríkisstjórnar Noregs um náms- og starfsráðgjöf 2015 – 2016.

Arnar Þorsteinsson

Arnar Þorsteinsson hefur undanfarin ár starfað hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og IÐUNNI fræðslusetri, að mestu við uppbyggingu upplýsingakerfa um nám og störf. Hann starfaði vel á annan áratug sem náms- og starfsráðgjafi við grunnskóla en lærði og lauk prófum í náms- og starfsráðgjöf, uppeldis- og menntunarfræði, barnavernd og heimspeki.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi