- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Nýjar námskrár FA

Almennar bóklegar greinar – breytingar frá eldri námskrám FA. Vottaðar námskrár eru ein þriggja stoða framhaldsfræðslunnar, hinar eru raunfærnimat auk náms- og starfsráðgjafar. Á vordögum 2020 var ráðist í vinnu við endurskoðun á þeim námskrám FA sem snúast um almennar bóklegar greinar. Um er að ræða námskrárnar Nám og þjálfun í almennum bóklegum greinum (N&Þ) (2008), Grunnmenntaskóli (GS) (2009) og Menntastoðir (2018).

Meginstefið sem lagt var af stað með var að allt væri undir, það er ekkert væri fyrirfram ákveðið, hvorki fjöldi námskráa sem skrifaðar yrðu eða hvernig umbylting ætti að verða á námskrám. Það eina sem ákveðið var strax í upphafi var að námskrár skyldu vera samkvæmt opinberum fyrirmælum og að óskað yrði eftir samstarfi og samvinnu við símenntunarmiðstöðvar inn í þá vinnu. Fimm símenntunarstöðvar gáfu kost á samstarfi við FA í verkefnið og tilnefndu sína fulltrúa í starfið. Skipulagðir voru þrír rafrænir fundir sem allir fóru fram í maí 2020. Fljótt varð ljóst að afurðir starfsins yrðu tvær námskrár. Fyrir og milli þessara funda var samstarfsfólki send skjöl með hugmyndum okkar sem unnum að málinu hjá FA. Umræður á fundunum voru alltaf mjög góðar og skiptu máli varðandi framvindu verksins. Undir lok skrifa námskránna óskuðum við hjá FA svo enn eftir að fá athugasemdir og ábendingar inn í vinnuskjöl og var allt þetta samstarf ótrúlega farsælt og samstíga.

Grunnmennt og Menntastoðir

Niðurstaðan eru tvær námskrár í stað þeirra þriggja sem teknar voru í endurskoðun. Nýju nám-skrárnar eru Grunnmennt og Menntastoðir. Hér á eftir er gerð grein fyrir helstu breytingum milli eldri námskránna og þeirra nýju. 

Nokkurs konar fyrsta stef, fyrir utan ákvörðun um fög (námsþætti), var að koma í veg fyrir skörun efnis innan sömu námsþátta eins og verið hefur að mismiklu leyti innan sömu faga í eldri nám-skránum og jafnframt að tryggja að sem jafnastur og greinilegur stígandi náist milli námsþátta sömu faga/kennslugreina alla leið í gegnum báðar námskrárnar, frá fyrstu námsþáttum (áföngum) í Grunnmennt til síðustu námsþátta sömu (sambærilegra) faga í Menntastoðum.

Þannig er gengið út frá því að námsfólk fái aðstoð við að velja sér námsleið til dæmis með aðstoð náms- og starfsráðgjafa og að fræðsluaðilar leggi mat á hæfni námsfólks við inngöngu í nám til staðsetningar í námið. Öllu jöfnu eru námsþættir (fög) merktir í röð sem námsfólki er ætlað að taka. Alls staðar er tekið fram hvort og þá hverjar forkröfur eru fyrir hvern námsþátt. Annað stef snerist um fyrirkomulag á námskrám að fara ekki út fyrir ramma fjárveitinga sem Fræðslusjóður veitir til eldri námskráa í dag, reyna að halda öllu innan marka og belgja ekki námskrárnar út, hvorki með viðbótar fögum eða umfangsmiklum námsþáttum.

Grunnmennt

Við skoðun á námskránum sést að Grunnmennt er nokkuð umfangsmeiri heldur en Grunnmennta-skólinn er, en að sama skapi ef tekið er tillit til þess að í Grunnmennt er í raun verið að sameina og samþætta, auk þess sem í GS er nokkuð um skörun við námskrána N&Þ og jafnvel inn í eldri námskrá Menntastoða, þá er námskráin Grunnmennt örlítið umfangsmeiri heldur en hinar báðar (GS og N&Þ) til samans. Það ræðst af nokkrum þáttum svo sem erfitt er að ráða í eldri námskrárnar hve margir náms-þættir (áfangar) eru undir hverju fagi þar sem aðeins er tilgreint um fjölda kennslustunda en ekkert kemur fram annað um á hvaða stigi námið er. Kynning á náminu auk mats á námi og skólastarfi er tekið með inn í heildar fjölda kennslustunda náms.

Með Grunnmennt var reynt að setja fram heildstæða námskrá, sem reyndar má skipta í tvo hluta og keyra hvorn fyrir sig þar sem námsfólk getur hafið nám fremst á fyrsta hæfniþrepi miðað við upphaf námskrárinnar. Námsþættir hvers fags eru tveir (nema Verkefnavinna) þar sem fyrri námsþáttur er merktur A og síðari námsþáttur með B, þá er A undanfari að B eða samkvæmt mati fræðsluaðila.

Grunnmennt – skipulag

Þannig er heildarskipulag Grunnmenntar eins og sjá má í töflu 1. Í töflum tvö og þrjú má svo sjá hvernig skipting námskrárinnar er hugsuð í fyrri hluta og síðari hluta. Þetta er gert fyrst og fremst í tvennum tilgangi. Til að gera námið aðgengilegra fyrir markhóp framhaldsfræðslunnar almennt og til að auðvelda fræðsluaðilum að keyra þann hluta sem þörf er á hverju sinni, ef ekki næst í hóp sem hefur þörf fyrir alla námskrána. Með það í huga var sérstök beiðni send til stjórnar Fræðslusjóðs um leyfi fyrir fræðsluaðila að gera fjárhaldslegt uppgjör þessarar námskrár út frá fjölda nemendastunda en ekki fjölda einstaklinga sem lokið hafa námskránni í heild eins og núverandi reglur kveða á um. Fræðslusjóður hefur orðið við þeirri ósk.

Námskrá með 500 klukkustunda vinnuframlag námsfólks er nokkuð stór en eins og sést glögglega þegar töflur tvö og þrjú eru skoðaðar þá er lagt upp með aukinn stuðning við námsfólk í fyrri hluta námskrárinnar. Ábendingar um slíkt fyrirkomulag komu strax fram í samstarfshópnum. Þá er gert ráð fyrir möguleika á að skipta námskránni í tvennt og keyra sitt í hvoru lagi eða sem heild. Hluti eitt er 200 klst. í heild og hluti tvö er 300 klst. í heild. Heildar fjöldi klukkustunda sem gert er ráð fyrir að Fræðslusjóðurstyrki er um það bil sá sami og áður var í þeim námskrám sem falla út (GS og N&Þ) í stað Grunnmenntar.

Þegar tafla 2 og tafla 3 eru skoðaðar þá sést greinilegur stígandi í auknum kröfum um vinnuframlag nemanna utan kennslu í Grunnmennt II miðað við hluta I. Viðbótar vinnuframlag nema á heildina litið, fyrir utan kennslutíma, í GRMT I er 13% og hefur hækkað upp í 33% í GRMT II.

Þegar litið er til einstakra faga kemur svipuð niðurstaða. GRMT I – til dæmis íslenska A er um það bil 12% vinnuframlag utan kennslu. Þetta er afar lágt hlutfall en tillit er tekið til þess að fólk er að stíga fyrstu varfærnu skrefin og þjálfast upp í vinnubrögðum.

Sama fag í GRMT II – íslenska B gefur ~ 30% viðbótar vinnuframlag nema utan kennslu.

Þetta telst að líkindum munur sem inniber nokkuð eðlilegan stíganda í auknum kröfum á viðbótar vinnuframlag nema og stígandi sem telst innan þolanlegra marka. Sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að við aðlögun / þjálfun í GRMT I (fyrir fólk sem tekur þann hluta) hefur verið mjög vel í lagt með hverfandi vinnuframlagi utan kennslu (heimanámi) – en þó lítillegan undirbúning undir það sem koma skal.

Sambærilegur stígandi varðandi þennan þátt, sem viðbótar vinnuframlag námsfólks er, heldur áfram gegnum Menntastoðir. Hér að ofan er eingöngu meðaltal úr námskrám eða hluta I og hluta II, nema dæmið sem tekið er um íslenskuna. Rétt er að geta þess að stígandi er ekki aðeins í auknum kröfum hvað varðar vinnuframlag nema, heldur er ekki síður lagt mikið upp úr því að ná góðum stíganda milli námsþátta um leið og komið er í veg fyrir skörun innihalds milli námsþátta.

Þess má geta að erfitt er að leggja nákvæmt mat á staðsetningu námsþátta, út frá hæfniramma um íslenska menntun, í eldri námskránum (GS og N&Þ) sem Grunnmennt leysir af hólmi. Hugsanlega eru einnig einhverjir námsþættir innan Menntastoða sem fella mætti innan eldri námskránna. Þá er ennfremur gert ráð fyrir að GRMT II nýtist mjög vel sem undanfari að öllu eða að hluta eftir þörfum nemanna fyrir fyrstu námsþætti í Menntastoðum, það er úr GRMT II er beint framhald í fyrstu námsþætti MEST.

Nemar sem ljúka Menntastoðum hafa þar með lokið 60 framhaldsskólaeiningum á öðru þrepi samkvæmt hæfniramma um íslenska menntun. Því ætti að vera viðbúið að framhaldsskólar meti í það minnsta stærstan hluta þessa náms ef ekki allt námið samkvæmt námskrá eins og það kemur fyrir.

Báðar námskrárnar eru mjög vel skilgreindar samkvæmt hæfniramma um íslenska menntun sem ætti að auðvelda skjólastjórnendum að taka nám til mats. Hæfniviðmið náms hvorrar námskrár eru skýr og einnig öll lærdómsviðmið (hæfniviðmið) hvers námsþáttar beggja námskráa. Þá má að lokum geta þess að aukinheldur eru námsþættir erlendra tungumála sett inn á stig samkvæmt evrópska tungumálarammanum en það er einnig mikilvægur þáttur til staðsetningar á námi.

Við hjá FA teljum að vel hafi tekist til með þessar breytingar á námskránum. Eitt má þó segja að hafi brugðið út af með aðlögun að kerfinu sem við vinnum innan og snýr að erindinu sem FA sendi á stjórn Fræðslusjóðs um leyfi til breytingar fyrir fræðsluaðila á fjárhaldslegu uppgjöri á GRMT og gerð var grein fyrir hér að framan. Með samþykkt stjórnar Fræðslusjóðs á þeirri beiðni teljum við hjá FA að okkur hafi þannig tekist að laga kerfið örlítið að framkvæmd til hagsbóta fyrir bæði fræðsluaðila og markhóp framhaldsfræðslunnar. Þessi breyting á að auðvelda fræðsluaðilum að keyra GRMT I (200 klst.) og GRMT II (300 klst.) í aðskildu lagi.

Við sem unnum að þessu verkefni teljum þetta mikilvægt umbótaskerf til hagsbóta bæði fyrir nema og fræðsluaðila. Samstarfsaðilum í verkefninu eru færðar bestu þakkir fyrir einstaklega gott samstarf, góðar ábendingar og athugasemdir, bæði á rafrænu fundunum og eins á síðari stigum sem þá var beint inn í vinnuskjöl hjá FA. Frá Austurbrú var Tinna K. Halldórsdóttir, Fræðsluneti Suðurlands var Eydís Katla, MSS var Hólmfríður Karlsdóttir, Mími var Sigríður Droplaug, Visku var Sólrún Bergþórsdóttir.

Valgerður Þorbjörg Elín Guðjónsdóttir

Valgerður Þ. E. Guðjónsdóttir starfar hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins sem sérfræðingur. Starfsvið hennar snýr einkum að námskrárgerð, hæfnigreiningum og kennslufræðum auk raunfærnimats fyrir leiðbeinendur í fullorðinsfræðslu. Valgerður starfaði rúma tvo áratugi sem framhaldsskólakennari í efnafræði og þýsku auk þess að taka þátt í ýmsum verkefnum tengdum þróun menntamála, bæði á vegum félagasamtaka og menntamálaráðuneytisins. Valgerður er með fjölbreytta menntun frá háskólum í Þýskalandi, Ástralíu og á Íslandi.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi